Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Bjarni Valdimarsson

- Senjor listamaður
[21.02.2003]
Bjarni Þórarinn Valdimarsson, sem nefndur var Senjor, var með ágætustu listamönnum á Bíldudal meðan hann var og hét.

Bjarni01
Bjarni vinnur að leikmynd fyrir Mýs og menn
sem Leikfélagið Baldur setti upp

Bjarni var fæddur á Bíldudal 8. nóvember 1913 og lést 2. júlí 1972. Hann vann hverskonar verkamannavinnu sem ungur maður, svo sem fiskvinnu o.fl. Hann varð snemma hallur undir skoðanir vinstri manna, enda var lífsbaráttan hörð á þessum árum og skarpari skil í stjórnmálaskoðunum fólks en í nútímanum.

Bjarni02
Gísli Kristjánsson, Sigurjón Ólafsson og Bjarni

Hann fór ungur til Akureyrar og nam listmálun hjá Hauki Stefánssyni listmálara sem hafði numið málaralist við listaskóla í Chicago. Eftir að Bjarni kom til baka til heimaþorpsins vann hann mikið að myndlist, ásamt því sem hann tók að sér viðgerðir og málun á ýmsum smíðisgripum fyrir fólk. Fjölmörg málverka hans eru af fjallasýn og umhverfi fjarðarins, sem hann hafði mikla ást á. Hann vann einnig talsvert við húsamálun.

Hann kvæntist aldrei, en bjó hjá foreldrum sínum í húsinu Sælundi, sem stendur niður við sjóinn í fallegu umhverfi. Eftir lát foreldranna bjó hann þar áfram ásamt Ingólfi bróður sínum.

Bjarni gerði lítið af að halda sjálfstæðar sýningar og kannske var sá hluti listframkvæmdanna ekki við hans hæfi, en hann var fullur vilja að vera þátttakandi í sýningum ef aðrir sáu um framkvæmdirnar. Hann seldi samt talsvert af myndum í vinnustofu sinni, sem var lítið hús við sjávarströndina, sem hann nefndi París.

Bjarni03
Útbogun

Hann hafði snemma gaman af að renna sér víni í staup og undir þeim kringumstæðum hætti honum til að gefa málverk sín í ýmsar áttir eða að selja þau fyrir lítinn pening og fékk þar margur maðurinn listaverk á ódýran hátt.

Ég, sem þetta skrifa, man þó eftir eldri vinnustofu Senjorsins, sem var lítið, steinsteypt hús rétt hjá smiðjunni og þá aðstöðu nefndi hann Dimmalimm. Þar rakst ég eitt sinn inn til Senjorsins sem unglingur og sat hann þá vel mildur yfir prímuss og sauð hangikjöt í vaskafati. Í baksýn stóð málverk á trönum.

Bjarni05

Hann hafði mikla þrá til Suðurlanda, svo sem Spánar, Ítalíu og Frakklands, þar sem möguleiki væri á að fá að fá að líta meistaraverk helstu listamanna þeirra þjóða, en aldrei varð honum að þeirri ósk sinni. En þegar hann hafði fengið sér hæfilega í gogginn af misgóðu víni gekk hann um þorpið með skakka spaníólu á höfðinu, talaði Esperantó og var í huga kominn til Spánar. Svo brá hann sér inn í vinnustofu sína, París, og spilaði á harmonikku ítalska lagið La Palóma í þrem útsetningum. Hann er fyrirmynd sögupersónunnar Soldánsins í bókinni Syndugir svallarar eftir undirritaðan.

Bjarni04

Málverk Bjarna undir steinboga í Bíldudalskirkju

Ég samdi í samvinnu við Jörund Garðarsson lag og ljóð um Senjorinn, sem bar titilinn af því gælunafni hans. Það var upphaflega flutt á þorrablóti á Bíldudal að listamanninum viðstöddum, en því miður lifði hann ekki að verða vitni að því, að það var sungið inn á plötu, sem iðulega var leikin í útvarpinu.

Bjarni malar
Bjarni málar

Ég hef sagt frá því í bók, að Gísli Halldórsson leikari sagði mér, að Senjorinn hefði kennt sér að leika öðrum fremur. Hann var að fara með mjög dramatískt hlutverk í leikferðalagi á Bíldudal, dró hverja setningu með þunga og hafði spennuþrungnar þagnir á milli. Senjorinn sat á fremsta bekk og var vel við skál. Hann gaf í athugasemdir milli setninga leikaranum til skapraunar og fór hann þá að hraða leiknum og að reyna að hleypa ekki Senjornum inn á milli. Þetta varð að lokum að harðri keppni þeirra á milli, enda styttist leiksýningin um tuttugu mínútur. Síðar kvaðst Gísli hafa komist að þeirri niðurstöðu, að þessi leikaðferð var miklu betri en hin fyrri og var Senjornum alla tíð þakklátur fyrir kennsluna. Senjorinn átti þetta gjarnan til ef hann var við skál á samkomum. Kona nokkur sagði mér, að hún hefði verið við messu í Hrafnseyrarkirkju á 17. júní og sátu þeir þá saman á fremsta bekk, Senjorinn og Garðar Waage, vel rakir. Þeir skutu sífellt merkum athugasemdum inn í ræðu prests og sagði konan, að þó að vísu hefðu þetta verið messuspjöll, hefði það verið svo fyndið, að erfitt hefði verið að varast hlátri.

Bjarni07

Eftir að ég flutti vestur aftur eftir nokkurra ára veru í höfuðstaðnum gerðist ég nágranni Senjorsins og við áttum nokkurt samneyti við myndgerðir og áhugamál á listasviðinu. Það stóð til að farnar yrðu bílferðir með málaratrönur í farteskinu til að víkka aðeins sjóndeildarhringinn í listaverkunum og jafnvel var rætt um ferðalag um Suðurlönd, en áður en af því gæti orðið lést Senjorinn og við nokkrir, sem vorum að fást við svipaða hluti og hann í frístundum bárum kistu hans úr kirkju. Okkur þótti heiður að því, að fá að votta Senjornum, vini okkar, þannig síðustu virðingu og það varð sjónarsviptir að persónu hans á staðnum.

Bjarni06
Fuglar

Myndina hér að ofan málaði Bjarni á kambinum við kofann sinn París, hann mun hafa notast við sjónauka og horft yfir í Byltuna og þar fundið þetta myndefni.

Hafliði Magnússon ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. )