Arnarfjörður

Síðasta karlakaffið vorið 2014

Síðasta karlakaffið vorið 2014

Síðasta karlakaffi vorið 2014 fór fram í Víkinni laugardaginn 24. maí.  Fámennt var þarna en skemmtilegar upprifjanir frá gömlum tímum.  Veitingamaðurinn á Víkinni gerði vel við okkur í lok vertíðar. Það var borið í okkur niðurskornir ávextir og síðar var svo komið með bakka hlaðna af snittum með fjölbreyttu áeggi.

 

Undir lokin urðum við svo hin heilaga tala 7, þegar Hjörtur bættist í hópinn. Við þökkuðum veitingamanninum, starfsfólki hans og að sjálfsögðu hver öðrum fyrir skemmtilegar samverustundir á liðnum vetri og formaðurinn tilkynnti veitingamanninum að hann mætti eiga von á okkur aftur síðasta laugardag í september.  Og að endingu óskum við sem þarna vorum, öllum lesendum Arnfirðings gleðiríks og gæfuríks sumars, með von um að við sjáumst aftur á komandi hausti.

 

 

Arnarlax Sjókvíaeldi hafið

Frétt á bls 4 í Morgunblaðinu 22. maí 2014

250 þúsund laxar í sjó hjá Arnarlaxi
Sjókvíaeldi hafið við Otradal í Arnarfirði Fyrsta slátrun haustið 2015
Arnarlax hefur sett um 250 þúsund laxaseiði í þrjár sjókvíar í Arnarfirði. Þar með er hafið sjókvíaeldi hjá fyrirtækinu.»Við höfum verið að búa okkur ...

Gileyri Flutningaskipið Papey tekur við laxaseiðum til flutnings að sjókvíunum í Arnarfirði.
Arnarlax hefur sett um 250 þúsund laxaseiði í þrjár sjókvíar í Arnarfirði. Þar með er hafið sjókvíaeldi hjá fyrirtækinu.»Við höfum verið að búa okkur undir þetta. Það er frábært að vera kominn með sjóeldi í gang,« segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax.Skipið Papey flutti laxaseiðin í þremur ferðum beint úr seiðaseldisstöð fyrirtækisins á Gileyri í Tálknafirði yfir í sjókvíarnar sem eru við Otradal í Arnarfirði. Flutningarnir gengu vel, að sögn Víkings. Segir hann að hægt hafi verið að sigla skipinu alveg upp að seiðastöðinni og dæla beint um borð. Það leiði til þess að nánast engin afföll verði við flutningana.Seiðastöð byggð upp250 þúsund seiði eru í fyrstu kynslóð laxa í sjókvíunum í Arnarfirði. Í ágúst er áformað að setja út 300 þúsund seiði til viðbótar.Arnarlax hefur byggt upp góða klak- og seiðaeldisstöð á Gileyri í Tálknafirði. Þar var áður rekið bleikjueldi. Meðal annars hefur verið byggt yfir öll kerin. Víkingur segir að vel hafi tekist til við uppbygginguna. Stöðin sé orðin tæknivædd og seiðaeldið hafi skilað góðum árangri. Norskir ráðgjafar hafi gefið aðstöðunni og starfinu góða einkunn.Reiknað er með að byrjað verði að slátra laxi upp úr kvíunum á síðari hluta árs 2015.Sótt um lóð fyrir vinnsluArnarlax hefur leyfi fyrir 3.400 tonna eldi samtals á fjórum stöðum í Arnarfirði. Að félaginu standa fyrirtæki í Noregi og Danmörku, ásamt heimamönnum á Bíldudal.Markmið fyrirtækisins er að setja upp vinnslu á Bíldudal og fullvinna hráefnið úr eldinu í neytendapakkningar til útflutnings.Sótt hefur verið um lóð fyrir vinnslu á Bíldudal og er málið í vinnslu hjá Vesturbyggð. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að samkvæmt deiliskipulagi sem búið er að afgreiða sé gert ráð fyrir að byggt verði á landfyllingu við Banahlein sem er utan við þorpið á Bíldudal. Þar geti einnig tengd fyrirtæki byggt sig upp. Fjármögnun landfyllingarinnar er í vinnslu og frekari skoðun hjá sveitarfélaginu.
 

Söngdagar í Skálholti 2014

Söngdagar í Skálholti  2014

Helgina 28. – 31. ágúst stendur Landssamband blandaðra kóra fyrir Söngdögum í Skálholti.  Stjórnendur verða Lynnel Joy Jenkins frá Bandaríkjunum og Jón Stefánsson, kantor í Langholtskirkju.

Æft verður í tveimur hópum og einnig sameiginlega. Báðir stjórnendur vinna með báðum hópum og verða sungin ættjarðarlög, heimstónlist, bandarísk kórtónlist, kirkjuleg og veraldleg lög.

Boðið er upp á tvo möguleika til þátttöku. frá fimmtudagskvöldi til sunnudags og frá föstudagskvöldi til sunnudags.  Dagskrá lýkur með messu og stuttum tónleikum eftir hádegi á sunnudag.

Hámarksfjöldi þátttakenda er um 130 manns. Kórfélagar í aðildarkórum LBK ganga fyrir við skráningu og greiða lægra verð en kórfélagar utan sambands.

LBK hvetur blandaða kóra til að ganga í sambandið og styrkja starfsemina. Upplýsingar og skráning á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Þátttökugjald fyrir LBK félaga: kr. 5.000.- (sama verð fyrir 2 og 3 daga). Aðrir greiða kr. 7.500.  Dvalar- og fæðiskostnaður verður greiddur í Skálholti.

Skráning er hjá LBK á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .  

Lokadagur skráningar er  15. Júní.

Við skráningu þarf að greiða staðfestingargjald kr. 2.000. Það verður ekki endurgreitt ef hætt verður við þátttöku. Greitt er inn á reikning LBK;

Nánari upplýsingar á heimasíðu LBK og hjá starfsmanni.

Velkomin á Söngdaga í  Skálholti 2014!

Stjórn Landssambands blandaðra kóra

 

 

Landsbyggðin lifi

FRAMBJÓÐENDUR til sveitarstjórna 31. maí 2014.

Með þessu bréfi vilja samtökin Landsbyggðin Lifi – LBL vísa ykkur veginn inn á heimasíðu samtakanna www.landlif.is  Þar má m.a. finna Byggðastefnu LBL sem send var út í mars 2014. Á heimasíðunni má einnig sjá ályktanir frá aðalfundum og stjórn LBL. Við hvetjum ykkur til að skoða áherslur samtakanna. Um þær verður spurt og efni tillagna rædd í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á þessu vori.

 Áherslur L.B.L. eru m.a. þessar:

1. Móta heildstæða byggðastefnu fyrir landið allt og nýtingu þess.

2. Búseta fólks, öryggi og velferð allra sem landið byggja.

3. Öll erum við jafn þörf og mikilvæg í okkar byggð.

4. Gerum landið sjálfbært á öllum sviðum. Tryggja þarf atvinnu, matvælaöryggi, hita, rafmagn, hreint vatn og fjarskipti.

5. Jafnrétti er lykill að velmegun íbúa og eykur búsæld um land allt. Íbúalýðræði í ákvörðunum verði aukið og áhrif á hag eigin byggðar verði tryggð.

6. Íbúum landsins verði ekki mismunað eftir búsetu t.d. með verri lánakjörum og fyrirgreiðslu. Það skerðir lífskjör og veldur mismunun.

7. Landshlutar og landsvæði verði eins og kostur er fjárhagslega og stjórnskipulega sjálfstæð.        Bendum á athyglisverða  ræðu Halldórs Halldórssonar á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga 2012,  á slóðinni: http://www.samband.is/media/sambandid/Landsthing_2012_raeda_formanns.pdf)

8. Landbúnaðarland verði varðveitt til landbúnaðarframleiðslu fyrir komandi kynslóðir og afurðir unnar eins nálægt uppruna sínum og hægt er.

9. Sameiginlegar auðlindir verði í eigu þjóðarinnar og nýttar í byggðum eins nálægt upptökum sínum og hægt er. Fyrir afnotarétt auðlinda greiðist gjald.

10. Menntun fólks verði fjölbreytt og lifandi og eins lengi í heimabyggð og nútímatækni gerir mögulegt.

Hér er aðeins upptalið í stuttu máli það sem í stefnu LBL  er skrifað. Skjalið í heild sinni er að sjálfsögðu það sem vonandi vekur áhuga ykkar góðir frambjóðendur eftir þessa stuttu yfirferð.

Byggðastefna er ekki skrifuð fyrir dreifbýlið á Íslandi heldur landið allt og þá sem byggja landið. Íbúar þurfa að vita að hverju þeir ganga þegar valin er búseta og jafnvel fjárfest til framtíðar. Því er nauðsynlegt að byggðastefna sé skrifuð af íbúunum sjálfum og taki ekki breytingum eftir pólitískum sveiflum. 

 

 

Sambahátið

Söfnunartónleikar Listasafns Samúels

 Miðvikudagskvöldið 21. maí kl. 20 býður Listasafn Samúels til Sambahátíðar í Iðnó. Tilefnið er að safna fé til að reisa aðstöðuhús í Selárdal í sumar þar sem hugmyndin er að lista- og fræðimenn geti gist og unnið að verkum sínum við ysta haf. Meðal þeirra sem koma fram eru:

  dj. flugvél og geimskip,GhostigitalSin Fang, Helíum og VÍÓ. Aðgangseyrir verður kr. 1000 en frjáls framlög eru vel þegin auk þess sem minjagripir og hollvinaskírteini verða til sölu.

 

 

Rommí á Bíldudal

          Rommí á Bíldudal

     Hið fornfræga         

 Leikfélag, Baldur á Bíldudal 

                              vaknað á nýjan leik og frumsýnir núna á helginni  

                           hinn vinsæla gamanleik Rommí                       eftir D. L. Coburn.

Rommí verður frumsýnt í Baldurshaga á Bíldudal núna á laugardag 17. maí kl.20. Önnur sýning verður á fimmtudag 22. maí kl.20. 

Leikstjóri sýningarinnar er Elfar Logi Hannesson. Gaman er að geta þess að leikferillinn hans hófst  einmitt með Leikfélaginu Baldri í Baldurshaga í janúar 1977. Þetta er í fyrsta sinn sem hann leikstýrir á sínum æskuslóðum.

Með hlutverkin í Rommí fara þau  Hannes Friðriksson og Þuríður Sigurmundsdóttir.

Leikurinn gerist á dvalarheimili eldri borgara og má segja að fast sé skotið, enda er gamanleikurinn einmitt beittastur og bestur í að stinga á kílum samfélagsins.

 Leikfélagið Baldur á Bíldudal á sér langa og merka sögu. Félagið var stofnað í lok janúar árið 1965 og fagnar því hálfrar aldar afmæli á næsta ári.

Félagið hefur sett á svið yfir 20 leikverk.

Það fyrsta var á Vængstýfðum englum árið 1966.

Meðal annarra verka sem Baldur hefur sett á svið má nefna Maður og kona, 1968,

Mýs og menn, 1971,

Skjaldhamrar, 1978,

Höfuðbólið og hjálegan, 1992,

Jóðlíf, 1995,

og Sviðsskrekkur, 2000.

Auk þess stóð Leikfélagið Baldur lengi fyrir árshátíð þar sem ávallt var boðið uppá heimasamin stykki oftast úr smiðju meistara Hafliða Magnússonar.

Það er til marks um endurnýjun lífdaga Baldurs að það er einmitt allt í gangi á Bíldudal. Þorpið yðar af lífi og allt er þetta jú einsog spilaborg. Atvinna og skemmtun fara afar vel saman. 

Það má með sanni segja að  leiklistarlífið hafi verið í góðum gangi á Vestfjörðum síðustu ár. Áhugaleikfélögin vestra hafa sett upp hvert stykkið á fætur öðru og það sem enn betra er að mörg félög hafa verið að vakna af sínum Þyrnirósadvala. 

 

  

Bíldudalur - samtal um framtíðina

Bíldudalur - samtal um framtíðina

Fréttapóstur:  Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur  Þróunarsviði Byggðastofnunar

Mynd Bryndís Björnsdóttir

 

Kæri viðtakandi.

Hér eru helstu tíðindi frá verkefnisstjórninni í verkefninu „Bíldudalur – samtal um framtíðina“:

Haldinn var símafundur fyrr í vikunni þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins og framhald.

Þar kom m.a. fram að margt sé um að vera á Bíldudal þessa dagana og góð stemming meðal íbúa. Þau verkefni sem rætt var um á íbúaþinginu í fyrrahaust eru yfirleitt í góðum farvegi.

Hluti af viðfangsefnunum eru stærri mál, sem ekki eru í höndum íbúa, en snúa að ríkisvaldinu.  Í þeim málum eru Vesturbyggð, Fjórðungssamband Vestfirðinga og AtVest að beita sér.  Stærstu málin sem unnið er að gagnvart ríkinu, lúta að samgöngum og frekari uppbyggingu fiskeldis.    

Símafundur verkefnisstjórnarinnar var sá síðasti fyrir kosningar. Stefnt verður að fundi með nýrri verkefnisstjórn í byrjun hausts, auk þess sem fundað verður með nýrri sveitarstjórn.

Verkefninu er hvergi nærri lokið (verkefnisstjórn starfar til næsta vors) og áfram verða sendar fréttir á póstlistann. Jafnframt er velkomið að senda upplýsingar, fréttir og annað sem á erindi inn á póstlistann til mín og ég kem því áfram.

Alltaf er gaman að fá fréttir af þeim verkefnum, stórum og smáum sem eru í gangi og tengjast þessari vinnu. Nýlega gerðist íbúi á Breiðdalsvík sem tók verkefni frá íbúaþingi Breiðdælinga upp á sína arma, sendi mér póst og sagði frá góðum árangri verkefnisins.  Það væri ekki síður gaman að heyra frá ykkur ef eitthvað er að frétta.

Bestu kveðjur,

Sigríður