Fólkið

Fólkið í sögunni og sagan í fólkinu - fólkið er sagan og sagan er fólkið.

Ástvaldur Jónsson

- Hljóðfæraleikari og lagasmiður
[17.04.2003]
Ástvaldur heitir fullu nafni Jón Ástvaldur Hall Jónsson og er fæddur í Otradal í Arnarfirði 8. desember 1943.

JonAstvaldurHallJonsson
Jón Ástvaldur Hall Jónsson

Ástvaldur ólst að mestu upp á Bíldudal hjá ömmu sinni og afa. Snemma fór að bera á áhuga hans og hæfileikum til tónlistariðkunar, en amma hans og afi bjuggu um tíma á Hóli í Bíldudal og þegar Ástvaldur sótti skólann í þorpinu gekk hann gjarnan með harmonikkuna á maganum og spilaði alla leiðina í skólann sem var rúmur kílómeter að gagna.

JAHJ01
Stúkutríóið

Harmónikkuna eignaðist Ástvaldur snemma og þá stofnaði hann ásamt tveimur félögum sínum svo nefnt stúku tríó. Síðar kom fram tríóið HGH, þar sem bræðurnir Hreiðar og Guðbjörn Jónssynir voru meðlimir.

JAHJ02
Facon

Síðar var stofnuð alvöruhljómsveitin Facon, sem aflaði sér frægðarorðs á landsvísu, enda spiluðu þeir félagar nokkuð víða um landsbyggðina og þar á meðal á Akureyri og gerðu þar mikla lukku. Í þeim félagsskap steig hinn þekkti söngvari Jón Kr. Ólafsson fyrstu frægðarspor sín og hefur þeim ferli ekki linnt síðan. Í hópi stofnenda hljómsveitarinnar voru einnig þeir Hjörtur Guðbjartsson sem jafnframt var hljómsveitarstjóri og Jón Ingimarsson. Bílstjóri hljómsveitarinnar var Gunnar Ólafsson.

Mannabreytingar urðu síðar í hjómsveitinni. S.G. hljómplötur, sem voru í eigu Svavars Gests, gerði plötu með hljómsveitinni og voru lögin mjög vinsæl í óskalagaþáttum um alllangan tíma og eitt lagið komst inn á tíu vinsælustu lögin í útvarpsþætti skömmu eftir að platan kom út. Það var hið fræga lag Ég er frjáls eftir Pétur Bjarnason, sem hefur reyndar verið hálfgert vörumerki og einkennishljómur söngvarans síðan, en Pétur var þá genginn í hljómsveitina.

Ástvaldur hefur samið fjöldann allan af fallegum lögum, sem lítt hafa þó komist útfyrir heimahéraðið, en synd er, að úrvali þeirra skuli ekki vera safnað inn á einn disk eða fleiri.

Ástvaldur og undirritaður unnu saman við gerð söngleikja árum saman, sem sýndir voru á leikfélagsskemmtunum, þar sem Ástvaldur samdi lögin, en undirritaður samdi leikritið, textana og leikstýrði.

Ástvaldur hefur leikið undir söngvum og gamanmálum á flest öllum skemmtunum hjá hinum ýmsu félögum í áraraðir og sjaldan eða aldrei hefur hann neitað beiðni um aðstoð í þeim efnum ef hann hefur haft tök á að sinna þeim.

Hann hefur stundað ýmis störf um dagana til sjós og lands, eins og gengur í hinum smáu byggðarlögum. Kona hans er Þuríður Sigurmundsdóttir, sem er söngmanneskja mikil og hefur verið drjúgur kraftur á sviði hjá leikfélaginu gegnum árin og í kirkjukór Bíldudalskirkju. Saman eiga þau syni þrjá, sem einnig eru hæfileikamenn á tónlistarsviðinu.

Hafliði Magnússon ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. )