Menning og saga Arnarfjarðar

Ég átti mynd sem Jón í Valhöll gaf mér einu sinni af brennunni á Byltunni. Á henni sást myndarlegur eldur og bjarminn af bálinu upp eftir hlíðinni. Hún leiðir hugann að því þegar við höfðum brennuna uppi á hrygg og önnur var oft frammi á plássi.

Okkur systkinunum þótti sem fleirum fátt meira spennandi en jólaböll, enda nokkuð fyrir þeim haft á heimili okkar. Hjálmar faðir okkar var um sinn eftir tíma sr. Jóns Kr. Ísfeld sá sem stjórnaði þeim og bæði þá en einkum fyrr hvarf hann alltaf af ballinu skömmu áður en jólasveinarnir birtust, en kom svo fljótlega aftur þegar þeir voru farnir.

Arnarfjörður er ríkur af bæði menningu og sögu. Margir hafa átt heimili í Arnarfirði um lengri eða skemmri tíma og margt tekið sér fyrir hendur. Gefin hafa verið út blöð í firðinum og opnuð hafa verið söfn svo dæmi séu tekin.

Arnfirðingafélagið tekur við efni tengdu menningu og sögu Arnarfjarðar og heldur utan um það á þessu vefsvæði, öðrum til skemmtunar og fróðleiks.

Æviágrip Péturs J. Thorsteinssonar

Lokaritgerð í sagnfræði við HÍ, eftir Ísrael Daníel Hanssen heitir:

Milljónafélagið 1907-1914, Saga verslunar- og útgerðarfélags

Péturs Jens Thorsteinssonar og Thors Jensen

Æviágrip Péturs J. Thorsteinssonar er dregið út úr þessari ritgerð

og birt hér með leyfi höfundar ritgerðarinnar

 

Pétur Jens Thorsteinsson

Pétur J. Thorsteinsson fæddist 4. júní árið 1854 í Otradal í Vestur- Barðastrandarsýslu. Móðir hans var vinnukonan Halla Guðmundsdóttir og skráð var að faðir hans héti Ólafur Halldórsson. Pétur J. Thorsteinsson var við skírn gefið nafnið Pétur Jens Ólafsson, en þegar hann var um tvítugt þá fór hann að kalla sig Pétur J. Thorsteinsson.Er skýringin sú að hinn raunverulegi faðir hans, kaupmaðurinn Þorsteinn Thorsteinsson, var kvæntur annarri konu og átti Pétur utan hjónabands með Höllu. Kynntust þau á Geirseyri við Patreksfjör þar sem Halla var vinnukona hans.

Ekki var óalgengt á þessum tíma að börn væru rangfeðruð af ýmsum ástæðum, en hérna var ástæðan sú að Þorsteinn var kvæntur maður. Sendi hann því Höllu til vinar síns í Otradal þar sem hún fæðir drenginn. Ekki er vitað meira um Ólaf Halldórsson en það að hann hafi látið skrá sig sem föður drengsins.

Árið 1871 fór Pétur vestur á Þingeyri þá 17 ára gamall. Starfaði hann þar við verslun Niels Christian Grams í níu ár.  Þetta tímabil sem hann starfaði hjá Gram átti eftir að reynast honum vel og líkaði honum vinnan þar vel. Gram kaupmaður stundaði lausakaupskap þar sem hann sendi „skip með vörur á ýmsar hafnir til að gera bændum hægara um vik að nálgast kaupstaðarvarning og koma frá sér afurðum sínum. Þegar Pétur var um tvítugt var honum falið að stjórna versluninni á spekúlantsskipi, sem sigldi um Breiðafjörð.“ Þessar ferðir stóðu oftast yfir í tvær til þrjár vikur og átti ein af þessum ferðum eftir að reynast honum afdrifarík en þá kynntist hann tilvonandieiginkonu sinni, Ásthildi Guðmundsdóttur, sem var dóttir prestsins að Breiðabólsstað áSkógarströnd. Er talið að þau hafi heitbundist sumarið 1876 og fjórum árum síðar voru þau gift. Árið 1875 hóf Pétur störf á skrifstofu Grams í Kaupmannahöfn og dvaldisthann þar um veturinn en um sumarið var hann á Íslandi og hélt áfram spekúlantferðum.

Haustið 1876 fór hann til Kaupmannahafnar og dvaldist hann þar að mestu leyti næstu tvö árin.Ekki er vitað mikið um vist Péturs hjá Gram, hvað hann hafi unnið nákvæmlega við á þessum níu árum sem hann var þar. „Ekki er að efa að Pétur hefur lært mikið í verzlunarrekstri Grams og hann reyndar verið honum fordæmi um fleira. Þar getur hann hafa lært að verka fisk og gera svo til fyrirmyndar var, því að Gramsverzlun var þar góð til eftirdæmis.“

Árið 1879 barst sú frétt til Péturs í Kaupmannahöfn að Bíldudalsverslun væri til sölu. Pétur var þá um sumarið 25 ára gamall og kominn með mikla reynslu af viðskiptum. Kom hann til landsins um sumarið og hitti ekkju Hákons kaupmanns, hana Jóhönnu Kr. Þorleifsdóttur og ræddi við hana um kaup á Bíldudalsversluninni. Gerðu þau með sér kaupsamning þann 19. júlí 1879 og 6. maí 1880 var Pétur orðinn eigandi að Bíldudalsverslun. Hætti hann þar af leiðandi störfum hjá Gram. Greiddi hann Jóhönnu samtals 10.000 kr. fyrir verslunina og var síðasta greiðslan ynnt af hendi 1. september 1886.

Óhætt er að segja að koma Péturs til Bíldudals hafði gífurlega mikil áhrif á bæinn. Bíldudalur hafði í nokkrar aldir verið verslunarstaður en höfnin þar er einstaklega skjólgóð. Var hún af þeim sökum snemma „valin sem bækistöð af kaupmönnum og þá máski fyrst af Hamborgurum, sem hingað voru komnir til verzlunar fyrir miðja 15du öld, og færðust í aukana og þeirra umsvif mikil á 16du öldinni; þeir höfðu þá komið sér víða fyrir með bækistö›var líkt og Englendingar á sama tíma, nema Englendingar voru nokkru fyrr á ferð, eða á fyrsta áratug 15du aldar.“  Hjá Pétri gekk þó lífið ekki áfallalaust fyrir sig á fyrstu árunum á Bíldudal og var það heilmikið sem spilaði á móti því að þarna ætti hann eftir að eignast gott viðskiptalíf:

Veturinn 1880-ʼ81 var eindæma harður, hafís lá við land langt fram á vor og bændur urðu að skera fé af heyjum. Allt sumarið næsta héldust sleitulaus illviðri til höfuðdags og heyfengur varð því bæði lítill og rýr. Ofan á þetta bættist óvenju mikið aflaleysi. Haustið 1881 sá Pétur varla fram á annað en að hann yrði að leggja árar í bát. Allir draumar hans um fjörugt athafnalíf á Bíldudal virtust ætla að verða að engu. Daglega komu menn frá bjargarlausum heimilum og báðu um úttekt. Allir fengu einhverja úrlausn. Skuldir viðskiptamanna fóru stöðugt vaxandi.

Ætla mætti í fljótu bragði að 26 ára gamall maður sem væri nýbúinn að kaupa verslun sem gengi þetta illa fyrsta árið, myndi gefast upp á þessu öllu saman og fara eitthvað annað. En Pétur var ekki á því að gefast svo auðveldlega upp. Hann var staðráðinn í að láta þetta ganga upp og sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1881 þar sem hann fékk til liðs við sig tvo danska kaupsýslumenn sem stofnuðu með honum hlutafélag (Verslunarfélag Bíldudals) þann 22. mars 1882. Lagði hver þeirra til 6.000 kr. í hlutafé og keyptu þeir þannig Bíldudalsverslunina fyrir 14.000 kr. Með þessari björgun gat Pétur komið til Bíldudals vorið 1882 á nýju skipi í eigu hlutafélagsins sem var fullt af varningi. Pétur sá fyrir sér mikla framtíð í þilskipum og fékk hann nokkra efnaða íslenska útvegsbændur með sér í lið að láta kaupa og smíða þilskip. „Árið 1885 var svo komið, fyrir frumkvæði Péturs, að gerð voru út fimm þilskip frá Bíldudal, og hafði aldrei fyrr gengið þaðan jafnstór floti.“

Það var margt annað sem Pétur lét gera á Bíldudal til að auka viðskiptin og voru það mörg mannvirki sem hann lét reisa eins og t.d. 60 metra langa bryggju, allstórt fiskihús, tvílyft verslunarhús, járnsmiðju, brauðgerðarhús, íshús og 8000 m2 tjörn svo eitthvað sé nefnt. Í allar þessar framkvæmdir hafði verslunarfélagið lagt inn mikið fé, en efnahagur almennings á svæðinu var slæmur og skuldir Bíldudalsverslunarinnar voru miklar þannig að allt stefndi í gjaldþrot. Veturinn 1885 sigldi hann aftur út til Kaupmannahafnar og kom til baka sem einkaeigandi Bíldudalsverslunarinnar þar sem dönsku viðskiptafélagarnir hans höfðu ekki mikla trú á þessari starfsemi á Bíldudal lengur og afsöluðu sinn hlut af verslunarfélaginu til Péturs. Lagði hann nú mikið á sig til að bjarga Bíldudalsversluninni og á undraverðan hátt tókst Pétri að fá meira lán og voru eignir hans nú margveðsettar.

Ekki var útlitið gott árið 1886 þar sem fiskiverð lækkaði um helming og enn og aftur blasti við gjaldþrot hjá Pétri. Eru miklar líkur taldar á því að tengdamóðir hans hafi komið honum til bjargar til að forðast gjaldþrot. En árið 1887 fór allt að ganga upp á við hjá honum og næstu árin var hann búinn að snúa öllu við sér í hag og má þar helst þakka fyrir hvað aflinn var góður og að fiskiverð hafði hækkað talsvert.

Pétur hafði á þessu 10 ára tímibili frá 1880 til 1890 upplifað nánast allt það góða og slæma við að reka fyrirtæki. Seiglan hans hafði nú borgað sig og þeir sem græddu einna mest á því var þorpið sjálft:

Fram um 1890 hafði Bíldudalur ekkert þorp verið. Það stóðu aðeins verslunar og fiskhúsin, kaupmannshúsið og tveir eða þrír kofar aðrir. En nú tók að rísa hvert húsið á fætur öðru, og á skömmum tíma myndaðist allmikil byggð utan um Thorsteinsson og athafnir hans. Mátti segja að allt væri á ferð og flugi næstu árin, því að skipstjórar, sjómenn og starfsmenn ýmiss konar fluttust sem ákafast til þorpsins. Hvergi á landinu jókst íbúatala að hundraðshluta jafnmikið áratugin 1891-1900 sem á Bíldudal. Árið 1891 voru þar 73 menn búsettir, en 285 ellefu árum síðar.

Pétur byrjaði að gera út fimm þilskip 1885 og um aldamótin voru þau orðin tuttugu. Hann var áhugasamur framkvæmdamaður, og hafði gert meiri nýtízku mannvirki á Bíldudal en annarsstaðar þekktust á þeim árum hér á landi.  Hann hélt áfram að stækka við sig og 1. janúar 1896 fékk hann hálfbróður sinn, Guðmund Scheving Thorsteinsson, í lið með sér og breytti einkarekstri sínum í sameignarfélagið P.J. Thorsteinsson & Co. Vert er að taka það fram að þetta er ekki sama félagið og Milljónafélagið sem hét líka P.J. Thorsteinsson & Co þó að bæði þessi félög hafi borið sama nafn. Ekki er alveg ljóst hvað Pétri gekk til með þessum breytingum á rekstrarfyrirkomulagi sínu en líklegt er að hann hafi þurft að hafa einhvern sem hann treysti staðsettan í Kaupmannahöfn. Eins og gefur að skilja þá var á þessum tíma síður en svo auðvelt að skjótast til Kaupmannahafnar og sinna viðskiptum, ferðalag þangað gat tekið heilan mánuð. Pétur sá mikinn hag og tímasparnað í því að fá hálfbróðir sinn með sér í lið og til að vera staðsettan í Kaupmannahöfn og sjá um öll viðskiptin þar á meðan hann sjálfur gat einbeitt sér að Bíldudal. Einnig má gefa sér það að hann treysti hálfbróður sínum vel þar sem ákvæði í samningum félagsins kveður á að báðir aðilar þurfa að vera samþykkir öllum framkvæmdum. Ljóst er að Pétur hélt enn um stjórnartaumana á öllum fyrirtækjunum sínum en Guðmundur sinnti því sem þurfti að sinna í Kaupmannahöfn.

Pétur hafði gert margt og mikið á Bíldudal og núna var kominn tími til að reyna fyrir sér annars staðar og 6. ágúst 1896 kaupir hann Vatneyrarverslun af Sigurði Bachmann. Þessi verslun haði áður verið í eigu föður Péturs og föðurbróður hans. Hann fór strax út í miklar framkvæmdir á Vatneyri til að auka viðskiptin þar og um aldamótin fór Vatneyrarverslun að skila hagnaði. Við þessi kaup Péturs á Vatneyrarverslun þá var hann orðinn langstærsti fiskútflytjandi á Vestfjörðum, og í landinu utan Ísafjarðar.

Eftir kaupin á Vatneyri, sem stendur við Patreksfjörð, hófst hann handa við að flytja hluta af rekstri sínum til Hafnarfjarðar þar sem hann var farið að skorta mannskap fyrir vestan, en mikið var um að fólk flutti suður á þessum tíma í leit að meiri atvinnu. Hafnarfjörður hafði um aldir verið mesta útflutningshöfn landsins, bæði með fisk og landbúnaðarafurðir, en þegar leið á 19du öldina tók Reykjavík að sækja sig, og undir lok þeirrar aldar hafði hún nær þurrkað Hafnarfjörð út sem útflutningshöfn og þá einkum í fiskútflutningi. Sá Pétur tækifæri í að kaupa eignir á hagstæðu verði í Hafnarfirði þar sem allt var í talsverðri lægð þar í atvinnulífinu. „Árið 1900 kaupir Pétur eign Þorsteins Egilssonar í Hafnarfirði, sjö hús á Hamarskotsmöl og byrjar þar verslun og mikla þilskipaútgerð. Gerði hann út þaðan fimm stóra kúttera.“

Á þessum rétt rúmlega tveimur áratugum síðan Pétur keypti Bíldudalsverslun þá hafði hann afrekað heilmargt og sumt af því helsta sem hann gerði á þessum tíma verið nefnt hér á undan. Það hafði svo margt gengið vel upp hjá honum og þá sérstaklega um aldarmótin. En árið 1903 var kominn tími á breytingar í lífi Thorsteinssons fjölskyldunnar og fluttust þau búferlum til Kaupmannahafnar. Voru nokkrar ástæður fyrir því að þau fluttust utan og var ein af þeim sú að Ásthildur hafi talið það auðveldara að veita börnum þeirra alla þá menntun sem þau töldu þau þurfa á að halda í Kaupmannahöfn.

Pétur hélt samt áfram öllum atvinnurekstri sínum hér á landi og dvaldist hann á Íslandi á sumrin og sinnti sínum margþætta rekstri. „Mörgum þótti dofna yfir Bíldudal við brottflutning Thorsteinsson-hjónanna, því að þessi mannmarga fjölskylda hafði mikil áhrif í kauptúninu, bæði á skemmtanalíf og fleira.“  Árið 1905 var svo komið að Pétur ákveður að selja öll fyrirtæki sín. Voru það þrír verslunarstjórar hans sem kaupa fyrirtæki hans af honum með skuldabréfum sem „eru öll gefin út á P.J. Thorsteinsson ogCo.; það fyrirtæki er meðeigandi og annast viðskiptin í útlöndum.“ Þannig að tæknilega séð á Pétur ennþá fyrirtækin þar sem greiðslur fóru aldrei fram í peningum heldur eingöngu í skuldabréfum. Eftir þessi viðskipti þá hétu fyrirtækin Hannes B. Stephensen & Co. á Bíldudal, ‚Ólafur Jóhannesson & Co. á Vatneyri og Sigfús Bergmann & Co. á Bíldudal.

Skip Péturs

Haustið 1907 voru skráð 17 skip á nafni P. J. Thorsteinsson & Co. og voru þetta allt skip sem höfðu áður verið í eigu Péturs.þessi skip voru: skonnortan Thjalfe, kútterarnir Helga, Ásta Borghildur, Pilot og Katrín, jagtin Kári, gufubáturinn Rúna og einnig bátarnir Gyða, Hermann og María. Einnig var 5/8 hlut í kútternum Kjartan afsalað til Milljónafélagsins. Einnig gengu kútterarnir Sljettanes, Haganes, Langanes, Kópanes, Hvassanes og Lull til félagsins.  Á um 20 ára tímabili hafði Pétur J. Thorsteinsson eignast þessi skip og núna voru þau komin inn í Milljónafélagið. Þegar Pétur eignaðist Bíldudalsverslunina árið 1880 keypti hann einnig á sama tíma hluta í jagtinni Pilot og voru þetta hans fyrstu skipakaup af mörgum. Af þessum 17 skipum sem hann lagði inn í félagið hafði hann átt Thjalfe einna lengst, en hana eignaðist hann árið 1883. Fékk hann þrjá útvegsbændur til að vera með sér í að fjárfesta í þessari 44 lesta skonnortu. Þessir bændur ásamt öðrum höfðu reynslu af forvera Péturs, að þilskipaútgerð efldi verzlunina og þar með atvinnulíf fólksins. Reyndust þessi skipakaup mjög vel þar sem aflinn á þilskipum árið 1883 hafði verið mjög góður og þá sérstaklega á Thjalfe. Var það til þess að Pétur vildi ólmur eignast fleiri skip.

Eins og sjá má þá var Pétur ekki það vel efnaður að hann gæti keypt skip einn síns liðs en hann var afar fær í því að fá efnaða menn til að fjárfesta í sameiningu í skipum. Sem dæmi þá fékk hann hina svokölluðu Álftamýrarfeðga með sér í lið til að láta smíða 30 lesta skip í Noregi „og skyldi Pétur eiga fjórða hlutann en Álftamýrarmenn þrjá hlutana“ en skipið kostaði 9.200 kr. Kom skipið til landsins í maí 1885 og var það skýrt Katrín eftir dóttur Péturs. Einnig lét Pétur smíða skipið Kjartan á svipuðum tíma í Noregi og var það 27 tonn að stærð. Eins og í hinum skipakaupunum þá fékk hann nokkra með sér til að fjármagna kaupin og greiddi hver þeirra 1/5 af kaupverðinu sem var 8.300 kr.

Árið 1890 jók Pétur umsvif sín og bætti við sig skipum. Hann var orðinn talsvert betur stæður í viðskiptalífinu og gat farið að fjármagna kaup á skipum án stuðnings frá öðrum. Þilskipin Thjalfe, Katrín og Kjartan voru núna eingöngu öll í hans eigu. Árið 1890 kaupir hann þilskip sem hann nefnir eftir dóttur sinni Helgu, og 1892 kaupir hann annað, sem hann skírði í höfuðið á tvíburasystrunum Ástu og Borghildi. Sama ár lét hann smíða sér á Bíldudal jagtina Gyðu (enn eitt dótturnafn). … Árið 1893 lætur hann smíða sér þilskipið Rúnu, stytting á nafni Guðrúnar dóttur hans, fæddri 1890, og sumarið 1894 gengu 10 þilskip frá Bíldudal.Það voru þrjú skip sem Pétur lét smíða á Bíldudal, Gyða og Rúna sem var minnst á hér á undan og einnig María, en Pétur átti þrjú skip sem hétu María. Fyrstu Maríuna eignaðist Pétur í apríl 1882, en skipið hét fullu nafni Marie Dorothea. Ekki er alveg ljóst hvað varð af fyrstu Maríu en því er ýmist haldið fram að skipið hafi verið mjög gamalt og eyðilagst fljótt en því hefur einnig verið haldið fram að Pétur hafi selt skipið 1890 og það hafi verið enn á siglingu um aldamótin 1900. Árið 1897 eignast Pétur aðra Maríu sem var smíðuð í Þýskalandi árið 1849. Árið 1905 var skipið talið ónýtt og rifið samkv. bréfi dags. 27. apr. 1905. Það sama ár var tekið í notkun þriðja Marían sem Pétur lét smíða á Bíldudal.Var sú María þar af leiðandi yngsta skipið sem Milljónafélagið eignaðist.

Um aldamótin var Pétur líka farinn að gera út frá Vatneyri og var skipafloti hans um 25-27 skip. Árið 1898 eignaðist hann fimm kúttera, Haganes, Hvassanes, Kópanes, Langanes og Sljettanes. Voru þetta stærstu skipin hans, um 50-80 tonn með um 15-25 manna áhöfn. Áður en hann eignaðist kútterana voru Kjartan og Tjalfe stærst, um 30-40 tonn með 15 manna áhöfn en Gyða var minnst, um 8 tonn með 6 manna áhöfn.Gyða var eitt af skipunum sem fórust í tíð Milljónafélagsins en það sökk í apríl 1910 í mynni Arnarfjarðar með allri áhöfn. Haganes var stundum notað undir vöruflutninga og voru starfsmenn á skipinu á aldrinum 14-46 ára. Sljettanes var gert út frá Reykjavík þegar það var í þjónustu Milljónafélagsins. Voru áhafnarmeðlimir á bilinu 17-26 mann á aldrinum 14-58 ára.

Sem dæmi um hvernig kaup og kjör voru hjá áhafnarmeðlimum á skipum Milljónafélagsins þá var maður að nafni Einar Magnússon frá Álftanesi sem réð sig sem háseta hjá Erlendi Hjartarsyni, skipstjóra á fiskiskipinu Sljettanes. Var þessi samningur undirritaður 30. júní 1910 og gilti hann fyrir sumartímann það ár. Var þessi samningur ákveðin samkvæmt samþykki útgjörðarmanna við Faxaflóa frá des. 1908 og jan. 1909. Voru kaup fiskimanna á fiskiskipum samkvæmt þessum samningi kallaðir „hálfdrætti“, en í samningnum er svo kveðið á að „hásetar skulu á handfærafiskiríi hafa helming af afla sínum, utan tros, það skulu þeir hafa alt (en það er lúða, skata og steinbítur).“ Í fljótu bragði hljómar það eins og að hásetinn fái í hendur helming af þeim fiski í laun sem hann veiðir en svo er ekki raunin. Það sem gerist er að hásetinn fær greitt frá útgerðarmanni ákveðið verð samkvæmt þeim afla sem hann veiðir, eða í þessu tilviki helminginn af því sem hann veiðir. Virkar þessi samningur sem ákveðinn hvati fyrir hvern háseta til að vera duglegur í vinnunni og veiða sem mest svo hann fái sem mest borgað. Útgerðarmaður á að sjá hásetanum fyrir fæði á meðan hann er á skipinu en það eru önnur gjöld sem hásetinn þarf að reiða af hendi samkvæmt samningnum:

1) Salt samkvæmt reikningi, eða með öðrum orðum hlutfallslega á hvert skippund af fiski, eptir því hve mikið salt hefur verið brúkað á skipinu á útgjörðartímanum, þó aldrei hærra en 5 kr. á hvert skpd. af verkuðum fiski.

Verkun og sortering með 4.50 – fjórum krónum og fimtíu aurum – á hvert skippund.

2) Helming alls kostnaðar á beitu og ís, sem skiptist svo jafnt milli skipverjanna.

3) Vátrygging á afla skipsins, að rjettu hlutfalli við skipseiganda.

4) Veiðarfæri öll, svo sem öngla, lóð og línur.

5) Út- og uppskipun annist hásetar alla útgjörðarmanni að kostnaðarlausu

Að auki þarf hásetinn að hreinsa skipið og einnig mála ef skipstjórinn biður hann um það. Ef hásetinn stendur ekki við samninginn þá þarf hann að greiða útgjörðarmanni 100 kr. í skaðabætur.

Ekki var þetta samt eina staðlaða formið á samningum sem menn gerðu þegar þeir réðu sig á fiskiskip. Annað dæmi skal nefnt um samning sem gerður var á svipuðum tíma eða þann 21. febrúar 1910. Sjö skipverjar undirrituðu samning um að ráða sig á skipið Svendborg sem var í umsjón Milljónafélagsins í Reykjavík. Var þetta enskt botnvörpuskip og réðu þeir sig frá 1. mars til lok apríl með möguleika á framlengingu ef enn væri óskað eftir vinnukröftum þeirra. Í samningnum er listað upp hver störf þeirra eru á skipinu en þeir eiga að „taka á móti fiskinum jafnskjótt og hann er innbyrtur, blóðga, hausa, slægja, fletja, þvo og salta, allt eftir fyrirskipun manns þess er settur verður yfir okkur í þessu efni, og segjum vjer okkur skylt að hlýða honum og yfir høfuð gjøra allt er í okkar valdi stendur til þess að fiskurinn geti orðið 1sta. flokks vara.“ Kaupið var 75 kr. á mánuði en ef þeir fóru vel með fiskinn og meira en 80% af honum reyndist vera fyrsta flokks vara þá fengju þeir auka 5 kr. á mánuði en 10 kr. aukalega á mánuði ef meira en 85% var fyrsta flokks. Þeir fengu útborgað í lok hvers mánaðar en ef einhver myndi rjúfa samninginn þá þyrfti hann að borga 150 kr. í skaðabætur. Pétri var mjög annt um skipin sín og lét hann m.a. mála þau árlega. En það voru ekki eingöngu skipin sjálf sem Pétri þótti vænt um:

Öllum sögnum ber saman um, að útgerð Péturs hafi öll verið til mikillar fyrirmyndar, skipum hans hafi verið vel við haldið enda til þess betri aðstaða en annars staðar víðast, þar sem Pétur rak skipasmíðaverkstæði og járnsmiðju. …  Ekki var það sagt að skapi Péturs, að skip hans lægju um of í höfnum, en honum var heldur ekki rótt, ef þau náðu ekki höfn í tæka tíð, ef hart veður brast á. Þá var hann órólegur mjög þar til hann hafði spurnir af skipum sínum í vari.

Manntjón var lítið á flota Péturs og minna en almennt gerðist á skútuflota landsmanna, sem varð mikið og meira en á árabátaflotanum, en var þó ærið þar, og kom mönnum  það á óvart, því að þess hafði verið vænzt að sóknin á þessum stóru skipum drægi úr hinu mikla manntjóni í árabátasókninni. Í sókn þessa tíma á árabátum og skútum fórust hátt í hundrað landsmanna árlega. … Pétur lét sig miklu skipta mannráðningar á skip sín, enda afli mjög kominn undir því hversu duglegum færamönnum skipin voru mönnuð. Þá var og ekki síður nauðsynlegt að skipin væru sem mest mönnuð öruggum sjómönnum, ef þau áttu að bjargast undan mannskaðaveðrum. Og eru um það margar sagnir, að þessi seglskip björguðust oft af handtökum og snarræði einstakra afrekssjómanna í áhöfninni.  Pétur var sagður þekkja nálega hvern mann á skipaflota sínum og vita á honum deili, og réði mjög á sín skip sjálfur, spurði gjarnan þann, sem leitaði eftir skipsrúmi, hverra manna hann væri.

Það sem tók við hjá Pétri og Thor

Þótt að Milljónafélagið hafi endað eftir um 7 ára starfsemi þá höfðu Pétur og Thor sagt skilið við félagið áður en það fór á hausinn. Pétur var orðinn 54 ára gamall þegar hann yfirgaf félagið undir lok árs 1908. Hann hafði varið manndómsárum sínum til að koma upp blómlegum fyrirtækjum á þremur stöðum, fyrst og fremst á Bíldudal, en einnig á Patreksfirði og í Hafnarfirði. Öll þessi fyrirtæki voru nú horfin í botnlausa hít Milljónafélagsins. Árið 1910 flutti hann aftur til Íslands frá Danmörku með fjölskyldu sína. Hann hélt áfram að starfa við fiskiútgerð og varð hann hluti af nokkrum félögum og eignaðist nokkur skip. Árið 1911 stofnaði hann togaraútgerðarfélagið Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson í samstarfi við bróður sinn Th. Thorsteinsson. Reistu þeir fiskverkunarstöð á Kirkjusandi. Notuðust þeir í fyrstu við tvo togara sem þeir leigðu, en fljótlega létu fleir smíða tvo togara í Bretlandi. Árið 1912 tók Pétur ásamt sjö öðrum þátt í stofnun Fiskveiðafélagsins Haukur og var Pétur framkvæmdastjóri. Félagið lét reisa bryggju og ýmsar byggingar við Reykjavíkurhöfn. Félagið lét smíða í Bretlandi togara sem fékk nafnið Ingólfur Arnarson. Var þetta stærsti togarinn á þessum tíma sem Íslendingar höfðu eignast.

Pétur hélt áfram að stofna fleiri fyrirtæki í samstarfi við aðra aðila, m.a. Veiðarfæraverslunina Verðandi og Hlutafélagið Þorlákshöfn sem átti að vinna að hafnarbótum. Einnig stofnaði hann gler- og postulínsverslun sem konan hans rak.

Árið 1916 var Pétur formaður og framkvæmdastjóri nýs félags sem hét Hlutafélagið Bræðingur og starfaði á Þormóðsstöðum við Skerjafjörð. Framleiddu þeir lýsi og veiddu síld.

Þegar Pétur fluttist til Íslands frá Danmörku þá keypti hann húsið á Lækjargötu 10 og bjuggu þau hjónin þar í 7 ár og fluttu síðan í nýtt íbúðarhús á Laufásvegi 46 sem hann lét byggja. Á þessum tíma geisaði heimsstyrjöldin fyrri sem hafði slæm áhrif á útgerð Íslendinga. Í kjölfarið þá dundu hvert áfallið af fætur öðru yfir Pétri og hans starfsemi. Síldarsala til Svíþjóðar varð fyrir gífurlegu tjóni vegna algers verðhruns. Heimskreppan fyrri reið yfir Evrópu og íslensk togaraútgerð beið tjón í kjöfarið. Hauksfélagið er lýst gjaldþrota að kröfu Íslandsbanka 1922. Sama ár tekur fyrirtækið O. Johnson & Kaaber við rekstri Bræðings. ... Íbúðarhúsið við Laufásveg 46 er boðið upp og verður eign Íslandsbanka.

Þegar hér var komið við sögu var Pétur að verða sjötugur og var búinn að missa allar eignir sínar og heilsu hans var farið að hraka. Ýmsum athafnamönnum, sem orðið hafa gjaldþrota, hefur tekist að „bjarga“ hluta eignanna, einkum þegar reksturinn var í formi hlutafélaga. Slíkt var fjarri hugsunarhætti Péturs. Allar eignir hans fóru upp í skuldirnar. Þar var ekkert eftir skilið. Pétur flutti í lítið hús í Hafnarfirði árið 1924 ásamt konu sinni. Þar bjó hann það sem eftir var ævi sinnar en hann lést þar 27. júlí 1929, 75 ára gamall.

 

 

 

 

 

Þormóðsslysið - Slysið - fréttaflutningur

Þormóðsslysið

Úrdráttur úr blaðafregnum

 

Nú þegar liðin eru 70 ár frá mannskæðasta sjóslysi á Íslandi, Þormóðsslysinu, er ástæða til þess að draga saman þær upplýsingar sem aðgengilegar eru um þennan sára viðburð. Þeirra er flestra aflað af www.timarit.is þar sem nú eru aðgengileg dagblöð‚ og tímarit og hægt að leita uppi og afrita fréttir og greinar. Úr því sem birtist er valið eftir ítarleika og það ekki endurtekið sem fram hefur komið annarstaðar. Áreiðanleikinn er metinn út frá gerðabók Sjódóms Reykjavíkur og liggur beint við jafnan.

Efnið flokkast á þennan veg:

Read more: Þormóðsslysið - Slysið - fréttaflutningur

Útgerðasaga Bíldudals

Útgerðarsaga Bíldudals í 100 ár 1904-2004 kafli 1 af 4

Eins og margir vita hóf Pétur J. Thorsteinsson mikla uppbyggingu á Bíldudal um 1880 og þegar hann fer að hafa vetursetur í Kaupmannahöfn eftir 1890 var komið blómlegt þorp með 300 – 400 íbúum og atvinnulífið í blóma. En 1904 selur Pétur verslunarstjóra sínum reksturinn og tekur þá við fyrirtækið Hannes Stephensen & Co. En 1907 kaupir Pétur allar eignirnar og er þá að stofna svokallað “Milljónafélag “ Jukust þá umsvif á Bíldudal til muna en þetta félag lifði ekki lengi varð gjaldþrota 1914. Eftir það hafði Pétur ekki nein afskipti af Bíldudal heldur bjó í Hafnarfirði og fór síðar út í togaraútgerð ásamt bróður sínum. Atvinnulíf á Bíldudal var lamað þó mun Hannes Stephensen hafa verið með einhvern rekstur og útgerð fram undir 1930 Það er athyglisvert að Pétur byggði hér upp hátt í 400 manna þorp en nú 130 árum seinna eru íbúar rúmlega 200.
1932 er stofnað hlutafélagið Draupnir sem kaupir línuveiðarann Sæbjörgu GK-9 159 brl. stálskip sem fékk nafnið Ármann BA-7 og smíðað 1904 kom það til Bíldudals í desember 1932. Hluthafar í þessu félag voru mest sjómenn sem voru að skapa sér atvinnu. 1933 er stofnað annað félag um kaup á línuveiðara það er Verðandi hf. og keypti það félag línuveiðarann Þormóð MB-61 191 brl stálskip frá Akranesi og fékk það skip nafnið Geysir BA-10. Rekstur þessara línuveiðara gekk erfiðlega.

Read more: Útgerðasaga Bíldudals

Saga Bíldudals

- Saga kauptúnsins við Bíldudalsvog í Arnarfirði

Bíldudalur er dalur sem gengur í suð-vestur úr mynni Suðurfjarða Arnarfjarðar og upp af Bíldudalsvogi. Dalurinn liggur milli hárra fjalla. Fjallið norðanmegin kallast Bíldudalsfjall en sunnanmegin er Otradalsfjall. Fyrir botni dalsins er Hnúkur, Hálfdán og Tunguheiði. Til Tálknafjarðar var áður fyrr farið yfir fjallveginn Hálfdán eða Tunguheiði sem er nokkru styttri leið. Dalurinn nær frá Jaðri norðan megin að Haganesi suður. Bíldudalur er því í góðu skjóli fyrir veðri og vindum og er þar oft á sumrin slík veðursæld að með ólíkindum þykir.

Heitið
Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því hvað heitið Bíldudalur merkir en skemmtileg er kenningin um að Bíldudalur hafi áður heitið Blíðudalur, með skírskotun til veðurblíðunnar þar, en stafabrengl orðið til þess með einhverjum hætti að Blidudalur varð að Bildudalur. Er þá skemmst að minnast hinnar makalausu deilu um það að Dynjandi heiti Fjallfoss.

Önnur kenning sem sett hefur verið fram er svona: Bylta er nafn á bökkunum á móti þorpinu, hinum megin við voginn. Hugsanlega er nafnið Bíldudalur afbökun úr Byltudalur, eða öfugt, Bylta afbökun úr Bíldudalur.

vikingaskip

Read more: Saga Bíldudals