Aðsent efni

Ævintýri Jóa á gönguför 2014

Ævintýri Jóa á gönguför 2014

Einn af okkar kraftmestu félögum í Arnfirðingafélaginu er Jóhann Gunnarsson, oft í daglegu tali okkar Bíldælinga kallaður Jói Öddu. 

 Á sólríkum apríldegi vorið 2014 mætti hann á Kaffikallana með veglega áætlun um fjallgöngu frá Verdölum í Arnarfirði síðar um sumarið.

Eins og glögglega má sjá hér á myndunum vakti áætlun Jóa verulegan áhuga og ýmsir lýstu áhuga á að taka þátt í göngunni.  

Kortin hans Jóa voru stúderuð af miklum móð og greinilega mátt sjá þann orkuinnspýting sem kom yfir ýmsa sem þarna voru.

Líklega hafði Jói gleymt að semja við veðurguðina um gott veður, því á þeim tíma sem gönguferðin átti að verða, var stöðugt leiðindaveður, rigning og þokusuddi til fjalla.  Ekkert gaman að vera í fjallgöngu í slíku veðri. 

Frekar en gera ekkert gengu þeir Jói og Gummi formaður frá Bíldudal og út í Ketildali. Þrátt fyrir að gott væri að tylla sér á stein í fjöruborðinu til að fá sér bita og horfa um leiða á gulan fjörusandinn og kyrrlátt hafið, fannst Jóa þetta samt ekki nóg. Hann vildi ganga fjöll. 

Keyrði formaðurinn hann þá fram á gamla skíðaskálanum sem var rétt við veginn yfir Hálfdán og þar lagði Jói í sína langþráðu fjallaferð.

Í fallegu veðri lagði Jói af stað frá skíðaskálanum og stefndi upp að Hnjúk, með áform um að ganga yfir í Hvestudal. Eins og sönnu náttúrubarni sæmir varð Jói næsta samstundis horfinn inn í undraheim hinnar miklu náttúrufegurðar sem á þessu svæði er. Röskum skrefum gekk hann upp á öxlina til hliðar við Hnjúkinn og horfði þar yfir kyrrlátt Hnúkavatnið, þar sem Álftahjón með tvo unga syntu rólega í veðurblíðunni. 

Eftir að hafa virt þessa virðulegu fugla fyrir sér um stund, hélt Jói göngunni áfram og stefndi til fjalls. Þegar hann var kominn góðan spöl upp í hlíðina staldraði hann við og horfði til baka yfir Hnjúkinn og Hnjúksvatnið. Falleg sjón.

Jói er röskur göngumaður og áður en varði var hann kominn upp á topp Hvestufjalls og horfði niður í Hvestudal og út á Arnarfjörðinn lognsléttann og fagrann. 

Þarna staldraði Jói við um stund og drakk í sig þá yndislegu orku sem þarna var, ásamt útsýninu glæsilega.

Nú lá leiðin niður í móti hjá Jóa og gekk hann sem leið liggur niður í hvilft sem er í fjallinu Hvestu megin. 

Þegar þangað kemur verður hann afar hissa að sjá þar nautgipi á beit, svona langt frá mannabyggðum.

Jói sest niður og fer að hugleiða þetta samtímis því að horfa á gripina. Þá fær hann óviðráðanlega löngun til að halla sér útaf smá stund og njóta í botn þeirrar kyrrðar sem þarna var. Liggur hann nú um stund með lokuð augun en finnst svo allt í einu eins og horft sé á sig.

Þegar hann opnar augun horfir hann á fjallsenda þar sem nokkur þúst er fremst á fjallinu.  Finnst honum þessi þúst fara á hreyfingu og færast nær, þar til hann sér að þarna er undurfögur álfkona á ferð.  Álfkonan beinir sprota sínum í átt til Jóa og segir seiðandi röddu.

Þú mennski maður vilt þú reka nautgripi mína niður í dalinn, á beitilandið sem þar er.

Jói, undir þeim sterku áhrifum sem frá töfrasprotanum stafaði, spratt á fætur og sagðist skyldi koma gripunum niður í dalinn.

Ég mun launa þér ríkulega, sagði álfkonan.

Þegar Jói leit við, til að líta á álfkonuna var þar engin og hrúgan á fjallsendanum var á sínum stað.

Jói fór nú að reka nautgripina niður í dalinn og þegar þangað var komið, birtist álfkonan að nýju og sagði honum að koma með sér og þiggja umbun sína fyrir þann mikla greiða sem hann hefði gert sér.

Leiddi álfkonan Jóa nú í sitt steinhús og bar honum þar stórt silfurfat fullt af sviðakjömmum. Jóa varð á að hugsa hvernig hún hefði geta vitað að sviðakjammar var sá besti matur sem hann gæti óskað sér. Hann velti ekki frekar vöngum yfir því heldur tók hraustlega til matar síns, því hann var orðinn svangur, eftir gönguna.

Þegar Jói hafði borðað nægju sína bað álfkonan hann að koma með sér út í hesthús því hún ætlaði að tryggja honum fljóta og létta ferð heim á Bíldudal. Einhverjum töfrum hefur álfkonan trúlega slegið á Jóa því hann vissi ekki af sér fyrr en hann var kominn inn á Bíldudal. Þar kvaddi álfkonan hann og sagði hann mikinn gæfumann verða ef hann héldi áfram að vera svona bóngóður við þá sem væru hjálpar þurfi.

SÖGULOK

Jói vill færa þessari álfkonu kærar þakkir fyrir veitingar og þann greiða sem hún gerði honum við heimkomuna og segir sögu sína renna styrkum stoðum undir þjóðsöguna um að álfkonur launi ríkulega þann greiða sem þeim er gerður.

 

 

Stofnun fyrstu hljómsveitar á Bíldudal

Um upphaf hljómsveita á Bíldudal

Skráð af Guðbirni Jónssyni

Vegna villandi upplýsinga sem hafa komið fram í rituðu máli, tel ég rétt að segja hér frá aðdraganda og líftíma fyrstu hljómsveitar sem stofnuð var á Bíldudal.

Fram til ársins 1955 hafði eingöngu verið spilað á harmóníku á böllum. Á þeim tíma sá Hreiðar, bróðir minn, oftast um spilamennsku á dansleikjum. Þegar hann var að æfa sig heima, sló ég oft taktinn á potta og allskonar tól sem skapað gátu hljóm. Hreiðar fann hve mikið léttara var að spila þegar taktur var sleginn með, svo hann fór að tala um hve nauðsynlegt væri að fá trommara til að spila með sér. Ég var þá of ungur, einungis að verða 14 ára, fæddur 10. oktober 1941, og mátti því alls ekki vera á opinberum böllum.

Haustið 1955 er Hafliði Magnússon, þá sjómaður á togaranum Gylfa frá Patreksfirði,  staddur heima hjá okkur að leggja drög að því við Hreiðar, að hann spilaði á balli næst þegar þeir á Gylfanum kæmu úr túr. Hreiðar færðist undan og sagðist eiginlega vera hættur að nenna þessu, nema það fengist í það minnsta trommari til að spila með sér.  Hófst þarna mikil hugmyndaleit, sem endaði með því að farið var til Hannesar Friðrikssonar og hann fenginn til að samþykkja að læra á trommur.  Að því loknu var farið á símstöðina og hringt í hljóðfæraverslunina Rín í Reykjavík og pantað trommusett á nafni Hafliða.

Þegar Hafliði kom aftur og hafði þá þegar auglýst ballið, var trommusettið komið.  Hannes var þá hins vegar orðinn afhuga því að læra trommuleik og enginn annar fundinn til að taka þetta að sér. Hafliði kemur heim til okkar að ræða þá stöðu sem upp er komin. Var Hreiðar þá að æfa sig á harmóníkuna og ég að berja taktinn. Hafliði heyrði þetta út á hlað og fylltist metnaði að fá bara leyfi fyrir mig til að spila á ballinu, þó ég mætti ekki vera þar innan um fólkið. Fóru þeir, hann og Hreiðar, til Jóns hreppstjóra, og eftir nokkuð drjúgan tíma komu þeir aftur með þá heimild að ég mætti spila, en ég yrði að fara bakdyramegin út, eftir ballið, og fara beina leið heim, án samskipta við fólkið sem verið hefði á ballinu.

Þetta var dálítið dramatískt upphaf að hljómsveitarmyndun en svona var þetta. Með góðvild Guðjóns póstmeistara tókst að borga póstkröfuna, þó laugardagur væri. Páll Hannesson, afgreiðslumaður Ríkisskipa, brást líka vel við og afgreiddi sendinguna frá sér. Svo var haldið upp í samkomuhús og farið að setja trommurnar saman, sem var nokkurt mál. Setja þurfti öll skinn á og raða öllum einingunum saman en engin teikning fylgdi með til leiðbeiningar.

Ballið átti að hefjast kl. 22:00. Við höfðum því einungis rúman klukkutíma til að stilla og finna út hvernig þetta tól væri notað. En með töluverðan hnút í maganum hafðist þetta. Fyrsta ballið varð tiltölulega skammlaust, vegna fyrri æfinga minna við að berja takt í lögum sem Hreiðar spilaði. Næsta ball var svo jólatrésballið. Spiluðum við tveir á því balli, áramótaballi og þeim böllum sem voru haldin um veturinn 1956. 

Mig minnir að það hafi verið sumarið 1956 sem við spiluðum líka í samkomuhúsunum í Bakkadal og Selárdal, í Ketildölum og í það minnsta einu sinni man ég eftir að Pétur Bjarnason, síðar í hljómsveitinni Facon, spilaði á harmóníku með okkur Hreiðari. Það var síðla sumars og eina lýsingin sem var þar, var frá olíulampa á vegg og nokkrum kertum hér og þar. Þessi böll gátu staðið fram undir morgun, eða svo lengi sem fólk nennti að dansa.

 Það var svo þegar komið var að þorrablóti 1957, sem við vorum búnir, með aðstoð Hafliða, að fá frænda hans Jón Ástvald Hall Jónsson, (Gutta) til að spila með okkur á gítar.   Hann var, eins og ég, of ungur til að vera á böllum og giltu því um hann sömu reglur og um mig. En þeim reglum var aldrei fylgt eftir.  

Þegar Gutti var kominn í hópinn, skírðum við þessa fyrstu myndun  hljómsveitar á Bíldudal,  H G H tríóið, eftir upphafsstöfum í nöfnum okkar, Hreiðar, Guðbjörn og Hall. 

Vorið 1957 vorum við svo beðnir að spila á stúkuballi í skólanum, en þá átti að ljúka stúkustarfi vetrarins með smá balli. Hittist þá svo skemmtilega á að einmitt á þeim tíma var á Bíldudal staddur ljósmyndarinn Hannes Pálsson, frá Reykjavík, við myndatökur og hafði aðsetur í skólanum. Bauðst hann til að taka mynd af okkur. Var það samþykkt og tók hann þá meðfylgjandi mynd af hljómsveitinni. Þetta var eina uppstillta myndin sem af okkur var tekin.

Svona var hljómsveitin skipuð á árinu 1957 og fram á vorið 1958. Á þessum tíma spiluðum við víða, m. a. á sveitaböllum t. d. í skólahúsinu í Bakkadal í Ketildölum og gamla samkomuhúsinu við Haga á Barðaströnd. En bæði þessi hús voru án rafmagns. Dansað var því við kerta- og lampaljós. Við spiluðum einnig í Dunhaga í Tálknafirði og nokkrum sinnum á Patreksfirði, þó þar væri starfandi hljómsveit. Við urðum fljótt einskonar fastahljómsveit hjónaklúbbsins á Patreksfirð, til að spila á hjóna og paraballi klúbbsins sem alltaf var haldið á Patró í Góubyrjun. Var oft æði mikið basl að komast yfir fjöllin en alltaf hafðist þetta af.

Veturinn 1958 fengum við Jóhannes í Reykjarfirði til að keyra okkur á Willys jeppa sem hann átti. Voru trommurnar vafðar í segldúk og bundnar á þakið, slakað var á skinnum svo þau rifnuðu ekki í kuldanum. Við þrír með annað dót tróðum okkur inn í jeppann.  Ferðin vestur gekk þokkalega og vorum við komnir áður en ballið átti að hefjast.  En meðan ballið stóð yfir fór veðrið að versna svo við höfðum snör handtök við að taka dótið saman og koma því í bílinn. Svo var haldið af stað.

Gekk ferðin vel til Tálknafjarðar og einnig var þokkalegt veður upp Hálfdán að vestanverðu. En þegar upp var komið mætti okkur strekkings vindur með snjófjúki þannig að útsýni til aksturs var frekar lítið. Sat ég í framsæti hjá Jóa og reyndi að rýna með honum til að sjá vegaslóðann. Þannig fetuðum við okkur áfram niður sneiðingana í Fossabrekkunum og töldum okkur vera komna niður undir Katrínarhorn.

Gutti og Hreiðar voru við skál í aftursætinu og voru ekkert að velta fyrir sér baslinu hjá okkur Jóa. Þeir höfðu þó nýlega spurt hvort við vissum hvar við værum staddir og sagði Jói að við værum að koma að Katrínarhorni. Stuttu seinna varð hann áreiðanlega eitthvað pirraður yfir hávaðanum í strákunum afturí, því hann sagði allt í einu vel hátt og skýrt:

 "Hafið þið nokkuð séð veginn nýlega strákar" ? 

Við þetta sló á dauðaþögn í aftursætinu og þaðan heyrðist ekkert hljóð fyrr en við sáum örla fyrir skíðaskálanum og þeim afturí var ljóst að við værum komnir úr mestu hættunni í Katrínarhorni.

 Haustið 1958 fengum við Guðmund R. Einarsson til liðs við okkur en hann spilaði á gítar; mjög lipur sólóisti með flottan gítar. Þegar Guðmundur var kominn til sögunnar breyttist nafn hljómsveitarinnar og kynntum við okkur yfirleitt  sem Kvartettinn.

Við höfðum lengi haft þann sið að leyfa fólki að fylgjast með æfingum. Með þeim hætti fengum við mun meiri upplýsingar um óskir fólksins, sem gerði okkur auðveldara að vera með lögin sem fólkið vildi heyra. Ég hafði líka keypt mér öflugt útvarpstæki og sett upp mikið útiloftnet, fyrst og fremst til að ná bátabylgjunni.  En með þessum græjum náði ég líka ólöglegri útvarpsstöð í Norðursjó, sem nefndist Radio Caroline. Ég átti líka gott segulband og tók því alltaf upp ný lög sem okkur þóttu líkleg til að verða vinsæl. Við vorum því iðulega farnir að spila lög á böllum áður en þau voru farin að heyrast í Ríkisútvarpinu eða frá öðrum hljómsveitum.

Þegar við vorum orðnir fjórir, jókst til muna pressa á að við fengjum með okkur söngvara.  Í pásu á einni æfingunni fyrir jóla og áramóta törnina, var tekin alvarleg umræða um söngvara. Fyrst spurðum við okkur hvort söngvarinn ætti að vera kona eða karl. 

Uppástungur komu um nokkur nöfn og við nánari skoðun þeirra fækkaði ört í valhópnum. Sem fyrsta val var reynt að fá Lilju Garðars til að syngja með okkur, því hún söng býsna vel, en hún lagði ekki í það ævintýri.  Stóð að lokum valið milli tveggja karlmanna. Voru það Benjamín Jósefsson og Jón Kr. Ólafsson. Leist öllum félögum mínum betur á að reyna Benjamín því þeir óttuðust að erfitt yrði að laga taktvitund Jóns að dansmúsík, því hann hafði nánast eingöngu sungið klassíska tónlist.  Ég hafði það þó af að fá samþykkt að bjóða þeim báðum að syngja með okkur nokkur lög og sjá hvernig það gengi. Á endanum varð það bara Jón Kr. sem spreytti sig, því Benjamín lagði ekki í tilraunina þegar á reyndi.

Jón Kr. byrjaði því að syngja með okkur á þorrablóti 1959 og eftir það kölluðum við okkur - Kvartettinn og Kristján - því Kr. í nafni Jóns er fyrir nafnið Kristján. Segja má að þessi hljómsveit hafi orðið vel vinsæl á sínu landsvæði og ferðuðumst við bæði suður í Dali, Saurbæ og einnig norður á Strandir þar sem við spiluðum í Sævangi og skólanum í Bjarnafirði.

Við fórum líka í sýningartúra með Leikfélaginu á Bíldudal, sem flest vor fór með sýningar milli staða á Vestfjörðum. Við þau ferðlög var notið aðstoðar Landhelgisgæslunnar til að komast milli staða.  Að öllu jöfnu gekk slíkt áfallalaust en þó henti það við heimkomu úr einni ferðinni, með varðskipinu Ægi, að hann tók niðri á grynningu sem var rétt utan við bryggjuna.

Þarna mátum við bíða í 3 tíma eftir að félli að svo skipið kæmist að bryggju. Engar skemmdir urðu á skipinu og ekkert reynt að losa það fyrr en fallið hafði það mikið að, að skipið flaut upp og losnaði þannig. Mörgum fannst súrt í broti að komast ekki í land, en u. þ. b. 10 metrar voru frá stefni skipsins í bryggjuna. Leikfélagshópurinn var aldrei í vandræðum að gera eitthvað skemmtilegt, þegar tækifæri gafst og var biðtíminn því fljótur að líða.

 Það að hljómsveitin hafði stækkað, fleiri menn og meira dót komið til sögunnar, leiddi til þess að við vorum oft í mesta basli að komast yfir fjöll að hausti og vertum, til að spila á Tálknafirði eða Patreksfirði. Var oftast farið á tveimur bílum.

Ýmsir fastir skemmtanaliðir á þessum stöðum tóku fljótt tryggð við okkur og eins og áður sagði fórum við strax árið 1957 að spila á hjóna og paraböllum á Patreksfirði, oftast voru haldin í byrjun Góu. Það leiddi til þess að í mars árið 1961 vorum við að spila á slíku hjóna og paraballi á Patreksfirði, þegar Ómar Ragnarsson birtist allt í einu óvænt á ballinu. Hafði hann þá verið að koma vestur til að opinbera trúlofun sína með Helgu, sem síðan hefur verið konan hans.

Ómar hafði ekki verið lengi í salnum þegar farið var að pressa á að hann tæki nokkur sinna skemmtilegu laga. Talaði fólk við Gísla Snæbjörnsson, sem sá um ballið. Hann kom til okkar og spurði hvort við treystum okkur til að spila undir hjá Ómari ef hann pressaði á hann að  syngja. Við töldum það ekkert vandamál því við þekktum öll hans lög. Kom nú Ómar upp og söng 4 lög og ætlaði svo að hlaupa niður aftur. Kallað þá Gísli Snæ á hann að koma aðeins til sín fram á sviðið. Gísli hafði verið til hlés á sviðinu meðan Ómar söng. Þegar Ómar sneri við til hans, kallaði Gísli líka á Helgu og bað hana að koma aðeins upp á svið.

Þegar Helga var kominn tók Gísli upp bunka af peningaseðlum og sagðist ætla að borga Ómari. Þegar Ómar sá það hristi hann hausinn og ætlaði að fara, en Gísli stoppaði hann, taldi fram 5 hundrað króna seðla og á meðan sagði hann við Ómar:

"Nú verður þú drengur minn, að átta þig á því að þú ert að fara að stofna fjölskyldu. Þú verður því strax, að þjálfa þig í að skipta peningunum jafnt með konunni. "

  Að þessu sögðu fékk hann Ómari EINN hundraðkall, en rétti Helgu hina fjóra. Ómar hreinlega trylltist af hlátri, og allur salurinn líka.

Sumarið 1961 vorum við talsvert á ferðinni en minnisstæðast frá því ári er vígslan á félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd. Var þar um að ræða þriggja daga hátíð.  Byrjað var með balli á föstudagskvöldi í gamla samkomuhúsinu sem var niðri við sjó neðan við Haga. Það var rafmagnslaust og bara lýst með kertaljósum og olíulömpum. Á laugardeginum var dótið svo flutt upp í nýja húsið Birkimel og dansað þar bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Ég man að strákarnir í hljómsveitinni á Patró urðu svo reiðir yfir að við skildum spila á vígsluhátíðinni að þeir hótuðu að eyðileggja hljóðfærin okkar. Voru þau því læst inni í herbergi og enginn hafði lykil að því annar en lögreglan.

Mikill mannfjöldi var samankominn á laugardagsballinu. Á svona böllum voru bara tveir lögreglumenn frá Patreksfirði, þeir voru kallaðir Alli og Palli.  Báðir sannir öðlingar og afbragðs lögreglumenn, þó þeir hefðu verið aðal slagsmálamenn svæðisins áður. Og gárungar sögðu líka að einmitt þess vegna hefðu þeir verið valdir í lögregluna, þá þyrfti ekki að skilja þá að í slagssmálum.

En á þessu fyrsta balli í nýja félagsheimilinu Birkimel varð Alli að fara á lögreglubílnum til Patró með veikan mann. Palli var því einn eftir með allan þennan mannskap.  Í pásunni hjá okkur fór ég fram í anddyri að fá mér frískt loft og er við útidyrnar að tala við Palla þegar brutust út slagsmál í innra anddyrinu. Við litum báðir inn og Palli sagði að það væri bara óður hundur sem gæti stöðvað þetta.  Hann opnaði þó báða vængi á útihurðinni og líka báða vængi á ganghurðinni, fór svo að innri dyrunum og öskraði hátt:

"Nei, Nei, sjáið þið nú strákar, þetta verðið þið að sjá. Ég held að hann ætli á hana þarna yfir í runnanum."

Skipti þá engum togum að allir gleymdu slagsmálunum og þustu út, en Palli lokaði útihurðinni í rólegheitum því allir slagsmálahundarnir voru komnir út. Þar samdi hann frið við þá alla, því allir dáðust  að þessu bragði hjá honum til að stöðva slagsmálin. Fyrigáfu þeir honum fúslega og sömdu um frið það sem eftir væri ballsins. Var svo fyrsta lag eftir pásu tileinkað þessu snilldar bragði hans Palla, sem allir voru sammála um að hefði bjargað ballinu, sem stóð til 4 um nóttina þó það hefði átt að hætta kl. 2.

Haustið 1962 hættum við að spila því Hreiðar flutti suður og ég fór á vertíð til Tálknafjarðar. Á þessum tíma var tónlistarmenningin líka að breytast og við nenntum ekki að aðlaga okkur breytingunni, fannst komið nóg. Upp úr því komu þá til yngri strákar og stofnuðu hljómsveitina Facon sem lifði lengi við góðan orðstýr.

Hér hefur verið dregin fram mjög stutt lýsing á fyrstu 7 árunum í hljómsveitarmenningu á Bíldudal. Að sjálfsögðu væri hægt að skrifa mikið meira, því þetta tímabil var sneisafullt af skemmtilegum uppákomum sem enn í dag vekja kátínu og ljúfar minningar.  Ég er afskaplega ánægður með að hafa fengið að vera þátttakandi í þessu upphafi hljómsveita á Bíldudal. En þar sem trommurnar mínar brunnu inni í Félagsheimilinu okkar þegar það brann, tók ég þá ákvörðun að þar væri kominn endapunktur á trommuferli mínum.  Að mestu hef ég staðið við það, þó ég hafi spilað nokkrum sinnum með hljómsveit Guðjóns Matthíassonar á gömlu dönsunum í Brautarholti 4.  Einnig nokkur stök tilvik með ýmsum öðrum þar fyrir utan.                                                                         

Frásögn: Guðbjörn Jónsson

Fyrirboðar

Nokkur orð um tilurð þessara frásagna.

Faðir minn, Guðbjartur Ólafur Ólason (16/6 1911- 10/12 2003) var sjómaður fyrri hluta ævinnar og þá lengst  frá Bíldudal.  Eftir að hann flutti til Reykjavíkur 1963 vann hann hins vegar við bókhald.  Eftirfarandi frásöguþættir eru þannig tilkomnir að hann sagði mér söguþráðinn í símtali og síðan sló ég frásögnina inn á tölvu fljótlega á eftir.  Bar svo niðurstöðuna undir hann og leiðrétti eftir þörfum.  Af þessu sést að hér er ekki um nein vísindi að ræða heldur lauslegar frásagnir úr minni aldraðs manns.  Hending réði að ein frásögnin er skráð í þriðju persónu en tvær í fyrstu persónu.  Ég hef gefið öllum frásögunum heildarnafnið Fyrirboðar vegna þess að með nokkrum rétti á sú fyrirsögn við þær allar.

                                                                                                                    Óli Þ. Guðbjartsson

Meira...

Dagbók seglskipsins Gyðu vor og sumar 1900

 Nokkur formálsorð

Hér á eftir fer útskrift úr dagbók skipstjórans á seglskútunni Gyðu frá Bíldudal, sumarið 1900. Skipið var þá að handfæraveiðum út af Vestfjörðum og skipstjóri var Veturliði Ólafur Bjarnason, afabróðir minn, en Jörundur og Pétur bræður hans voru einnig skipstjórar frá Bíldudal.

Gyða BA var í eigu Péturs Thorsteinssonar athafnamanns á Bíldudal, smíðuð á Bíldudal undir stjórn langafa míns Kristjáns Kristjánssonar skipasmiðs frá Önundarfirði, en hann lærði skipasmíði á Ísafirði og var m.a annar stofnenda Iðnaðarmannafélags Ísafjarðar. Hann fluttist til Bíldudals um 1894.

Meira...

Leikir og dægradvöl barna á Bíldudal um 1970-1980

Undanfarin ár hafa áhyggjur af holdafari barna á Íslandi vaxið mjög. Rannsóknir sýna að börnin eru að fitna og í dag er allt of stórt hlutfall þeirra yfir viðmiðunarmörkum manneldisráðs. Þarna kemur til óhollt mataræði og ekki síður allt of lítil hreyfing. Ástandið á landsbyggðinni virðist þó vera skárra en á höfuðborgarsvæðinu, líklega er það vegna þess að börn ganga meira þar og hreyfa sig almennt meira.

Í starfi mínu sem íþróttakennari hef ég orðið var við þessa þróun og oft hef ég haft orð á því við nemendur mína hversu fegin ég væri að hafa fæðst áður en tölvu- og myndbandabyltingin átti sér stað og ekki síður að hafa alist upp úti á landi.

Mér datt því í hug að setja á blað hvað við, sem vorum að alast upp á Bíldudal fyrir um 30 – 40 árum, gerðum okkur til dægrardvalar. Það væri kannski áhugaverð lesning fyrir þá sem eru yngri og vonandi skemmtileg upprifjun fyrir þá sem eldri eru.

Meira...

Ferðasaga: París er einnar messu virði

 ,,París er einnar messu virði”.
Svo mælti Hinrik IV frakkakonungur (1553 – 1610) er Clement VIII páfi kom honum inn á kaþólskuna og lofaði honum einhverjum fríðindum, ásamt því að syngja honum messu.

Við fórum til Parísar nálægt miðjum september 2004, undirritaður og kona hans Eva Þórarinsdóttir. Í stórborgarferð er hægt að gera sér til gamans á margan hátt, eftir því hvað hugur fólks stendur til og hverjar eru langanir þess. Hægt er að stunda fjörugt næturlíf og sofa þá fram eftir næsta degi til undirbúnings nýs skemmtikvölds, eða að versla sér dót í margskonar búðum. Við kusum að ganga um svæðið með aðstoð af korti og skoða sögustaði hinnar merku borgar og listasöfn, en á slíku er enginn skortur á þeim stað.

Meira...