Arnarfjörður

Héraðsþing HHF 2015

a74b86ab-034d-11e2-985c-005056864800

Héraðssambandið Hrafna-Flóki

Héraðsþing HHF 2015

 

 

Héraðsþing HHF verður haldið á Hópinu á Tálknafirði miðvikudaginn 29.apríl 2015 og hefst kl. 18.  Öllum er frjálst að mæta á þingið og eru allir íbúar í V-Barðastrandarsýslu hvattir til að mæta og taka þátt í uppbyggingu á íþróttamenningu á svæðinu.  
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður nýr íþróttafulltrúi kynntur til starfa auk þess að mótaskrá sumarsins verður samþykkt. 
Boðið verður upp á léttar veitingar.

Kær kveðja
Lilja Sigurðardóttir,
Formaður HHF

 

 

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum í mars 2015

Fréttin er fengin af vef Hafrannsóknarstofnunar

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum í mars 2015

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (marsrall) fór fram í 31. sinn dagana 25. febrúar til 22. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Bjartur NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið (1. mynd).

 

Helstu markmið marsrallsins eru að fylgjast með breytingum á stærð, útbreiðslu og líffræðilegu ástandi botnlægra fiskistofna auk breytinga á hitastigi sjávar á landgrunninu. Eftirfarandi er samantekt á þeim niðurstöðum sem fyrir liggja.

Botnhiti
Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár, en þó um einni gráðu lægra en í stofnmælingunni 2013. Í hlýsjónum við sunnan- og suðvestanvert landið var hitastig við botn í lægri kantinum miðað við árin 2003-2014. Við Vestfirði var hitastig svipað og í fyrra, en lægra en fjögur ár þar á undan. Við norðan- og norðaustanvert landið var botnhiti nærri meðallagi hlýju áranna frá 1996 (2. mynd).

Þorskur
Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið (3. mynd).

Stofnvísitala þorsks mældist sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985 og er nú tvöfalt hærri en árin 2002-2008, en svipuð og hún var árið 2012 (4. mynd

Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski. Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 60 cm yfir meðaltali tímabilsins, en minna mældist af 50-60 cm þorski (5. mynd) sem rekja má til lélegs árgangs frá 2010.

Fyrsta mat á 2014 árgangi þorsks bendir til að hann sé meðal stærstu árganga frá 1985, svipaður og árgangar 2008, 2009 og 2011. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2013.

Meðalþyngd 5 ára þorsks og eldri hefur farið vaxandi undanfarin ár og er nú yfir meðaltali rannsóknatímans, en meðalþyngd 3 og 4 ára þorsks er hins vegar nokkuð undir meðaltali. Magn fæðu í þorski var minna en árin 2010-2014 (6. mynd).

Loðnan var lang mikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma. Mest var af loðnu í mögum þorsks út af Vestfjörðum, við suðurströndina og Norðausturland (7. mynd). Af annarri fæðu má helst nefna síld, kolmunna, ísrækju og ýmsar tegundir fiska.

 Ýsa

Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2002-2006 í kjölfar góðrar nýliðunar, en fór ört lækkandi næstu fjögur árin þar á eftir. Vísitalan í ár er svipuð því sem verið hefur í marsralli frá 2010 (8. mynd)

Lengdardreifing ýsunnar sýnir að ýsa minni en 58 cm er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali (9. mynd).

Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé stór eftir röð sex lítilla áranga.

Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum land en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan        (10. mynd).

Þessi breyting hefur átt sér stað undanfarinn áratug, en árin 1985-1999 fékkst alltaf mun meira af ýsu við sunnanvert landið.

Meðalþyngd ýsu yngri en sjö ára hefur farið vaxandi undanfarin þrjú ár og er nú yfir meðaltali rannsóknatímans. Hins vegar er meðalþyngd átta ára ýsu og eldri enn undir meðallagi. Magn fæðu í ýsumögum var svipað og undanfarin ár og var loðna rúmlega helmingur fæðunnar (11. mynd).

Af annarri fæðu má helst nefna slöngustjörnur og burstaorma, en minna var af ljósátu en áður líkt og í þorski (11. mynd).

Gullkarfi
Að venju fékkst gullkarfi víða en mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum (12. mynd).

Vísitala gullkarfa í marsralli fór hækkandi eftir árið 2008 og mælingar síðustu sex ára hafa verið þær hæstu frá 1985 (13. mynd).

Lítið hefur hins vegar fengist undanfarin ár af smákarfa undir 30 cm (14. mynd).

Steinbítur
Stofnvísitala steinbíts var í lágmarki árið 2010 en hefur síðan farið hægt vaxandi. (15. mynd).

 

 Lítið fékkst af 20-60 cm steinbít miðað við fyrri ár, en magn steinbíts stærri en 65 cm var hins vegar yfir meðallagi (16. mynd).

Eins og oftast áður fékkst mest af steinbít á Vestfjarðamiðum og í innanverðum Faxaflóa   (17. mynd)

Flatfiskar
Vísitala lúðu í stofnmælingunni lækkaði hratt á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Mjög lítið fékkst af lúðu í marsralli árin 2008-2014 og stofnvísitalan þessi ár var um 20 sinnum lægri en árin 1985-1986            (18. mynd).

Vísitalan í ár hækkaði frá fyrra ári og er nú svipuð og árin 2002-2007.

Stofnvísitala skarkola var svipuð og verið hefur undanfarinn áratug, eftir að hafa mælst í lágmarki á árunum 1997-2002. Vísitalan nú er um þriðjungur þess sem hún var að meðaltali fyrstu fjögur ár mælingarinnar (18. mynd).

Vísitölur þykkvalúru og langlúru þróuðust lengst af með með svipuðum hætti; fóru smám saman lækkandi fyrstu 15 árin en hækkuðu síðan á árunum eftir aldamót (18. mynd). Undanfarinn áratug hafa vísitölur þykkvalúru farið lækkandi og í ár mældist vísitalan sú lægsta frá 2003. Í ár var vísitala langlúru svipuð og undanfarin fimm ár.

Vísitölur sandkola og skrápflúru hafa verið lágar í undanfarinn áratug og svo var einnig í stofnmælingunni í ár (18. mynd).

Aðrar algengar tegundir
Stofnvísitala ufsa breyttist lítið frá fyrra ári og er nú svipuð og að meðaltali undanfarinn áratug (19. mynd).

Taka þarf vísitölum ufsa með þeim fyrirvara að þær ráðast oft af miklum afla í stökum togum og staðalfrávik mælinganna eru þá há. Ekkert stórt ufsahal fékkst í ár.

Stofnvísitala hlýra fór hækkandi árin 1990-1996, en hefur síðan lækkað mikið (19. mynd). Vísitölur áranna 2010-2015 eru þær sex lægstu frá upphafi. Lítið fékkst af hlýra undir 60 cm sem bendir til að nýliðun í veiðistofninn verði léleg á komandi árum.

Vísitala löngu hækkaði á árunum 2003-2007 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan (19. mynd). Stofnvísitalan 2015 er sú þriðja hæsta frá 1985, en lítið mældist af löngu undir 40 cm.

Vísitala keilu hefur haldist há frá árinu 2004, líkt og var árin 1985-1992. Vísitalan í ár samanstendur aðallega af 45-65 cm keilu. Meira fékkst af keilu á lengdarbilinu 15-25 cm en undanfarin ár.

Svipað magn fékkst af skötusel og undanfarin þrjú ár, minna en árin 2005-2011, en mun meira en fyrstu tvo áratugi stofnmælingarinnar (19. mynd). Allir árgangar skötusels frá 2008 hafa mælst slakir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2014 bendir til að hann sé einnig slakur.

Magn hrognkelsa í marsralli jókst á árunum 2001-2006, en fór eftir það minnkandi til ársins 2013. Stofnvísitalan hefur hækkað síðustu tvö ár og eru nú svipuð og að meðaltali árin 2002-2010 (19. mynd). Lítið fékkst af rauðmaga líkt og undanfarin ár, en fjöldi grásleppa var yfir meðallagi (20. mynd).

Grásleppan var í meðallagi stór, en mun smærri en fyrstu ár marsrallsins.

Nýjar suðlægar tegundir
Upp úr aldamótum fór magn ýmissa suðlægra tegunda vaxandi við sunnanvert landið, m.a. tegundunum silfurkóði, svartgómu og litlu brosmu. Af þeim fengust aðeins stakir fiskar fyrstu 15 árin í marsralli en árin 2010-2014 var fjöldi þeirra talinn í hundruðum. Minna fékkst af þessum tegundum nú en undanfarin ár.

Að lokum
Niðurstöður mælingarinnar, sem hér eru kynntar til bráðabirgða, benda til að ástand helstu botnfiska sé gott og að bæði þorskárgangur og ýsuárgangur 2014 séu stórir. Niðurstöðurnar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur stofnunarinnar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í fyrri hluta júní.

 

 

 

Ferðir Baldurs falla niður 20.- 22. apríl n.k.

Ferðir ferjunnar Baldurs falla niður 20.- 22. apríl n.k.

Vegna breytinga og endurbóta á ekjubrú ferjunnar í Stykkishólmi verða felldar niður 3 ferðir í áætlun skipsins, Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur, sem hér segir .: mánudagur 20. apríl , þriðjudagur 21. Apríl og miðvikudagur 22 apríl.

Farin verður hugsanlega aukaferð í Flatey frá Stykkishólmi þriðjudaginn 21. Apríl. Ferðin verður þó eingöngu farin ef veður leyfir og farþegar þurfa að komast til eða frá Flatey. Þess vegna er nauðsynlegt að bóka far í síma 433 2253 eða með tölvupósti: „This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .“ Eingöngu er farið með farþega og minniháttar flutning

Brottför verður þá frá Stykkishólmi kl 15:00 og frá Flatey kl 17:00.

Siglingar Baldurs hejast  aftur fimmtudaginn 23 apríl samkvæmt áætlun.

Nánari upplýsingar hjá Sæferðum ehf. sími 433 2254.

 Starfsfólk Sæferða.

 

 

2015 Mokveiði í Arnarfirði

Frétt af vef Bæjarins Besta                     bb.is | 17.04.2015 | 14:51

Mokveiði í Arnarfirði

Mokveiði var á Andra BA.

Fádæma rækjuveiði hefur verið í Arnarfirði að undanförnu. Andri BA er eini báturinn sem eftir er á veiðum og gerði hann einn besta rækjuróður sem sögur fara af í Arnarfirði. „Við fengum tæp 10 tonn í gær og sprengdum pokann og misstum 3-4 tonn. Þetta er með stærri róðrum í Arnarfirði,“ segir Jón Páll Jakobsson, skipstjóri á Andra. Í haust úthlutaði Hafrannsóknastofnun 250 tonna kvóta í Arnarfirði sem kláraðist fyrir áramót. Í febrúar var gefinn út 100 tonna viðbótarkvóti. „Við áttum 19 tonn af viðbótinni og eftir tvo og hálfan dag á veiðum er hann að verða búinn. Það var eins hjá hinum bátunum sem kláruðu viðbótina í mars en þá var mjög góð veiði,“ segir Jón Páll.

Jón Páll segist hafa búist við að fá 2-3 tonn á dag og þessi veiði komi því á óvart. „Rækjan er yfirleitt þéttust á haustin og venjulega er minni kraftur í veiðinni þegar líður á vertíð. Við erum að fá mjög fína rækju og hún fæst víða. Þeir hafa eitthvað feilað sig í útreikningunum hjá Hafró þegar þeir gáfu út viðbótarkvótann,“ segir Jón Páll. Hann telur að óhætt hefði verið að gefa út 500 tonna kvóta. „Það var byrjunarkvótinn hér áður fyrr. Í haust var gefinn út 250 tonna kvóti eftir rannsóknaleiðangur Hafró. Í febrúar var farið í annan leiðangur og þá fékkst enn meiri rækja en í haust og þá er gefinn út 100 tonna kvóti. Ég skil ekki þessar reikningskúnstir hjá Hafró,“ segir Jón Páll.

 

Fagna verndaráætlun Dynjanda

Fagna verndaráætlun Dynjanda

Náttúruperlan   Dynjandi í Arnarfirði

Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að fram sé komin verndar- og stjórnunaráætlun fyrir náttúrvættið Dynjanda sem gerir ráð fyrir þörfum ferðaþjónustunnar og framkvæmdum í þágu ferðamanna með þjónustu og öryggi í huga. Drög að áætluninni voru gerð opinber í ferbrúar. Umhverfisstofnun vinnur að gerð áætlunarinnar í samstarfi við Ísafjarðarbæ og RARIK. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um áætlunina segir að Dynjandi sé ein helsta náttúruperla Vestfjarða og mikilvægt sé að standa vörð um það aðdráttarafl sem náttúruvættið felur í sér.

Samtökin benda á að nauðsynlegt sé að allar framkvæmdir sem eiga sér stað á svæðinu, verði að falla að umhverfinu þannig að upplifun ferðamanna skerðist ekki og í því samhengi þurfi að gæta að því að vatnasvið fossins Dynjanda fái að halda einkennum sínum, enda er fossinn eitt aðalaðdráttarafl svæðisins. Einnig sé mikilvægt að huga vel að sjálfbærni náttúrunnar með tilliti til meðhöndlunar efna og úrgangs sem tengist starfsemi á svæðinu.

 

Fjarðalax hættir við uppsagnir

Frétt af veg Vesturbyggðar  8. apríl 2015

Fjarðalax hættir við uppsagnir

Stjórnendur Fjarðalax og bæjaryfirvöld Vesturbyggðar komust að samkomulagi í dag sem felur í sér að uppsagnir fjórtán starfsmanna fyrirtækisins, sem starfa við vinnslu og pökkun á Patreksfirði, verða dregnar til baka. 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, fagnar þessu samkomulagi enda hafi uppsagnirnar komið verulega á óvart og verið mikið reiðarslag fyrir bæjarfélagið og viðkomandi starfsfólk, hefðu þær komið til framkvæmda.

Að sögn Einars Arnar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Fjarðalax, hyggst félagið með þessari ákvörðun leita leiða með Vesturbyggð og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu til þess að finna lausn sem tryggir varanlega vinnslu afurða félagsins á atvinnusvæðinu.

 

 

Frétir frá Aðalfundi ársins 2015

Aðalfundur Arnfirðingafélagsins 2015

Arnfirðingafélagið hélt Aðalfund sinn fyrir árið 2015, þann 26. mars s. l. kl. 17:00. Var fundurinn haldinn í Víkinni Grandagarði

Formaður setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna, og gerði tillögu um Jens Valdimarsson sem fundarstjóra og Kristínu Pétursdóttur sem fundarritara. Voru báðar þessar tillögur samþykktar samhljóða.

Formaður flutti skýrslu stjórnar og gat þar helstu verkefna ársins. Árið hófst með Sólarkaffi þann 9. febrúar 2014 í Haukahúsinu Hafnarfirði.  Góð mæting var á Sólarkaffið og fer þeim heldur fjölgandi sem mæta á þennan viðburð. Að þessu sinni voru 190 til 200 manns sem mættu með góða skapið og glaða lund.

Á árinu tók félagið einnig þátt í tilraun með Patreksfirðingum og Tálknfirðingum um að halda, hér á höfuðborgarsvæðinu, sameiginlegt þorrablót fólks frá þessum stöðum.  Þetta þorrablót var svo haldið í febrúarmánuði s. l. og þótti taka vel.

Stærsta verkefni ársins var þó björgunin á vélinni úr Kára BA, en flakið af bátnum hafði um árabil legið í fjöru á Krosseyri. Félagið aflaði sér leyfis eiganda Krosseyrar til að mega taka vélina úr bátnum. Að því fengnu var hafist handa við skipulag björgunar.

Það var svo helgina 5. - 8. sept. 2014 sem farið var i vinnuferð yfir á Krosseyri.  Í hópnum voru 15 karlar og 1 kona. Ýmsar myndir og frásagnir hafa flogið um Facebook og aðra vefi, þannig að það verður látið duga að sinni. 

 

Verkefnið sem beið hópsins var ekki árennilegt. Mikið var tekið af myndum við framkvæmdina en því miður hefur vefnum ekki borist neitt af þeim myndum.  Hins vegar má til vinstri sjá vélina á sínum stað í flakinu og svo til hægri þar sem vélin er komin á land á Bíldudal.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vélin var svo send til Reykjavíkur í andlitslyftingu og er nú komin í sýningsarfært ástand.  Sótt hefur verið um leyfi til bæjarstjórnar Vesturbyggðar, að mega koma vélinni fyrir við gömlu Smiðjuna og hefur það leyfi nú fengist. Stefnt er að því að vélin verði komin á sinn stað fyrir hátíðina „Bíldudals grænar“ sem haldin verður 25. til 28. júní 2015.

Þessi vél úr Káranum er dálítið sérstök, þvi þetta er eina vélin sem til er í landinu af þessari tegund, sem heitir June Munktell. Smíðaár vélarinnar er ekki enn á hreinu en það mun verða grafið upp.

Þá hafa borist fréttir af því að heimamenn á Bíldudal hafi kosið Nýja stjórn til að undirbúa hátíðina Bíldudals grænar,sem verður haldin 25. til 28. júní n.k.

Félagið hefur staðið fyrir mánaðarlegum spjallfundum, síðasta laugardag hvers mánaðar, frá október að hausti til lok maí að vori. Auglýst heiti þessara spjallfunda er - Bíldudalskallar -. Þrátt fyrir nafnið eru konur að sjálfsögðu velkomnar. Á síðasta ári kom fram uppástunga að breyta þessu nafni en það mætti nokkuð harðri andstöðu svo sú hugmynd var lögð til hliðar, að sinni.

Segja má að starfsári hverju sinni ljúki með hinni árlegu Skötuveislu, sem árið 2014 var haldin 20. desember í Haukahúsinu. Var það í 7. sinn sem svona Skötuveisla er haldin. Stöðugt fer fjölgandi þeim sem koma á Skötuveislu, sem er mjög gaman að segja frá.

Formaður lauk skýrslu sinni með því að minna á að Skötuveisla ársins í ár yrði í Haukahúsinu þann 19. desember n. k. og Sólarkaffi næsta árs yrði þann 22. febrúar 2016, einnig í Haukahúsinu.

Formaður þakkaði að lokum stjórn félagsins, félagsmönnum öllum og öðrum þeim sem komu að starfi félagsins, fyrir vel unnin störf og gott samstarf.

Þá voru reikningar félagsins lagðir fram, þeir kynntir og að lokum samþykktir.

Kjósa þurfti einn stjórnarmann og einn skoðunarmann reikninga. Guðrún Thoroddsen, sem verið hafði meðstjórnandi gekk úr stjórninni og í stað hennar var Gyða Guðmundsdóttir kosin sem meðstjórnarndi. Þá hætti Gylfi Magnússon sem skoðunarmaður reikninga. Í stað hans var Jens H. Valdimarsson kosinn skoðunarmaður reikninga.

Að lokum fór Jens fundarstjóri nokkrum orðum um endurbætur á gömlu Rafstöðinni og ennfremur um skógræktarverkefnið.  Ritstjóri tók af honum loforð um að senda Arnfirðing.is gott yfirlit yfir stöðu beggja þessara verkefna. Þegar það berst verður það þegar sett hér á síðuna.

Þar með var þessum aðalfundi ársins 2015 lokið. Formaður þakkaði góð fundarstörf og sleit fundi. Hér að neðan 2 myndir frá fundinum.