Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Guðmundur Sigurðsson

- Bakari og lífskúnstner
[27.01.2003]
Guðmundur Sigurðsson bakari var fæddur að Úthlíð í Biskupstungum 2. júní 1876. Sextán ára að aldri fluttist Guðmundur til Reykjavíkur og gerðist aðstoðarmaður í bakaríi hinna svokölluðu Sturlubræðra. Til Bíldudals réðist hann svo um aldamótin sem bakari til Péturs Jens Thorsteinssonar og átti þar heima til æviloka.

GudmundurSigurdsson
Guðmundur Sigurðsson bakari

Skemmtanalíf var þá í allmiklum blóma á Bíldudal í ekki mannfleira þorpi, dansleikir haldnir alloft og grímuböll haldin á hverjum þrettánda.

Fyrsti sjónleikurinn (einþáttungur) var leikinn veturinn 1894-1895 í svokölluðu Bryggjuhúsi. Árið 1879 byggði stúkan Iðunn Baldurshaga og síðan voru haldnir þar sjónleikir og aðrar skemmtanir. Umboðsmaður stúkunnar var þá Þorsteinn Guðmundsson, múrari úr Hafnarfirði, hinn strangasti bindindismaður er starfaði að félagsmálum af lífi og sál, tóku þeir Þorsteinn og Guðmundur, er líka var bindindismaður, höndum saman um öll félags- og menningarmál. Veturinn 1899 var Skugga-Sveinn leikinn, Guðmundur lék sýslumanninn og þótti röggsamur í embættinu.

Ári áður var stofnað málfundafélagið Bíldur og var Guðmundur einn af stofnendum þess og var jafnan í fararbroddi. Margar þær framfarir er síðar urðu áttu þar upptök sín þar svo sem vegurinn fram að Litlueyri, kirkjubyggingin, rafstöðin, læknabúseta á Bíldudal, grafreitur o.fl. Guðmundur var lengi formaður málfundafélagsins og ungmennafélagsins, átti lengi sæti í hreppsnefnd og lét kirkjumál mjög til sín taka og gegndi starfi organista og meðhjálpara.

Þegar Guðmundur hætti bakarastörfum keypti hann Baldurshaga og stundaði verslun. Í Baldurshaga var allstór stofa og leigði Guðmundur hana til skemmtana og fundarhalda fyrir lítið gjald og stundum ókeypis. Þar var og að staðaldri opið hús á kvöldin og oft fjölmennt við spil og tafl við fjörugar samræður. Lá því betur á Guðmundi sem fleiri voru viðstaddir.

Guðmundur var mikill vinur kirkju og kristindóms og las mikið um þau efni. Hann var maður óvílsamur og oft lét honum vel að koma auga á hinar broslegu hliðar hversdagleikans og gat gætt þær lífi og lit. Fyrsta útvarpstækið eignaðist Guðmundur er fyrri útvarpsstöðin starfaði og þótt illa heyrðist var oft fjölmennt við þær útsendingar þótt ófullkomnar væru.

Guðmundur bjó alla tíð einn og ókvæntur og átti enga afkomendur. Hann andaðist á Bíldudal 9. nóvember árið 1943.

Grein þessi, lítið eitt stytt, er eftir Jón G. Jónsson og er í leikskrá Leikfélagsins Baldurs 1975 þegar félagið sýndi Ég vil auðga mitt land.