Staðir í Arnarfirði

- Hvar hefurðu komið?

Arnarfjörður er sannkallað ævintýrasvæði. Þar er að finna há og tignarleg fjöll, djúpa dali, stríðar ár, gular strendur og grasi grónar eyrar að ógleymdum firðinum sjálfum í öllum margbreytileika sínum.

Selárdalur í Arnarfirði

- Staður ættgöfgi, vísinda, lista og galdra

Selárdalur er einn Ketildala og ystur þeirra sem í byggð hafa verið við suðurströnd Arnarfjarðar. Ystir eru Verdalir sem munu hafa tilheyrt Selárdalslandi, en þar voru verbúðir sem bændur leigðu og þaðan mun Jón Sigurðsson forseti hafa róið eitt vor á unglingsaldri. Ketildalir eru sagðir heita eftir Katli Þorbjarnarsyni ilbreið en í Landnámu segir að hann hafi numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals.

selardalur00

Þórishlíðarfjall
Selárdalur opnast milli Neðribæjarnúps og Selárdalsfjalls (528 m). Þórishlíðarfjall (474 m) er vestanvert við Selárdal. Í um 360 m hæð finnast plöntusteingervingar í fjallinu, blaðför í sandsteinsmillilagi milli blágrýtis. Má rekja það um 1500 metra leið. Í sandsteinslaginu finnast leifar af beyki, vínvið, hikkory og fleiri tegundum. Blaðförin eru óvenjulega fögur og greinileg. Sandsteinslagið er meðal elstu minja um gróðurfar hérlendis á tertíer og er á náttúruminjaskrá. Surtarbrandur finnst einnig í Selárdal og víðar við Arnarfjörð.

Undir Þórishlíðarfjalli liggur forn reiðvegur um Selárdalsheiði, milli Selárdals og Krossadals við Tálknafjörð.

Selardalskirkja
Selárdalskirkja

Jarðir
Jarðir í Selárdal hafa verið kirkjustaðurinn Selárdalur, Neðribær, Uppsalir (fremri- og neðri-), Klettur/ síðar Melstaður/ síðar Brautarholt, Krókur og Kolbeinsskeið, kölluð Skeið og Skarðsmýrarfoss sem álitið er að hafi lagst af í svartadauða. Hjáleigur innantúns frá Selárdalsstað hafa verið Selárdalshús, Kálfatjörn, Rimi og Tóft. Nýbýlið Fossá var um skamman tíma frá Uppsölum.

Uppsalir
Horft til Uppsala frá Selárdalsstað

Höfðingjaættin Seldælir
Seldælir kallaðist ein höfðingjaættanna á Sturlungaöld og var ættin runnin frá Selárdal í Arnarfirði. Seldælir áttu goðorð í Arnarfirði og Dýrafirði og áttu í deilum við Vatnsfirðinga. Þekktastur Seldæla var Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri í Arnarfirði, Hrafnseyri eða Rafnseyri, en þekktastur Vatnsfirðinga var Þorvaldur Snorrason. Bárður svarti Atlason föðurafi Hrafns bjó í Selárdal.

Kirkjustaður
Kirkja og prestssetur hefur lengst af verið í Selárdal og þótti hann um langan aldur meðal merkustu brauða landsins. Kirkjustaðurinn er á hóli í dalnum. Þar var kirkja helguð heilagri Maríu og Pétri postula í kaþólskum sið. Útkirkja var í Stóra-Laugardal í Tálknafirði og fóru Selárdalsprestar jafnan reiðveginn um Selárdalsheiði til hennar. Jörðin í Selárdal varð eign kirkjunnar í Staðamálum á 13. öld en þá er hennar fyrst getið. Ekki gleyma að heimsækja fjárhættuspil staður cop17 online casino nl

Árið 1907 var Selárdalsprestakall lagt niður og Selárdalssókn lögð til Bíldudalsprestakalls. Stóri-Laugardalur var þá gerður að annexíu frá Patreksfirði.

Núverandi kirkja í Selárdal er timburkirkja reist árið 1861. Á 100 ára afmæli hennar var hún að heita má smíðuð upp að nýju. Hún á marga merka muni en meðal þeirra er forn predikunarstóll með máluðum myndum af Móse og spámönnum, altaristafla frá 1752 sem er dönsk og sýnir kvöldmáltíðina, vandaður kaleikur frá 1765 og patína.

Kára-steinn - Mjaltakonusteinn
Á kirkjuhlaðinu er að finna vænan, aflangan stein sem klappaðir hafa verið í þrír bollar. Steinninn er talinn forn steinsmíði og er kallaður Kára-steinn. Kára-steinn er kenndur við Árum-Kára, sem í fyrndinni á að hafa verið prestur í Selárdal, og ítraleg saga er af í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Margir álíta steininn blótstein úr heiðni en þjóðsagan segir, að Árum-Kári hafi borið hann í frakkalafi sínu úr Bogahlíð, framar í dalnum.

Annað nafn steinsins er Mjaltakonusteinn en mjaltakonur eiga að hafa þvegið hendur sínar upp úr vatni í bollum steinsins.

Í kirkjugarðinum í Selárdal er Kolbeinsreitur. Þar er sagt að hvíli Kolbeinn nokkur og skipshöfn hans sem Árum-Kári á að hafa fyrirkomið.

Gísli Jónsson biskup
Meðal þekktra presta sem sátu Selárdal var séra Gísli Jónsson (1515-1587), síðar biskup í Skálholti og einn af frumkvöðlum siðaskiptanna. Séra Gísli sat staðinn á árunum 1547-1557 en var þá kosinn biskup eftir Martein Einarsson.

kortasafn
Guðbrandskort er dagsett árið 1585. Það mun unnið eftir
forskrift frá Guðbrandi Þorlákssyni biskup. Fáir staðir eru
nafngreindir - í Arnarfirði er það aðeins Selárdalur.

Páll Björnsson
Kunnastur presta í Selárdal er séra Páll Björnsson (1621-1706), dóttursonur Arngríms lærða. Hann sat staðinn í 61 ár frá 1645 til 1706. Hann var einn lærðastur Íslendinga á 17. öld og flestum fjölhæfari. Hann mun fyrstur hafa reiknað út hnattstöðu Bjargtanga. Hann hafði útræði mikið, lét smíða haffæra skútu og gerði hana út til fiskjar. Er hann talinn fyrstur Íslendinga að stunda fiskveiðar af þilskipi og því brautryðjandi á því sviði og merkur maður í atvinnusögu landsins. Séra Páll er sagður hafa afþakkað biskupsstöðu í Skálholti vegna þess hve vel fór um hann í Selárdal.

Þrátt fyrir lærdóm sinn og hagnýta þekkingu var séra Páll barn síns tíma og trúði á galdra og galdraásóknir. Kom þar til, meðal annars, að kona hans, Helga Halldórsdóttir, var haldin langvinnri taugaveiklun og geðbilun sem kennt var göldrum. Voru alls fimm menn brenndir til bana vegna mála sem af þessu spunnust (sex segir Einar Laxness).

Jón Þorláksson á Bægisá
Í Selárdal er fæddur Jón Þorláksson (1744-1819), oftast kenndur við Bægisá, eitthvert merkasta skáld 18. aldar og lengst af prestur á Bægisá í Eyjafriði. Faðir hans séra Þorlákur Guðmundsson sat Selárdal. Otradalsprestur, séra Jón Teitsson, síðar biskup á Hólum, bauð Þorláki að messa í Otradalskirkju og skyldi hann taka heimaprest og fólk hans til altaris. Séra Jón veitti starfsbróður sínum vel fyrir embætti og fór það í handaskolum fyrir séra Þorláki svo að hann var dæmdur frá kjóli og kalli nokkru síðar árið 1749. Var séra Jóni legið á hálsi fyrir bragðið og ekki fékk hann Selárdal sem var hærra metið brauð en Otradalur.

Sjóslys
Þann 20. september árið 1900 fórust fjórir bátar og sautján menn létust, flestir frá Selárdal og bæjum í Arnarfirði. Ellefu konur urðu ekkjur eftir þennan hörmulega atburð, tuttugu og fjögur börn urðu föðurlaus og tveir 14 ára gamlir drengir fórust með einum bátanna.

Prestsetrið leggst af
Síðastur presta í Selárdal var séra Magnús Þorsteinsson (1876-1960). Sat hann staðinn á árunum 1902-1909.

Hannibal Valdimarsson
Hannibal Valdimarsson (1903-1991) alþingismaður og ráðherra bjó í Selárdal og rak búskap þar frá 1966 til 1977, en foreldrar hans bjuggu um tíma á Bakka í Bakkadal í Arnarfirði og ólst hann þar upp með systkinum sínum.

Brautarholt
Brautarholt í Selárdal - byggingar Samúels Jónssonar

Samúel Jónsson - listamaðurinn með barnshjartað
Í Brautarholti í Selárdal átti Samúel Jónsson (1884-1969) heima lengi, sérstæður listamaður, og sjást þar verk hans, höggmyndir og bygginar en nú allt mjög á fallanda fæti. Það mun hafa verið Hannibal sem gaf Samúel einkunnina listamaðurinn með barnshjartað í grein sem hann skrifaði um hann. Sjá einnig greinina Samúel og Selárdalur í brennidepli hér á vefnum.

Gísli á Uppsölum
Þá er einnig kunnur Seldælingurinn Gísli Gíslason á Uppsölum í Selárdal. Hann varð þjóðkunnur í sjónvarpsþætti þar sem fram kom að hann hafði lifað og starfað mest alla 20. öldina án þess að nýta sér þægindi eins og rafmagn, vinnuvélar og ökutæki.


Helgi Hjálmtýsson ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. )
Eftir ýmsum heimildum