Blöðin

- Gefin út af menningu og hugsjón

Jón Kr. Ísfeld

- Sóknarprestur, prófastur og rithöfundur
[27.12.2002]

Eiríkur Jón Kristjánsson Ísfeld var fæddur 5. september árið 1908 að Haga í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu. Hann var sonur hjónanna Jens Kristjáns Guðmundssonar bónda og útgerðarmanns í Neskaupstað og konu hans Júlíu Sigríðar Steinsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi árið 1932 frá Menntaskólanum á Akureyri, kennaraprófi 1934 og guðfræðiprófi árið 1942.

Jon Kr_Isfeld

Jón Kr. Ísfeld

Hann stundaði bæði kennslu og starfaði sem prestur. Eftir Jón liggur fjöldi skáldsagna, einkum barna- og unglingabækur. Hann skrifaði einnig fjölda greina og smásagna í blöð og tímarit. Einnig tók hann saman nokkur ritsöfn og ritstýrði ýmsum ritum, t.d. Seyðfirðingi, Árbók Barðastrandarsýslu og Geisla.

Jón Kr. Ísfeld lést þann 1. desember árið 1991. Árið 1992 veitti Arnfirðingafélagið Bíldudalskirkju áletraðan silfurskjöld til minningar um hann.

Séra Jón var settur sóknarprestur í Hrafnseyrarprestakalli 1942, honum var veitt Hrafnseyri 1943 og Bíldudalur 1944, hann var settur prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi 1955. Honum var veitt lausn frá prests- og prófastsstörfum 1961.

Frá þeim tíma og allt til ársins 1977 þjónaði hann Æsustaðaprestakalli í Austur-Húnavatnssýslu, Hjarðarholtsprestakalli í Dölum, var prófastur í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi og prestur í Norðfjarðarprestakalli.

Séra Jón sat í stjórn Prestafélags Vestfjarða frá 1946 til 1961, formaður 1954. Var í skólanefnd Héraðsskólans á Núpi um skeið.

Kona séra Jóns Kr. Ísfeld er Auður Halldórsdóttir Ísfeld. Þau eignuðust einn son, Halldór Kristján Hauk Ísfeld og fósturdóttir þeirra er Auður Björnsdóttir.