Aðsent efni

Ferðasaga: París er einnar messu virði

 ,,París er einnar messu virði”.
Svo mælti Hinrik IV frakkakonungur (1553 – 1610) er Clement VIII páfi kom honum inn á kaþólskuna og lofaði honum einhverjum fríðindum, ásamt því að syngja honum messu.

Við fórum til Parísar nálægt miðjum september 2004, undirritaður og kona hans Eva Þórarinsdóttir. Í stórborgarferð er hægt að gera sér til gamans á margan hátt, eftir því hvað hugur fólks stendur til og hverjar eru langanir þess. Hægt er að stunda fjörugt næturlíf og sofa þá fram eftir næsta degi til undirbúnings nýs skemmtikvölds, eða að versla sér dót í margskonar búðum. Við kusum að ganga um svæðið með aðstoð af korti og skoða sögustaði hinnar merku borgar og listasöfn, en á slíku er enginn skortur á þeim stað.

Við fórum með vagni frá flugvellinum að Sigurboganum og fengum okkur leigubíl niður eftir Champs Elisiés og að Hótel Home Plazza Bastille við Rue Amelot stræti nr 74, en þaðan er um 10 mínútna gangur að Bastillu torgi. Aðsetur hótelsins samanstendur af níu húsum, sem mynda torg eða garð í miðju og heitir hvert um sig nafni einhvers fyrrverandi snillings Parísarborgar, svo sem Rodin, Gaugain o.fl., en við bjuggum í Eiffelshúsi. Þarna er komið það langt frá götu, að hljótt er fyrir bifreiðaargi og mótorhjólum, sem geta ært óstöðuga vegna hávaða þeirra og aksturslags á vegunum.

Ekki var þarna hópur á ferð, en ein hjón úr Reykjavík reyndust dvelja þarna utan okkar og voru þau sífellt á miklum gönguferðum um borg og stræti. Við sáum lítið sem ekkert til þeirra þar til á næstsíðasta degi veru okkar í borginni og reyndust þau við viðkynningu vera hið ágætasta fólk.

Við tókum lífinu með ró fyrsta kvöldið, en morguninn eftir lögðum við af stað í skoðunarleiðangur og komum fyrst að Bastillutorginu. Allar virðast vegalengdir stuttar að sjá á korti, en eru laundrjúgar undir fæti er á reynir.Þarna hófst byltingin 14. Júli 1789. Lýðurinn þusti þangað eftir að hafa stolið 28.000 byssum og nokkrum fallbyssum í Invalides og krafðist inngöngu, en verðirnir neituðu allri uppgjöf. Þeir voru þá allir drepnir og fangar frelsaðir, sem reyndust þó ekki vera fleiri en 6 eða 7 og voru þeir ágætlega haldnir. Um 100 manns féllu þó áf liði byltingarmanna. Bastillan hafði fengið á sig táknmynd valds og illsku, en þar höfðu að mestu verið haldnir menn af aðalsættum, eða heldrimenn, sem ekki höfðu verið yfirvöldum þóknanlegir. Má þar nefna bæði Marat, ritstjóra byltingarblaðsins og Sade markgreifa. Prestur nokkur í Lyon varð svo heillaður af byltingunni og þeirri hugsjón er að baki lá, að hann gerði sér ferð til Parísar og hirti stein úr Bastillunni þegar byrjað var að rífa hana niður og rogaðist með hann í fanginu til heimabæjar síns, 6 daga ferð og kom honum fyrir í altarinu í kirkju sinni. Stjórnendum Lyons geðjaðist ekki betur að slíku framferði en svo, að þeir drógu fallöxi úr geymslu, Þá er Parísarstjórn hafði sent þeim til hirtingar óþekkum mönnum, en þeir höfðu skirrst við að beita og gerðu prest höfðinu styttri. Byltingarmenn náðu þó að hirða af honum höfuðið, fóru með það í fararbroddi um Parísarborg og gerðu prest að píslarvotti. Nú sést aðeins votta fyrir undirstöðum Bastillunnar syðst og vestast á torginu. Kastali þessi var hluti af fyrsta varnarmúrnum, sem byggður hafði verið umhverfis borgina, en er hann þrengdi að henni við útþenslu hennar, var hann rifinn, en kastalinn látinn standa eftir til öryggis og þá nýttur sem fangelsi. Annar virkisveggur var byggður fjær og utar og að lokum sá þriðji, sem gerður var að mestu úr mold og skarni, í stíl við höfund sinn, að sögn Victors Hugo, en sá var Lúðvík konungur XV. Hann þótti ekki hafa skapað sér virðingu eða vinsældir í stöðu sinni, nema síður væri.

Þegar Napoleon mikli kom til valda fór hann fljótlega að hafa forgöngu um gerðir minnismerkja víða um borgina og var mörgum þeirra ætlað að mæra hann sjálfan og sigra hans, en minningar um byltinguna voru honum lítt að skapi. Hann lét byggja Sigurbogann við Champs Elysées og annan minni við Concordetorgið. Á Bastillutorginu lét hann reisa mikla undirstöðu er á skyldi standa fíll einn stór og þeyta vatni um rana og vera þannig tilkomumikill gosbrunnur. Byggður var fíll með múrsteinsundirstöðum að fótum, en skrokkur var úr timbri og skyldi á þann hátt prófað hvort skepna þessi nyti sín á stalli. Þannig stóð tilraun sú lengi, en aldrei varð þó úr raunverulegri byggingu hinnar tilætlaðu skepnu. Victor Hugo lætur piltinn Gavroche búa í skrokki fílsins í sögu sinni um Vesalingana og hjálpar hann þar einnig tveimur heimilislausum börnum um húsnæði hjá sér og kaupir þeim brauð af litlum efnum.

Eirsúla mikil og há, sem nefnd er Júlísúlan var síðar reist á stallinum í minningu þeirra er létu lífið í áframhaldandi umróti 1830 og er frelsisgyðja gullin á toppi hennar. Kommúnardar, sem svo voru nefndir höfðu náð völdum í borginni 1871Þegar Napoleon III. var að tapa stríðinu við Prússa og var flúinn til Englands. Þjóðverjar höfðu tekið um 20.000 franska fanga, sem hötuðust við kommúnardana og var þeim sleppt lausum fullvopnuðum til að ráðast að löndum sínum. Barist var um alla borg og kommúnardar kveiktu í hverri byggingu, sem þeir neyddust til að yfirgefa. Þeir höfðu komið fyrir sprengiefni í súlunni og ætluðu að sprengja hana í loft upp, en voru sigraðir áður en þeir næðu að fullnægja því verki.

Gengið var í átt að Signu og við Rivoligötu stendur ráðhúsið, sem nú heitir Hotel de Ville, en torgið hét áður Grévetorg (Árbakkatorg). Þar var fyrrum aftökustaður borgarinnar og margt hefur þar ljótt gerst. Fólk var hengt þar, brennt og limað. Þar stóð einnig gapastokkur og þar lætur Victor Hugo kripplinginn Quasimodo taka út hegningu sína fyrir að hafa náð að hrifsa fallegu stúlkuna Esmeröldu úr klóm yfirvaldsins og álitinn þá hafa ráðist á konu. Í kvikmyndagerðunum er sá atburður sífellt látinn fara fram við Notre Dame kirkju, þar sem að vísu stóð slíkt tæki einnig, en eitthvað af annari gerð. Ravalliach, sem myrti Hinrik IV.konung á götu í trúarofstæki 1610 var aflífaður hér á hroðalegan hátt. Konungur þessi hafði þótt hinn ágætasti í sinni stöðu, hafði hafið framkvæmdir á ýmsum stórræðum víða um borgina og minnkað álögur á bændafólk, enda þótti því vænt um hann. Farið var eftir þessum sama dómi síðar og samskonar aftaka endurtekin, þegar Damien reyndi að myrða Lúðvík XV. konung við Versali, en náði aðeins að rispa hann á síðu lítillega. Casanova horfði á atburð þann í fylgd tveggja hefðarkvenna, en þau höfðu aðstöðu við glugga á húsi, sem sneri að torginu. Robespierre hafði aðsetur í ráðhúsinu með ógnarstjórn sína og þar réðst Barras hershöfðingi inn með lið sitt og tók hann fastan, þegar sem flestir stjórnarmenn voru orðnir hræddir um að röðin væri komin að þeim að lenda í fallöxinni. Robespierre reyndi að skjóta sig, en hafði aðeins af að kjálkabrjóta sig. Hann var fluttur í Conciergeries fangelsið á Borgareyju og sendur að fallöxinni daginn eftir. Fallöxin stóð upphaflega á Grevtorgi, en var síðan færð á Concordetorg.

Áfram var haldið og farið yfir brú að Lúðvíkseyju (Ile de Louis). Hún heitir í höfuðið á konungi nokkrum frá fyrri tímum, en hann lét gjarnan flytja sig út á eyjuna þar sem hann hvíldist og naut kyrrðar. Eyjan var áður fyrr hagnýtt til beitar kúm og hólmi einn við hana hét eyja kúaflutningsmannsins. Eyjarnar voru þá fimm, en síðan voru hólmarnir sameinaðir þeim tveimur stærri. Eyjan er hlaðin stórhýsum og hefur maður litla tilfinningu fyrir að vera staddur á eyjarhólma, enda brýr allar breiðar og umferð jafn hröð og annarsstaðar í borginni. Við héldum áfram yfir á Borgareyju (Ile de city) og þar er fljótlega komið að hinni frægu kirkju Notre Dame. Byrjað var á smíði hennar á 12. Öld og hefur eitt og annað drifið á daga hennar. Byltingarmenn brutu og eyddu mestu af skrauti hennar og styttum og var hún notuð sem pakkhús um tíma. Einnig hafði staðið til að rífa hana. Napoleon lét opna hana aftur til kristnihalds og þar var hann krýndur til keisaratignar. Þarna gekk böðullinn Sanson einnig í hjónaband, sá er hjó með fallöxinni út alla byltinguna.

Napoleon III, síðasti keisari frakka gekk svo að eiga Eugeníu Montjo frá Spáni í þessari kirkju.

Greiðlega gekk að komast inn í kirkjuna og er þar þungt yfir öllu og hátíðlegt, en alllöng biðröð var til að komast upp í turninn, þann sem nær liggur Signu og reyndum við ekki að komast í þann félagsskap. Við veltum samt fyrir okkur hvort saga Hugos um krypplinginn drægi fólk að þeim stað, en þar uppi átti hann víst að hafa haft aðsetur sitt með herbergi í turninum.

Ekki fórum við inn í Saint Chapel, þar sem eitt sinn var geymd þyrnikóróna Krists, en mun hún nú vera varðveitt í Notre Dame. Kirkja sú er byggð í hinum fegursta stíl, en æði óhrein á að líta og er svo um flestar byggingar í borginni þó mismunandi sé. Við hliðina á dómhúsinu stendur fangelsið Conciergerie, þar sem við litum inn og komum að klefa þeim, sem María Antonietta var haldin í. Þar er líkan af henni svartklætt og snýr baki við gestum, en er spurt var um klefa þann er Robespierre gisti síðustu nótt sína og fullyrt er um í bók, að hafi verið næstur við klefa drottningar, að vísu nokkru eftir aftöku hennar, var því svarað til, að ekki væri vitað um staðsetningu þeirrar vistarveru. Við héldum svo yfir pont neuf brúna, þeirrar sem aftökuvagninn hafði farið um og flutt margan farminn yfir að Concordetorgi þar sem öxin beið þeirra.
Louvre safnið er þarna við Signubakkann og var fljótfarið þar inn, en oft hefur verið kvartað um, að þar sé löng biðröð og sumir hafa horfið frá inngöngu þessvegna. Nærri dyrum er glerpýramítinn ásamt tveim öðrum smærri til hliðanna. Á neðri hæð safnisns eru fornar styttur, margar fagrar og merkilegar. Þegar nálgast er málverkadeildina er sem allar leiðir liggi til Monu Lisu, því víða eru prentmyndir af henni með ámerktri ör er sýnir stefnu að henni, ýmist í beygju á göngum eða upp til efri hæða. Mörg eru listaverk þarna geysifögur, en innst fyrir gafli hangir hin fræga mynd DaVincys af konunni með brosið fræga, varin grindverki bogmynduðu er teygist fram á gólf og þar var krökkt af fólki, svo illt var að komast nærri listaverkinu.
Louvre er hluti af konungshöll og í framhaldi af henni í vesturátt er Tuilleries höllin. Konungshallir hafa verið á nokkrum stöðum, en þarna bjuggu ýmsir konungar, þar til Lúðvík XIV. flutti sig til Versala. Lúðvík XVI var látinn flytja sig aftur í Tuilleries höll og þar bjuggu síðan bæði Napoleon Bonaparte, Napoleon III. Þessi höll hefur orðið fyrir ýmsum hremmingum, þar á meðal var hún brennd að hluta. Framundan eru Tuilleries garðarnir að Concordetorgi. Steinsúlu mikla ber við himin og er sú frá Egiptalandi. Þarna er einnig minni sigurboginn og komið er að gosbrunnum, sem eru hin ágætustu verk. Styttur eru þarna stórar og miklar, en að lokum sjást standa á stöplum með nokkru bili hrossatemjarar tveir, en á milli þeirra stóð fallöxin í fyrri daga.

Einn morguninn héldum við í Luxemborgargarðinn þar sem stendur höll Maríu Medice, sem gift var Hinriki IV. Hallir þessar eru slík bákn, að manni blöskrar, að verið skyldu hafa mannabústaðir í eigu einnar fjölskyldu. Vatnssíki er eitt af ágætum verkum skammt frá höllinni og við enda þess rís veggur einn með styttum, stórum og fögrum. Garðurinn er mjög notaður af fólki til skokks og heilbrigðis og var hann krökkur af slíku heilsuliði svo gæta mátti sín að verða ekki ruddur um koll af fólki þessu, ef of mikið var slangrað út á brautirnar. Þaðan röltum við að Eiffelturninum í rólegheitum og stönsuðum þó stundum á litlum veitingastöðum og fengum okkur bjór og snarl eftir þörfum. Við þá merku byggingu var stór biðröð af fólki, sem hugðist komast upp í hana í lyftunni og hurfum við frá því að taka þátt í þeirri bið. Í stað þess rýndum við mjög í smíðisverkið og dáðumst að því verkfræðilega afreki er þar bjó að baki. Hermenn með alvæpni gættu torgsins og lögreglumenn riðu þar um á hrossum stórum.

Eitt sinn er við sátum að kvöldmáltíð á litlum veitingastað nærri hótelinu lentum við í samræðum við breskan prest er mataðist við næsta borð við okkar og kvaðst hann hafa brugðið sér einsamall í helgarferð yfir sundið. Sagðist hann hafa gengið í austurátt til kirkjugarðsins La pére Lachaise þar sem líta mætti mörg fræg nöfn á steinum. Kvað hann þar hinar mestu furður að komast sífellt í tæri við frægt fólk, þó neðanjarðar byggi. Það varð úr, að við röltum sömu leið morguninn eftir. Á leiðinni er komið að styttu stjórnmálamannsins Leon Blum þar sem hann stikar mikinn og frakkinn slengist um síður hans. Fallegur garður er þar einnig og kenndur við hann. Jesúítar stofnuðu kirkjugarðinn, en regla þeirra varð til í gömlu kirkjunni er stendurá sama torgi og Sacré coeur uppi á Montmatre hæð. Þarna er leiði Jims Morrisons, Edith piaff, Oscars Wilde og margra fleiri. Endapunktur stríðsins við kommúnarda 1871 varð þarna, þegar aðeins á annað hundrað manns voru eftir af þúsundum þeirra gersigruðum. Þeim var þá smalað út í garðinn og skotnir þar og grafnir þar sem þeir féllu.

Carnavalet safnið er ekki mjög langt í vestur frá Home Plazza hótelinu. Það er í geysimikilli höll, sem eitt sinn var í eigu frú Sévigny nokkurar og er aðliggjandi gata kennd við hana. Höllin lykur um mikinn garð, svo sem mörg þessara húsa, en efsta hæðin er tileinkuð byltingunni. Þar eru málverk mörg um atburði er þá gerðust ásamt myndum og styttum af frægustu byltingarmönnunum, svo sem Marat, Robespierre og Danton. Líkan af Bastillunni er þar höggvið úr einum steini hennar. Líkön eru þarna af borginni frá fyrri dögum. Nokkru vestar er hús það er Victor Hugo bjó í eftir að hann kom úr útlegðinni á Guernsey í Ermarsundi, þar sem hann dvaldi næstum í tvo áratugi. Það er eins og víðar stórhýsi mikið, sem lykur um stóran garð og er sá opinn almenningi. Fólk sat þar á bekkjum og las í bókum. Fuglalíf var þar lífvænlegt og ægði þar saman krákum, dúfum og brúnleitum smáfuglum, sem við höfðum ekki þekkingu til að bera kennsl á. Í suðvesturhorni ferhyrnings húsasamstæðunnar er íbúð Hugos og er hún merkt með fægðu koparskilti við dyr. Íbúð þessa hafði hann á leigu og vel hefur hann búið þar, því mikið er þar af fallegum húsgögnum og ýmsum munum er heimili mega prýða. Sum húsgagnanna smíðaði hann sjálfur, því hann var hagur vel og einnig ágætur málari og er þarna margt af myndum hans. Pallur er smíðaður út úr þili á skrifstofu hans og þar stóð hann við ritun bóka sinna, svo sem ýmsir aðrir rithöfundar hafa einnig gert. Nokkrurn spöl vestar er Pompidou safnið með marglitum rörum og leiðslum utan á og er það hin furðulegasta sjón að sjá.
Við komum í Des Invalides, sem Lúðvík XIV. Lét byggja yfir særða hermenn. Þar í fögru húsi með gylltu hvolfþaki er kista Napoleons varðveitt niðri í hringlaga gryfju, eða krefti, sem svo er víst nefndur, skreyttum með nöfnum staða af sigrum hans. Í húsi þessu er einnig ágæt eirstytta af nokkrum hermönnum sem bera kistu Foch hershöfðingja til grafar. Stríðsmynjasafnið er þarna í næstu byggingu og er þar urmull af vopnum og brynjum ásamt ýmsu öðru góssi tilheyrandi styrjöldum. Þar má líta gráan frakka Napoleons, hatt hans og ýmist smádót er hann þurfti á að halda í stríðsferðum sínum. Í sérherbergi er rúm hans og hermannabeddinn, sem hann flutti með sér á ferðum og yfir dyrum vistarverunnar er rautt skrautklæði það er hengt var upp yfir krýningarathöfninni í Notre Dame kirkju.

Við brugðum okkur í D´Orsay listasafnið, sem stendur á austurbakka Signu og var áður járnbrautarstöð.

Það er mikið hús og voldugt. Utandyra er röð af styttum, sem mótaðar hafa verið í eir eða brons og eru þær hinar fegurstu á að líta. Á fyrstu hæð safnsins eru einkum styttur fornar og nokkur risastór málverk á veggjum. Ekki er þó meiningin að telja upp þau verk hér með nöfnum. Húsið er fimm hæðir og í þeirri efstu ber mest á verkum þeirra Claude Monet, Eduard Manet, Matisse og Van Gogh, ásamt fleirum, en þeim síðastnefnda er tileinkuð heil stofa innst í salnum. Við höfðum gaman af að skoða þar ýmsar myndir er við þekktum vel úr bókum og af póstkortum.

Eitt kvöld fórum við upp á Montmatre þar sem teiknarar stunduðu iðju sína og allt var þar með gleðiblæ. Við komum að Rauðu millunni og leituðum inngöngu, en þar var allt uppselt. Mjög var þá reynt að draga okkur inn á klámbúllu við hliðina á því fræga húsi, en ekki höfðum við áhuga á slíkri sýningu. Eldri hjón frá Kanada, sem bjuggu á sama hóteli og við og voru síkát og hlæjandi, einkum þó konan, höfðu farið á Rauðu milluna og létu lítið yfir herlegheitunum. Var lýsing konunnar hin fyndnasta er hún sagði frá berbrjósta dansmeyjunum er skvettu fótum og sýndu upp í nærbuxurnar. Kampavín höfðu þau hjón fengið á borð sitt og reyndist það svo bragðvont, að bóndi hennar hellti því öllu sem vökvun á blómin er þar stóðu í pottum. Eftir lýsingu þessa urðum við ekki jafnsár yfir að hafa misst af stað þeim er listamaðurinn André Toulouse Lautrec gerði frægan og kvikmynd hefur verið gerð um, en við sáum nokkrar af plakatmyndum hans á D´Orsay listasafninu og var það nokkur sárabót.
Morgunn einn var kominn tími til að tígja sig til brottferðar og að aka út á flugvöll. Þangað fórum við í samfloti við þau ágætu hjón úr Reykjavík, sem einnig voru á hótelinu. Lýkur þar að segja frá Parísarferð.

Heimildir utan eigin uppgötvana í ferðalaginu:

Guðbrandur Jónsson prófessor: Furður Frakklands.
Albert Mathiez: Franska byltingin.
Hans Mahner Mons: Öxin.
Duff Cooper: Talleyrand.
Stefan Sveig: Lögreglustjóri Napoleons.
Victor Hugo: Vesalingarnir og Hringjarinn í Notre Dame.
American peaples enciclopedia.

Hafliði við safnið D´Orsay

Hafliði við safnið D´Orsay

Eva fyrir utan hotel des Invalides

Eva fyrir utan hotel des Invalides

Undir Eiffelturni

Undir Eiffelturni

Júlísúlan

Júlísúlan