Sagnir

- Stuttar frásagnir af Arnfirðingum

Margir hafa átt heimili í Arnarfirði um lengri eða skemmri tíma og margt tekið sér fyrir hendur.

Sagnir af Guðmundi á Horni

- Vestfirskar sagnir úr Arnarfirði - Vestfirska forlagið
[24.09.2003]

Guðmundur Jóhannsson (1893-1964), bóndi á Horni í Mosdal, seinna á Dynjanda í sömu sveit, var sagður sérstæður maður um margt, en einkum var til þess tekið hversu orðheppinn hann var líkt og margir Vestfirðingar fyrr og síðar. Hann var snöggur að bjarga sér með snjallyrðum þegar það átti við og hafa gengið af því sögur mann fram af manni. Hér koma tvær þeirra.

Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín!
Það var á þeim árum sem Kristján Ingvaldur Benediktsson bjó á Hrafnseyri, um 1940. Þá var hann fenginn til að flytja Ásgeir Ásgeirsson, sem Vestur-Ísfirðingar fylgdu í gegnum þykkt og þunnt, í kosningaferðalag á bát yfir í Mosdal.

Þegar þeir komu að Horni, hitta þeir Guðmund bónda í mógröfum, ásamt fleira fólki. Ásgeir heilsaði Guðmundi auðvitað fyrstum manna og sagði Guðmundur þá að bragði við þingmanninn: Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín! Sagt er að Ásgeir hafi orðið mjög glaður við þessi viðbrögð bóndans.

Við sömu kosningar fór Kristján Ingvaldur aftur á bát yfir í Mosdal. Að þesssu sinni var frambjóðandinn Jón Eyþórsson með í för. Þingmannsefnið og bóndinn hittast og viðhafði bóndinn sama formálann við Jón og Ásgeir áður: Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín! Þá sneri flutningsmaðurinn sér að Guðmundi og segir: Þú sagðir nú það sama við Ásgeir hérna um daginn. Já, elskan mín, maður segir nú ýmislegt við þessa djöfla þegar þeir eru að flakka hér um.

Sögn Sigurjóns G. Jónassonar, Lokinhömrum

Hann var mórauður, elskan mín

Það var á þeim árum sem Guðmundur bjó á Dynjanda, en um það leyti var Mjólkárvirkjun I tekin í notkun. Þá var þar vélstjóri Hreinn Haraldsson, seinna stöðvarstjóri.

Svo var það einhverju sinni að Guðmundur átti leið inneftir, líklega á bát. Sá hann þá sel í fjörunni fyrir neðan virkjunina og var snöggur að koma á hann skoti. Hreinn varð var við þetta og þegar þeir hittast, les hann Guðmundi pistilinn. Þá svaraði hann: Hann var mórauður, elskan mín, hann var mórauður, elskan mín.

Sögn Sigurjóns G. Jónassonar, Lokinhömrum