Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Guðmundur Thorsteinsson

- Muggur, Bíldudalsprinsinn
[13.02.2003]
Einhver dáðasti listamaður þjóðarinnar er Bílddælingurinn Guðmundur Thorsteinsson eða Muggur einsog hann er jafnan kallaður. Hann var fjölhæfur listamaður og þó ævi hans hafi verið stutt lét hann eftir sig verk sem eiga eftir að lifa um ókomin ár.

Guðmundur Thorsteinsson fæddist 5. september 1891 á Bíldudal, sonur hjónanna Ásthildar Guðmundsdóttur og Péturs Jens Thorsteinssonar eða Bíldudalskóngsins einsog hann er stundum nefndur.

Á Bíldudal unni pilturinn sér í leikjum í fjörunni og drakk í sig sögurnar hennar Dauju - Þórunnar Jónsdóttur sem bjó á bakarísloftinu og hafði þann starfa einan að segja börnunum sögur, af riddurum, tröllum og huldufólki. Seinna átti hann eftir að búa til myndir við ævintýrin, þar á meðal Búkollu, Gissur á Botnum og Sálina hans Jóns míns. Ævintýrin voru honum alla tíð mjög hugleikinn og kannski má segja að ævi hans hafi verið ævintýri útaf fyrir sig þar sem Muggur var prinsinn.

Gudmundur Thorsteinsson02
Guðmundur Thorsteinsson og Þórunn Jónsdóttir - Muggur og Dauja

Þegar Muggur var á tólfta aldursári flutti fjölskyldan til Danmerkur og þar nam hann list sína. Of langt mál væri að telja upp allan þann fjölda myndverka sem hann skildi eftir sig. Myndefnið var fjölbreytt en þó sótti hann mest í þjóðsögurnar og efni úr Biblíunni auk þess að teikna mannlífsmyndir úr nánasta umhverfi.

Fjölbreytileikinn var ríkjandi í list Muggs og hann leitaði víða fanga, gerði klippi-, kola-, og krítarmyndir auk blýants-, vatnslita- og olíumynda. Hann saumaði og tálgaði út dýr og þannig mætti lengi telja.

Af helstu verkum Muggs má nefna klippimyndina Sjöundi dagur í Paradís en eftirprenntun af þeirri mynd er til víða, blýantsteikninguna Kossinn, altaristöfluna Kristur læknar sjúka sem er í Bessastaðakirkju, myndina Kolaburður af kolaburði kvenna í Reykjavík, en ekki tíðkaðist á Bíldudal að konur væru látnar skipa upp kolum, ólíumálverið Snæfellsjökull og Den bedrövede Prins eða Hryggi prinsinn.

Þekktasta verk Muggs er án efa ævintýrið Sagan af Dimmalimm - ein vinsælasta íslenska barnabókin frá því að hún kom fyrst út árið 1942. Sagan hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og árið 1970 var leikrit unnið upp úr henni og flutt í Þjóðleikhúsinu. Muggur stundaði listnám í Kaupmannahöfn, eins og áður sagði, og fór í námsferðir m.a. til Þýskalands, Bandaríkjanna og Ítalíu. Árið 1921 fór Muggur til Ítalíu og var megin tilgangur fararinnar að vinna að altaristöflu út frá stefinu Kristur læknar sjúka. Muggur fór með norsku saltflutningaskipi sem sigldi suður með ströndum Spánar og þaðan inn á Miðjarðarhaf. Á siglingunni samdi hann og myndskreytti Söguna um Dimmalimm. Ástæða þessa var að hann ætlaði í ferðinni að heimsækja systur sína Guðrúnu og mann hennar Gunnar Egilson sem bjuggu í smábænum Pegli skammt fyrir utan Genúa. Sagan var gjöf til Helgu dóttur hjónanna en Dimmalimm var gælunafn hennar. Og það var einmitt Helga Egilson sem samdi leikgerðina upp úr sögunni síðar meir.

Muggur myndskreytti einnig ljóðið Negrastrákana og Þulur eftir Theodóru Thoroddsen móðursystur sína. Þá teiknaði hann fyrstu íslensku spilin.

Árið 1921 stofnaði Muggur teikniskóla í Hellusundi 6 í Reykjavík og hélt hann í tvo vetur. Nemendur voru m.a. Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Sveinn Þórarinsson og Kristinn Pétursson.

En það var ekki bara myndlistin sem heillaði. Muggur þótti afbrags leikari, einkum í gamanleiknum og hélt ófáar skemmtanir í höfuðborginni. Þar fór hann með gamanmál og vísur og nutu þessar skemmtanir mikilla vinsælda en oftar en ekki rann ágóðinn til góðgerðamála. Hann lék síðan aðalhlutverkið, Ormarr Orlygsson, í kvikmyndinni Saga Borgarættarinnar sem er byggð á samnefndri sögu Gunnars Gunnarssonar og hlaut Muggur góða dóma fyrir leikinn.

Gudmundur Thorsteinsson01
Guðmundur Thorsteinsson - síðasta myndin

Guðmundur Thorsteinsson andaðist í Sölleröd á Sjálandi í Danmörku 26. júlí 1924 á 33 aldursári. Hann hafði farið til Suður-Frakklands að leita sér lækninga við brjóstveiki en versnaði þar, sneri heim aftur til að deyja en komst ekki lengra. Lík hans var flutt heim til Íslands og jarðsett í Hólavallagarði í Reykjavík (B22-0011). Á leiði hans er steyptur steinn með mósaíkmynd sem danskur vinur hans, Elof Risebye prófessor í Kaupmannahöfn, gerði. Við höfðalag leiðis hans hvílir elsta systir hans Katrín Thorsteinsson Briem.

Árið 1958 gaf Elof Riseby Listasafni Íslands 46 verk eftir Mugg en Riseby hafði safnað skipulega verkum eftir hann frá árinu 1927.

Árið 1981 var reistur á Bíldudal minnisvarði um Mugg og er hann eftir Guðmund Elíasson myndhöggvara.

Nú síðast í október árið 2002 var á Bíldudal frumsýnt af Kómedíuleikhúsinu leikverkið Muggur eftir undirritaðann og Vigdísi Jakobsdóttur.

Þann 16. desember 2002 voru Íslensku myndskreyti verðlaunin Dimmalimm veitt í fyrsta sinn fyrir bestu myndskreytingarnar í barnabók sem gefin var út á árinu. Það var barnabarn systur Muggs og nafna hennar Guðrún Egilson sem afhenti verðlaunin fyrir bókina Engill í vesturbænum.

Og þannig heldur sagan áfram...

Elfar Logi Hannesson (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. )