Aðsent efni

Ævintýri Jóa á gönguför 2014

Ævintýri Jóa á gönguför 2014

Einn af okkar kraftmestu félögum í Arnfirðingafélaginu er Jóhann Gunnarsson, oft í daglegu tali okkar Bíldælinga kallaður Jói Öddu. 

 Á sólríkum apríldegi vorið 2014 mætti hann á Kaffikallana með veglega áætlun um fjallgöngu frá Verdölum í Arnarfirði síðar um sumarið.

Eins og glögglega má sjá hér á myndunum vakti áætlun Jóa verulegan áhuga og ýmsir lýstu áhuga á að taka þátt í göngunni.  

Kortin hans Jóa voru stúderuð af miklum móð og greinilega mátt sjá þann orkuinnspýting sem kom yfir ýmsa sem þarna voru.

Líklega hafði Jói gleymt að semja við veðurguðina um gott veður, því á þeim tíma sem gönguferðin átti að verða, var stöðugt leiðindaveður, rigning og þokusuddi til fjalla.  Ekkert gaman að vera í fjallgöngu í slíku veðri. 

Frekar en gera ekkert gengu þeir Jói og Gummi formaður frá Bíldudal og út í Ketildali. Þrátt fyrir að gott væri að tylla sér á stein í fjöruborðinu til að fá sér bita og horfa um leiða á gulan fjörusandinn og kyrrlátt hafið, fannst Jóa þetta samt ekki nóg. Hann vildi ganga fjöll. 

Keyrði formaðurinn hann þá fram á gamla skíðaskálanum sem var rétt við veginn yfir Hálfdán og þar lagði Jói í sína langþráðu fjallaferð.

Í fallegu veðri lagði Jói af stað frá skíðaskálanum og stefndi upp að Hnjúk, með áform um að ganga yfir í Hvestudal. Eins og sönnu náttúrubarni sæmir varð Jói næsta samstundis horfinn inn í undraheim hinnar miklu náttúrufegurðar sem á þessu svæði er. Röskum skrefum gekk hann upp á öxlina til hliðar við Hnjúkinn og horfði þar yfir kyrrlátt Hnúkavatnið, þar sem Álftahjón með tvo unga syntu rólega í veðurblíðunni. 

Eftir að hafa virt þessa virðulegu fugla fyrir sér um stund, hélt Jói göngunni áfram og stefndi til fjalls. Þegar hann var kominn góðan spöl upp í hlíðina staldraði hann við og horfði til baka yfir Hnjúkinn og Hnjúksvatnið. Falleg sjón.

Jói er röskur göngumaður og áður en varði var hann kominn upp á topp Hvestufjalls og horfði niður í Hvestudal og út á Arnarfjörðinn lognsléttann og fagrann. 

Þarna staldraði Jói við um stund og drakk í sig þá yndislegu orku sem þarna var, ásamt útsýninu glæsilega.

Nú lá leiðin niður í móti hjá Jóa og gekk hann sem leið liggur niður í hvilft sem er í fjallinu Hvestu megin. 

Þegar þangað kemur verður hann afar hissa að sjá þar nautgipi á beit, svona langt frá mannabyggðum.

Jói sest niður og fer að hugleiða þetta samtímis því að horfa á gripina. Þá fær hann óviðráðanlega löngun til að halla sér útaf smá stund og njóta í botn þeirrar kyrrðar sem þarna var. Liggur hann nú um stund með lokuð augun en finnst svo allt í einu eins og horft sé á sig.

Þegar hann opnar augun horfir hann á fjallsenda þar sem nokkur þúst er fremst á fjallinu.  Finnst honum þessi þúst fara á hreyfingu og færast nær, þar til hann sér að þarna er undurfögur álfkona á ferð.  Álfkonan beinir sprota sínum í átt til Jóa og segir seiðandi röddu.

Þú mennski maður vilt þú reka nautgripi mína niður í dalinn, á beitilandið sem þar er.

Jói, undir þeim sterku áhrifum sem frá töfrasprotanum stafaði, spratt á fætur og sagðist skyldi koma gripunum niður í dalinn.

Ég mun launa þér ríkulega, sagði álfkonan.

Þegar Jói leit við, til að líta á álfkonuna var þar engin og hrúgan á fjallsendanum var á sínum stað.

Jói fór nú að reka nautgripina niður í dalinn og þegar þangað var komið, birtist álfkonan að nýju og sagði honum að koma með sér og þiggja umbun sína fyrir þann mikla greiða sem hann hefði gert sér.

Leiddi álfkonan Jóa nú í sitt steinhús og bar honum þar stórt silfurfat fullt af sviðakjömmum. Jóa varð á að hugsa hvernig hún hefði geta vitað að sviðakjammar var sá besti matur sem hann gæti óskað sér. Hann velti ekki frekar vöngum yfir því heldur tók hraustlega til matar síns, því hann var orðinn svangur, eftir gönguna.

Þegar Jói hafði borðað nægju sína bað álfkonan hann að koma með sér út í hesthús því hún ætlaði að tryggja honum fljóta og létta ferð heim á Bíldudal. Einhverjum töfrum hefur álfkonan trúlega slegið á Jóa því hann vissi ekki af sér fyrr en hann var kominn inn á Bíldudal. Þar kvaddi álfkonan hann og sagði hann mikinn gæfumann verða ef hann héldi áfram að vera svona bóngóður við þá sem væru hjálpar þurfi.

SÖGULOK

Jói vill færa þessari álfkonu kærar þakkir fyrir veitingar og þann greiða sem hún gerði honum við heimkomuna og segir sögu sína renna styrkum stoðum undir þjóðsöguna um að álfkonur launi ríkulega þann greiða sem þeim er gerður.