Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Gísli Jónsson

- Alþingismaður og velunnari Bíldudals
[09.10.2002]

Gísli Jónsson er fæddur í Litlabæ á Álftanesi 17. ágúst 1889 og látinn 7. október 1970. Foreldrar hans voru Jón Hallgrímsson og Guðný Jónsdóttir. Þau bjuggu á Bakka í Ketildölum frá 1901 - 1912 og svo aftur frá 1914 - 1920. Jón stóð fyrir stofnun verslunar, fiskvinnslu og útgerðar í Bakkadal og var vel Þekktur fyrir heiðarleika og ráðvedni. Gísli stundaði ungur sjómennsku hjá föður sínum og var þar m. a. farsæll formaður á bátum föður síns.
    Gísli giftist 3. júlí 1920. Kona Gísla var Hlín Þorsteinsdóttir fædd 5. desember 1899, látin 9. nóvember 1964. Börn þeirra eru Guðrún fædd 1921, Þorsteinn fæddur 1924 og Haraldur fæddur 1928.

Gisli Jonsson
Gísli Jónsson alþingismaður

Kunnir bræður Gísla eru Guðmundur Kamban rithöfundur og Jón J. Maron sem rak smávöruverslun, stundaði útgerð á Bíldudal og bjó í Sólheimum ásamt konu sinni Bjarnfríði Sigurðardóttur.

Árið 1938 kaupir Gísli Bíldudalseignir og átti staðinn þar til 1953 er hann með gjafabréfi afhenti Suðurfjarðahreppi lóðir þær og lendur er þá voru enn óseldar. Gísli rak verslun og útgerð á Bíldudal fram á miðjan fimmta áratuginn. Á þeim tíma reisti hann og rak m.a. rækjuvinnslu og fiskimjölsverksmiðju en hann var upphafsmaður Matvælaiðjunnar á Bíldudal sem framleiddi m.a. hinar frægu Bíldudals grænar baunir og Bíldudals handsteiktar kjötbollur.

Gísli nam járnsmíði á Ísafirði 1908—1909, vélsmíði í Englandi 1914 og Kaupmannahöfn 1915. Hann stundaði nám við vélfræðideild Stýrimannaskólans 1913—1914, við Vélstjóraskóla Íslands 1915— 1916 og lauk prófi frá honum.

Gísli var kyndari 1910—1911, vélstjóri á togurum 1911—1913, vélstjóri á strandferðaskipum 1914—1915, vélstjóri á skipum Eimskipafélags Íslands 1915 og 1917, yfirvélstjóri á skipum þess 1918—1924. Skipaður 1924 umsjónarmaður skipa og véla, sá um smíði allra nýsköpunartogara ríkissjóðs 1945—1950, lausn 1968. Jafnframt framkvæmdastjóri ýmissa félaga og fyrirtækja í Reykjavík og á Bíldudal frá 1933.

Sat í sjó- og verslunardómi Reykjavíkur 1933—1937. Formaður Vélstjórafélags Íslands 1919—1924. Kosinn 1942 í úthlutunarnefnd bifreiða. Skipaður 1942 í skipulagsnefnd skipaviðgerða, 1943 í mþn. um skipasmíðastöð í Reykjavík og skipulagningu strandferða, 1943 í Reykhólanefnd, 1944 í mþn. um póstmál. Átti sæti í mþn. um vernd barna og unglinga á glapstigum 1947—1948. Í Þingvallanefnd 1950—1957, formaður. Í Norðurlandaráði 1952—1956 og 1959—1963, formaður Íslandsdeildar þess 1959—1963, forseti ráðsins 1960, varaforseti 1959 og 1961—1963. Í kosningalaganefnd 1954 og í mþn. í sjávarútvegsmálum 1956. Í byggðajafnvægisnefnd 1954—1956. Í stjórn landshafnar í Rifi 1951—1960 og 1953 og 1960 í skattalaganefnd.

Alþingismaður Barðastrandasýslu 1942—1956 og 1959, alþingismaður Vestfjarða 1959—1963 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Forseti Efrideildar 1953—1956. 2. varaforseti Efrideildar 1942—1943 og 1946— 1947.

Gísli samdi ferðasögur og á síðustu æviárunum æviminningar: Frá foreldrum mínum, og nokkrar skáldsögur.