Staðir í Arnarfirði

- Hvar hefurðu komið?

Arnarfjörður er sannkallað ævintýrasvæði. Þar er að finna há og tignarleg fjöll, djúpa dali, stríðar ár, gular strendur og grasi grónar eyrar að ógleymdum firðinum sjálfum í öllum margbreytileika sínum.

Kaldbakur

- Hæsta fjall Vestfjarða

Lengi hafði verið ætlunin að sigrast á Kaldbak, hæsta fjalli vestfjarða, og létum við hjónin loksins verða af því sumarið 2001.

Kaldbakur, sem er 998 m há megineldstöð, er mun auðveldari að klífa en margan grunar. Eftir að hafa ekið framhjá Hrafnseyri og út norðanverðan Arnarfjörð er hægt að spara sér sporin inn Fossdal með því að aka eftir grófum vegarslóða inn í dalbotn. Vegarslóðinn liggur yfir Kvennaskarð og niður í Kirkjubólsdal í Dýrafirði. Slóðinn er reyndar á mörkum þess að vera boðlegur litlum bílum en við ókum hann varlega alveg inn í dalbotninn. Þar tekur við gangan upp á tindinn.

Gangan upp er nokkuð brött en auðvelt er að fara upp klettana efst í fjallinu. Á toppnum er varða og gestabók.

Kaldbakur01
Kaldbakur

Kaldbakur02
Rosabaugur

Kaldbakur03
Útsýnið á toppnum

Kaldbakur04
Alparnir og Arnarfjörður

Kaldbakur05
Horft niður í Kvennaskarð, Arnarfjörður til hægri

Kaldbakur06
Horft yfir Dýrafjörð

Útsýnið er stórkostlegt eins og sjá má á myndunum. Vel sést yfir Arnarfjörð, Dýrafjörð og alla vestfirsku Alpana.

Það er fastur liður hjá mér og fjölskyldu minni að skreppa til Bíldudals í sumarfríinu. Það er afslappandi að koma í sveitina og njóta kyrðarinnar á þessum skjólsæla stað umkringdan háum fjöllum - sannkölluð paradís fyrir þá sem hafa gaman af útivist og gönguferðum.

Kveðja
Magnús B. Óskarsson (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. )