Aðsent efni

Fyrirboðar

Nokkur orð um tilurð þessara frásagna.

Faðir minn, Guðbjartur Ólafur Ólason (16/6 1911- 10/12 2003) var sjómaður fyrri hluta ævinnar og þá lengst  frá Bíldudal.  Eftir að hann flutti til Reykjavíkur 1963 vann hann hins vegar við bókhald.  Eftirfarandi frásöguþættir eru þannig tilkomnir að hann sagði mér söguþráðinn í símtali og síðan sló ég frásögnina inn á tölvu fljótlega á eftir.  Bar svo niðurstöðuna undir hann og leiðrétti eftir þörfum.  Af þessu sést að hér er ekki um nein vísindi að ræða heldur lauslegar frásagnir úr minni aldraðs manns.  Hending réði að ein frásögnin er skráð í þriðju persónu en tvær í fyrstu persónu.  Ég hef gefið öllum frásögunum heildarnafnið Fyrirboðar vegna þess að með nokkrum rétti á sú fyrirsögn við þær allar.

                                                                                                                    Óli Þ. Guðbjartsson

 

Fyrirboðar.

I.

                Vélskipið Geysir BA 10 var keyptur til Bíldudals árið 1932 frá Akureyri.  Eigandi og útgerðarfélag skipsins hét Sléttanes h/f en aðalforvígismaður þess var Samúel Pálsson kaupmaður á Bíldudal.  Annar máttarstólpi í félaginu var Kristján Árnason, sem var skipstjóri á skipinu en hann var mágur Samúels.  Aðrir eigendur voru 20 Arnfirðingar og flestir Bílddælingar sem einnig voru skipverjar á Geysi um lengri eða skemmri tíma.  Flest næstu sumur var Geysi haldið til síldveiða fyrir norðan land.

                Eitthvert þessara sumra höfðum við verið við síldveiðar rétt innan við Grímsey á Steingrímsfirði en lítið fengið.  Þá fréttist af góðum síldartorfum austur við Rauðanúp.  Var þá umsvifalaust ákveðið að keyra þangað austur.

               Veðri var þannig háttað að nánast logn var er við lögðum af stað austur yfir Húnaflóa en hins vegar var lá afar dimm þoka yfir flóanum.  Kristján Árnason skipstjóri setti stefnuna fjórar mílur út af Skallarifi, hengdi jafnframt spjald upp í brúnni þar sem á stóð hve lengi við ættum að stíma í þessa stefnu áður en við breyttum svo beint í austur.  Hann fór síðan í koju en við Hermann Friðriksson áttum næstu tveggja tíma vakt á milli klukkan tvö og fjögur um nóttina.

                Hermann sagði við mig:  “Vertu þú í glugganum, þú hefur sjónina, ég skal halda um pinnann.”  Hann átti við stýrið.  Gekk nú allt tíðindalaust.  Við Hermann stóðum okkar vakt, hann við stýrið en ég á útkíkki í glugganum stjórnborðsmegin.

                Heldur er nú Húnaflóinn talin óhrein siglingaleið þannig að sjálfsagt veitti ekki af aðgæslu á þessari leið ekki síst í svona slæmu skyggni.  Hins vegar átti þetta að vera allt öruggt ekki síst þegar búið var að setja stefnuna a.m.k. fjórar mílur út af Skallarifi og síðan strikið austur vel fyrir Siglunes.

                Ekkert man ég hvað okkur Hermanni fór þarna á milli á vaktinni.  Hann var annars ákaflega viðfelldinn skipsfélagi, var t.a.m. prýðilegur bassi og kenndi mér bassarödd í ýmsum algengum lögum.  Hann var hógvær og tillögugóður um flest það er að höndum bar.  Ekki vissi ég hins vegar fyrr en nú áratugum eftir samveru okkar að við vorum fjarskyldir, báðir komnir af Þórði stúdent Ólafssyni og því af Vigurætt.

                Segir nú ekki frekar af ferð okkar austur yfir Húnaflóann annað en að allt gekk það að óskum en veðrið hins vegar breyttist ekki og alls ekki létti þokunni.  Eftir að stefnan var tekin austur þannig að við töldum vel fyrir Siglunes en þar sem við höfðum hins vegar enga landkenningu var sérstök ástæða til að standa vel á útkíkkinu því að varla sá út úr augum.

                Ég hafði á þessum tíma ágæta sjón og prýðilega heyrn og var þarna stöðugt í glugganum og með hann opinn.  Þá verður það allt í einu að mér verður litið yfir á bakborða í brúnni svona rétt aftan við Hermann þar sem hann stóð við stjór.  Þá sá ég í sviphendingu mann sem að því er virtist stóð við sams konar glugga og ég nema hinum megin í brúnni og horfði beint fram.  Það sem var einkar eftirminnilegt við þennan mann var að hann var með svartan kúluhatt með uppbrettum hattbörðum.  En rétt í því að þennan svip bar mér fyrir sjónir heyri ég eins og öldugang eða öldugjálfur við strönd og um leið sá eg grilla í land.  Ég hljóp umsvifalaust að telegrafinu, kippti því til baka og gaf þar með skilaboð niður í vélarrúm að setja ætti starx fullt aftur á bak.  Það gekk hins vegar það fljótt fyrir sig að við sluppum við að sigla skipinu í strand og mátti þar sannarlega minnstu muna.  Svipinn sem bar fyrir mig á þann mund sem þetta var að gerast sá ég vitaskuld aldrei meir.

                Kristján Árnason skipstjóri hrökk upp við þessi læti og kom fram í brú og spurði hvað um væri að vera.  Þegar betur var að gáð munaði þarna minnstu að við færum upp í land rétt neðan við Stráka vestan við Siglufjörð, okkur hafði sem sé heldur betur borið af þeirri leið sem við töldum okkur vera á.  Það sem hins vegar varð okkur til bjargar var að þarna er fremur aðdjúpt og þetta að ég bókstaflega heyrði í öldugjálfrinu við landið í tæka tíð þannig að tími gafst til að afstýra strandi.  Það sem hins vegar hefur trúlega valdið þessari skekkju er að Geysir átti til að leita í stjór líklega vegna snúningshraða skrúfunnar til hægri.  Og þar sem dimmviðrið var algjört voru engin tök á að leiðrétta stefnuna.

                Ekki hafði ég velt á neinn hátt fyrir mér yfirnáttúrlegum hlutum né verið trúaður á slík fyrirbæri.  Hins vegar hafði vofeiflegur atburður átt sér stað á Geysi nokkru áður en hann komst í eigu Bílddælinga.  Skipið hét þá Þormóður (eða e.t.v. Sterling) og var gert út af bæjarstjórn Akureyrar.  Ekki er mér fullkunnugt hvað maðurinn hét sem þá var með skipið.  En þá verður það eitt sinn er þeir voru að línuveiðum út af Patreksfjarðarflóanum að þessi skipstjóri segir þeim sem á dekki voru að fara niður og fá sér hressingu, hann skuli standa vaktina á meðan.

                Þegar þeir síðan koma upp aftur var skipstjórinn hvergi finnanlegur og jafnframt söknuðu menn ákveðins þungs lóðs sem notað hafði verið við veiðarnar.  En þessum manni var svo lýst að hann hefði mjög gjarnan borið svartan kúluhatt með uppbrettum börðum.

 

II.

Endurminning.

                Að kvöldi 16. september 1936 voru þeir þrír, Guðbjartur Ólason, Þorvaldur  Eggertsson og Jón Þórður Jens Jónsson, allir frá Bíldudal á  smokkfiskveiðum úti undan Svarthömrum rétt innan við Hvestu í Arnarfirði.  Báturinn, sem þeir voru á hét Bóti og var í eigu Samúels Pálssonar kaupmanns á Bíldudal, föður Sigurðar Samúelssonar síðar prófessors.

                Þeir þremenningarnir höfðu skömmu áður leigt bátinn af Samúel kaupmanni í þeim tilgangi að leggja legulóðir á Arnarfirði og höfðu raunar lagt þær, þegar hér var komið sögu.  Þeir voru allir nýkomnir af síldveiðum fyrir Norðurlandi, Þorvaldur hafði verið á l/v Ármanni frá Bíldudal en Guðbjartur og Jón Þórður Jens höfðu hins vegar verið á hinum línuveiðaranum frá Bíldudal, l/v Geysi.

                Megintilgangur þeirra þremenninga var að veiða smokkfisk í beitningu legulóðanna en smokkur var þá nýgenginn í fjörðinn og þótti það yfirleitt ávísun á góða vertíð í kjölfarið.

                Nú gerist það sem þeir eru að veiðunum þarna úti undan Svarthömrunum að færi Guðbjarts sargast einhverra hluta vegna í sundur á borðstokknum og hann missir þar með öngulinn í hafið.  Smokkfiskur var veiddur á svonefndan smokköngul, sem var raunar rauðmáluð blýsakka með samfelldri krókaröð á öðrum endanum.  Hver þeirra þriggja hafði hins vegar aðeins eitt færi og einn öngul þannig að nú lá fyrir að einn þeirra félaga væri verklaus við þessa uppákomu.  Mokveiði hafði hins vegar verið fram eftir kvöldinu og hafði Jón Þórður Jens á orði að þeir væru þegar búnir að veiða í a.m.k. tvær beitningar.

                Guðbjarti þótti hins vegar illt að sitja verklaus og sagði við félaga sína að hann tæki ekki í mál að sitja hér við svo búið og horfa á þá moka upp smokkfiskinum og geta ekki aðhafst því legði hann til að þeir hættu við svo búið og færu í land.  Þeir samþykktu það enda veiðin þá orðin meiri en þeir höfðu í upphafi vænst.  Og var nú vélin ræst og lagt af stað inn eftir.

                Á heimleiðinni var komin suðaustan átt strekkingsvindur og þung bára er þeir fóru fyrir Kolgrafarhrygginn inn Bíldudalsvoginn.

                 Þeir fóru framhjá tveimur bátum, sem enn voru að veiðum, Ými, sem Ágúst Sigurðsson kaupmaður á Bíldudal átti.  Á með honum voru   tveir synir hans, Hjálmar og Páll, og Guðmundur Ólafsson á Bíldudal.  Þeir á Ými voru beint undan Auðahrísdal er þeir á Bóta fóru hjá.

                Hinn báturinn, sem þeir fóru fram hjá var mjög lítil fleyta, "smáhorn", eins og Guðbjartur sagði, nokkru innar eða nánast rétt úti af Háfnum.  Þar voru þrír menn á, þeir Eiríkur Guðmundsson frá Otradal, og tveir unglingspiltar, Ólafur, sem kallaður var Gotti, sonur Jóns Jóhannssonar og Jónínu Ólafsdóttur á Bíldudal og Ríkharður, sonur Sigurleifs Vagnssonar og Viktoríu Kristjánsdóttur, einnig á Bíldudal.

                Um það leyti er þeir á Bóta eru komnir inn að bryggju á Bíldudal er nánast dottið á dúnalogn.  Þeir hafa nú engar vöflur á en flytja smokkinn, sem þeir höfðu veitt í bölum upp að  Frystihúsi.  Fara síðan með Bóta fram á leguna og ganga frá honum í legufærunum eins og venja var og róa að því loknu í land á skektu, sem þeir drógu upp á kamb.  Skildu nú leiðir með þeim félögum og fór hver til síns heima.

                Guðbjartur áætlar að hann hafi verið kominn heim laust fyrir klukkan tólf um kvöldið og man það t.d. að kona hans, María var enn á fótum þegar hann kom heim. 

                Þegar hann er sestur niður við eldhúsborðið í Steinhúsinu þar sem þau bjuggu, þá skellur fyrsta óveðurshviðan á eins og þungt högg eða ógnarhvellur.  Og er þar skemmst frá að segja að næstu sex klukkutímana gekk yfir slíkt óhemjustórviðri af suðvestri að í flestra minni um þessar slóðir er ekkert, sem jafnast á við þau ósköp er dundu yfir þessa nótt.      

                      Líklega er helsta ráðið til að lýsa áhrifum þessa stórviðris að geta þeirra slysa og manntjóna, sem það hafði í för með sér.   Þar ber eflaust hæst úr fréttum samtímans að franska skipið Pourquoi Pas? fórst þessa nótt, undir morgun á grynningum undan Mýrum með allri áhöfn utan einum manni, E. Gonidec,  sem skolaði lifandi á land í björgunarbelti og hangandi á landgöngubrú úr skipinu.  Meðal þeirra sem fórust með þessu skipi var leiðangursstjórinn dr.  Jean Charcot en samkvæmt ”Öldinni okkar” þar sem greint er frá þessum atburði segir að 22 lík skipbrotsmanna rak á land á Mýrum.

                Fyrstu áhrif þessa veðurs, sem Guðbjartur minnist er að bygging vestan við Steinhúsið, sem áður hafði hýst skósmíðaverkstæði fauk í heilu lagi niður fyrir götuna. Það steytti fyrst á einu horninu en endaði síðan í næstu lendingu mélinu smærra.

                Guðný Guðmundsdóttir, föðursystir Guðmundar Jaka, bjó í Steinhúsinu að vestanverðu.  Hún var að koma heim utan af plássi laust eftir að veðrið skall á.  Hún mátti þakka fyrir að ná heim til sín þó ekki væri vegalengdin ýkja löng.  Guðbjartur telur ekki ofmælt að seinustu metrana hafi Guðný bókstaflega skriðið heim undir Steinhúsið.

                Fljótlega eftir að veðurhæðin náði hámarki tók báta að slíta upp af legunni.  Ég hef ekki tölu á hve margir þeir voru.  Hins vegar telur Guðbjartur, að aðeins einn hafi verið eftir þegar veðrinu slotaði um morguninn og að það hafi verið Gamli Ægir.  Hann var síðan notaður til að leita að afdrifum þeirra fleytna, sem saknað var.

                Skipin, sem sleit upp rak vitaskuld öll norður yfir Arnarfjörð, ef þau sukku þá ekki þegar á legunni.

                Stærstu skipin sem sleit upp voru án efa línuveiðararnir tveir, Ármann og Geysir.  Þá rak báða norður yfir, hægt og bítandi í fyrstu á meðan þeir drógu múrninguna  á tiltölulega grunnu vatni en síðan þegar dýpkaði sló þá þvert undan stærstu stormbyljunum.  Ármann endaði þessa för með því að legufæri hans festust á grynningum laust út af Langanesi og þar hékk hann á fríum sjó er að var komið þegar óveðrinu slotaði.

                Geysi rak hins vegar alveg yfir fjörð og hann rak upp í fjöru undan Tjaldanesi.  Fjaran var þar blandin möl og klöpp.  Og Guðbjartur minnist þess að það hafi tekið þá Geysismenn u.þ.b. vikutíma að höggva klöppina undan hælnum á Geysi til þess að losa hann úr strandinu.  Og með sérstökum þakkarhug minnist hans þess hve maturinn hafi verið góður og vel útilátinn hjá Guðnýju á Tjaldanesi til handa þeim Geysismönnum meðan á þessu verki stóð.  Geysir var síðan dreginn út af varðskipinu ”Óðni”.

                Á svæðinu þar sem síðar var reist Fiskimjölsverksmiðjan á Bíldudal, rétt ofan við beitingaskúrinn, sem síðar varð stóð ískassi, sem svo var nefndur og þeir á Geysi höfðu haft til afnota.  Þetta var tvöfaldur járnkassi, sem notaður var við geymslu á beitu og þótti afar erfiður í meðförum vegna þyngdar.  Hann fauk í þessu veðri á sjó út, flaut í fyrstu en hvarf síðan sjónum manna í djúp fjarðarins.

                Skorsteinninn úr Steinhúsinu fauk.  Hann var eins og algengt var hlaðinn úr rauðum múrsteini, trúlega innfluttum frá Danmörku.  Svo var veðurofsinn æðisgenginn að steinarnir úr skorsteininum höfnuðu flestir mörgum metrum fyrir utan Steinhúsið á flötinni fyrir ofan Gömlu Símstöðina       

                Guðbjartur er ekki í vafa um að þessi veðurofsi hafi að verulegu leyti verið eins konar skýstrókur ellegar a.m.k. leifar af fellibyl með óvenju áhrifaríkum afleiðingum.  Þessu til staðfestingar nefnir hann að morguninn eftir hafi fundist 15 - 20 smásíldar á dreif um túnið fyrir ofan Eiríkshúsið og fundu menn enga aðra skýringu á því fyrirbæri  en þá að þær hafi sogast upp í mesta veðurhamnum og síðan endað þarna er veðrinu slotaði.

                Eins og fyrr greindi í þessari frásögn fóru þeir á Bóta fram hjá tveimur bátum á leiðinni í land þetta örlagaríka kvöld.  Morguninn eftir kom í ljós að þeir á Ými höfðu lagt af stað til lands skömmu á eftir Bóta og gekk þeim ágætlega að komast heim og ganga frá eftir veiðiferðina.

                Hinn báturinn þar sem á voru þeir Eiríkur í Otradal, Gotti og Ríkharður skilaði sér hins vegar ekki til lands og til þeirra spurðist síðan ekki framar.  Báturinn fannst hins vegar eftir mikla leit úti fyrir Lokinhömrum yst í Arnarfirði marandi í hálfu kafi þannig að hann flaut nánast lóðréttur á innibyrgðu lofti á skýli í barkanum en vélarþunginn hélt honum niðri að aftan.  Eiríkur var kvæntur og lét eftir sig konu og eina dóttur á öðru ári en hvorugur ungu piltanna átti afkomendur.  Ekkert líkanna fannst við bátsflakið, sem sökkt var á þeim stað sem það fannst.

 

Fyrirboðinn.

                Þegar þessi ósköp höfðu dunið yfir fóru menn að rifja ýmislegt upp sem við hafði borið mánuðina áður en þetta gerðist.

                Vorið fyrir þessa atburði höfðu þeir Guðbjartur, Þorvaldur Eggertsson, sem fyrr er nefndur og Eiríkur Guðmundsson frá Otradal leigt bát af Einari Bogasyni í Hringsdal í þeim tilgangi að róa honum nokkrar vikur frá Selárdal á annars dauðum tíma á milli vetrarvertíðar og sumarsíldveiðanna fyrir Norðurlandi.  Þeir félagar fengu uppsátur með svefnplássi og söltuaraðstöðu við hliðina á uppsátri Kristjáns Reinaldssonar á Neðrabæ  og hans félaga.

                 Þegar þeir félagar höfðu fengið bátinn afhentan og voru á leiðinni út eftir sáu þeir óvenjumikið fuglager úti undan Móanesi, sem skilur að Fífustaðabótina og Selárdalsbót.   Þeir renndu því færum sínum þegar komið var þangað út eftir og skipti þá engum togum að fiskur var á um leið og veiddu þeir þar mjög vel þar til hann tók undan jafnskyndilega.

                Þeir réru síðan tilsettan tíma frá þessu uppsátri í Selárdal og sóttu aðallega út á Rif og veiddu yfirleitt ágætlega.

                Þannig voru aðstæður við lendinguna í Selárdal að komið hafði verið fyrir trépalli rétt við sjávarmálið í þeim tilgangi að kasta þangað upp fiski og losna þar með við að ata hann allan út í sandi og sjávarþangi þannig að þægilegra væri að fást við flatningu og söltun.

                Nú var það eitt sinn að þeir á ”Hringsdalsbátnum”  koma með fullan bátinn af fiski af Rifinu og ljúka við að kasta öllum aflanum upp á trépallinn.  Ekkert lát hafði verið á veiðinni á Rifinu, þegar þeir urðu að fara í land.

                Þegar þeir höfðu lokið við að tæma bátinn segir Þorvaldur, sem var orðlagt hraustmenni.  "Nú skuluð þið, drengir, skjótast aftur út á Rifið úr því hann gaf sig svona vel til og bæta við aflann á meðan að ég geri að þessu og salta."  Og þetta gerðu þeir Guðbjartur og Eiríkur umsvifalaust.

                Þegar þeir komu síðan í land aftur með dágóðan afla hafði Þorvaldur lokið við  flatningu og söltun, sett upp pott til eldunar og var raunar sofnaður þegar þeir komu.

                Þeir félagar gengu síðan til náða eftir að hafa gengið frá bát og afla og gert matnum skil.

                Eftir stuttan svefn hrekkur Eiríkur upp með andfælum eftir þungar draumfarir.  Ekki vildi hann segja þeim félögum sínum hvað hann dreymdi.  En hitt sagði hann þeim umbúðalaust að nú væri hann viss um að hann yrði ekki eldri, þess yrði skammt að bíða að hann færist með einhverjum hætti.  Þeir félagar gerðu hins vegar lítið úr þessu og töldu raunar markleysu.  En Eiríki var hins vegar greinilega brugðið.

                Um það leyti sem vorvertíð þeirra félaga lauk í Selárdal fylltu þeir bátinn af verkuðum saltfiski og fengu að auki skektu lánaða í Selárdal til þess að fylla einnig af verkuðum fiski og hafa í togi inn að Bíldudal.  Guðbjartur bað Eirík að vera í skektunni til þess að stýra henni.  Það gerði hann og þessi ferð inn Arnarfjörðinn með báðar fleyturnar sneisafullar af söltuðum fiski gekk prýðisvel.  En Eiríkur trúði hins vegar Guðbjarti fyrir því á eftir að þarna í þessari för bjóst hann við að fyrirboðinn í draumnum kæmi fram.       

 

 III.

                Ég var tiltölulega nýkominn heim af síldveiðum fyrir norðan land.  Ég man ekki hvort ég var að koma af Hring eða Bárunni.  Ég held að þetta hafi verið árið 1944 en ég man hins vegar glögglega að þetta var fyrstu dagana í september.

                Nokkru áður en þetta var hafði Jón Jóhannesson sem gjarnan var kenndur við Gróhóla í Bakkadal í Ketildölum keypt ca. 14 tonna bát frá Siglufirði sem bar nafnið m/b Skarphéðinn.  Bátur þessi hafði staðið uppi í síldargrút á Siglufirði, ég veit ekki hve lengi og var í verulegri óhirðu þegar Jón tók við honum.

                Nú stóð svo á að beiðni kom til Sæmundar Ólafssonar framkvæmdastjóra á Bíldudal um að útvega bát til þess að flyta brúar- og vegavinnuflokk og búnað hans frá Þingeyri við Dýrafjörð suður að Haukabergsvaðli á Barðaströnd.  Sæmundur gegndi á þessum tíma forstöðu fyrir útgerðar- og verslunarfyrirtækjum Gísla Jónssonar á Bíldudal.

                Sæmundur sneri sér til Jóns Jóhannessonar og bað hann að fara í þessa ferð á m/b Skarphéðni og útvega sér aðstoðarmenn í leiðangurinn.  Jón tók vel í þetta en kvað þó þann hæng á að hann hefði ekki enn réttindi til þess að vera sjálfur með bátinn og fengi því ekki skráningu til þess, hann yrði því að útvega sér annan í það hlutverk.  Og af þessum ástæðum kom Jón til mín og spurði hvort ég væri til í að koma með sér í þessa ferð og þá sem skráður skipstjóri en ætlun Jóns var að Sigurgarður Sturluson yrði þriðji maður í ferðinni.  Sigurgarður var ungur piltur er þetta var, sonur Sturlu Kristóferssonar frá Brekkuvelli á Barðaströnd en hann bjó í nokkur ár í Otradal um þetta leyti.

                Ég tók vel í málaleitan Jóns og var fastmælum bundið að við legðum af stað frá Bíldudal um klukkan tvö næstu nótt vegna þess að beðið hafði verið um að við yrðum komnir til Þingeyrar klukkan sjö næsta morgun.

                Þetta gekk síðan eftir og segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en við  erum að fara fyrir Sléttanesið þá fæ ég óvænt einhvern verk fyrir bringspalirnar að því að mér virtist vegna þess hve höggin í vélarhljóðum bátsins virtust snögg.  Þetta leið síðan frá og ég hugleiddi þetta ekkert frekar.  Vélin í Skarphéðni var eins cylinders June Munktell og höggin í henni því nokkuð þung.

                Við komum síðan að Þingeyri á tilsettum tíma.  Og brúar- og vegavinnuflokkurinn hófst þegar handa um að koma hafurtaski sínu öllu um borð.  Þyngstu hlutirnir voru settir í lest en því léttara eins og timbri og tjöldum var hlaðið á dekkið.  Þegar þessu var öllu lokið var báturinn orðinn allvel hlaðinn og við lögðum þá umsvifalaust á stað suðureftir, mig minnir að þá hafi verið komið fram um hádegi.

                Mannskapurinn sem kom um borð á Þingeyri var að því að mig minnir ellefu manns, tíu manna vinnuflokkur auk matráðskonu, þannig að alls voru nú um borð í Skarphéðni fjórtán manns á suðurleiðinni.

                Síðan segir ekki frekar af ferð okkar suður fyrir Arnarfjörð, Kóp, Tálknafjörð, Tálkna og suður yfir Patreksfjarðarflóa.  Og áfram héldum við fyrir Blakk og suður með Víkum og Látrabjargi og komumst klakklaust í gegnum röstina.  Og tíðindalaust var einnig inn Breiðafjörðinn allt að leiðarenda að Haukabergsvaðli.  En ég hafði m.a. notað síðdegið eftir að Jón kom að máli við mig til þess að glöggva mig á siglingaleiðinni inn fjörðinn að norðanverðu sem er fráleitt hrein fremur en annars staðar um Breiðafjörð.  Veður var hins vegar ágætt alla leiðina.

                Þegar komið var inn að Haukabergsvaðli leggjumst við þar rétt framan við ósinn fyrir akkeri og í þann mund sem við erum búnir að koma okkur þarna vel fyrir kom bátur úr landi fram til okkar, mig minnir að hann hafi verið frá Hrísnesi.  Síðan var tekið til óspilltra málanna við að ferja allan búnaðinn í land á þessum báti.  Það var vitaskuld mikið verk og tafsamt við þessar aðstæður.

                Um sexleytið þyrmir einhverra hluta vegna svo yfir mig að ég get varla haldið mér vakandi.  Ég fór þess vegna fram í lúkar og leggst fyrir og vonaði að smáblundur myndi hressa mig við.  Eftir svo sem þriggja kortera svefn vakna ég bullsveittur og er þá í mér einhver sá óhugur sem ég hreinlega get ekki skýrt.

                Þegar ég kem upp úr lúkarnum er ekki skýskaf á himni utan eitt lítið kolsvart ský í austri sem bar að því er virtist yfir Skarðsstöðina.  Annað var ekki að sjá.  Ég segi hins vegar umsvifalaust og ákveðið við Jón þegar ég hitti hann:  “Við förum ekki norður í nótt, mér líst ekki á útlitið og því er um tvennt að velja annað hvort að fara niður í Flatey og liggja væntanlegt veður af sér þar ellegar að fá leiðsögn hérna inn í ósinn og mér líst skár á seinni kostinn.”

                Jón, sem var mikill skapmaður, varð ókvæða við og spurði hverju þetta sætti.  Ég gaf honum hins vegar engar skýringar aðrar en þær að mér litist ekki á veðurútlitið og ég réði þessari för og við það sæti.  Jóni líkaði þetta greinilega stórilla og varð grautfúll við og sýnilega vondur.

                Þegar seinasti báturinn var við það að verða fermdur spurði ég mann þann er var með ferjubátinn hvort hann væri til með að stýra fyrir mig Skarphéðni inn í ósinn.  Ég vissi að þarna inni í Haukabergsvaðli hafði nokkrum árum áður verið endurbyggður allstór bátur þannig að hann hlaut að vera allvel bátgengur a.m.k. við stórstreymi.   Þessari málaleitan minni til ferjumannsins var mjög vel tekið og stýrði hann síðan Skarphéðni inn rennuna í ósi Haukabergsvaðals allt þar til báturinn stóð kjölréttur í mjúkum sandi.  Mig minnir að rennan hafi sveigt til vinstri þegar inn fyrir ósinn var komið.

                Jón Jóhannesson, eigandi Skarphéðins, var þungbúinn á svip við þessar aðgerðir og minnti mig á að stærstur straumur væri í dag.  Ég svaraði því til að eftirstraumarnir væru enn stærri tvo næstu daga þar á eftir.  En þegar hér var komið slógum við þrír okkur til rólegheita og fórum í koju enda ekkert annað að gera.  Fólkið sem við höfðum verið að flytja hafði slegið tjöldum og komið fyrir nauðsynlegum búnaði sínum til lengri dvalar þarna í nágrenninu.  Um það leyti sem dimmt var orðið sofnuðu þreyttir menn vært í haustkyrrðinni.

                Um klukkan tvö um nóttina hrukkum við upp með andfælum við einhverja skelli svo snögga að helst minnti á fallbyssuskot.  Þá voru sem sé tjöldin að fjúka ofan af vinnuflokknum því hann hafði þá mjög snögglega rokið upp með hífandi vestanrok, stórsjó og stóreflisbrim.  Léttist þá heldur brúnin á Jóni.

                Þetta óveður hélst þann dag allan og raunar einnig næstu nótt og fór ekki að draga úr versta veðurhamnum fyrr en daginn þar á eftir.  Fyrir okkur var ekki annað að gera en halda kyrru fyrir í bátnum, sötra kaffi og neyta þeirra litlu matfanga sem við höfðum meðferðis.  Við sendum Sigurgarð inn að Haga þeirra erinda að hringja til Bíldudals og láta vita af því að við værum í góðri höfn þarna í Haukabergsvaðlinum og myndum bíða þess þar að verðrinu slotaði.  Í Haga bjó þá föðurbróðir Sigurgarðs Hákon Kristófersson frá Brekkuvelli.

                Annan morguninn sem við vorum þarna uppi í vaðlinum kom bóndinn á Hrísnesi og færði okkur frampart af lambsskrokk, sem við síðan gerðum góð skil og vorum sannarlega þakklátir fyrir enda þá farið að sneyðast um vistir um borð.

                Þriðja morguninn sem við vorum þarna í vaðlinum vaknaði ég snemma og var þá veðrið orðið gott.  Ég bað Jón að setja nú vélina í gang og við myndum síðan freista þess að bakka út á háflóðinu.  Þetta gekk allt saman eftir og það tókst bærilega að bakka út úr sandleðjunni en ég fann hins vegar að kjölurinn rétt hnökraði við í þann mund sem við sluppum út úr ósnum.

                Við keyrðum síðan vestur með landi sömu leið og við höfðum komið og fyrir Látrabjarg.  Í sjólaginu voru greinilegar eftirstöðvar af vestanrokinu þ.e.a.s. fremur þung suðvestanalda, nokkuð þykk.  Á leiðinni norður með Látrabjargi og Víkunum var farið að kula á norðan og þegar komið var fyrir Blakkinn var norðanáttin orðin svona 7-8 stiga stinningskaldi eða jafnvel stormur þegar komið var á opinn Patreksfjarðarflóann.

                Við höfðum ekki lengi keyrt út á flóann með stefnu fyrir Kóp þegar Jón kemur upp úr vélarrúminu og færir ekki góðar fréttir.  Hann segir að einn festiboltinn af vélinni sé farinn og hafi sjóstrókurinn staðið beint upp þar sem boltinn hafði verið.  Jón hafði hins vegar engar vöflur á heldur tók skaft af hamri og rak það í boltagatið með öðrum hamri og taldi sig hafa  þétt við það lekann sæmilega. 

                Við þessi tíðindi breytti ég stefnunni og hafði hana nú laust við Tálkna með þeirri ætlan að ná inn á Tálknafjörð og komast um leið í betra sjólag.  En skömmu síðar fer annar festibolti af vélinni og enn tókst Jóni að hefta leka af miklu harðfylgi.

                Við náðum inn á Tálknafjörð án frekari tíðinda og keyrðum allt inn að Sveinseyri, fórum þar í land til þess m.a. að átta okkur á þessum aðstæðum sem upp voru komnar og einnig hringdum við heim á Bíldudal til þess að láta vita af okkur.

 

                Um fimmleytið virtist norðanáttina hafa heldur lægt og greinilegt var að við gátum ekki fengið neina viðgerðaraðstoð á Tálknafirði og þess vegna ákvað ég að freista þess að komast heim á Bíldudal.  Við lögðum því af stað norður svona upp úr klukkan fimm.

                Við reyndum að haga ferðinni með tilliti til þeirra aðstæðna sem við vissum um festibúnað vélarinnar.  Ég man t.a.m. að þegar við fórum fyrir Kópinn höfðum við stefnuna alllengi inn og þvert yfir fjörðinn, nánast á Lokinhamra og skáskárum þannig norðanölduna á meðan við smám saman komumst í betra sjólag.  En síðan gekk ferðin prýðilega og tíðindalaust inn Arnarfjörð og allt að bryggju á Bíldudal.

                Eftir þessa ferð var Skarphéðinn tekinn á þurrt upp á kamb á Bíldudal.  Þá kom í ljós að undir vélinni og fram undir miðjan bát voru nokkur borð í byrðingnum báðum megin við kjölinn nánast grautfúin.  Og þessi fúi virtist einnig hafa einkennt ákveðinn hluta af botnstykkjum undir vélinni.

                Við Jón og raunar allir ferðafélagarnir vorum sammála um það eftir að þetta varð ljóst að hefðum við lagt af stað norður eftir að vegavinnu-fólkið var komið í land við Haukabergsvaðal hefðum við á Skarphéðni ekki verið til frásagnar miðað við þetta ástand bátsins og veðrið sem yfir reið.  Við Jón urðum ágætir kunningjar eftir þessa ferð.  Hann var seintekinn, nokkuð einrænn og ekki allra.  Mér fannst svona undirniðri að hann liti svo á að ég hefði allt að því guðlegan sagnaranda eftir þennan óhug sem greip mig og réði því að við fórum upp í vaðalinn.

                Gagngerð viðgerð fór síðan fram á Skarphéðni eftir þessa ferð.  Hana framkvæmdi Sigurður Benjamínsson smiður á Bíldudal.  Skarphéðni var síðan róið næstu vetrarvertíð frá Bíldudal og þá var Ragnar Jóhannsson með hann.

                Okkur sem fórum hina eftirminnilegu ferð fyrir Vegagerðina gekk illa að fá hana greidda og alls ekki var greiddur sá aukatími sem í hana fór.