Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Hafliði Magnússon

- Skáldið
[14.10.2002]
Hafliði Magnússon frá Bíldudal er fjölhæfur og dugandi listamaður. Hann semur ljóð og leikrit, söngleiki, teiknar, málar og grípur í hljóðfæri á góðri stund.

Haflidi01
Hafliði Magnússon

Hafliði hefur unnið mikið og gott starf til varðveislu gamalla sagna og heimilda úr Arnarfirði með skrifum sínum í eigin bækur og greinum í bókaflokkum og blöðum.

Ein af þekktari bókum Hafliða er Bíldudals grænar baunir, gamanvísur og alvörumál eins og segir á bókarkápu. Það hefur ósjaldan verið gripið til þessarar bókar þegar Arnfirðingar koma saman á góðri stundu. Lesa má úr vísunum ástand þorps í tuttugu ár, velgengni og vandræði, gleði og sorg, atvinnuástand og áhrif þess á fólk í byggðarlaginu.

Haflidi10

Bókin Arnarfjörður er samantekt af þjóðsögum, galdrasögum, kynjasögum og heimildum úr Arnarfirði, prýdd fjölda teikninga eftir Hafliða.

Gömul blöð frá Bíldudal 1903 - 1914 er stórskemmtileg bók unnin upp úr gömlu handskrifuðu blaði er Hvöt hét og var haldið úti af skeleggum mönnum í málfundarfélaginu Bíld. Menn létu sér ekkert óviðkomandi en einkum voru framfararmál byggðarlagsins höfð á oddinum. Rifjaðir eru upp ýmsir hálfgleymdir atburðir frá Bíldudal og úr Arnarfirði.

Hafliði, sem nú er fluttur til Selfoss ásamt Evu konu sinni, varð 67 ára á þessu ári. Hann er hættur að vinna en nýtir nú tímann til þess að sinna áhugamálum sínum, skriftum og listmálun sem hann stundar nú af miklum krafti.

Um Hafliða mætti skrifa langa ritgerð, svo margt hefur hann fengist við um dagana en það verður að bíða betri tíma. Grein þessi er prýdd með málverkum og teikningum eftir Hafliða. Nokkrar eru málaðar á Selfossi og þar um kring en aðrar eru frá Arnarfirði og Bíldudal.

Haflidi02
Bíldudalur

Haflidi03
Selfoss

Haflidi04
Bíldudalur

Haflidi05

Haflidi06

Haflidi07

Haflidi08
Höfðabrún og Brekka á Bíldudal

Haflidi09
Dalbraut á Bíldudal

Aðrar bækur eftir Hafliða:

Síðasti rauðskinninn, unglingasaga
Togarasaga með tilbrigðum
Syndugir svallarar

Leikrit og söngleikir:

Gísli Súrsson. Rokksöngleikur. Menntaskólinn á Ísafirði. Leikstjóri: Margrét Óskarsdóttir.
Sabína. Flutt af Litla leikklúbbnum á Ísafirði og Leikfélagi Akureyrar og valið til flutnings íslenskra verka á leiklistahátíð í Bergen. Leikstjórar: Margrét Óskarsdóttir og Saga Jónsdóttir.
Paradísarbær. Sviðsettur tvisvar af Leikfélaginu Baldri. Tónlist: Ástvaldur Jónsson.
Fjársjóður Franklíns greifa. Leikfélagið Baldur. Leikstjóri Oddur Björnsson. Tónlist Ómar Óskarsson.
Irja, klukkan er fjögur. Söngleikur, sýndur að hluta á Bíldudal.
Sólarlandaferðin. Leikfélagið Baldur og Leikfélag Patreksfjarðar.
Stína Vóler. Leikfélagið Baldur og Ríkisútvarpið. Höfundur var leikstjóri í þessum verkum.
Gifstu mér Rósa. Söngleikur um um Skáldrósu og Natansmálið.

Auk þess hefur Hafliði samið smásöngleiki og smásögur eftir hann hafa birst í blöðum og tímaritum. Allmargar greinar hafa birst í bókunum Frá Bjargtöngum að Djúpi, þá á Hafliði eina verðlaunasögu, hefur samið leikþætti fyrir útvarp, á texta á hljómplötum og fleira mætti til telja.