Saga Bíldudals

Útgerðasaga Bíldudals

Útgerðarsaga Bíldudals í 100 ár 1904-2004 kafli 1 af 4

Eins og margir vita hóf Pétur J. Thorsteinsson mikla uppbyggingu á Bíldudal um 1880 og þegar hann fer að hafa vetursetur í Kaupmannahöfn eftir 1890 var komið blómlegt þorp með 300 – 400 íbúum og atvinnulífið í blóma. En 1904 selur Pétur verslunarstjóra sínum reksturinn og tekur þá við fyrirtækið Hannes Stephensen & Co. En 1907 kaupir Pétur allar eignirnar og er þá að stofna svokallað “Milljónafélag “ Jukust þá umsvif á Bíldudal til muna en þetta félag lifði ekki lengi varð gjaldþrota 1914. Eftir það hafði Pétur ekki nein afskipti af Bíldudal heldur bjó í Hafnarfirði og fór síðar út í togaraútgerð ásamt bróður sínum. Atvinnulíf á Bíldudal var lamað þó mun Hannes Stephensen hafa verið með einhvern rekstur og útgerð fram undir 1930 Það er athyglisvert að Pétur byggði hér upp hátt í 400 manna þorp en nú 130 árum seinna eru íbúar rúmlega 200.
1932 er stofnað hlutafélagið Draupnir sem kaupir línuveiðarann Sæbjörgu GK-9 159 brl. stálskip sem fékk nafnið Ármann BA-7 og smíðað 1904 kom það til Bíldudals í desember 1932. Hluthafar í þessu félag voru mest sjómenn sem voru að skapa sér atvinnu. 1933 er stofnað annað félag um kaup á línuveiðara það er Verðandi hf. og keypti það félag línuveiðarann Þormóð MB-61 191 brl stálskip frá Akranesi og fékk það skip nafnið Geysir BA-10. Rekstur þessara línuveiðara gekk erfiðlega.

Heimskreppan 1930 setti svip sinn á allt næstu ár. Ekki voru þessi skip lengi í eigu Bílddælinga. Geysir slitnaði upp og rak yfir Arnafjörð 1936 og var talinn ónýtur. Ármann BA-7 var seldur 15. júní 1937 til Reykjavíkur og gerður út til 1956. Það má segja að óheppni hafi elt Bílddælinga með þessi skip. Þegar heimsstyrjöldin síðari skall á 1939 hækkaði verð á svona skipum gífurlega vegna þess að þau þóttu hentug til ísfiskflutninga til Englands. Geysir var orðinn ónýtur en ef þeir félagar í Draupnir hefðu þraukað 1,5 – 2 ár í viðbót hefðu þeir komið frá þessari útgerð sem stór auðugir menn.
1932 kaupir Útgerðarfélagið Njáll hf eikarbátinn Ægir BA-137 13 brl.hann var endurbyggður og lengdur á Bíldudal 1942 og mældist þá 17 brl. var hann hér í útgerð næstu ár en talinn ónýtur 1952
1935 lætur Jens Hermannsson smíða fyrir sig á Bíldudal bátinn Jón formaður BA-64 sem var smíðaður úr eik og furu og var 7 brl.. 10 apríl 1943 selur Jens bátinn bræðrunum Ragnari og Gunnari Jóhannsson, sem gáfu honum nafnið Hafþór BA-16. Þeir bræður selja svo þennan bát í okt, 1944 til Grindavíkur. 
1939 er smíðaður á Bíldudal 6 brl. bátur úr eik og furu sem fékk nafnið Kári BA-265. Eigandi hans var Jón Kr. Jóhannesson Bíldudal og átti hann bátinn fram undir 1990 en þá kaupir Kristján Pálsson bátinn og setur hann uppí fjöru á Krosseyri og þar varð báturinn ónýtur.

1940 kaupir útgerðarfélagið Örn hf. vélbátinn Svan NK-53. En hann var skráður á Bíldudal sem Svanur BA-268. Báturinn var endurbyggður og lengdur 1942 og mældist eftir það 15 brl. Hann var talinn ónýtur og tekin af skrá 1960. Ekki veit ég hverjir voru eigendur að þessu félagi en Sigurmundur Jörundsson mun hafa verið skipstjóri lengst af.
1940 er smíðaður á Bíldudal 5 brl. eikarbátur Steinbjörg BA-273 eigandi var Sölvi Bjarnason á Bíldudal. Síðar eignuðust synir Sölva þeir Páll og Eleseus bátinn og áttu hann til 1961
1940 kaupa Kristján Reinaldsson ofl. í Selárdal bátinn Hinrik ÍS-278 og fékk hann einkennisstafina BA-278
Síðar flytur Kristján til Bíldudals með bátinn og er þá meðeigandi hans Jón Kristmundsson. Hinrik BA-278 var seldur til Flateyrar um 1960.
1941 kaupi Fiskveiðihlutafélagið Njáll togarann Baldur RE-244 315 brl. stálskip og er það skráð á Bíldudal sem Baldur BA-290 það er síðan selt 20. febrúar 1952 til niðurrifs í Belgíu.
1942 kaupir Fiskveiðihlutafélagið Njáll Þormóð NB-85 101 brl eikarskip frá Akranesi og var það skráð á Bíldudal sem Þormóður BA-291 Ekki er mér kunnugt um hverjir voru eigendur Fiskveiðihlutafélagsins Njáls hf. og hvort Útgerðarfélagið Njáll hf var sama félagið og Fiskveiðihlutafélagið Njáll tel þó að þessar útgerðir hafi verið á vegum Gísla Jónssonar alþm.
Þormóður BA-291 fórst út af Garðskaga 18. febrúar 1943 og með 7 manna áhöfn og 24 farþegum samtals 31 manns og er það mest áfall sem yfir Bíldudal hefur dunið. Var allt lamað á Bíldudal eftir þetta hörmulega slys.
Næstu ár á eftir eru útgerðin aðallega trillur og litlir þilfarsbátar.
1945 er keyptur til Bíldudals báturinn Egill Skallagrímsson BA-282 sem var 12 brl. eikarbátur. Eigendur voru Rafn Sveinbjörnsson, Guðbjartur Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson og Sigurður Helgason. Bátinn rak á land á Bíldudal 4. apríl 1951 og eyðilagðist. Það er athyglisvert að á þessum litlu þilfarsbátum þótti sjálfsagt að stunda vetraróðra og sækja jafnveð suður á Látraröst.
Nú fer að koma til sögu maður sem átti eftir að hafa mikil afskipti af útgerð á Bíldudal en það var Sæmundur G. Ólafsson skólastjóri á Bíldudal.
1946 er keyptur til Bíldudals vélbáturinn Valur MB-18 smíðaður í Danmörku úr eik og furu 22 brl. að stærð, báturinn fékk nafnið Jörundur Bjarnason BA-65 og voru eigendur voru: Bjarni Jörundsson, Gísli Friðriksson og Sæmundur G. Ólafsson. Þennan bát áttu þeir félagar til ársins 1957
1949 er keyptur til Bíldudals vélbáturinn Hafþór BA-44 sem var 22 brl. að stærð. Bátnum var gefið nafnið Sigurður Stefánsson BA-44 og eigendur voru: Friðrik Ólafsson, Konráð Gíslason, Bjarni Hannesson og Sæmundur G. Ólafsson. Þennan bát áttu þeir félagar til loka ársins 1956.
1952 Kaupir Kópanes hf. Bíldudal 21 brl. eikarbát frá Vestmannaeyjum sem fékk nafnið Frigg BA-4.
1955 Verða eigendaskipti á bátnum og er þá skráður eigandi Hraðfrystihús Suðurfjarðahrepps.
1958 Verða aftur eigendaskipti og eru þá eigendur Gunnar Þórðarson og Matvælaiðjan hf.
1961 Er Matvælaiðjan hf skráður eini eigandi bátsins. Hann var síðan tekin af skrá og talinn ónýtur 1967. (Sama vél var í bátnum alla tíð 33 ár 65 ha. June Munltell).

Vertíðarfloti Bílddælinga 1952-1956 var því eftirfarandi:

Jörundur Bjarnason BA-65 22 brl. Skipstjóri: Bjarni Jörundsson
Sigurður Stefánsson BA-44 22 brl. Skipstjóri: Friðrik Ólafsson
Frigg BA-4 22 brl Ársæll Egilsson

1956 Kaupir Hraðfrystihús Suðurfjarðahrepps vélbátinn Vörð ER-333 39 brl eikarskip smíðað 1949 og fékk hann nafnið Geysir BA-140 Þessi bátur er síðan gerður út til febr. 1961 en þá strandaði hann við innanverðan Kóp og varð ónýtur, Áhöfnin 6 manns bjargaði sér í land á gúmmíbát.
1957 stækka þeir við sig sem eiga Sigurð Stefánsson og kaupa vélbátinn Gottu VE-108 35 brl. eikarskip og fékk það sama nafn og fyrra skip þeirra eða Sigurður Stefánsson BA-44 þennan bát selja svo þeir félagar 17. jan. 1960
Vertíðarfloti Bílddælinga 1957-1958

Geysir BA-140 39 brl. Skipstjóri Ársæll Egilsson
Sigurður Stefánsson BA-44 35 brl Skipstjóri: Friðrik Ólafsson

1959 þann 28. mars kaupa þeir Bjarni Jörundsson, Gísli Friðriksson og Sæmundur G. Ólafsson hlutafélagið Græðir hf. frá Ólafsfirði en það félag átti vélbátinn Hannes Andrésson Óf-3 Græðir hf. Bíldudal skýrir nýja bátinn Jörund Bjarnason BA-65 en hann var 51 brl. smíðaður í Svíþjóð 1946 úr eik. Græðir hf. á þennan bát til 10. okt 1962 en þá var hann seldur til Eyrarbakka.
1959 þann 15. nóv. Kaupir Sæmundur G. Ólafsson einn vélbátinn Reynir RE-220 sem hélt sínu nafni eftir að Sæmundur kaupir bátinn en fær einkennisstafina BA-66. Reynir BA-66 var 53 brl. eikarskip og smíðaður í Svíþjóð 1946 og systurskip Jörundar Bjarnasonar BA-65. Ekki er mér kunnugt um af hverju Sæmundur kaupir þennan bát einn en ekki ásamt félögum sínum í útgerð Sigurðar Stefánssonar BA-44. Sæmundur flytur síðar með bátinn til Reykjavíkur og var hann gerður út til 1967 en þá tekin af skrá og talinn ónýtur.

Vertíðarfloti Bílddælinga 1958-1959

Geysir BA-140 39 brl. Skipstjóri: Jón Júlíusson ofl.
Sigurður Stefánsson BA-44 35 brl. Skipstjóri: Friðrik Ólafsson

Vertíðarfloti Bílddælinga 1958-1962:

Geysir BA-140 39 brl. (Strandar í febrúar 1961) Skipstj: Sigurður Bjarnason ofl.
Ásbjörn ÍS-12 44 brl. (Leigubátur í stað Geysis) Skipstjóri: Sigurður Bjarnason
Sigurður Stefánsson BA-44 (35 brl Seldur í janúar 1960) Skipstjóri: Friðrik Ólafsson
Jörundur Bjarnason BA-65 51 brl. (Seldur haustið 1962) Skipstjóri: Bjarni Jörundsson
Reynir BA-66 53 brl (Eigandi flutti með bátinn til Rvk 1961-1962)
Skipstjóri Snæbjörn Árnason ofl.

Eins og sjá má af þessu eru útgerðarmenn að stöðugt endurnýja flota sinn með stærri bátum og hefði sú þróun vafalaust haldið áfram ef ef þeir hefðu fengið frið til þess. En Þegar Suðurfjarðahreppur kaupir tappatogarann Pétur Thorsteinsson BA-12 er það ekki lengur háð afla af þessum bátum og vandræði byrja að fá sjómenn á skipin má segja að þá hafi einkaframtakinu verið nánast ýtt út úr útgerð á Bíldudal og voru það þakkirnar sem þessir menn fengu frá sveitarfélaginu eftir að hafa nánast lagt aleigu sína undir varðandi sinn rekstur en það sannaðist fljótt að ekki var gæfulegt að skipta frá einkaframtaki yfir í hreppsútgerð. Ef þessir menn hefðu fengið að starfa í friði, ég tala nú ekki um fengið stuðning sveitarfélags og boðin eignaraðild að hraðfrystihúsinu sem var alfarið í eigu Suðurfjarðahrepps hefði margt farið hér á betri veg. Um það verður fjallað í næsta kafla.


Útgerðarsaga Bíldudals í 100 ár 1904-2004 kafli 2 af 4

1959 Kaupir Suðurfjarðahreppur einn af svo nefndu tappatogurum sem smíðaðir voru í A-Þýskalandi og dreifðust víða um land. Þetta skip fékk nafnið Pétur Thorsteinsson BA-12 249 brl. og kom til Bíldudals í sept. 1959. Koma þessa skips breytti miklu á Bíldudal atvinna varð mikil og svo mikil að erfiðlega gekk að manna bátaflotann. Kom því mikið af færeyingum til starfa við útgerðina og í frystihúsinu.
Rekstur nýja skipsins var erfiður frá upphafi. Þessi skip voru smíðuð til að stunda togveiðar á grunnslóð en með útfærslu landhelginnar 1958 misstu þau mikið af miðum sínum. Sjómenn á skipinu voru að miklu leyti aðkomumenn, þar sem Bílddælingar völdu frekar bátaflotann þar sem þeir kunnu vel til verka. Má segja að þetta hafi kannski verið full stór biti fyrir svona lítið byggðalag. Spurning hvort ekki hefði verið betra að láta bátaútgerðina þróast áfram, stækka bátana og styðja við bakið á þeim einstaklingum sem voru hægt og rólega að byggja upp sína útgerð líkt og var að gerast víða hér á Vestfjörðum. Á þessum tíma eru að koma heim til Bíldudals margir ungir menn sem höfðu menntað sig í Sjómannaskólanum í Reykjavík og er ég vissum að ef einhverjum af þessum mönnum hefði verið treyst fyrir þessu nýja skipi hefði betur farið með útgerð skipsins. T.d. var Ársæll Egilsson búinn að sanna sig sem mikinn aflamann meðan hann var með Frigg BA-4 og síðar Geysir BA-140 en hann var fluttur til Tálknafjarðar þar sem honum bauðst mikið betra skip en Geysir var. Einnig voru að koma til sögunnar Pétur Valgarð Jóhannsson, Snæbjörn Árnason, Sigurður Bjarnason ofl. sem síðar sönnuðu að þeir voru góðir aflamenn þegar þeir fengu tækifæri til á góðum skipum. Eins og fyrr segir gekk útgerð Péturs Thorsteinssonar BA-12 erfiðlega og var hann leigður eina vertíð til Patreksfjarðar til línuveiða sem gengu það vel að farið var að gera skipið út á línu og net frá Bíldudal. Auk þess bjargaði það miklu að nokkur sumur var Pétur leigður til síldarleitar og munu leigutekjur hafa verið nokkuð góðar. Pétur Thorsteinsson BA-12 er svo í útgerð frá Bíldudal til 1971 og var síðustu árin á togveiðum. En 1971 var útgerð hans endanlega komin í þrot. Þegar hér var komið sögu voru flestir ungir sjómenn á Bíldudal farnir að stunda sjó á bátum frá Tálknafirði. Enda var á tímabili skipstjórar frá Bíldudal á 3 bátum af fjórum sem gerðir voru út frá Tálknafirði einnig fóru skipstjórar til Patreksfjarðar.
28. september 1962 kaupir Hraðfrystihús Suðurfjarðahrepps hlutafélagið Drang hf. frá Patreksfirði en það félag átti nýtt skip sem smíðað var í Danmörku 1961 úr eik 70 brl. Þetta var Andri BA-100. Rekstur þessa báts gekk mjög vel fyrstu árin en skipstjóri var Snæbjörn Árnason en síðar Gísli Kristinsson og svo tók Snæbjörn við aftur og eitthvað mun Guðmundur Pétursson hafa verið með bátinn. Andri BA-100 var á línu og netum frá Bíldudal á haustin og veturinn en á síld á sumrin meðan síldveiðar voru stundaðar.. Þessi bátur var seldur til Keflavíkur 29. nóv. 1969.

1966 kaupir félagið Steinanes hf. vélbátinn Þórð Ólasfsson SH-140 sem var 36 brl. eikarbátur smíðaður 1946. Bátnum var gefið nafnið Auður BA-46. Að þessu félagi stóðu, Guðmundur Pétursson Gísli Kristinsson, Agnar Hávarðsson og Guðmundur Guðmundsson. Rekstur bátsins var þeim félögum erfiður og sundraðist félagshópurinn, en Gísli Kristinsson baslaði með útgerð bátsins í nokkur ár en hann var síðan seldur tiil Ólafsvíkur 1970.
1967 kaupir Snæbjörn Árnason vélbátinn Ver KE-45 36 brl. eikarskip smíðaður 1966, þannig að hér var um að ræða svo til nýtt skip. Útgerð þessa báts var ekki löng því hann fórst í róðri út af Kóp 26. janúar 1968. Áhöfnin 5 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í varðskipið Albert.
1969-1970 var Suðurfjarðahreppur komin í þrot með sinn rekstur þ.e. hraðfrystihúsið og Pétur Thorsteinsson BA-12 var þá gripið til þess ráðs að stofna hlutafélag um reksturinn til að forða sveitarfélaginu frá gjaldþroti. Nýja félagið fékk nafnið Arnfirðingur hf. og má segja að það hafi verið dauðdæmt frá upphafi vegna mikilla skulda enda fór það svo að rekstur þess fór í þrot 1971 og fóru allar eignir þess á uppboð. Var nú orðið dauft yfir atvinnumálum á Bíldudal og fjöldi fólks þurfti að sækja atvinnu annað bæði karlar og konur. Flestir munu hafa farið til Suðureyrar en eins og áður sagði voru margir sjómenn komnir til Tálknafjarðar. Undirritaður var eitt vor á Tungufelli BA-326 sem var á útilegu með línu við Grænland og var þá um 50% af áhöfninni frá Bíldudal og eitthvað svipað hlutfall var á öðru skipi Tálknfirðinga Tálknfirðingi BA-325 sem var gerður út á sama hátt. Og þegar Sæfari BA-143 frá Tálknafirði fórst í róðri á Barðagrunni 10. janúar 1970 með allri áhöfn voru 5 af 6 skipverjum Bílddælingar.


Vertíðarfloti Bílddælinga næstu ár.

PéturThorsteinsson BA-12 249 brl (Útgerð hans hætt 1971)
Andri BA-100 70 brl. (Seldur 1969)
Auður BA-46 36 brl. (Kemur 1966 seldur 1970)
Ver KE-45 36 brl. (fórst í róðri út af Kóp 26. janár 1968)
1971 taka sig saman nokkrir Bílddælingar og stofna félagið Boða hf undir forustu Eyjólfs Þorkelssonar og Snæbjarnar Árnasonar ofl., varð Eyjólfur framkvæmdastjóri félagsin. Félagið tók frystihúsið á leigu og hóf þar rekstur. Mun sá rekstur hafa gengið vel og skilað hagnaði þar til tekið var á leigu á leigu vélbáturinn Brimir SU69 137 brl. stálbát en rekstur hans gekk frekar illa. Fór þá rekstur Boða að snúast yfir í tap.

1972 Stofna Boði hf og Snæbjörn Árnason ofl. útgerðarfélagið Sókn hf. og var Snæbjörn Árnason framkvæmdastjóri. Þetta félag kaupir haustið 1972 Viðey ER-12 184 brl. stálskip sem fékk nafnið Árni Kristjánsson BA-100 og varð Snæbjörn skipstjóri á bátnum. Þetta skip var gert út á línu frá Bíldudal en stundaði loðnuveiðar tvær vertíðar sem gengu vel. En um sumarið 1973 kviknaði í bátnum þar sem hann var á útilegu með línu á Vestfjarðamiðum skipstjóri þá var Pétur Þór Elíasson sem annars var stýrimaður á bátnum. Skipverjum tókst að kæfa eldinn en það var mikið skemmt og var frá veiðum í marga mánuði vegna viðgerða. Þetta reyndist hinu unga félagi dýrt og fjárhagsstaða var erfið og vanskil urðu við seljanda bátsins sem var Einar Sigurðsson (Einar ríki) og fóru að berast hótanir um gjaldfellingu skuldabréfa sem gefin voru út við kaup bátsins.

1974 verða kaflaskil í rekstri Sóknar hf. á loðnuvertíðinni 1974 tók stjórn félagsins þá örlagríku ákvörðun án samráðs við Snæbjörn Árnason framkvæmdastjóra félagsins en hann var þá með skipið á loðnuveiðum, að ávísa til seljanda bátsins um 50% af aflaverðmæti á loðnuvertíðinni til að koma skuldabréfunum í skil. Þessi ákvörðun stjórnar hafði þau áhrif að Snæbirni var gert ókleyft að reka bátinn enda fór það svo að um vorið hættir Snæbjörn skipstjórn á bátnum og einnig hættir hann sem framkvæmdastjóri og hafði eftir það enginn afskipti af félaginu. Loðnuveiðar skipsins voru mikið gagnrýndar á Bíldudal þar sem skipið ætti að afla hráefnis fyrir frystihúsið, en staðreyndin var hinsvegar sú að þessar veiðar færðu félaginu miklar tekjur og afkoma var góð á þessum veiðum og voru nauðsynlegar til að koma styrkari fótum undir félagið og er það mjög líklegt að ef ekki hefði verið tekið fram fyrir hendur Snæbjarnar varðandi rekstur skipsins, væri Sókn að öllum líkindum starfandi í dag sem öflugt félag. Nú tók við framkvæmdastjórn Gunnar Ólafsson, verkstjóri og 23. september 1974 er nafni skipsins breytt og gefið nafnið Andri BA-100. Skipstjóri var ráðinn Guðmundur Pétursson Gunnar af sínum alkunna dugnaði rak skipið eftir stefnu stjórnar þ.e. að gera út á línuveiðar frá Bíldudal til að afla frystihúsinu hráefnis, sem þýddi aftur taprekstur á útgerðinni. Þetta var barátta uppá hvern dag hjá Gunnari að halda útgerðinni gangandi og að lokum var svo komið að útgerðin komst í þrot og uppboð blasti við en Gunnari tókst 1975 að selja skipið til Þorlákshafnar á það góðu verði að hægt var að greiða upp skuldir Sóknar hf. og forða því frá gjaldþroti.

1974 er sjósett á Akureyri nýsmíði sem var í eigu Einhamars hf. þetta var 142 brl. stálskip og fékk það nafnið Kópanes BA-99. Ekki átti Einhamar þetta skip lengi því daginn eftir afhendingu var það selt til Mumma hf. í Sandgerði. Þeir sem stóðu að Einhamri hf. voru Eyjólfur Þorkelsson, Guðmundur Pétursson, Jón Steingrímsson og Jón Gestur Sveinbjörnsson. Hvað olli því að skipið var selt strax er mér ekki kunnugt um. Nema það að hart var gengið að sveitarfélaginu um að veita ábyrgð vegna láns. En vegna stöðu sveitarfélagsin frá útgerð ofl. Var útilokað að verða við þessari beiðni.

1975 er stofnað á Bíldudal hlutafélagið Fiskvinnslan á Bíldudal hf. sem kaupir allar eignir Fiskveiðsjóðs á Bíldudal en það voru hraðfrystihúsið, fiskimjölsverksmiðjan og svonefnt Fiskiver sem var geymsluhús. Strax var hafist handa við að endurbyggja frystihúsið sem var orðið úrelt og hafði verið rekið á undanþágu í mörg ár og lánaðu Fiskveiðasjóður og Byggðastofnun fé til þessarar uppbyggingar.
1976 kaupir Fiskvinnslan hf. stálbátinn Hafrún ÍS-400 207 brl. og fékk hann afhenntan um vorið og var hann látin halda nafni sínu og skráður Hafrún BA-400 skipstjóri Pétur Þór Elíasson og var báturinn gerður út á línu frá Bíldudal en varð að landa afla sínum í Bolungavík í byrjun þar sem ekki var hægt að taka á móti fiski á Bíldudal. En í byrjun desember fer frystihúsið að taka á móti fiski og var fyrsti vinnsludagur 13. desember 1976.
1977 Í janúar kemur til Bíldudals 148 brl. stálskip sem fékk nafnið Steinanes BA-399 skipstjóri Ársæll Egilsson en um vorið tók Jón Guðröðarson við skipstjórn. Báturinn fór strax á línuveiðar frá Bíldudal.
Bæði skip Fiskvinnslunnar hf. voru gerð út á línu allt árið. Landróðrar á haustin og vetur en útilega á sumrin.
1978 Í ársbyrjun varð Pétur Þór að hætta skipstjórn á Hafrúnu BA vegna veikinda og við tók Jón Guðröðarson en við skipstjórn á Steinanesi BA tók Guðmundur Rúnar Einarsson. Í febrúar strandar Hafrún BA-400 við Austmannsdal í Arnarfirði þegar skipið var að koma úr línuróðri. Það náðist á flot stórskemmt og var marga mánuði frá veiðum vegna viðgerða. Á meðan var tekið á leigu línuskipið Guðmundur Péturs ÍS-1 (systurskip Péturs Thorst.) og fór áhöfn Hafrúnar á það skip og kláraði vertíðina.
Hafrún BA-400 kom svo um sumarið eftir úr viðgerð og fór strax á útilegu með línu, skipstjóri Pétur Þór Elíasson. En Pétur Þór veiktist fljótlega aftur og við skipstjórn tók Borgþór Hávarðsson frá Vestmannaeyjum.

1979 á vetrarvertíðinni voru gerð út tvö skip:

Hafrún BA-400 207 brl. Skipstjóri Borgþór Hávarðsson
Steinanes BA-399 148 brl. Skipstjóri Guðmundur Rúnar Einarsson

Það merkilegast við þessa vertíð var að Steinanes BA-399 varð aflahæsti línubáturinn á Vestfjörðum en Hafrún BA-400 langlægsti báturinn. Ekki voru bátarnir gerðir út um sumarið. Hafrún BA-400 var seld til Keflavíkur um sumarið og Röf hf (Guðmundur R. Einarsson) keypti Steinanes BA-399.Guðmundur seldi bátinn síðan 1981 til Keflavíkur

Fiskvinnslan hf. var því ekki með neina útgerð heldur tók upp samstarf við Tálkna hf. (Ársæll Egilsson og Bjarni Andrésson) Tálknafirði um að það félag gerði út bát sinn Frigg BA-4 249 brl. (systurskip Péturs Thorst. En hafði lengst af heitið Hafrún ÍS-400) frá Bíldudal og aflaði hráefnis fyrir Fiskvinnsluna hf. Um vorið hrundi vélin í Frigg BA-4 og var það frá veiðum vegna vélaskipta um sumarið. En Tálkni tók á leigu línubátinn Birgir BA-3 frá Patreksfirði og gerði út á grálúðuveiðar frá Bíldudal. Um haustið kom Frigg BA-4 úr vélaskiptum og var gerður út á línu og net. Einnig náðist samkomulag við Héðinn Jónsson Patreksfirði að skip hans Jón Þórðarson BA-180 (systurskip Péturs Thorst.) 249 brl. landaði afla sínum á Bíldudal.
Tálkni hf. var með í smíðum á Akranesi skuttogara sem átti að afhendast vorið 1980 og gerði Fiskvinnslan samning við Tálkna hf. um að aðstoða við fjármögnun smíðarinnar gegn löndunarsamningi til 5 ára.

1980 voru gerð út frá Bíldudal:

Frigg BA-4 249 brl. Skipstjóri Einar Jóhannsson
Jón Þórðarson BA-180 249 brl. Skipstjóri Gísli Kristinsson
Sölvi Bjarnason BA-65 404 brl. Skipstjóri Sigurður H. Brynjólfsson (byrjaði veiðar í apríl)
Ársæll Egilsson

1980 Nýsmíði Tálkna hf. kemur til Bíldudals, skuttogarinn Sölvi Bjarnason BA-65 404 brl. Skipstjórar: Sigurður H. Brynjólfsson og Ársæll Egilsson. Skipið fór fljótlega á veiðar og gekk vel og 1. júní var það búið að landa um 1000 tonnum mest grálúðu á Bíldudal. Allur rekstur togarans gekk vel og vel staðið að útgerð hans af hendi Tálkna hf. Eins má ekki vanmeta þátt Sigurðar H. Brynjólfssonar hvað reksturinn gekk vel. Fljótlega kom í ljós að þeir togarar sem smíðaðir voru hér á landi bjuggu við verri lánakjör en þeir sem smíðaðir voru erlendis og lentu þau öll í miklum vanskilum við Fiskveiðasjóð sem hafði fjármagnað smíði þeirra og krafðist sjóðurinn útgerðir þeirra stöðugt um meiri greiðslur sem þrengdi mjög að útgerð þeirra. Var því svo komið að 1983 var Tálkni komin í talsverða greiðsluerfiðleika. Var þá gripið til þess ráðs að Fiskvinnslan hf. tók skipið á leigu í eitt ár frá sept. 1983 til sept. 1984. en þá var skipinu lagt og síðar um haustið boðið upp og eignaðist Fiskveiðasjóður skipið ásamt tveimur öðrum togurum sem, voru boðnir upp á svipuðum tíma.
1984 Nú var gert samkomulag við Héðinn Jónsson Patreksfirði sem kominn var með nýtt skip Jón Þórðarson BA-180 191 brl. með línubeitningarvél, um að hann gerði bátinn út frá Bíldudal og fór talsverður hluti af áhöfn Sölva Bjarnasonar BA-65 á bátinn og var hann gerður út frá Bíldudal þann tíma. Sem Sölvi Bjarnason BA var ekki á veiðum.
1985 Um haustið kaupir Fiskvinnslan hf, línubátinn Happasæl GK-225 frá Garði 247 brl. og fékk það nafnið Steinanes BA-399. Skipstjóri var Ársæll Egilsson og síðar Guðmundur Kristinsson.
1986 Er stofnað dótturfyrirtæki Fiskvinnslunnar hf. Útgerðarfélag Bílddælinga hf. sem 19. febrúar kaupir Sölva Bjarnason BA-65 af Fiskveiðasjóði og kemur skipið til Bíldudals í mars og hefur þá fljótlega veiðar Skipstjóri var Sigurður H. Brynjólfsson. Steinanes BA-399 var þá selt til Ísafjarðar en í þeim samningi var ákvæði um að skipið yrði gert út á net frá Bíldudal á vetrarvertíð næstu 3 ár en það var aðeins á vertíðinni 1987 sem staðið var við þetta ákvæði, þar sem báturinn var fljótlega seldur frá Ísafirði. Ekki reyndust lengur forsendur til að gera Jón Þórðarson BA-180 út frá Bíldudal, eftir að Bílddælingar eignuðust Sölva Bjarnason BA, þar sem stór hluti af áhöfn hans fór yfir á togarann.
1986-1989 er Sölvi Bjarnason BA-65 nánast eina skipið sem gert er út á bolfiskveiða frá Bíldudal, Sigurður H. Brynjólfsson var skipstjóri á skipinu allan tíman 1. stýrimaður og afleysingaskipstjórar voru; Jón Þórðarson, Bíldudal, síðan Guðlaugur H. Þórðarson, Bíldudal og síðast Kristján Hörðu Kristinsson, Bíldudal. Yfirvélstjóri allan þann tíma sem skipið var í eigu Bílddælinga var Kristófer Kristjánsson, Bíldudal
1988 Gerir Útgerðarfélag Arnfirðinga hf. tilraun til að kaupa lítinn skuttogara frá Ólafsvík Jökul SH-215 til að bæta kvótastöðu sína en Rækjuver hf. kom þar óvænt inní og keypti skipið. Hlaut það nafnið Þröstur BA-48, skipstjóri Guðlaugur H. Þórðarson, Bíldudal. Þröstur BA-48 var gerður út á rækju og frysti aflann um borð. Hann var Ýmist gerður út frá Bíldudal eða Blönduósi. Þetta skip var selt til Akranes í febrúar 1991. Sama ár er reynt að kaupa Baldur EA-108 295 brl. skuttogari en KEA gekk inní tilboð Bílddælinga en KEA var einn af þremur eigendum skipsins. Í framhaldi af þessu fer Jakob Kristinsson, framkvæmdastjóri ásamt Magnúsi Guðjónssyni, kaupfélagsstjóra á Þingeyri að ræða við Byggðastofnun um stofnun á nýju útgerðarfélagi sem Byggðstofnun, Landsbankinn. olíufélög og tryggingafélög ætluðu að setja verulegt hlutafé í (Nokkur hundruð milljónir.en á þessum tíma var rekstur margra félaga á Vestfjörðum erfiður. Hugmyndin var sú að félagið hefði aðsetur á Bíldudal og væri stjórnað þaðan (Skrifstofuhald, fjármál ofl.) en skipin skráð í sínum höfnum og miðluðu afla til frystihúsanna. Sem sagt algerlega skilið á milli vinnslu og veiða. Hægt hefði verið að ná fram hagræðingu í útgerðinni, frystihúsin geta sérhæft sig í ákveðnum tegundum. Auk þess með mikilli aukningu hlutafjár hefði verið hægt að auka aflaheimildir. Þessi skip sem renna áttu inní hið nýja félag voru:
Nafn skips Heimahöfn Stærð Viðbrögð: Afdrif:
a) Sölvi Bjarnason BA-65, Bíldudal 404 brl. Samþykkt Farinn m.kvóta
b) Tálknfirðingur BA-325 Tálknafirði 351 brl. Hafnað Farinn m.kvóta
c) Sigurey BA-25 Patreksfirði 491 brl. Hafnað Farinn m.kvóta
d) Framnes ÍS-708 Þingeyri 407 brl. Samþykkt Farinn m.kvóta
e) Sléttanes ÍS-808 Þingeyri 472 brl. Hafnað Farinn m.kvóta
f) Elínu Þorbjarnardóttur Suðureyri 375 brl. Samþykkt Farinn m.kvóta
g) Þrymur BA-7 Patreksfirði 321 brl. Hafnað Farinn m.kvóta
h) Sigurvon ÍS-500 Suðureyri 197 brl. Hafnað Farinn m.kvóta
Heildarkvóti allra þessara skipa var á þessum tíma um 18 til 20 þúsun tonn. Hægt hefði verið að kaupa auknar aflaheimildir og setja félagið á hlutabréfamarka og ná þar í fjármagn. Hugsanlega hefðu fleiri staðir á Vestfjörðum haft áhuga á að vera með. Staðir sem áttu eftir að missa sína togara. En því miður bar okkur ekki gæfa til að starfa saman að þessu og þau viðbrögð sem Jakob og Magnús fengum hér heima fyrir urðu til þess að Byggðastofnun og Landsbankinn misstu áhugann. Menn kusu heldur hrepparíg og berjast hver á sínum stað og afleiðingin varð sú að togararnir og mest allur kvóti var tekið frá okkur. Einhverjar leifar munu vera eftir á Ísafirði af kvóta þessara skipa.
1989 Er stofnað í Reykjavík Íslenska Úthafsútgerðarfélagið hf. sem tókst að fá leyfi til að vinna um borð í verksmiðjuskipi ufsa út á miðunum. Félagið keypti verksmiðjuskip sem fékk nafnið Andri I BA-190 skipið var 1542 brl. með heimahöfn á Bíldudal. Skipið fór vestur til Alaska á miðinn þar en allskonar tafir urðu og hindranir til að þessi tilraun gæti heppnast. En aðeins mun hafa vantað smá aðstoð af hálfu stjórnvalda til að þetta hefðist getað heppnast. Aðeins er mér kunnugt um einn hluthafa frá Bíldudal í þessu félagi en það var Magnús Björnsson, Stórir eigendur í þessu félagi voru: Jón Kristinsson sem lengi var hér á Bíldudal, Ragnar Halldórsson fv. Forstjóri ÍSAL, SH ofl. aðilar. Af því nú er mikið talað um útrás fyrirtækja þá mun þetta vera fyrsta tilraun sem gerð hafði verið til að fá að nýta fiskistofna í lögsögu annarra ríkja. En tilraunin mistókst og var skipið selt til Færeyja 1990
1989 Eru viðræður í gangi við Fáfnir hf. á Þingeyri um að Útgerðarfélag Arnfirðinga hf. kaupi 50% í togaranum Framnes ÍS-708 og fái 50% af afla skipsins. Þetta var komið það langt að forustumenn beggja félaga voru komnir til Rvk. til að undirrita samninga og stofna félagið Arnarnúp hf.. Þegar boð komu frá stjórnarformanni Fáfnis hf. Hallgrími Sveinssyni um að hann væri í viðræðum við Íshúsfélag Ísfirðinga hf. um kaup þeirra á 50% hlut í Framnesi og gekk það eftir og Arnarnúpur hf. var stofnaður en Ísfirðingar komu í stað Bílddæling inní félagið. Skömmu seinna yfirtóku Ísfirðingar allt skipið og bættu svo um betur nokkrum árum seinna og yfirtóku líka hinn togara Þingeyringa Sléttanes ÍS-808. Má segja að Þingeyringar hefðu verið betur settir í samstarfi við Bílddælinga, þar sem fyrirtækin á báðum stöðum voru álíka sterk, þannig að hvorugur gat gleypt hinn.
1989 Stofnar Fiskvinnsla hf. ásamt Vesturver hf (Reynir Finnbogason), Bjarg hf. (Héðinn Jónsson), Þorsteini Jónssyni skipstjóra, Gunnari Héðinssyni og Hilmari Jónssyni, Útgerðafélagið Seljavík hf. Skipting hlutafjár var þannig að FB átti 40% Bjarg hf k 25% Vesturver hf 25% og sjómennirnir samtals 10%. Þetta félag keypti Lýting NS 207 brl.(áður Hafrún BA-400) og fékk skipið nafnið Vigdís BA-77 skipstjóri var einn af eigendunum Þorsteinn Jónsson. Skipið var gert út frá Patreksfirði á línu og aflaði vel. Um sumarið var það gert út á rækjuveiðar. Aflanum var skipt á milli þriggja eigenda í sömu hlutföllum og eignaraðild þeirra var.

1990 Kaupir Útgerðarfélag Bílddælinga hf. vélskipið Glað HU-67 186 brl.frá Hvammstanga og fékk það nafnið Geysir BA-140. Skipið var á rækjuveiðum um sumarið en hóf róðra með línu frá Bíldudal um haustið. Skipstjóri var Ársæll Egilsson . Í árslok seldi Fiskvinnslan sinn hlut í Vigdísi BA-77 og fljótlega eftir það var skipið selt frá Patreksfirði.Geysir BA-140 fór um sumarið á rækjuveiðar og var skipstjóri þá Guðmundur Kristinsson, en réri með línu um haustið skipstjóri Ársæll Egilsson.
1991 Geysi BA-140 var gerður út með línu um veturinn og skipstjóri var Ársæll Egilsson en um sumarið fór skipið á rækju og tók Guðmundur Kristinsson þá við skipstjórn. Um haustið tók Útgerðarfélagið á leigu línubátinn Vonin ÍS-82 162 brl. og tók Ársæll Egilsson við skipstjórn þar en Guðmundur Kristinsson hélt áfram skipstjórn á Geysir BA-140 eftir að það skip hóf róðra með línu.

1992 Um veturinn gerir Útgerðarfélag Bílddælinga hf. út þjrú skip:
Geysir BA-140 186 brl. Skipstjóri: Guðmundur Kristinsson
Vonin ÍS-82 162 brl. Skipstjóri Ársæll Egilsson
Sölvi Bjarnason BA-65 404 brl. Skipstjóri: Sigurður H. Brynjólfsson
Kristján Hörður Kristinsson
Aðalástæða þess að Vonin ÍS-82 er tekin á leigu var sú að þá var möguleiki að ná meiri tekjum á Sölva Bjarnason BA-65 með því að setja hluta af afla hans í gáma og eins að láta skipið sigla með afla til Englands og Þýskalands. Þetta var mögulegt vegna þess að tveir stórir bátar sáu frystihúsinu fyrir hráefni enda var afkoman af rekstri Sölva Bjarnasyni BA-65 mjög góð þennan vetur. Tekjur skipverja á Sölva Bjarnasyni BA-65 voru mjög góðar og eins gátu skipverjar gert hagstæð innkaup erlendis þegar siglt var með aflann. Og þá er stutt í andskotans öfundina. Jakob Kristinsson og Magnús Björnsson sem voru í forsvari fyrir útgerð og vinnslu urðu varir við að verið var að rægja þá víða og það af mönnum sem tekið var mark á. Nýr útibústjóri Landsbankans á Bíldudal Ásgeir Sigurðsson skildi ekki að með auknum umsvifum þurfti aukið rekstrarfé. Hann hafði oft orð á því að við hefðum ekkert með togara að gera þar sem næg vinna væri í frystihúsinu þótt togarinn landaði þar ekki. Hann gleymdi sumrinu þegar frystihúsið hafði aðeins afla af togaranum. Við urðum eitt sinn að draga hann nauðugan á fund með Sverrir Hermannsonar í Landsbankann til að biðja um aukið rekstrarfé, sem Sverrir afgreiddi strax en Ásgeir tautaði stöðugt að þetta væri of mikið. Eins var með sveitarstjórn Bíldudalshrepps en skipst hafði um meirihluta þar 1990. Frá sveitarstjóranum kom talsvert slúður um Jakob og Magnús. Við vorum gagnrýndir fyrir að vera á of háum launum ofl. Það er rétt að við fengum góð laun en það var í samræmi við það sem tíðkaðist í hliðstæðum fyrirtækjum,
Enda þegar ég hóf minn feril sem framkvæmdastjóri átti ég samtal við Einar heitinn Guðfinnsson og hann sagði við mig “Passaðu þig á því að láta alltaf greiða þér góð laun og vera með hæstu skattgreiðendum á staðnum ef þú gerir það ekki verður álitið að þú stelir peningum frá fyrirtækinu”.
Það má segja að fyrirtækin voru nöguð innan frá af heimamönnum og inní þetta blönduðust ýmsir brottfluttir Bílddælingar sem langaði að gera stóra hluti á Bíldudal, sem þeir fengu reyndar tækifæri til síðar með stofnun “Þórðar kakala ehf.” og sýndu þar hæfni sína í rekstri.
1992 Félögin voru með nokkur lán í Landsbankanum þar af var eitt lán að fjárhæð 20 millj. í vanskilum og var búið að lofa að skuldbreyta því um haustið. Það var líka okkar ólán að sá bankastjóri sem var með mál Bíldudals í Landsbankanum ætlaði að sameina lán og lengja til að létta greiðslubirgði lést í hörmulegu flugslysi áður en þetta var framkvæmt. Þetta var Valur Arnþórsson.
Í júní 1992 var höggið látið falla. Kl.16-17 á miðvikudegi er hringt í Magnús Björnsson og í símanum er starfsmaður Hagdeildar Landsbankans sem tilkynnir að Landsbankinn segi upp öllum viðskiptum við Fiskvinnsluna hf og loki öllum reikningum og að bankinn krefjist þess að stjórnin lýsi félagið gjaldþrota. Ekki náðist í neinn af aðalbankastjórum bankans, þeir voru allir í fríi. Stjórn félagsins neitaði að verða við þessari kröfu bankans og ætlaði að verða sér úti um bankaviðskipt hjá öðrum banka því félagið var ekkert gjaldþrota og fór stjórnin til Reykjavíkur til viðræðna við Landsbankann og kynnti honum afstöðu sína. Bankinn fékk Byggðastofnun í lið með sér en sú stofnun var stór hluthafi í Fiskvinnslunni hf. Og nú kom örlagaríkt símtal frá forstjóra Byggðastofnunar þar sem hann tilkynnti að krafist yrði hluthafafundar og stjórnin sett af og væri Byggðastofnun búin að tryggja stuðning Bíldudalshrepps og þáverandi oddvita þess var Guðmundur Sævar Guðjónsson í samráði við sveitarstjórann Einar Matthiesen þessir tveir aðilar yrðu með meirihluta á hluthafafundi og gætu þar skipt um stjórn sem myndi lýsa félagið gjaldþrota.
Óskiljanlegt var af hverju sveitarstjórn Bíldudals var tilbúinn til að taka þátt í að rústa atvinnulífið á Bíldudal. Ef þeir Jakob og Magnús voru taldir óhæfir stjórnendur var einfaldlega hægt að segja þeim upp og sleppa þessu leikriti sem sett var upp til að losna við þá og sleppa við að rústa staðinn. Þegar þessi staða var komin upp neyddist stjórnin að fara á fund Héraðsdómara Vestfjarða og óska eftir að Fiskvinnslan hf. yrði tekin til gjaldþrotaskipta.

Jakob Kristinsson
Bíldudal

Ef einhver veit betur en hér kemur fram væru upplýsingar vel þegnar en sími minn er 823-2954 og netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.