Arnarfjörður

Frétt í SKINFAXA 1917

Heimsókn til ungmennafélaga

á Bíldudal og Ketil-Dalahreppi 1917

Ég er mjög mikið að leita á netinu að gömlum heimildum, t. d. um lífið í Ketil-Dalahreppi á fyrri hluta 20. aldar, virkjun Hnjúkár og byggingu gömlu rafstöðvarinnar í Bíldudalnum og margt fleira.  Í þessu grúski rekst maður oft á ýmsar frásagnir sem gefa manni sjónarhorn sem maður hafði ekki fyrir.  Þannig fór með mig þegar ég rakst á frásögn á bls. 50-51, í Skinfaxa, 7. tbl. 01. júlí 1917, um fyrirlestraferð fulltrúa frá Ungmennafélagi Íslands, sem farin var jafnframt til að heimsækja ungmennafélögin á landsbyggðinni og segja frá starfsemi þeirra. Ég skannaði frásögnina af heimsókninni til félaganna í sunnanverðum Arnarfirði og frásögnin fer hér á eftir:

Skinfaxi, 7. tbl. 01.07.1917, bls. 50-51

Frá Vestfjörðum.

"Þess hefir stundum verið óskað, að „Skinfaxi" flytti smá fréttapistla um störf ungmennafélaga í hinum ýmsu héruðum landsins; virðist jafnvel of lítið gert að því að kynna félögin hvert öðru, en tiltækilegasta leiðin til þess er sú, að félögin láti sambandsblað sitt flytja fréttir úr heimahögunum við og við.

 Þar sem ég réðist til fyrirlestraferða s. 1. vetur, fyrir Vestfirðingafjórðung og gafst þannig tækifæri til að kynnast flestum ungmennafélögunum, sem starfa á fjórðungssvæðinu, dettur mér i hug að skýra frá (félagsslarfinu hér vestra), — í stórum dráttum. Ferðasaga getur það ekki orðið; yrði of langt mál. Alls hafa 7 sambandsfélög starfað á fjórðungssvæðinu að undanförnu.

 Fyrst heimsótli ég félögin í Arnarfirði. Þar starfa 2 ungmennafél. sunnantil við fjörðinn og heita: „Örn"Bíldudal og „Skjöldur" út í Dölunum. — Formaður Bíldudalsfél. er: Svafa Þórleifsdóttir kennari. Stofnaði hún fél. og hefir verið formaður þess síðan. Er hún mjög ötul og áhugasöm.

 Á Bíldudal flutti ég 3 fyrirlestra; fékk fél. kirkjuna leigða til fyrirlestrahaldsins; hefir fél. að undanförnu haft skólahús kaupstaðarins til afnota, en sökum strangari ákvæðis af hálfu heilbrigðislöggjafarinnar hefir félagið ekki fengið húsið í vetur, en orðið að leigja húsrúm á öðrum stað í  kaupstaðnum til fundahalds. Er húsleysið tilfinnanlegur Þrándur i Götu fél. eins og — því miður — mun vera allvíða meðal ungmennafél. út um landið; — en húsabyggingar nú tilfinnanlega dýrar.

 Næstliðinn vetur hafði félagið kvöldskóla undir forustu form. þess (Svöfu). Var þar kend: íslenzka, stærðfræði, enska og danska. Jafnframt hefir fél. mjög mikið beitt sér fyrir að breiða út söngþekkingu á meðal félagsmanna og kaupstaðabúa; hefir form. þess haft þar forgöngu.

 Frá Bíldudal hélt ég út í Dali til „Skjaldar". Form. þess er Ingvaldur Benediktsson (hreppstjóra í Selárdal). Var hann ekki heima er ég kom ; — staddur suður í Rvík við söngfræðisnám. Í Dölunum hélt eg 4 fyrirlestra, 2 í Bakkadal og 2 í Selárdal. „Skjöidur" er aðeins 2, ára, starfar í 2 deildum; félagatala um 40. Hefir fél. endurreist ekknasjóð (sjódrukknaðra manna þar í hreppnum) sem hafði verið fallinn í óhirðu. — Einnig beitti fél. sér ötullega fyrir fjársöfnun til ekkna þeirra manna er druknuðu við ísafjarðardjúp 1915.

 Húsnæði hefir félagið ekki annað en það, sem bændur láta því góðfúslega í té — án endurgjalds, — Sögðu félagsmenn mér að eldra fólkið og hinir ráðandi menn þar í hreppnum væri fremur hlyntir félaginu; en kvartað var um frástreymi unga fólksins úr sveitinni, að vetrinum; mun það víða brenna við, — lakast að búast má við að sveitirnar tapi þannig starfskröftum að meira eða minna leyti. Síst er þó að lasta það, að fólkið sæki sér menningu til fjarlægra héraða; — aðeins að það komi svo heim aftur og láti Ijós sitt lýsa upp heimahagana; — „byrji í sínum heimahögum að hjálpa röðli að fjölga sólskinsdögum"."

 

 

Geislabaugurinn hallast :)

Kæru lesendur Arnfirðings.is

Seint verð ég líkllega óskeikull, frekar en mannfólkið yfirleitt.  Ekki er ég heldur viss um að mig langi til þess.   Af völdum þessa mannlega breiskleika, en einnig líka af völdum óafvitaðs athyglisflökts, sem stafar af Parkinsonsjúkdómi sem verður ferðafélaga, það sem eftir er lífs míns, getur fólk rekið sig á ritvillur eða annað brengl í skrifum mínum.

Fram til þessa hafa lesendur verið mér svo vinsamlegir að senda mér tölvupóst með tilvísunum um það sem betur hefði mátt fara.  Fyrir slíkt er ég afskaplega þakklátur.  Með þessum fátæklegu orðum við ég  einnig biðja alla velvirðingar, sem orðið hafa fyrir slíkum brenglunum hjá mér.  Þó ég alla jafnan hafi á heimili mínu úrvals pófarkarlesara, þá er hann ekki samningsbundinn og þarf oft að bregða sér af bæ, þannig að ég verð þá að endurskoða mig sjálfur. En það vita allir sem reynt hafa, að er afar takmarkað til árangurs.

Endilega vil ég biðja þá sem verða varir við eitthvað athugavert við skrif mín að senda mér tölvupóst á netfangið  - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.   og mun ég þá glaður leiðrétta eigin villur, með kæru þakklæti í huga.

Með kveðju,  Guðbjörn Jónsson

 

 

Aðalfundur 2014

Aðalfundur Arnfirðingafélagsins 2014

Laugardaginn 29. mars 2014, var haldinn aðalfundur Arnfirðingafélagsins í Víkinni Sjóminjasafninu á Grandagarði.  Fundurinn var vel sóttur og var bæði málefnalegur og skemmtilegur. 

       

Formaður félagsins, Guðmundur Bjarnason setti fundinn.  Fundarstjóri var kosinn Jens H. Valdimarsson og fundarritari Kristín Pétursdóttir.

Guðmundur flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2013.  Rakti hann þar helstu viðburði liðins árs. Sólarkaffi hafi verið haldið 3. febrúar 2013 í Haukahúsinu, Ásvöllum í Hafnarfirði. Þangað mættu 200 um manns. Stærð veislusalar í Haukahúsinu hentar vel fyrir viðburði félagsins.

Hátíðin okkar, - Bíldudals grænar -, var haldin á árinu 2013 og á vordögum hófst undirbúningur þess. Hátíðiner rekið sem fjárhagslega sjálfstæð eining og því óháð Arnfirðingafélaginu.

Helgina 28. – 29. september var haldið íbúaþing á Bíldudal undir yfirskriftinni:  Bíldudalur - samtal um framtíð. Að beiðni Byggðarstofnunar sendum við   fulltrúa þangað. Byggðastofnun hafði forgöngu um verkefnið í samstarfi við Vesturbyggð, Fjórðungssamband Vestfirðinga, AtVest og Háskólann á Akureyri.

Karlakaffi er fastur liður í vetrardagskrá, haldið síðasta laugardag hvers mánaðar, frá október fram til maí að vori.

Skötuveislan okkar var haldin í 6. sinn 14. desember 2013, í Haukahúsinu, og heppnaðist mjög vel. Var þar fullt hús og mikil gleði.  Hjörtur Guðbjarts og Pétur Bjarna léku létt lög meðan fólk var að koma til veislunnar og veislustjóri var hinn vinsæli sjónvarpsmaður Gísli Einarsson, sem fór hreinlega á kostum í spjalli sínu og mikið var hlegið. Hljóðupptaka af því er á Arnfirðing.is

Í byrjun október var Guðbjörn Jónsson fenginn til að sjá um fréttaskrif, og önnur skrif ásamt innsetningu á aðsendu efni á vefinn okkar Arnfirðingur.is og er hann boðinn velkominn í hópinn.

Tekin hefur verið ákvörðun um að skötuveislan 2014 verði haldin 20. desember og næsta Sólarkaffi verði 1. mars 2015, hvortveggja í Haukahúsinu Hafnarfirði.

Stefán Konnráðsson, gjaldkeri, kynnti reikninga félagsins.  106 greiddu félagsgjald á síðasta ári. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða og án athugasemda.

LAGABREYTINGAR:   Skömmu eftir áramót fól formaður félagsins þeim Guðbirni Jónssyni og Jens H. Valdimarssyni að setja saman uppkast að nýjum lögum fyrir félagið. Gildandi lög voru frá árinu 1988 og þótti stjórn tímabært að taka lögin til endurskoðunar. Tillaga þeirra félaga var lögð fyrir stjórnarfund skömmu fyrir aðalfund. Stjórnin gerði smávægilegar breytingar á uppkastinu áður en það var lagt fyrir aðalfund.  Ein breytingatillaga var gerð á fundinum, við 3. gr. uppkastsins og var hún samþykkt samhljóða og uppkastið þannig samþykkt sem ný lög fyrir félagið.  Verða þau í heild sinni birt fljótlega á Arnfirðing.is.

Síðan var gengið til kosninga, þar sem kosin var stjórn, varastjórn, skoðunarmaður reikninga og varamaður hans.   Gerði fundarstjóri tillögu um að stjórn og varastjórn yrðu endurkjörin og var það einróma samþykkt.  Þá gerði fundarstjóri tillögu um að Gylfi Magnússon skoðunarmaður reikninga og Gylfi Jónsson varaskoðunarmaður, yrðu báðir endurkjörnir og var það einnig samþykkt samhljóða.

Næst var komið að því að ákvarða félagsgjald fyrir næsta ár. Gerð var tillaga um að gjaldið yrði kr. 2.000 og var það einnig samþykkt samhljóða.

Þá var komið að því að gerðu grein fyrir stöðu verkefna sem sérstakar nefndir höfðu verið skipaðar um. Jens H. Valdimarsson fjallaði um skógræktarátakið. Hann kemur einnig uppbyggingu gömlu rafstöðvarinnar. Þá fjallaði Guðmundur formaður um breytingar á göngustígum, merkingum svæða og slaernisaðstöðu o.fl. við Dynjanda. Er þetta viðfangsefni í tengslum við Umhverfisstofnun.  Öllum þessum þáttum verður gerð betri skil í sérstökum viðtölum við formenn nefndana, sem verða birt á vefnum Arnfirðingur.is.

Undir liðnum ÖNNUR MÁL, gerði formaður tillögu um að Ingvi Friðriksson yrði kjörinn varaformaður félagsins og var sú tillaga samþykkt samhljóða.

Þá var tekið til umræðu ástand og staðsetning vefmyndavélanna á Bíldudal, rætt um staðsetningu þeirra, rekstraröryggi og rekstrarkostnað. Var frekari ákvarðanatöku vísað til stjórnar. Nánar fjallað um þessi atriði síðar.

Næst var tekin til umræðu hvort breyta ætti nafngiftinni á mánaðarlegum kaffifundum félagsins.  Heyrst hafi gagnrýni vegna þess að þessir fundir væru kyngreindir sem KARLAkaffi og þá eingöngu kennt við Bíldudal.  Var hugmyndin að kanna hljómgrunn fyrir breytingum á nafni þessara funda.  Um þetta efni urðu nokkuð líflegar, málefnalegar og jafnvel skemmtilega skondnar umræður, sem enduðu með því að viðfangsefninu var vísað til stjórnar til frekari ákvarðanatöku.

Þá greindi Guðbjörn fundarmönnum frá því að kominn væri teljari á vefinn Arnfirðingur.is.  Væri því kominn möguleiki á að greina umferð um vefinn og hvaðan sú umferð væri upprunnin.  Kom fram að heimsóknir á vefinn eru frá 10 löndum utan Íslands.  Flesta daga væru fleiri en 100 heimsóknir á vefinn og síðustu 6 dagana fyrir aðalfund hefði 1.160 heimsóknir verið á vefinn.

Síðasta umræðuefnið á fundinum var kynning Valdimars Gunnarssonar á því að Átthagafélag Patreksfirðinga hefði varpað fram hugmynd um að Arnfirðingafélagið og þeirra félag stæðu saman að þorrablóti. Valdimar sagðist hafa farið á einn fund með þessu fólki og ákveðið hefði verið að vinna frekar að þessari hugmynd og kanna vilja Tálknfirðinga til að vera með. Um þetta verður einnig fjallað nánar síðar.  Fleira var ekki gert og fundi slitið.

 

 

Arnarlax 1. kvíar á heimleið

Fyrstu eldiskvíar á heimleið

Hægt og markvisst mjakast raunveruleikinn um Arnarlax inn í nærumhverfi Bílddælinga. Mánudaginn 31. mars 2014 komu fyrstu 3 eldiskvíarnar í höfn á Bíldudal.

Eldiskvíar fyrirtækisins eru framleiddar af Aqua group í Noregi og eru þær samkvæmt Norskum staðli, ætlaðar til að standast ströngustu kröfur. Vegna þeirrar miklu stærðar sem er á kvíunum og mikilvægis slétts svæðis við samsetninguna, voru kvíarnar settar saman á Patreksfjarðarflugvelli.  

Það vakti athygli ungra sem aldina þegar fyrstu kvíarnar komu í höfn. Langfeðgarnir Gunnar Karl og Ægir Karl dóttrursonur hans fylgdust með af áhuga.  Það gerðu einnig  þeir bræður Ottó og Björn.

 

Við komuna til Bíldudals var kvíunum til bráðabirgða lagt við legufæri á höfninni.   

Þessum fyrstu eldiskvíum verður komið fyrir innan við Haganesið. Búist er við að hafist verði handa, um eða eftir næstu helgi að koma niður festingum fyrir kvíarnar á þeim stað sem þær eiga að vera.

Stefnt er að því að fyrir páska verði þær tilbúnar og klárar til að taka á móti fyrstu kynslóð eldisseiða, sem gert er ráð fyrir að verði flutt frá seiðaeldisstöð Arnarlax að Bæjarvík í Tálknafirði, 10. - 20. maí n. k. 

Óneitanlega virðist full ástæða fyrir unga fólkið á Bíldudal að brosa og vera glaðleg. Líklega hefur aldrei verið betri framtíðarsýn varðandi efnahags- og atvinnuöryggi en nú blasa við Bílddælingum. Og á fáum stöðum er betra að vera barn en í veðursældinni og frelsinu sem þarna er. Það þekkjum við sem á sínum tíma fengum að njóta þeirra forréttinda.

En þær kvíar sem komnar eru, eru einungis fyrstu kvíarnar, því þrjár til viðbótar er verið að setja saman á Patreksfjarðarflugvelli og stefnt að því að þær verði dregnar yfir í Arnarfjörð n. k. fimmtudag.

Arnfirðingur.is og Arnfirðingafélagið, óska Arnarlaxi og Bílddælingum öllum til hamingju með þennan áfanga.

Jörundi Garðarssyni hjá Hafkalki, þökkum við kærlega fyrir frábærar myndir, og minnum á höfundarrétt hans á myndefni þessarar fréttar.

 

 

Módel af nýju verksmiðjunni skoðað.

Matthías og Kristján skoða módel

Hér má sjá þá Matthías Garðarsson og Kristján son hans, skoða módel af því veksmiðjuhúsi sem fyrirhugað er að reisa á Bíldudal. Norskir tæknimenn eru þarna að útskýra fyrir feðgunum módelið og innra skipulag þess.  Af stærð módelsins má ráða að hér er um töluvert stórt hús að ræða. Varla leikur vafi á að þetta verði innan fárra ára stærsti vinnustaðurinn á Bíldudal.  Vonandi rís þetta hús á nýrri uppfyllingu, á nýju iðnaðarsvæði, á komandi sumri, eða svo fljótt sem verða má. 

 

 

Verksmiðja flutt milli landa

Pökkun véla og tækja.

Vel gengur að pakka vélum og tækjum úr verksmiðju Matthíasar Garðarssonar úti í Noregi. Verða þessi tæki flutt til Bíldudals í sumar.  Áætlað er að skip komi með þennan farm til Bíldudals í júní eða júlí í sumar.  Greinilega er þarna nokkuð magn af tækjum og vélum. Það er sífellt að verða greinilegra og áþreifanlegra að nýir tímar eru að halda innreið sína í raunveruleikaheim fólksins á Bíldudal. Það vekur ljúfar tilfinningar að fylgjast með þessu ferli.

 

 

Kaffispjall Arnfirðinga

Tilkynning sett inn á liðinn VIÐBURÐIR

Kaffispjall Arnfirðinga  (áður Karlakaffi)

Ritstjóri hefur fengið nokkrar athugasemdir við að mánaðarlegur kaffi hittingur félagsins væri kallaður KARLAKAFFI.  Þótti það bera vott um nokkra karlrembu, eða hvort þarna væri rætt eitthvað sem þyldi ekki návist eða eyru kvenna.  Einnig hefur nokkuð borið á því að litið væri á þennan fund sem sérstakan hitting BÍLDUDALSKALLA og því væri fólk úr öðrum sveitum Arnarfjarðar ekki velkomið á þessa kaffidaga.

Ritstjóri ræddi þessi mál við Guðmund formann, sem líka hafði velt fyrir sér annarri nafngift á téða samkundu. Báðum fannst okkur það verulega til fegurðar- og yndisauka ef konur færu að sjást sem oftast á þessum samkomum.  Einnig væri nauðsynlegt að útrýma þeirri hugsun að þessar samkomur væru einskorðaðar við Bíldudalskalla.  ALLIR ARNFIRÐINGAR VÆRU VELKOMNIR.

Tilraun er því gerð hérna, svona í lok þessa vetrarstarfs, að kalla þessa samkomu Kaffispjall Arnfirðinga, í von um að fyrir næsta haust verði áhugasamir búnir að finna gott framtíðarheiti á þessa mánaðarlegu spjallfundi allra Arnfirðinga.

Fundir þessir eru reglulega, yfir haust og vetrarmánuðina, síðasta laugardag hvers mánaðar.  Fundurinn nú í lok mars, laugardaginn 29., verður að vísu aðalfundur Arnfirðingafélagsins.

Fram til vors verða fundirnir á VÍKINNI, Sjómynjasafninu Grandagarði  

FUNDARDAGAR TIL VORS 2014

29. MARS 2014,   Aðalfundur Arnfirðingafélagsins  kl. 10:00

26. apríl  2014,   Kaffispjall Arnfirðinga  kl. 10:30

24. maí  2014,   Kaffispjall Arnfirðinga  kl. 10:30,

síðasti hittingur fyrir sumarhlé.