Um karlakaffi arnfirðinga.

Kaffispjall Arnfirðinga

Tilkynning sett inn á liðinn VIÐBURÐIR

Kaffispjall Arnfirðinga  (áður Karlakaffi)

Ritstjóri hefur fengið nokkrar athugasemdir við að mánaðarlegur kaffi hittingur félagsins væri kallaður KARLAKAFFI.  Þótti það bera vott um nokkra karlrembu, eða hvort þarna væri rætt eitthvað sem þyldi ekki návist eða eyru kvenna.  Einnig hefur nokkuð borið á því að litið væri á þennan fund sem sérstakan hitting BÍLDUDALSKALLA og því væri fólk úr öðrum sveitum Arnarfjarðar ekki velkomið á þessa kaffidaga.

Ritstjóri ræddi þessi mál við Guðmund formann, sem líka hafði velt fyrir sér annarri nafngift á téða samkundu. Báðum fannst okkur það verulega til fegurðar- og yndisauka ef konur færu að sjást sem oftast á þessum samkomum.  Einnig væri nauðsynlegt að útrýma þeirri hugsun að þessar samkomur væru einskorðaðar við Bíldudalskalla.  ALLIR ARNFIRÐINGAR VÆRU VELKOMNIR.

Tilraun er því gerð hérna, svona í lok þessa vetrarstarfs, að kalla þessa samkomu Kaffispjall Arnfirðinga, í von um að fyrir næsta haust verði áhugasamir búnir að finna gott framtíðarheiti á þessa mánaðarlegu spjallfundi allra Arnfirðinga.

Fundir þessir eru reglulega, yfir haust og vetrarmánuðina, síðasta laugardag hvers mánaðar.  Fundurinn nú í lok mars, laugardaginn 29., verður að vísu aðalfundur Arnfirðingafélagsins.

Fram til vors verða fundirnir á VÍKINNI, Sjómynjasafninu Grandagarði  

FUNDARDAGAR TIL VORS 2014

29. MARS 2014,   Aðalfundur Arnfirðingafélagsins  kl. 10:00

26. apríl  2014,   Kaffispjall Arnfirðinga  kl. 10:30

24. maí  2014,   Kaffispjall Arnfirðinga  kl. 10:30,

síðasti hittingur fyrir sumarhlé.