Blöðin

- Gefin út af menningu og hugsjón

Smáauglýsingar úr Arnfirðingi

- Veita innsýn í líf Bílddælinga um aldamótin 1900 

Hrútur
Mannýgur, er að spássera hjer um stígana og gera mein smábörnum; var einu nýlega bjargað frá honum. - Arnfirðingur nóvember 1901

Yfirlýsing
Jeg undirskrifaður lýsi yfir því, að jeg neyti einskis áfeingis hjer eftir, hverju nafni sem nefnist og eru það vinsamleg tilmæli mín við alla að þeir bjóði mjer ekki neitt áfeingi undir neinum kringumstæðum. Staddur á Bíldudal, 13. Des. 1901. Einar Sigurðsson Sivertsen. - Arnfirðingur 11. janúar 1902

Heiðruðu Vestfirðingar, viðskiptavinir!
Um leið og jeg þakka yður fyrir góð viðskifti undanfarna tíð, vil jeg láta yður vita, að jeg hefi nú selt skósmíðaverkstæði mitt á Bíldudal herra skósmið Samúel Pálssyni. Og mjer er sönn ánægja að mæla fram með honum sem góðum dreing og ágætum skósmið og vona því að þjer sýnið mjer og honum þá velvild að skifta við hann framvegis. p.t. Bíldudal 10. Febr. 1902. Benedikt Stefánsson. Skósmiður. - Arnfirðingur 13. febrúar 1902

Jarðir til sölu
Höfubólið Hóll hjer í Bíldudal með hjáleigunum Hólshúsi og Hólakoti er til sölu. Jörðinni fylgir vandað timburhús og á hjáleigunni, Hólshúsum, nýbygð baðstofa, og á báðum jörðum eru öll útihús í góðu ásigkomulagi. Enn fremur er til sölu: Ábúðarjörðin Auðihrísdalur. Lysthafendur eru beðnir að snúa sjer til undirritaðs eiganda jarða þessara. Bíldudal 20. Júní 1902 P. J. Thorsteinsson. - Arnfirðingur 21. júní 1902