Söfn

Melódíur minninganna

- Tónlistarsafnið á Bíldudal
Tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar Melódíur minninganna er til húsa í Reynimel, Tjarnarbraut 5 á Bíldudal.

Frá 1. júní til 1. október er safnið opið frá kl. 13-18 alla virka daga og eftir samkomulagi um helgar. Síminn hjá Jóni er 456 2186 .

Það er hætt við að margir þeirra sem leggja leið sína vestur á Bíldudal fái svolítinn fiðring í fæturnar og jafnvel nokkur fiðrildi í magann þegar þeir skoða tónlistarsafnið "Melódíur minningnna". Safnið var formlega opnað á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2000. Á safninu kennir margra grasa og þar er stiklað á stóru í tónlistarsögu landsins.

JonKr4
Melódíur minninganna

Safnið er tileinkað mörgu af því dásamlega fólki sem Jón Kr. hefur kynnst í gegnum tónlistina. Nægir hér að nefna listamenn eins og Hauk Morthens, Sigfús Halldórsson, Jón Sigurðsson, Svanhildi Jakobsdóttur, Ólaf Gauk, systkinin Ellý og Vilhjálm Vilhjálmsbörn, Svavar Gests, Ragnar Bjarnason, Helenu Eyjólfsdóttur, bræðurna Ingimar og Finn Eydal, Önnu Vilhjálms og Örvar Kristjánsson.

JonKr3
Jón Kr. við opnun safnsins 17. júní 2000

Tónlistarsafnið byggist að mestu á innrömmuðum hljómplötum, plötuumslögum, myndum og munum sem áður voru í eigu landsþekktra listamanna.

Barnastjörnur í baðherberginu
Að sögn Jóns Kr. er tónlistarsafnið Melódíur minninganna heimilislegt og alíslenskt safn.

Ég á þá einu ósk að fólki líði vel þegar það röltir hér um og rifjar upp gamlar minningar, segir hann.

Ég reyni að setja þetta upp bæði skipulega og skemmtilega, segir Jón Kr. Við innganginn er ég t.a.m. með sérstaka sjómanna uppsetningu; nokkurs konar Óskalög sjómanna og á baðherberginu er barnadeildin; bræðurnir Karíus og Baktus, Hanna Valdís og fleiri barnastjörnur.