Menning og saga Arnarfjarðar

Ég átti mynd sem Jón í Valhöll gaf mér einu sinni af brennunni á Byltunni. Á henni sást myndarlegur eldur og bjarminn af bálinu upp eftir hlíðinni. Hún leiðir hugann að því þegar við höfðum brennuna uppi á hrygg og önnur var oft frammi á plássi.

Okkur systkinunum þótti sem fleirum fátt meira spennandi en jólaböll, enda nokkuð fyrir þeim haft á heimili okkar. Hjálmar faðir okkar var um sinn eftir tíma sr. Jóns Kr. Ísfeld sá sem stjórnaði þeim og bæði þá en einkum fyrr hvarf hann alltaf af ballinu skömmu áður en jólasveinarnir birtust, en kom svo fljótlega aftur þegar þeir voru farnir.

Arnarfjörður er ríkur af bæði menningu og sögu. Margir hafa átt heimili í Arnarfirði um lengri eða skemmri tíma og margt tekið sér fyrir hendur. Gefin hafa verið út blöð í firðinum og opnuð hafa verið söfn svo dæmi séu tekin.

Arnfirðingafélagið tekur við efni tengdu menningu og sögu Arnarfjarðar og heldur utan um það á þessu vefsvæði, öðrum til skemmtunar og fróðleiks.