Fréttir

Bæjarráð staðfestir ekki eldi í Borgarfirði

Frétt af vef   bb.is | 04.05.2014 | 11:18

Mæla ekki með staðsetningu fiskeldis í Arnarfirði

 

Hvesta í Arnarfirði.
Hvesta í Arnarfirði.

Bæjarráð Vesturbyggðar getur ekki mælt með fyrirhugaðri staðsetningu fiskeldis í Arnarfirði, af því er fram kemur í fundargerð ráðsins í fyrradag, en þá var tekin fyrir umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar vegna umsóknar fiskeldisfyrirtækisins Dýrfisks hf. um eldi á regnbogasilungi. Eins og BB hefur áður greint frá stefnir fyrirtækið á stóraukið eldi. 

Í bókun bæjarráðs er bent á, að þrátt fyrir að tillaga að matsáætlun sé í samræmi við stefnuuppdrátt nýtingaráætlunar sveitarfélaganna fyrir strandsvæði Arnarfjarðar frá júní 2013, þá hafa rækjusjómenn í Arnarfirði ekki staðfest þá áætlun og gerðu þeir formlega athugasemd við staðsetningu eldis í Borgarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar, á þeim forsendum að þar séu uppeldisstöðvar og veiðisvæði rækju. 

„Bæjarráð Vesturbyggðar getur þess vegna ekki mælt með þessari staðsetningu þar sem staðsetningin skarast á við núverandi nýtingu rækjuleyfishafa í Borgarfirði. Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar um nýtinguna. Bæjarráð hvetur ennfremur til þess að burðarþolsrannsóknum vegna fiskeldis á Vestfjörðum verði hraðað,“ segir í bókun. 

 

 

Oddaflug 11.04.'14 Víkingur

Víkingur Gunnarsson talar um fiskeldi

Þann 11. apríl s.l. var haldin ráðstefna um sjávarútveg hjá prentsmiðjunni Odda. Margir fyrirlesarar komu þar fram og voru mörg erindin afar athyglisverð.  Fyrsta erindið sem birt verður hér á þessum vef, er síðasta erindi ráðstefnunnar, en þar ræðir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax um fiskeldi.  Linkurinn á fyrirlesturinn er hér fyrir neðan.

http://www.youtube.com/watch?v=vxAfS_2-iD4

 

.

Messa 24.04.2014

Elfar Logi, Barnaleikritið HALLA

Kómedíuleikhús Elfars Loga Hannessonar

 sýnir í Gaflaraleikhúsinu í lok apríl

 

Kómedíuleikhús Elfars Loga Hannessonar er á leið til borgarinnar í lok apríl með nýjustu leiksýningu sína. Um er að ræða barnaleikritið Halla sem er byggt á samnefndri ljóðabók vestfirska skáldsins Steins Steinarrs. Sýnt verður í Gaflaraleikhúsinu Hafnarfirði síðustu helgina í apríl. Fyrsta sýning verður laugardaginn 26. apríl kl.13 og önnur sýning daginn eftir, sunnudaginn 27. apríl einnig kl.13. Miðasala er í blússandi gangi á midi.is einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Gaflaraleikhússins 565 5900.

 Hugljúft og sætt ævintýri frá tíma sem var. Halla litla býr hjá afa sínum í þorpi útá landi. Það er margt sem þarf að gera í þorpi út við sjó og hvað mikið sem fiskast það fiskast aldrei nóg. Afinn sækir sjóinn enda er hann mikil aflakló og það er Halla líka. En svo gerist það einn dag að afi segir við Höllu: Þú ert ekki nógu feit. Það er mér nokkurt kappsmál að koma þér í sveit.

 

Þá tekur ævintýrið á sig ævintýralega mynd að hætti alvöru ævintýra. En allt fer þó vel á lokum. Það er Elfar Logi Hannesson sem leikur afann en finnska danslistakonan Henna-Riikka Nurmi leikur Höllu.

 

Elfar Logi Hannesson fékk eldskýrnina í leikhúsinu í Baldurshaga á Bíldudal. Sex ára að aldri lék hann Grýlu strák þar sem Grýluna sjálfa lék stórleikarinn Örn Gíslason. Sagan segir að pilturinn hafi þurft að kyngja slatta af mold sem Grýla skóf úr potti sínum. Eftir það hefur fátt komið Elfari Loga á óvart í leikhúsinu. Næstu árin hélt Elfar Logi áfram að leika með Leikfélaginu Baldri á Bíldudal sem var í raun hans stærsti leiklistarskóli. Enda engir aukvissar sem stóðu á sviðsbrún Baldurs á þessum árum áðurnefndur Örn bróðir hans Ágúst Gíslason, Jón Rúnar Gunnarsson, Þuríður Sigmundsdóttir, Ottó Valdimarsson og síðast en ekki síst Hannes Friðriksson.

 

 

Baldur, páskavíka 2014. 17.04.

               Ferðir Baldurs um páskana

Vesturbyggð 17.04.2014

Frétt frá Vesturbyggð

187. fundur skipulags- og byggingarnefndar 16.04.2014

1312022 -  Deiliskipulag - Iðnaðarsvæði nyrst á Bíldudal.

Þann 20. desember 2013 samþykkti bæjarstjórn Vesturbyggðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna iðnaðarsvæðis nyrst á Bíldudal. Tillagan var auglýst frá 30.janúar 2014 til 14.mars 2014. Frestur til að skila inn athugasemdum var til og með 14.mars 2014. Umsagir bárust frá Vegagerðinni, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Samgöngustofu og Veðurstofunni. Athugasemdir bárust frá húseigenda við Lönguhlíð á Bíldudal. Athugasemdirnar beinast helst að hljóð og sjónmengun. 

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum og felur honum að koma á framfæri lagfæringum í greinagerð. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir tillöguna og felur skipulagsfulltrúa hana til fullnaðarafgreiðslu samkvæmt 42. greinar skipulagslaga nr.123/2010.

Frá íbúafundi 2. apríl 2014

Frá íbúafundi á Bíldudal 2. apríl 2014

fréttaágrip frá Byggðastofnun

Miðvikudagskvöldið 2. apríl s.l. var haldinn vel sóttur og skemmtilegur íbúafundur á Bíldudal þar sem farið var yfir stöðu mála í verkefninu „Bíldudalur – samtal um framtíðina“. Hér að neðan er útdráttur úr fréttatilkynningu um fundinn:

Búið er að endurvekja skógræktarfélag og stofna handverkshóp og ýmislegt er á döfinni í ferðaþjónustu.  Þá munu Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur í samstarfi við íþróttafélögin á svæðinu, ráða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.  Unnið er úr hugmyndum um endurbætur á tjaldsvæði í samstarfi Vesturbyggðar og áhugahóps og undirbúningur er hafinn vegna fjölgunar áningarstaða við þjóðveginn.  Í nýsköpunarkeppni AtVest á grundvelli sóknaráætlunar, kom fjórða sæti í hlut margmiðlunarverkefnis um Ævintýralandið Bíldalíu.  Brottfluttir Bílddælingar hafa um langt skeið tekið virkan þátt í framfaraverkefnum á Bíldudal og leggja þannig sínum gamla bæ lið.  Bæjarhátíðin Bíldudals grænar baunir hefur verið á könnu brottfluttra, en nú er unnið að stofnun félags og unnið úr hugmyndum íbúaþings um hátíðina.   

Á íbúafundinn mættu m.a. svæðisstjóri og deildarstjóri umsjónardeildar Vestursvæðis frá Vegagerðinni og gerðu grein fyrir forgangsröðun vegaframkvæmda og -viðhalds á svæðinu og tóku þátt í umræðum um samgöngumál.  Fulltrúar verkefnisstjórnar hafa fundað með þingmönnum kjördæmisins, til að koma skilaboðum íbúaþings á framfæri.  Verkefnisstjórnin mun nú starfa áfram í eitt ár og fylgja verkefnum eftir.  Þar má m.a. nefna þá hugmynd að gera fyrirtækjum á landsbyggðinni kleift að gefa starfsmönnum auka frídaga til að sækja þjónustu.  Í ljósi vaxandi samþjöppunar þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst heilbrigðisþjónustu, gæti þetta orðið mikilvægur þáttur í að bæta búsetuskilyrði.  Á fundinum kom m.a. fram að Fjórðungssamband Vestfirðinga er þátttakandi í norrænu verkefni, sem verið er að ýta úr vör.  Vinnuheiti þess er „Mannfjöldabreytingar og fólksfækkun – áhrif þess á efnahag og atvinnulíf“. Í haust verður haldið byggðaþing á Patreksfirði í samstarfi Háskólaseturs Vestfjarða og Byggðastofnunar og verður efni þess að hluta til tengt hinu norræna verkefni sem Fjórðungssambandið er aðili að. 

Á Bíldudal eru uppi áform um töluverða uppbyggingu tengda laxeldi sem hefur áhrif á viðfangsefnin sem við blasa, s.s. byggingu íbúðarhúsnæðis, skipulagsmál, umferðaröryggi og aðstöðu fyrir fyrirtæki.  Íbúar binda vonir við að af uppbyggingunni verði, en telja jafnframt mikilvægt að standa vörð um kosti þorpsins.  Það fjöregg er í höndum heimamanna og þeir vinna markvisst að því að þétta samfélagið.  Vesturbyggð mun á næstunni gefa íbúum kost á að koma að ákvörðun um hvernig tveimur milljónum af framkvæmdafé verður ráðstafað og haldin eru íbúakaffi reglulega sem þéttir samfélagið og skilar jákvæðri gerjun. 

Myndir frá fundinum eru inn á MYNDIR