Sagnir

- Stuttar frásagnir af Arnfirðingum

Margir hafa átt heimili í Arnarfirði um lengri eða skemmri tíma og margt tekið sér fyrir hendur.

Frétt í SKINFAXA 1917

Heimsókn til ungmennafélaga

á Bíldudal og Ketil-Dalahreppi 1917

Ég er mjög mikið að leita á netinu að gömlum heimildum, t. d. um lífið í Ketil-Dalahreppi á fyrri hluta 20. aldar, virkjun Hnjúkár og byggingu gömlu rafstöðvarinnar í Bíldudalnum og margt fleira.  Í þessu grúski rekst maður oft á ýmsar frásagnir sem gefa manni sjónarhorn sem maður hafði ekki fyrir.  Þannig fór með mig þegar ég rakst á frásögn á bls. 50-51, í Skinfaxa, 7. tbl. 01. júlí 1917, um fyrirlestraferð fulltrúa frá Ungmennafélagi Íslands, sem farin var jafnframt til að heimsækja ungmennafélögin á landsbyggðinni og segja frá starfsemi þeirra. Ég skannaði frásögnina af heimsókninni til félaganna í sunnanverðum Arnarfirði og frásögnin fer hér á eftir:

Skinfaxi, 7. tbl. 01.07.1917, bls. 50-51

Frá Vestfjörðum.

"Þess hefir stundum verið óskað, að „Skinfaxi" flytti smá fréttapistla um störf ungmennafélaga í hinum ýmsu héruðum landsins; virðist jafnvel of lítið gert að því að kynna félögin hvert öðru, en tiltækilegasta leiðin til þess er sú, að félögin láti sambandsblað sitt flytja fréttir úr heimahögunum við og við.

 Þar sem ég réðist til fyrirlestraferða s. 1. vetur, fyrir Vestfirðingafjórðung og gafst þannig tækifæri til að kynnast flestum ungmennafélögunum, sem starfa á fjórðungssvæðinu, dettur mér i hug að skýra frá (félagsslarfinu hér vestra), — í stórum dráttum. Ferðasaga getur það ekki orðið; yrði of langt mál. Alls hafa 7 sambandsfélög starfað á fjórðungssvæðinu að undanförnu.

 Fyrst heimsótli ég félögin í Arnarfirði. Þar starfa 2 ungmennafél. sunnantil við fjörðinn og heita: „Örn"Bíldudal og „Skjöldur" út í Dölunum. — Formaður Bíldudalsfél. er: Svafa Þórleifsdóttir kennari. Stofnaði hún fél. og hefir verið formaður þess síðan. Er hún mjög ötul og áhugasöm.

 Á Bíldudal flutti ég 3 fyrirlestra; fékk fél. kirkjuna leigða til fyrirlestrahaldsins; hefir fél. að undanförnu haft skólahús kaupstaðarins til afnota, en sökum strangari ákvæðis af hálfu heilbrigðislöggjafarinnar hefir félagið ekki fengið húsið í vetur, en orðið að leigja húsrúm á öðrum stað í  kaupstaðnum til fundahalds. Er húsleysið tilfinnanlegur Þrándur i Götu fél. eins og — því miður — mun vera allvíða meðal ungmennafél. út um landið; — en húsabyggingar nú tilfinnanlega dýrar.

 Næstliðinn vetur hafði félagið kvöldskóla undir forustu form. þess (Svöfu). Var þar kend: íslenzka, stærðfræði, enska og danska. Jafnframt hefir fél. mjög mikið beitt sér fyrir að breiða út söngþekkingu á meðal félagsmanna og kaupstaðabúa; hefir form. þess haft þar forgöngu.

 Frá Bíldudal hélt ég út í Dali til „Skjaldar". Form. þess er Ingvaldur Benediktsson (hreppstjóra í Selárdal). Var hann ekki heima er ég kom ; — staddur suður í Rvík við söngfræðisnám. Í Dölunum hélt eg 4 fyrirlestra, 2 í Bakkadal og 2 í Selárdal. „Skjöidur" er aðeins 2, ára, starfar í 2 deildum; félagatala um 40. Hefir fél. endurreist ekknasjóð (sjódrukknaðra manna þar í hreppnum) sem hafði verið fallinn í óhirðu. — Einnig beitti fél. sér ötullega fyrir fjársöfnun til ekkna þeirra manna er druknuðu við ísafjarðardjúp 1915.

 Húsnæði hefir félagið ekki annað en það, sem bændur láta því góðfúslega í té — án endurgjalds, — Sögðu félagsmenn mér að eldra fólkið og hinir ráðandi menn þar í hreppnum væri fremur hlyntir félaginu; en kvartað var um frástreymi unga fólksins úr sveitinni, að vetrinum; mun það víða brenna við, — lakast að búast má við að sveitirnar tapi þannig starfskröftum að meira eða minna leyti. Síst er þó að lasta það, að fólkið sæki sér menningu til fjarlægra héraða; — aðeins að það komi svo heim aftur og láti Ijós sitt lýsa upp heimahagana; — „byrji í sínum heimahögum að hjálpa röðli að fjölga sólskinsdögum"."

 

 

Sagnir af Guðmundi á Horni

- Vestfirskar sagnir úr Arnarfirði - Vestfirska forlagið
[24.09.2003]

Guðmundur Jóhannsson (1893-1964), bóndi á Horni í Mosdal, seinna á Dynjanda í sömu sveit, var sagður sérstæður maður um margt, en einkum var til þess tekið hversu orðheppinn hann var líkt og margir Vestfirðingar fyrr og síðar. Hann var snöggur að bjarga sér með snjallyrðum þegar það átti við og hafa gengið af því sögur mann fram af manni. Hér koma tvær þeirra.

Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín!
Það var á þeim árum sem Kristján Ingvaldur Benediktsson bjó á Hrafnseyri, um 1940. Þá var hann fenginn til að flytja Ásgeir Ásgeirsson, sem Vestur-Ísfirðingar fylgdu í gegnum þykkt og þunnt, í kosningaferðalag á bát yfir í Mosdal.

Þegar þeir komu að Horni, hitta þeir Guðmund bónda í mógröfum, ásamt fleira fólki. Ásgeir heilsaði Guðmundi auðvitað fyrstum manna og sagði Guðmundur þá að bragði við þingmanninn: Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín! Sagt er að Ásgeir hafi orðið mjög glaður við þessi viðbrögð bóndans.

Við sömu kosningar fór Kristján Ingvaldur aftur á bát yfir í Mosdal. Að þesssu sinni var frambjóðandinn Jón Eyþórsson með í för. Þingmannsefnið og bóndinn hittast og viðhafði bóndinn sama formálann við Jón og Ásgeir áður: Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín! Þá sneri flutningsmaðurinn sér að Guðmundi og segir: Þú sagðir nú það sama við Ásgeir hérna um daginn. Já, elskan mín, maður segir nú ýmislegt við þessa djöfla þegar þeir eru að flakka hér um.

Sögn Sigurjóns G. Jónassonar, Lokinhömrum

Hann var mórauður, elskan mín

Það var á þeim árum sem Guðmundur bjó á Dynjanda, en um það leyti var Mjólkárvirkjun I tekin í notkun. Þá var þar vélstjóri Hreinn Haraldsson, seinna stöðvarstjóri.

Svo var það einhverju sinni að Guðmundur átti leið inneftir, líklega á bát. Sá hann þá sel í fjörunni fyrir neðan virkjunina og var snöggur að koma á hann skoti. Hreinn varð var við þetta og þegar þeir hittast, les hann Guðmundi pistilinn. Þá svaraði hann: Hann var mórauður, elskan mín, hann var mórauður, elskan mín.

Sögn Sigurjóns G. Jónassonar, Lokinhömrum