Fréttir

Landsbyggðin lifi

FRAMBJÓÐENDUR til sveitarstjórna 31. maí 2014.

Með þessu bréfi vilja samtökin Landsbyggðin Lifi – LBL vísa ykkur veginn inn á heimasíðu samtakanna www.landlif.is  Þar má m.a. finna Byggðastefnu LBL sem send var út í mars 2014. Á heimasíðunni má einnig sjá ályktanir frá aðalfundum og stjórn LBL. Við hvetjum ykkur til að skoða áherslur samtakanna. Um þær verður spurt og efni tillagna rædd í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á þessu vori.

 Áherslur L.B.L. eru m.a. þessar:

1. Móta heildstæða byggðastefnu fyrir landið allt og nýtingu þess.

2. Búseta fólks, öryggi og velferð allra sem landið byggja.

3. Öll erum við jafn þörf og mikilvæg í okkar byggð.

4. Gerum landið sjálfbært á öllum sviðum. Tryggja þarf atvinnu, matvælaöryggi, hita, rafmagn, hreint vatn og fjarskipti.

5. Jafnrétti er lykill að velmegun íbúa og eykur búsæld um land allt. Íbúalýðræði í ákvörðunum verði aukið og áhrif á hag eigin byggðar verði tryggð.

6. Íbúum landsins verði ekki mismunað eftir búsetu t.d. með verri lánakjörum og fyrirgreiðslu. Það skerðir lífskjör og veldur mismunun.

7. Landshlutar og landsvæði verði eins og kostur er fjárhagslega og stjórnskipulega sjálfstæð.        Bendum á athyglisverða  ræðu Halldórs Halldórssonar á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga 2012,  á slóðinni: http://www.samband.is/media/sambandid/Landsthing_2012_raeda_formanns.pdf)

8. Landbúnaðarland verði varðveitt til landbúnaðarframleiðslu fyrir komandi kynslóðir og afurðir unnar eins nálægt uppruna sínum og hægt er.

9. Sameiginlegar auðlindir verði í eigu þjóðarinnar og nýttar í byggðum eins nálægt upptökum sínum og hægt er. Fyrir afnotarétt auðlinda greiðist gjald.

10. Menntun fólks verði fjölbreytt og lifandi og eins lengi í heimabyggð og nútímatækni gerir mögulegt.

Hér er aðeins upptalið í stuttu máli það sem í stefnu LBL  er skrifað. Skjalið í heild sinni er að sjálfsögðu það sem vonandi vekur áhuga ykkar góðir frambjóðendur eftir þessa stuttu yfirferð.

Byggðastefna er ekki skrifuð fyrir dreifbýlið á Íslandi heldur landið allt og þá sem byggja landið. Íbúar þurfa að vita að hverju þeir ganga þegar valin er búseta og jafnvel fjárfest til framtíðar. Því er nauðsynlegt að byggðastefna sé skrifuð af íbúunum sjálfum og taki ekki breytingum eftir pólitískum sveiflum. 

 

 

Sambahátið

Söfnunartónleikar Listasafns Samúels

 Miðvikudagskvöldið 21. maí kl. 20 býður Listasafn Samúels til Sambahátíðar í Iðnó. Tilefnið er að safna fé til að reisa aðstöðuhús í Selárdal í sumar þar sem hugmyndin er að lista- og fræðimenn geti gist og unnið að verkum sínum við ysta haf. Meðal þeirra sem koma fram eru:

  dj. flugvél og geimskip,GhostigitalSin Fang, Helíum og VÍÓ. Aðgangseyrir verður kr. 1000 en frjáls framlög eru vel þegin auk þess sem minjagripir og hollvinaskírteini verða til sölu.

 

 

Rommí á Bíldudal

          Rommí á Bíldudal

     Hið fornfræga         

 Leikfélag, Baldur á Bíldudal 

                              vaknað á nýjan leik og frumsýnir núna á helginni  

                           hinn vinsæla gamanleik Rommí                       eftir D. L. Coburn.

Rommí verður frumsýnt í Baldurshaga á Bíldudal núna á laugardag 17. maí kl.20. Önnur sýning verður á fimmtudag 22. maí kl.20. 

Leikstjóri sýningarinnar er Elfar Logi Hannesson. Gaman er að geta þess að leikferillinn hans hófst  einmitt með Leikfélaginu Baldri í Baldurshaga í janúar 1977. Þetta er í fyrsta sinn sem hann leikstýrir á sínum æskuslóðum.

Með hlutverkin í Rommí fara þau  Hannes Friðriksson og Þuríður Sigurmundsdóttir.

Leikurinn gerist á dvalarheimili eldri borgara og má segja að fast sé skotið, enda er gamanleikurinn einmitt beittastur og bestur í að stinga á kílum samfélagsins.

 Leikfélagið Baldur á Bíldudal á sér langa og merka sögu. Félagið var stofnað í lok janúar árið 1965 og fagnar því hálfrar aldar afmæli á næsta ári.

Félagið hefur sett á svið yfir 20 leikverk.

Það fyrsta var á Vængstýfðum englum árið 1966.

Meðal annarra verka sem Baldur hefur sett á svið má nefna Maður og kona, 1968,

Mýs og menn, 1971,

Skjaldhamrar, 1978,

Höfuðbólið og hjálegan, 1992,

Jóðlíf, 1995,

og Sviðsskrekkur, 2000.

Auk þess stóð Leikfélagið Baldur lengi fyrir árshátíð þar sem ávallt var boðið uppá heimasamin stykki oftast úr smiðju meistara Hafliða Magnússonar.

Það er til marks um endurnýjun lífdaga Baldurs að það er einmitt allt í gangi á Bíldudal. Þorpið yðar af lífi og allt er þetta jú einsog spilaborg. Atvinna og skemmtun fara afar vel saman. 

Það má með sanni segja að  leiklistarlífið hafi verið í góðum gangi á Vestfjörðum síðustu ár. Áhugaleikfélögin vestra hafa sett upp hvert stykkið á fætur öðru og það sem enn betra er að mörg félög hafa verið að vakna af sínum Þyrnirósadvala. 

 

  

Bíldudalur - samtal um framtíðina

Bíldudalur - samtal um framtíðina

Fréttapóstur:  Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur  Þróunarsviði Byggðastofnunar

Mynd Bryndís Björnsdóttir

 

Kæri viðtakandi.

Hér eru helstu tíðindi frá verkefnisstjórninni í verkefninu „Bíldudalur – samtal um framtíðina“:

Haldinn var símafundur fyrr í vikunni þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins og framhald.

Þar kom m.a. fram að margt sé um að vera á Bíldudal þessa dagana og góð stemming meðal íbúa. Þau verkefni sem rætt var um á íbúaþinginu í fyrrahaust eru yfirleitt í góðum farvegi.

Hluti af viðfangsefnunum eru stærri mál, sem ekki eru í höndum íbúa, en snúa að ríkisvaldinu.  Í þeim málum eru Vesturbyggð, Fjórðungssamband Vestfirðinga og AtVest að beita sér.  Stærstu málin sem unnið er að gagnvart ríkinu, lúta að samgöngum og frekari uppbyggingu fiskeldis.    

Símafundur verkefnisstjórnarinnar var sá síðasti fyrir kosningar. Stefnt verður að fundi með nýrri verkefnisstjórn í byrjun hausts, auk þess sem fundað verður með nýrri sveitarstjórn.

Verkefninu er hvergi nærri lokið (verkefnisstjórn starfar til næsta vors) og áfram verða sendar fréttir á póstlistann. Jafnframt er velkomið að senda upplýsingar, fréttir og annað sem á erindi inn á póstlistann til mín og ég kem því áfram.

Alltaf er gaman að fá fréttir af þeim verkefnum, stórum og smáum sem eru í gangi og tengjast þessari vinnu. Nýlega gerðist íbúi á Breiðdalsvík sem tók verkefni frá íbúaþingi Breiðdælinga upp á sína arma, sendi mér póst og sagði frá góðum árangri verkefnisins.  Það væri ekki síður gaman að heyra frá ykkur ef eitthvað er að frétta.

Bestu kveðjur,

Sigríður

Vatnsveita Bíldudal 13.05.2014

Af  vef  Vesturbyggðar

Vatnsveita Bíldudal

Þriðjudagur 13.maí verður unnið við stofnæð vatnsveitunnar kl. 08.00 vegna tengingar.  Tengingin ætti ekki að taka langan tíma en vatnslaust verður á meðan.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður í síma 861-7742.

Hlynur Aðalsteinsson

Þjónustufulltrúi Vesturbyggðar,
Bíldudal.

Fjalla-Eyvindur í Baldurshaga

Fjalla-Eyvindur í Baldurshaga

Kómedíudíuleikhúsið sýnir gamanleikinn vinsæla Fjalla-Eyvindur í Baldurshaga á Bíldudal fimmtudagskveldið 8. maí kl.20. Miðaverð er aðeins 2.000.- kr og það er posi á staðnum. Höfundur og leikari er Bílddælingurinn Elfar Logi Hannesson, já þessi ofvirki þeirra Hannesar og Helgu í Birkihlíð.

Fjalla-Eyvindur er án efa frægasti útilegumaður allra tíma hér á landi. Enda var kappinn sá í útlegð í eina fjóra áratugi. Hann var í raun einfaldur sveitapiltur en þótti samt strax í föðurgarði öðruvísi en jafnaaldrar sínir. Hann var mikill hæfileikamaður smiður góður, fimur mjög og meira að segja læs. Einnig þótti hann eigi ómyndarlegur. Samt varð hann að halda á fjöll eftir að hafa verið grunaður um þjófnað. Já, aðeins grunaður aldrei var neitt sannað. Svo kynnist hann henni Höllu sinni. Hér er þessi þekkta saga túlkuð á nýjan, óvæntan og líklega soldið kómískan máta.