Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Guðmunda Magnúsdóttir

- Leikkona á Bíldudal
[17.01.2003]
Guðmunda Magnúsdóttir var fædd 20. júlí 1910 og dóttir hjónanna Magnúsar Jónssonar og Ingunnar Jensdóttur.

Gudmunda Magnusdottir

Guðmunda tók um skeið mikinn og virkan þátt í félagslífi og leikstarfi á Bíldudal og hefur efalaust notið í því efni leiðsögu og hvatningar föður síns, hins ágæta leikara. Guðmunda var tvímælalast gædd ríkri leikgáfu, en lét e.t.v. bezt að fara með alvarleg og dramatísk hlutverk.

Samtíðarmenn hennar munu minnast hennar í hlutverki frú Heinecke í Heimkomunni eftir Södermann, kammerráðsfrú Krans í Ævintýri á gönguför eftir Hostrup - en í bæði skiptin var faðir hennar aðalmótleikarinn og var þá ekki að sökum að spyrja um samleikinn, en e.t.v. lék hún aldrei betur en í titilhlutverki Tengdamömmu eftir Kristínu Sigfúsdóttur.

Margt fleira en leikgáfa var henni vel gefið sem hér verður ekki talið.

Guðmunda giftist Júlíusi Jónassyni frá Reykjarfirði og bjó á Bíldudal. Guðmunda lézt árið 1954 aðeins 44 ára að aldri. Orðstír hennar lifir enn.

Byggt á texta Ingimars Júlíussonar í leikskránni Olympíuhlauparinn frá 1972 sem Leikfélagið Baldur gaf út. Mynd úr leikskrá.