Staðir í Arnarfirði

- Hvar hefurðu komið?

Arnarfjörður er sannkallað ævintýrasvæði. Þar er að finna há og tignarleg fjöll, djúpa dali, stríðar ár, gular strendur og grasi grónar eyrar að ógleymdum firðinum sjálfum í öllum margbreytileika sínum.

Bíldudalur

- Kauptún við Bíldudalsvog í Arnarfirði

Kynntu þér einnig sögu Bíldudals

Bíldudalur er í góðu skjóli fyrir veðri og vindum og er þar oft á sumrin slík veðursæld að með ólíkindum þykir.

Bildudalur01

Þorpið Bíldudalur stendur við Bíldudalsvog sem er einn Suðurfjarða Arnarfjarðar. Bíldudalur er eini þéttbýliskjarninn í Arnarfirði og þar búa á þriðja hundrað manns.

Bíldudalur er sjávarþorp þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla er aðalatvinnuvegur. Bolfiskvinnsla og rækjuvinnsla er undirstaða atvinnulífsins á staðnum.

Verslun hófst snemma á Bíldudal og settu margir merkir athafnamenn og konur mark sitt á staðinn og má sjá þar mörg hús frá 19. öld sem tengdust verslun, útgerð og fiskvinnslu.

Bildudalur02

Á Bíldudal er ágæt aðstaða fyrir ferðafólk, gisting, veitingarekstur og tjaldstæði. Ýmis afþreying stendur til boða. Áhugamenn um golf geta tekið kylfurnar með því góður níu holu golfvöllur er í miðjum dalnum og einnig er þar frjálsíþróttavöllur.

Einn besti flugvöllur Vestfjarða er í næsta firði um 5 km frá bænum. Sveitasundlaug er í Reykjafirði þar sem er náttúrulegur jarðhiti og einkar notalegt er að baða sig í henni.

Einnig er leiðin út í Ketildali stórskemmtileg og margt að sjá, opnar sandstrendur, þverhnípt fjöll, bergtröll og önnur listaverk náttúrunnar.