Aðsent efni

Dagbók seglskipsins Gyðu vor og sumar 1900

 Nokkur formálsorð

Hér á eftir fer útskrift úr dagbók skipstjórans á seglskútunni Gyðu frá Bíldudal, sumarið 1900. Skipið var þá að handfæraveiðum út af Vestfjörðum og skipstjóri var Veturliði Ólafur Bjarnason, afabróðir minn, en Jörundur og Pétur bræður hans voru einnig skipstjórar frá Bíldudal.

Gyða BA var í eigu Péturs Thorsteinssonar athafnamanns á Bíldudal, smíðuð á Bíldudal undir stjórn langafa míns Kristjáns Kristjánssonar skipasmiðs frá Önundarfirði, en hann lærði skipasmíði á Ísafirði og var m.a annar stofnenda Iðnaðarmannafélags Ísafjarðar. Hann fluttist til Bíldudals um 1894.

 Í bókinni Bíldudalskóngurinn er Gyða sögð 15 tonn og með 7 menn í áhöfn (bls. 181) Hún er reyndar sögð 8 tonn og með 6 í áhöfn nokkru síðar í sömu bók (bls. 186). Fyrri talan er þó líklegri, því þegar Gyða fórst með allri áhöfn, 10. apríl 1910 eru 8 menn skráðir í áhöfn. Skipstjóri þá var ömmubróðir minn, Þorkell Magnússon. 

Skútan Lull, sem nefnd er í dagbókinni var sögð 40 tonn.

Í nóvember 1953 fékk Frigg BA mastrið af Gyðu BA upp í rækjutrolli og var minnisvarði til minningar um áhöfn Gyðu BA reistur á Bíldudal sumarið 1954 og var mastrið hluti minnisvarðans. Áður hefur verið fjallað um mastrið og Gyðu hér á vefnum. 

Mér er þetta mál hugleikið, m.a. vegna þess hversu margt í sögu Gyðu tengist mér eins og fram kemur hér að ofan.

Aðdragandi þessara skrifa er sá að frændi minn, Pétur Brynjólfsson kom til mín ásamt Pétri syni sínum og færði mér plögg úr fórum móður hans, Fríðu Pétursdóttur, sem hún hafði viljað að ég fengi. Þar var ýmislegt frá afa okkar, Pétri Bjarnasyni, meðal annars stílabók sem hafði að geyma eftirfarandi dagbókarfærslur, ásamt dagbók fyrir Katrínu frá Bíldudal vorið 1901, en þá var Ólafur Veturliði skipstjóri á Katrínu. (Hann var yfirleitt nefndur Ólafur Veturliði, þó hann skrifaði sig jafnan V.Ó. Bjarnason). Þær færslur eru mun styttri og lítið frábrugðnar þessum að innihaldi og verða því ekki birtar að sinni.

Stílabókinni sjálfri kom ég síðar í hendur á sonarsyni skipstjórans, Sigurbirni Sveinssyni, sem mun væntanlega koma henni á safn síðar.

Þessi fáorða frásögn um handfæraveiðar vor og sumar árið 1900 gefur örlitla innsýn í baráttuna sem háð var fyrir því að ná upp fiski með ærnu erfiði, gera að honum, merkja hvern fisk þeim sem dró hann og breyta honum síðan í úrvalsútflutningsvöru. Veiðisvæðið er frá Breiðubugt og allt norður á Hornvík. Athygli vekur margt þarna, m.a. að gellur voru ekki teknar jafnóðum, heldur virðist svo sem hausar hafi verið geymdir, líklega í einhverju salti og svo gellað af og til upp úr hrúgunni. Eins getur maður gert sér í hugarlund hvílík fyrirhöfn það gat verið að færa sig til á miðunum, þar sem treysta þurfti á segl og hagstæðan byr, auk ratvísi skipstjórans í byl eða þoku. Þarna komu upp aðstæður þar sem skipshöfnin var að mestu með óráði og „feber“ af  völdum svæsinnar flensu og margt fleira gat hent í þessum þrönga heimi þar sem 7-8 manns urðu að vinna og búa saman frá vori og fram á haust á tiltölulega fáum fermetrum. Strandveiðar nútímans bjóða upp á ólík og betri skilyrði en þarna voru til staðar, og það er hollt að rifja upp söguna til samanburðar.

Meðfylgjandi er mynd af Gyðu úr bókinni Bíldudalskóngurinn og þar má sjá hversu lítill farkosturinn var, ef myndin er nógu skýr.

Ólafi Veturliði Bjarnason var um árabil skipstjóri á skipum frá Bíldudal. Hann fórst með mb. Erninum árið 1936. 

Pétur Bjarnason

Seglskipið Gyða frá Bíldudal 001

Helstu viðburðir um borð í ,,Gyðu” frá Bíldudal, veðrátta og hvar fiskað var sumarið 1900.

Apríl, 1900

   10. Var fólkið lögskráð til skiprúms.

11.  kl. 1 emd var ljett upp frá Bíldudal og siglt út Arnarfjörð með hægum austan kalda. Komum út úr firðinum kl. 11 emd sama dag, var þá norðanstormur með frosti, var þá tvírifað stórseglið og lagt til drifs.

12.  Kl. 4 fmd var heist aftur og farið að lensa. Kl. 7 fmd sama dag fórum við framhjá Látrabjargstöngum og var þá skipsins stefna sett 2 km frítt af Öndverðarnesi. Kl. 11t 35m fmd vorum við 16 km í suður af Látrabjargi,var þá komin hægð en sjóveltingur, var þá halað niður og farið að fiska, höfðum 200 af heldur smáum fiski á dekki um kvöldið og var sá fiskur fullur af loðnu og öðru síli.

13.  Bjart og gott veður, hægur austan kaldi verið að fiska suður með Kolluál í Breiðubugt, fór hvessandi þegar á leið daginn. Höfðum um 300 á dekki um kvöldið af allgóðum fiski.

14.  Stífur ÖSÖ vindur útaf Breiðubugt, legið til út af miðri bugtinni, lítið um fisk mest vegna driftar. Kl. 11 fmd var heist og siglt norður á Látraröst. Halað niður kl. 4 emd og hittum þar í fiskreyting og var þá komið allgott veður.

15.  Gott veður, hægur norðan. Teknar gellur um morguninn sem voru 800 að tölu, síðan haldið heilagt og skemmt sér að spilum og umræðum. [Páskadagur] Skipsins staður er sunnanvert á Látraröst.

16.  Hvass SÖ farið að fiska kl. 4 fmd. Höfðum dálítinn fiskreyting um daginn. Kl. 7 emd er komið kafald og er skipsins staður þá hjerumbil 9 km NV af Látrabjargi.

17.  Hvass SV. Erum drifnir djúpt út á Röst. Um morguninn vorum að smásigla upp og norður, ekkert fiskirí. Kl. 2 emd erum við komnir út af Blakknesi, hjerumbil 12 km. Hittum þar á allgóðan fiskreyting af heldur smáum fiski og gátum fiskað þar til kvölds. Teknar gellur um kvöldið, sem voru 800 að tölu.

18.  Kl. 5 fmd var kominn V stormur með kafaldi. Er þá drifið út af Tálknafirði. Var þá heist og farið að krusa til Patrfj. til að leita ráðlegginga hjá lækninum handa Tómasi Sigmundssyni sem datt á dekkinu daginn áður og skemmdist á bakinu, og lögðumst við á Patreksfirði kl. 16 emd. Farið með Tómas í land og fengin meðul hjá lækninum uppá 1,65. Þau meðul borgaði Ólafur V. Bjarnason.

19.  Er hvass V vindur með kafalds jeljum til kl. 10 fmd, eftir það fór að hægja og og birta upp. Var þá farið í land og fengnar 3 tunnur af vatni og 144 pund af freðnri síld á Vatneyri. Kl. 3 emd var ljett og siglt út af Patreksfirði með hægum SV vindi.

20.  NV stormur með kafaldsmold til kl. 8 fmd, fór þá að hægja og birta, þangað til var legið til með þrírifað stórsegl. Var þá leyst út þriðja rifið, heist fokka og klífur og siglt frá og norður. Farið að fiska út af Kópnum um kvöldið en enginn fiskur.

21.  Hægur SV kaldi, verið að fiska út af Arnarfirði norðantil, og höfðum allgóðan fiskreiting af allgóðum fiski. Látið liggja til næsta dags.

22.  Verið að fiska á svæðinu frá Barða og norður út af Súgandisfirði djúpt. Hægur SV kaldi til kl. 2 emd, en eftir það hægur Ö kaldi. Mjög tregt um fisk en góðir drættir það sem fjekkst.

23.  Stinnings NÖ kaldi, verið að fiska vestantil við Djúpálinn fram til kl. 11 fmd en lítið eða ekkert að fiska. Eftir það farið að lensa. Kl. 4 emd var halað niður út af Arnarfirði heldur grunnt og fengum þar dálítið af heldur smáum fiski. Látið liggja út um nóttina.

24.  Lágum í logni allan daginn á fisklausu  útaf Arnarfirði til kl. 6 emd. Kómustum við þá með hægum NV kalda útaf Kópnum og fengum þar nokkra drætti. Kl. 10 emd lagði á hægan SV kalda. Var þá heist og krussað vestur fram á næsta dag.

25.  Hægur SV kaldi með þoku og regni til kl. 7 emd NÖ eftir það. Verið að fiska norðan til út af Blakknesi en mjög lítið um fisk. Teknar gellur um kvöldið sem voru 1520.

26.  Hægur SV til kl. 7 emd og verið að fiska út af Víkunum. Kl. 7 emd var kominn stífur V vindur, var þá lagt til með 2 rif í stórsegl og látið liggja frá um nóttina.

27.  Er drifið út af Flóanum og er SV hæglátur til kl. 6 emd. Skall þá á NÖ stormur með frosti og kafaldi. Var þá siglt upp undir Kópahlíðar og haldið sjer þar við um nóttina.

28.  NÖ stormur, siglt inn á Patreksfjörð og lagst til kl 8 fmd, farið í land um kveldið og teknar 2 tunnur af vatni.

29.  NÖ hvass. Legið til akkeris á Patreksfirði.

30.  Frískur NÖ kaldi, ljett kl kl. 5 fmd og siglt út. Verið að fiska útaf Blakknesi eftir kl. 3 emd.

Maí, 1900        

1.         NÖ gjóstur með frosti. Látið drífa og verið að fiska út af Víkunum, en lítið um fisk. Kl. 7 emd var kominn stormur, var þá lensað innundir Látrabjarg.

2.         NÖ rok með frosti og kafaldi, haldið sjer við með smáseglum undir Látrabjargi

3.         ÖNÖ rok en kafaldslaust og frost lítið, haldið sjer við undir Látrabjargi með smáseglum.

4.         NÖ rok, látið hala fram og aftur fram af Rauðasandi.

5.         NÖ stífur vindur, lensað niður á Bugtina og farið að fiska en ekkert um fisk.

6.         Bjart og gott veður, hægur Ö kaldi. Verið að fiska sunnanvert í Breiðubugt en heldur tregt um fisk.

7.         Hægur NÖ kaldi með þoku. Verið að fiska sunnan til á Látraröst, heldur grunnt og höfðum góðan fiskreyting af legufiski með grunnátu í maganum.

8.         Bjart og gott veður, sem næst vindlaust en sjóveltingur mikill. Straumur hefur borið frá og norður á Röstina og ekkert að fiska. Teknar gellur um kvöldið sem voru 1360 að tölu.

9.         Hægur SÖ kaldi, verið að fiska sunnan til við Látraröst. Höfðum dálítinn fiskreyting.

10.     Logn til kl. 5 emd, hægur N eftir það með svartri þoku allan daginn. Verið að fiska norðan til við Látraröst djúpt, en lítið um fisk.

11.     Logn, verið að fiska á Látraröst, lítið um fisk.

12.     Logn til kl. 7 emd. Lítið um fisk. Hægur SV eftir það. Var þá lensað út af Patreksfirði djúpt og höfðum allgóðan fiskreyting um nóttina til kl. 5 hinn 13.

13.     Hvass SV, byrjað að sigla til Bíldudals kl. 6 fmd og lagst kl. 6 emd, þá teknar gellur 1287 að tölu

14.     SV rok, legið á Bíldudal og ekkert unnið.

15.     Logn og regn. Var þá fluttur í land fiskurinn og tekið vatn um borð.

16.     Hægur SV, flutt um borð salt, kol og kostur til mánaðar og var það klárt kl. 4 emd. Var þá ráðið af að bíða til næsta dags í von um að fá síld, en fékkst ekkert þá nótt.

17.     Hægur innvindur og sólskin en af því að allar líkur voru til að síld gæti fengist var beðið þann dag. Kl. 6 fór nokkuð af mannskapnum til Einars í Hringsdal til síldarveiða og var búið að fá hana í lás kl. 10 emd.

18.     Mjög hægur útkaldi. Kl. 10 fmd var ljett og byrjað að sigla út með 9 skeppur af nýrri síld.

19.     NÖ gjóstur, vorum komnir út af Kóp kl. 3 fmd og farið að fiska, en ekkert um fisk. Kl. 10 fmd var heist og lensað vestur eftir en út af Bjarnarnúpi grunnt hittum við mikið fuglagjör í síli, og í gjörinu óð fiskurinn ofansjávar. Var þá halað niður og farið að fiska og var þar nógur fiskur sem var á floti í sílinu og var það allt legufiskur.

20.     Hægur N með bleytukafaldi. Verið að fiska norðan til á Látraröst grunnt. Höfðum dágóðan fiskreyting en heldur smár fiskur.

21.     NÖ gjóstur, verið að fiska sunnanvert við Látraröst nokkuð djúpt, fátt um fisk en góðir drættir það sem fjekkst, teknar gellur um kveldið, sem voru 2223 að tölu.

22.     N stífur gjóstur, siglt inn á Breiðubugt fram af Skor og var þar enginn fiskur. Kl. 7 emd lagði á SÖ vind út af bugtinni og var þá lensað út á Röst sunnan til.

23.     NÖ gjóstur, verið að fiska frá og suður af Látrabjargi djúpt og höfðum góðan fiskreiting af góðum fiski.

24.     Hægur NÖ kaldi, verið að fiska mjög djúpt frá og vestur af Látrabjargi en lítið um fisk og ónýtt, ýsa, keila, og smáfisk. Sigldum upp allan emd til kl. 7, var þá farið að fiska frá og suður af Látrabjargi og hittum þar góðan reyting.

25.     Hægur NÖ, látið drífa suður eftir fyrir bugtina og höfðum góðan reyting af ágætum fiski hvítum, sem var töluvert af stórri hafsíld í. Kl. 8 emd fór að hvessa af NÖ með regni og þoku. Var þá heist og krussað alla nóttina norður eftir.

26.     Kl. 9 fmd gekk vindurinn um til SV, var þá lensað til kl 11 fmd, þá halað niður og farið að fiska. Kl. 6 emd ljetti þokunni. Er þá skipsins staður sunnanvert á Látraröst og höfðum við allgóðan reyting af góðum fiski þann dag. Teknar gellur um kvöldið sem voru 1715 að tölu.

27.     Hægur SV til kl. 4 emd en hægur Ö eftir það. Heldur tregt um fisk, með því þá vorum við síldarlausir. Þennan dag rak fram og aftur um Röstina djúpt.

28.     Hægur SÖ út af bugtinni, verið að fiska á Röstinni en lítið um fisk og ekkert hægt að sigla bæði fyrir hægviðri og sjóvelting.

29.     Hvass sunnan verið að fiska útaf Víkunum til kl. 11 fmd, eftir það ófiskandi fyrir stormi til kl. 7 emd. Gekk þá vindurinn um til V og fór að hægja.

30.     Hægur V, verið að fiska frá og suður af Kópnum djúpt, höfðum dágóðan fiskreyting af gangfiski, sem var fullur af síli.

31.     Hægur SÖ með regni, verið að fiska út af Kópnum til kl. 6 emd, eftir það fór að hvessa. Svo var heist og byrjað að krussa inn til Bíldudals

Júní, 1900

1.         Sláttur S, verið að krussa inn Arnarfjörð, lagst á Bíldudal kl. 8 emd. kl. 11 var skútan tekin upp að fremri bryggjunni og farið að taka í land fiskinn. Þá teknar gellur sem voru 1386 að tölu

2.         Hægur til kl. 1 emd, en eftir það fór að hvessa á SV. Kl. 3 emd var allt klárt úr og í, að ýta skútunni frá, en þá var komið um fjöru svo skútan stóð á bátatrossunni og fór hún á milli stýrisins og stefnisins, en af því að inflúensa geisaði í landi tók skipstjórinn það heimskuráð að drekka sterkt kamfórubrennivín og varð hálffullur, einsog kunnugt mun vera. Kl. 4½   vorum við komnir undir akkeri. Fóru skipverjar flestir heim til sín, en skipstjóri varð eftir um borð og nokkuð af fólkinu og urðu svo ekki fleiri atburðir illir eða góðir þann dag.

3.         Hæglátur SV kl. 8 fmd heist flagg fyrir hvítasunnuhátíð, skipstjórinn einn um borð með öðrum manni allan daginn, flaggið tekið niður kl 7 emd, engar brennivínsfréttir þann dag.

4.         Hægur SV, fólkið komið saman kl. 7 emd. Kl. 9 emd voru teknar 10 skeppur af nýrri síld og lögð í ís. Þá komið logn svo ekki var hægt að sigla.

5.         Logn allan daginn. Kl. 6 emd fór Skálholt á stað frá Bíldudal og dró Gyðu og Lull út á móts við Verdali. Þegar við fórum á stað frá Bíldudal voru 3 menn lagstir í rúmið veikir af inflúensu. Kl. 11 emd lagðist sá fjórði. Menn þessir voru Jörundur Einar Magnússon, Ólafur Þórarinsson og Ingimundur Ingimundarson.

6.         Hægur NÖ, komnir 2 mílur út af Kóp kl. 4 fmd. Tekin 2 rif í stórsegl og látið drífa. Ekkert að fiska því þá voru allir lagstir í rúmið nema skipstjóri Ó. V. Bjarnason og Tómas Sigmundsson.

7.         Logn allan daginn. Erum drifnir út af Patreksfirði. Var það töluverður fiskur en ekki hægt að sinna honum sökum veikinnar. Voru þá flestir sjúklingarnir með óráði og töluverðum feber. Sömu tveir á fótum og daginn áður.

8.         Logn allan daginn. Allir sömu veikir nema kokkur, Einar Magnússon, var svo hress að hann gat sinnt sínum störfum, en seinni hluta dagsins fór skipstjóri, Ó.V.Bjarnason í rúmið, töluvert vesall bæði af inflúensu, litlum svefni og nokkru stjái, sem hann hafði undanfarna daga.

9.         NÖ gjóstur. Voru þá sumir orðnir rólfærir. Þann dag var lensað suður fyrir Látrabjarg.

10.     Frískur N kaldi, lensað djúpt frá og suður af Látrabjargi og átti nú að fara að fiska, þó veikliðað væri, því allir voru mjög vesalir en flestir komnir úr rúminu. En sú fiskivon brást því þar varð varla fisk vart.

11.     Hægur N erum suður undir Ál í Breiðubugt. Ekkert fiskast.

12.     Frískur N kaldi. Krusað norður á Röst og verið að fiska seinni hluta dagsins en ekkert fiskirí, með því síldin er orðin ónýt fyrir ísleysi.

13.     Frískur N, krusað útaf Kóp.

14.     Frískur N vindur, verið að fiska út af Kóp en ekkert fiskirí.

15.     Frískur N vindur, siglt inn á Bíldudal eftir síld, lagst kl. 4 emd. Tekinn vikukostur og 6 tunnur af vatni.

16.     Logn til kl. 2 emd, hæg innlögn eftir það, tekið um borð 1080 pund af ís og 9 skp af síld. Ljett kl. 2 ½ emd. Komustum út á móts við Álptamýri áður en lygndi að kveldinu.

17.     Frískur N vindur eftir hádegi, erum komnir út af Kóp, djúpt kl. 6 emd en ekkert fiskirí, lítt botnandi fyrir glæ og illri ástöðu.

18.     Hægur Ö vindur. Verið að fiska djúpt útaf Arnarfirði og höfðum dálítinn fiskreyting. Kl. 7 emd heist og siglt frá og norður út á Barðagrunn.

19.     NÖ gjóstur. Verið að fiska vestan til á Barðagrunni til kl. 11 fmd, en ekkert fiskirí. Þá heist og og siglt út af Sléttanesi á línuvatni og fengum þar nokkra fiska seinni hluta dagsins.

20.     Logn allan daginn. Verið að fiska útaf Arnarfirði djúpt, en mjög tregt um fisk.

21.     Hægur NÖ kaldi, lensað út af Patreksfirði djúpt. Töluðum þar við sunnlenskan kútter sem kvaðst ekki hafa orðið fisks var frá Jökli og þar norður eftir. Var þá halað niður og látið liggja, en mjög fátt um fisk og ónýtt það sem fékkst.

22.     Logn. Verið að fiska útaf Patreksfirði djúpt en mjög fátt um fisk og ónýtt.

23.     Hægur N kaldi  með þoku. Verið að fiska útaf Tálknafirði til kl. 7 fmd. Þá heist og krusað norður eftir. Teknar gellur eftir alla fíluna sem voru 2355.

24.     Hægur N kaldi. Verið að fiska út af Kóp sunnanvert á 70 faðma vatni og höfum fiskreyting af góðum fiski.

25.     Frískur V vindur. verið að fiska út af Arnarfirði, en fátt um fisk.

26.     Logn. verið að fiska út af Sljettanesi djúpt og fengum nokkuð af vænum fiski.

27.     Logn til kl. 6 emd. NÖ eftir það. Verið að fiska út af Sljettanesi.

28.     NÖ gjóstur kl. 7 fmd er okkur drifið frá og suður af Kóp djúpt, var þá heist og byrjað að sigla inn til Bíldudals.

29.     NÖ gjóstur. Lagst á Bíldudalshöfn kl. 4 fmd. halað upp að og teknar gellur kl. 8 fmd sem voru 865. Eftir það klárað úr og í yfir daginn nema síld og ís. Halað frá kl. 11 emd.

Júlí, 1900

1.      NÖ frískur vindur. Tómas Sigmundsson afmunstraður en Jón Þorgrímsson lögskráður til skiprúms.

2.      Logn til kl. 6 fmd. Þá ljett og siglt út með 11 skeppur af síld og 1170 pund af ís.

3.      Logn. Verið að fiska út af Sljettanesi og höfðum góðan fiskreyting.

4.      NÖ hægur vindur. Siglt út á Barðagrunn og höfðum þar góðan fiskreyting. síðari hluta dagsins.

5.      NÖ ófiskandi gjóstur. Kl. 1 emd er okkur drifið út af Kóp norðan til, þá heist og krusað norður eftir.

6.      Kl. 1 fmd er komið gott veður. Þá halað niður og farið að fiska útaf Barða og höfðum dálítinn fiskreyting um nóttina.

7.      Logn. Verið að fiska út af Skálavík en heldur fátt um fisk.

8.      Hægur NÖ. Verið að fiska vestan til við Djúpál, fátt um fisk.

9.      Hvass NÖ. Krusað norður útaf Straumnesi. Stormur síðari hluta dagsins.

10.  NÖ stífur gjóstur. Lensað útaf Sauðanesi og látið drífa.

11.  NÖ stormur. Látið drífa undan Barða.

12.  NÖ gjóstur. Verið að fiska út af Kóp grunnt, en ekkert fiskirí.

13.  NÖ stífur gjóstur. Haldið sjer við út af Flóanum til kl. 7 emd. Þá heist og krussað til Bíldudals.

14.  Hægur innvindur. Lagst á Bíldudal kl. 3 emd. Kl. 4 emd halað uppað ytri bryggjunni og losað úr fiskurinn. Var 2514 að tölu. KL. 10 emd halað uppí fjöruna til að banka.

15.  Logn. Bönkuð sunnri síðan.

16.  Logn allan daginn. Kláraðar allar nauðsynjar um borð.

17.  Logn til kl. 2 fmd. útvindur eftir það. Þá heist og siglt út N ströndina. Þegar útfyrir kom tekin 2 rif í stórsegl og látið drífa undan Sljettanesi.

18.  N stormur með regni og þoku. Erum drifnir útaf Patreksfirði kl. 7 fmd. Þá heist og siglt inní Flóa og haldið sjer við með smáseglum til kl 6 emd. Fór þá að hægja. Þá lensað frá og suður á Víkur en ekki fisk vart.

19.  Hægur V. Lensað útaf Kóp en fátt um fisk.

20.  Hægur V. Lensað norður á Barðagrunn og var þar mjög fátt um fisk.

21.  Hægur V. Lensað frá og norður af Kögri djúpt. Farið að fiska kl 10 fmd en mjög fátt um fisk.

22.  Stífur NÖ gjóstur. Tekin 2 rif í stórsegl og látið drífa.

23.  NÖ stormur. Haldið sjer við með smáseglum inn með Straumnesinu vestan til, til kl. 8 emd, þá siglt inn á Aðalvík eftir snjó.

24.  Stífur NÖ vindur, ljett kl. 9 fmd og siglt út.

25.  Hægur V vindur. Lensað norður út af Hornvík og fengum þar dálítinn fiskreyting, allt ruslfiski.

26.  Hægur V vindur. Verið að fiska frá og norður af Hornbjargi, fátt um fisk, lögðum síldarnet um nóttina en fengum ekkert.

27.  Logn, verið að fiska útaf Geirólfsnúp djúpt og fengum dágóðan fiskreyting af góðum fiski. Lögðum net um nóttina en fengum ekkert í það.

28.  Hægur Ö og SÖ. Verið að fiska út af Geirhól djúpt en heldur fátt um fisk.

29.  Hægur Ö og SÖ, verið að smásigla út úr bugtinni en ekkert um fisk.

30.  Hægur Ö og verið að fiska út af Horninu til kl. 10. fmd.. Stífur NÖ gjóstur eftir það, þá lensað út af Aðalvík og látið liggja um nóttina.

31.  NÖ stormur. Haldið sjer við undir Grænuhlíðinni til kl. 2 emd. Þá heist og siglt inn á Ísafjörð eftir síld, lagst utan til á Prestabugtinni kl. 5 emd.*                                  *Lesarinn verður að ráða úr blýantsstrikunum, því blekið fór niður.

Ágúst, 1900

Þá komum við til með að skrifa eitthvað yfir hann august, en því miður er skrifarinn ekki svo ríkur að hann geti keypt sjer blek og verður því að brúka blýant.

1.      NÖ stormur. Legið inni á Ísafirði.

2.      NÖ gjóstur. Teknar 6 skeppur af síld kl. 8 fmd. Ljett og siglt norður undir ströndina eftir ís og snjó. Síðan siglt út.

3.      Hægur NV. Verið að fiska norðan til í Djúpál og höfðum dágóðan fiskreyting.

4.      Hæg NÖ verið að fiska norðan til í Djúpál og höfðum reyting af mjög góðum fiski.

5.      Frískur NÖ vindur. Verið að fiska út af Rit og fátt um fisk en ekki hægt að fiska niðri í álnum fyrir slæmri ástöðu.

6.      Hæglátur NÖ, lensað vestur yfir ál. Höfðum dálítinn fiskreyting um nóttina af ruslfiski.

7.      Logn fyrri hluta dagsins, en hægur Ö kaldi eftir það. verið að fiska vestanvert við álinn, en fátt um fisk.

8.      Hægur Ö kaldi. Verið að fiska út af Skálavík, en fátt um fisk.Kl. 7 emd heist og byrjað að sigla útá Barðagrunn og siglt út alla nóttina, en fer smá hvessandi.

9.      NÖ gjóstur. Látið drífa vestur eftir Barðagrunni og höfðum reyting af góðum fiski.

10.  NÖ gjóstur til kl. 8 fmd, en hvass eftir það með sjóvelting, en þá drifið út af Arnarfirði djúpt. Þá lensað útaf Sljettanesi og fengum nokkra góða drætti síðari hluta dagsins.

11.  NÖ gjóstur, verið að fiska út af Barða, Siglt upp síðari hluta dagsins og krussað inn Arnarfjörð um nóttina. Teknar gellur eftir túrinn, sem voru 4220 að tölu.

12.  Lagst á Bíldudalshöfn kl. 6 fmd.

13.  Hæg SV. Flutt úr og í nema kol og vatn.

14.  SV rok. Stikkað á inntakskeðjunni [ekki skýrt hvað er skrifað] og legið aðgjörðalaust þann dag.

15.  Hægur SV. Tekið kol og vatn, siglt kl. 5 emd út af Hringsdalsbót og látið reka þar um nóttina við smokk og fengum 170 stykki.

16.  Hægur NV. Halað niður út af Sljettanesi kl. 11 fmd og fengum þar dálítið af fiski yfir daginn.

17.  Hægur NÖ kaldi. Verið að fiska grunnt út af Sljettanesi og höfðum góðan reyting af gangfiski, en heldur smár.

18.  Hvass SV. Látið drífa undan Sljettanesi og norður út af Barða og höfðum dágóðan fiskreyting af heldur smáum gangfiski. Siglt um kveldið inn í Önundarfjarðarmynnið til að reyna fyrir smokk um nóttina, en urðum ekki varið við hann.

19.  Hvass SV. Krussað vestur eftir allan daginn.

20.  Hægur SV til kl. 5 emd. NÖ gjóstur eftir það. Verið að fiska út af Sljettanesi grunnt og höfðum góðan fiskreyting af gangfiski. Kl. 8 emd heist og inn á móts við Stapadal í smokkleit, en fengum ekkert þá nótt.

21.  Logn allan daginn. Rak yfir fjörðinn yfir undir Dalina.

22.  Krussað út með hægum NV vindi og höfðum fengið 130 smokka í firðinum.

23.  SV stormur. haldið sjer við út af Sljettanesi til kl. 7 emd. Þá látið renna inn á Dýrafjörð og lögðumst á Haukadalsbót kl. 9 emd.

24.  Frískur Ö vindur. Ljettum kl. 4 fmd. og sigldum út af Sljettanesi. Höfðum dálítinn fiskreyting þann dag.

25.  SV stífur gjóstur. Haldið sjer við norðanvert undir Sljettanesinu.

26.  Hæglátur SV. Siglt djúpt út af Sljettanesi og látið drífa frá og norður um nóttina en ekkert fiskirí.

27.  Hæglátur SV vindur. Látið drífa norður eftir Barðagrunni og höfðum allgóðan fiskreyting af góðum fiski.

28.  Stífur V gjóstur. Erum drifnir að Djúpál kl. 8 fmd. Þá heist og krussað vestur eftir fram á næsta dag.

29.  Stífur V gjóstur. Halað niður kl. 4 fmd á Barðagrunninu út af Sauðanesi, en ófiskandi fyrir stormi. Siglt upp síðari hluta dagsins.

30.  Hæglátur SÖ, verið að fiska grunnt út af Önundarfirði en alveg fisklaust.

31.  N stormur með bleytukafaldi. Siglt inn á Dýrafjörð og lagst á Haukadalsbót kl. 6 emd.

September, 1900

1.    NV hæglátur. Teknar 4 tunnur af vatni.

 

    Í nokkra daga hefur ekki verið skrifað, eins og bókin ber með sjer, en skipið komst vel og lukkulega í vetrarskorður að enduðum fiskveiðatímanum.

    Um borð í „Gyðu“ frá Bíldudal, í september 1899 [á að vera 1900, sbr. almanak og hátíðisdaga um sumarið].

                                                              Veturliði Ólafur Bjarnason

                                                              Sign.: V. Ó. Bjarnason