Fréttir

Bíldudalskallar 27. sept 2014

Vestfjarðavegur

Viðtal við vegamálastjóra

um vegasamgöngur til sunnanverðra Vestfjarða.

Þeir sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum og þeir sem ferðast landleiðina um það svæði, hafa oft haft uppi stór orð um ástand vega á svæðinu.  Mörgum finnst Vestfirðir hafa orðið verulega útundan í uppbyggingu vegakerfisins og fjórðungurinn ekki notið þess sem skildi að hafa í marga áratugi, fyrir kvótakerfi, verið með hæstu gjaldeyrisöflun á hvern íbúa af öllum fjórðungum landsins. (Nánar fjallað um það síðar) Miðað við aðra landshluta hafa Vestfirðir verið tiltölulega fámennt svæði, vegir þangað afleitir og því  ferðast fólk lítið til þessa landshluta, aðrir en brottfluttir Vestfirðingar. Í því ljósi hafa fjárveitingar hins opinbera til svæðisins verið litlar og greinilega ekkert litið til tekjuöflunar Vestfjarða fyrir þjóðarbúið.  

                                                                                                                                                         Hreinn Haraldsson

En þó menn á ferðum til eða frá sunnanverðum Vestfjörðum skeyti oft skapi sínu á Vegagerðinni, þegar ástand vega reynir hvað mest á bíla og nýrnafestingar, vita líklega flestir að fólkið sem þar vinnur vill ekkert síður en aðrir að vegirnir vestur séu sem bestir. En þingmennirnir mættu vera duglegri að afla svæðinu stærri hluta vegafjár en hingað til hefur verið raunin.

 Til að fræðast nánar um þessi mál, frá fyrstu hendi framkvæmdaaðila, var Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tekinn tali og fenginn til að svara nokkrum spurningum. Fyrst var spurt hvort nokkuð væri komið í sjónmál hvenær Bílddælingar gætu vænst þess að aka á bundnu slitlagi alla leið Vestur?

 

 Vegamálastjóri kvaðst því miður verða að hryggja Bílddælinga og aðra sem hafa áhuga á að aka þessa leið, að ekki væri enn hægt að nefna neinar ákveðnar tímasetningar en ef reynt væri að giska, án allrar ábyrgðar, mundi hann giska á að eftir svona 4-5 ár væri sá draumur hugsanlega að rætast.

 Upphaflegar áætlanir voru á þann veg að bundið slitlag væri komið alla leið um þetta leyti. Bankahrun og aðrar hremmingar hafa því miður sett þar strik í framvindu áætlana, líkt og víðast annars staðar. Við sem lesum þetta vitum líka að væntingar Vegamálastjóra eru algjörlega háðar fjárveitingum frá Alþingi. Vestfirðingar og þeir sem þá fögru firði vilja heimsækja,  verða að vera duglegri við að herja á þingmenn svæðisins og snúa pirringnum að þeim í auknum mæli, það er líklega vænlegra til árangurs en að skamma Vegagerðina.

 LÁLENDISVEGUR Í GUFUDALSSVEIT?

Þá var Vegamálastjóri spurður hvort eitthvað væri að birta til í deilum um vegstæði framhjá Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi. Láglendisvegur framhjá þessum erfiðu hálsum er Vestfirðingum afar mikið kappsmál og raunar búið að vera á væntingalista vestanmanna í áratugi, eða frá árinu 1969 er 4 vestfirskir vöruflutningabílstjórar gerðu tillögu um að farin yrði skerjaleið frá Reykjanesi með landtöku innan við Skálanes.  Þetta var nokkuð djörf hugmynd sem aldrei fréttist neitt meira af. Vegamálastjóri var ekki spurður um þá gömlu hugmynd, heldur þær leiðir sem nú eru til skoðunar. Hann sagði:

„Það er jú þar sem hnífurinn stendur í kúnni.  En eins og menn vita erum við nú að klára mikinn kafla við Kjálkafjörð og Mjóafjörð. Það er stórt og mikið verkefni sem verður væntanlega ökufært núna fyrir veturinn þó það endanlega klárist ekki fyrr en næsta ár. Og þá er eftir þessi eini kafli á leiðinni vestur, þessi um Gufudalssveitina svona álíka stórt verkefni, eða um 20 km. af nýjum vegum í stað 40 km. á núverandi vegi, meðal annars um Teigsskóginn og það er búið að vera grátlega erfitt að koma einhverjum ákvörðunum um veglínu í gegnum það svæði. Það hefur verið skoðað margt og margar tillögur lagðar upp, misdýrar og miserfiðar og misgóðar, náttúrulega. 

Hreinn og Hanna Birna skoða Teigskóg

Veglínan um Teigskóg er í takti við væntingar heimamanna um láglendisveg í stað hálsanna. Það var á sínum tíma uppi sú hugmynd að byggja upp veginn yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls og gera ágætis veg þar yfir en heimamenn hafa sagt það alveg klárt að þarna verði að koma láglendisvegur. Þá er það öruggt að samfélagslega er það hagkvæmast að fara um Teigskóginn að norðanverðu í Þorskafirðinum og yfir Hallsteinsnesið. Það er annars vegar öruggasta leiðin fyrir vegfarendur, öruggasti vegurinn, umferðaröryggið og það er um leið lang ódýrasta leiðin. Næsti valkostur mundi kosta þrem milljörðum (þrjú þúsund milljónum) meira. Og fyrir slíka upphæð er hægt að gera svo mikið í samgöngumálum á Vestfjörðum og annars staðar. Við teljum að við verðum að berjast til þrautar fyrir þessum kosti,  ef við getum sagt það sem svo.  En því fylgir líka að nú höfum við verið að breyta veglínunni í gegnum þetta svæði.  Nú er Teigskógur svo sem hálfgert rangnefni því þetta er einungis smá hluti af þessu kjarrlendi. Við höfum verið að breyta legu vegarins í kjölfar mótmæla og álits Skipulagsstofnunar og annarra athugasemda þeirra sem komu að þessu. Með þessum breytingum höfum við reynt að hlífa „skóginum“ ef við höldum okkur við það hugtak eins og hægt er og teljum okkur núna vera komna með veglínu sem gerir það. Það er bara mjög lítill hluti sem muni skerðast og alls ekkert meira en annars staðar á Vestfjörðum, við þekkjum þetta kjarrlendi t. d. í Vatnsfirði og annars staðar sem gerir þetta landssvæði svo fagurt og hingað til hefur það ekki þótt neitt til vansa að vegur liggi í gegnum slíkt svæði."

 GJ: segist muna vel deilurnar sem urðu vegna lagningu láglendisvegar fram hjá Þingmannaheiðinni, út af vegstæðinu frá Vatnsfjarðará og út á Hjarðarnes.  Þar var um álíka kjarrlendi að fara. Þessi deila um Teigskóg er í raun endurtekning á sömu forsendum og voru um Hjarðarnesveginn og ekki hefur borið á öðru en í dag sé fólk almennt ánægt með að geta ekið um þetta einstaklega fallega landssvæði.

„Einmitt þetta núna er í raun sama atriðið. Málið núna er þannig að við höfum sett fram nokkra valkosti. Þar á meðal eru jarðgöng undir Hjallaháls sem eru bæði dýr og í sjálfu sér óeðlileg á þessum stað. Jarðgöng ættu t. d. frekar að vera undir Klettshálsinn sem er erfiðari, ef við tökum sem dæmi. Jarðgöng undir Hjallaháls passa ekki inn í þetta vegakerfi en við verðum samt að hafa það með sem valkost ef annað bregst. Og við viljum einfaldlega og höfum nú sagt það í heilt ár, fá að skoða þessa 4 valkosti. Það eru 3 meginvalkostir, það er að fara út með Þorskafirði sunnanverðum og beint yfir hann þveran yfir á Hallsteinsnesið og síðan áfram sömu leið og talað hefur verið um yfir Djúpafjörð og Gufufjörð. Það er að fara þessa Teigskógsleið, sem er þá hinum megin (norðan) Þorskafjarðarins, sem við viljum helst, og svo þessi jarðgöng undir Hjallahálsinn. Við viljum fá að skoða alla þessa þætti í umhverfismati. Við erum ekki að fara fram á núna að fá stimpil á Teigskógsleiðina. Við viljum bara fá að meta þessa þætti umhverfislega með þessari nýju veglínu um Teigskóg, hvort það er ekki hægt að sættast á hana, því það er besti kosturinn. Málið er núna formlega statt hjá Skipulagsstofnun. Við höfum sent þeim skýrslu með þessum valkostum og óskum eftir að fá formlegt svar við því hvort ekki megi skoða alla þessa kosti til jafns núna næstu mánuðina. Við vonumst til að fá núna, jafnvel strax eftir sumarleyfin, svör við þessu og þá getur málið haldið áfram.  Ef hins vegar kemur þvert nei frá Skipulagsstofnun, þá þurfum við að fara aðrar leiðir. Við getum kært málið til úrskurðarnefndar og síðan telja sumir að pólitíkin geti sett lög á þetta og fleira slíkt. Það er ýmislegt sem menn hafa velt upp.“

GJ: Hugsanlegt að taka svæðið eignarnámi? Það eru það miklir hagsmunir í húfi þarna.

„Upphaflega andstaðan var frá brottfluttu fólki sem á þarna sumarbústaði og skiljanlega vilja hafa veginn einhvers staðar annars staðar. En með tilliti til almannahagsmuna þá teljum við eðlilegt að hinir ættu að víkja.“

GJ: Með vísan til þess að kannski fer þetta þrátefli um Teigskóg að leysast og þá verður Klettsháls eini fjallvegurinn um hið strjálbýla svæði milli Bjarkarlunds og Vatnsfjarðar.  Er komnar í  skoðun einhverjar leiðir í sambandi við breytingu á veglínu þar, þegar þar að komi.

„Ekkert sem komið er í neina alvöru umræður en auðvitað hefur það verið rætt. Það væru þá bara um jarðgöng að ræða, sem ekki verður skoðað á næstunni. Í fyrstu yrði kannski reynt að laga þarna aðstæður með snjógirðingum og öðru slíku. Síðan yrði reynt ef menn hefðu betri peningastöðu að bæta þjónustuna. Þetta snýst náttúyrlega bara um veturinn. Það er ekkert mál að keyra Klettshálsinn að sumi til. Ég fór síðast hann fyrir 10 dögum.  Það er ýmislegt eftir ógert og þar á meðal Dynjandisheiðin, þannig að ég tel að meiriháttar breytingar á Klettshálsi muni nú eitthvað bíða.“

GJ: Dýrafjarðargöngin eru náttúrlega komin á áætlun?

„Þau eru komin á áætlun og óskandi að því verði ekki breytt en það er að sjálfsögðu endanlega ákvörðun Alþingis um hvenær er sett fé í að byrja framkvæmdir en miðað við áætlanir núna þá á að byrja þarna árið 2017. Verður verkið þá væntanlega boðið út seinnihluta ársins 2016, framkvæmdir hafnar árið 2017 og þá yrði opnað árið 2019. Á sama tíma þarf náttúrlega að fara af stað með uppbyggingu á Dynjandisheiðinni. “

GJ: Menn eru þá að horfa til uppbyggingar á heiðinni en ekki að horfa til láglendisvegar yfir Langaneshálsinn og fyrir Geirþjófsfjörð og út að Trostansfjarðarheiði? 

„Menn hafa ekki verið að horfa til þeirrar leiðar nema þá með jarðgöngum sem yrðu þá að vera 12 km. eða meira. Menn munu alla vega, eins og víða annars staðar, byrja svona fyrir næstu framtíð að byggja upp veg, reyna að finna bestu leiðina og vera svo með góða vetrarþjónustu. Það eru náttúrlega fyrst og fremst sneiðingarnir upp á heiðina sem eru erfiðir eins og annars staðar. Það verður ekkert stórmál að halda heiðinni opinni sem slíkri þó hún sé nokkuð löng.“

GJ: Það ætti nú að vera hægt að byggja upp góðan veg yfir sjálfa heiðina en það er kannski spursmálið að finna góða lausn með veginn niður í Vatnsfjörðinn, með það í huga að þurfa ekki að fara niður með klettabeltinu, fara heldur hinu meginn í dalnum þar sem vindátt stæði  þá líklega meira eftir veglínunni og hreinsaði betur af sér snjó.

„Menn hafa talað um að skoða í alvöru hvort að einhverjar yfirbyggingar í svona sneiðingum komi til greina. Menn hafa líka verið að skoða að fara hinu meginn niður. En þetta þurfa menn að komast niður á á næstunni því þetta þarf að vera uppbyggður og breiður vegur, þannig að það er ekkert að marka núverandi veg þarna yfir.“

GJ: Nú er í uppsiglingu fiskeldi á Bíldudal. Fiskurinn úr því mun verða unninn í neytendapakkningar og fullunnar afurðir fluttar landleiðina suður til útflutnings. Í því ljósi vaknar spurningin um veginn um Trostansfjarðarheiði yfir í Vatnsfjörð. Hefur eitthvað komið til skoðunar einhver lagfæring á þeirri leið?

                           Horft út Arnarfjörð     Mynd Bryndís I. Björnsdóttir

„Það hefur nú komið meira inn í umræðuna eftir að þessi uppbyggin er að verða svona mikil á Bíldudal. En það hefur ekki náð inn á alvöru áætlanir ennþá nein alvöru aðgerð á þeim stað. En umræðan er þó komin í gang og hún er til alls fyrst.“

GJ: Þá er greinilega þörf á að heimamenn ýti hressilega á pólitíkina og Alþingi til að koma alvöru hreyfingu á þau mál.  En eitt að því sem menn velta töluvert fyrir sér þarna fyrir Vestan er væntanlega landfylling fyrir nýja iðnaðarsvæðið á Bíldudal og m. a. talað um efnistöku úr Taglinu í botni Bíldudals. Það eru margir sárfættir út á því máli. Eru uppi hugmyndir um að taka mikið efni þar í þessa landfyllingu?

„Ég verð nú viðurkenna að ég er ekki alveg með það á hreinu hvað verður þar. Ég hef bara heyrt þessa umræðu að menn hafi verið að horfa á þann stað en að það sé töluverð andstaða svo menn ætli sér að skoða aðra möguleika og ákvörðun liggi ekki fyrir um hvort menn geta fengið efnið einhvers staðar annars staðar. En menn hafa talið þetta lang hagkvæmasta kostinn en auðvitað þurfa menn að horfa á aðra hluti líka, umhverfishlutann af þessu o. s. frv.  En það er nokkur skortur á stórgrýti á svæðinu í varnargarða fyrir landfyllinguna, en það er m. a. það sem menn eru að horfa í þarna í Taglinu ef ég man rétt. Mér vitanlega hefur ekki enn verið tekin nein ákvörðun, en menn langar og ekki hægt að horfa framhjá því. En kannski er hægt að finna aðra leið sem menn eru sáttari við og þá erum við svo sem til í að skoða það.“

GJ: Þá er bara ein spurning eftir. Það er vegurinn á milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Er ég þá fyrst og fremst að hugsa um brekkuna af háfjallinu og niður meðr iolinu﷽﷽ þetta lang hagkvæmastva leið sem menn eru snn eru að horfa ar annars staðar. En menn hafa talið þetta lang hagkvæmast Þorsteinshjallanum en þar er alveg gífurlega hátt fall ef bíll fer þar útaf á niðurleið í hálku. Ekkert öryggissvæði er utan við bundna slitlagið sem nær alveg út á vegbrún. Ekkert sem stöðvar bíl sem fer að renna til.  Er ekkert komið í umræðuna að setja vegrið þarna áður en stórslys verður þarna?

Miklidalur

„Jú, það er náttúrlega eins og margir vita blessaður snjórinn sem er ástæða þess að það er ekki komið mjög víða um land og ekki hvað síst á Vestfjörðum. Þessi vegrið þau safna svo á sig snjónum. Og það sér maður nú t. d. á  Klettshálsinum að bara þeir kaflar þar sem kemur svona hlé þar sem vindstrengurinn kemur upp fláana og inn á veg og fær þá snjórinn skjól við vegriðið og sest fyrir þar og þar eru skaflarnir. Það er nú orsökin fyrir því að á mörgum stöðum hafa menn tregast við að koma þessu upp. En nú eru þessi umferðar öryggismál orðinn stærri og stærri þáttur, þannig að menn hafa verið að fara yfir ýmsa vegi, meðal annars þennan og merkja í okkar pappírum staði þar sem menn telja að við verðum bara að koma upp þessum vegriðum. Og annað hvort að auka vetrarþjónustuna eða reyna að bæta þá  vegina á þessum stöðum. Sumsstaðar er t. d. hægt að breikka rásina þannig að frekar sé hægt að komast hjá þó sé einhver snjósöfnun. Menn hafa líka verið að koma með nýja tegund af vegriðum, þessi víravegrið sem að safna þá minni snjó og annað slíkt. Þetta er vissulega einn af þessum stöðum því það er heilmikil umferð þarna á milli.“

GJ:  Heimamenn eru nú orðnir svo vanir að keyra þarna að  þeir kippa sér ekkert upp við þetta, enda keyrt þessa leið svona alla sína tíð. Það er hins vegar nokkuð um að ferðafólki bregði við þegar það kemur fram á brekkubrúnina og sér þennan mikla halla niður og þverhnýpið alveg við vegbrúnina með engu vegriði og engin öryggissvæði utan við bundna slitlagið.  Einn ferðamaður hafði samband við mig og sagðist hafa orðið skelfingu lostinn og á leiðinni niður hugsað með sér hvað mundi gerast ef springi á hægra framdekki. Vegurinn þarna er rétt tvær bílbreiddir, þannig að svigrúm er lítið þegar verið er að mæta bíl, að ekki sé nú talað um að mæta vöruflutningabílum sem eru svo langir.

„Þetta er alveg rétt. Þetta er mjög slæmur staður og í raun stórhættulegur og sérstök mildi að þarna skuli ekki hafa orðið stórslys.  En það eru í gangi núna sérstakar áætlanir í umferðaröryggi og við reynum að hafa sérstakar fjárveitingar í það, þannig að við þurfum ekki að bíða eftir sérstökum vegafjárveitingum. Og það er ekki síst til að velja úr svona einstaka staði sem eru svona hrikalegri en aðrir og koma þar upp þessum vegriðum.“

 GJ:  Þannig að Vestfirðingar og aðrir vegfarendur geta þá átt von á að þetta breytist?

„Já, já, ég vil nú ekki nefna tímann en það er búið að fara yfir þetta svæði og merkja það sem eitt af því sem þarf að gera eins fljótt og hægt er.“

GJ:  Þá höfum við farið yfir þessar spurningar sem settar voru á blað. Þú ert ekki með neinar nýjar fréttir sem ég ekki spurði um?

„Nei, nei, það eru engar nýjar fréttir. Við vonum bara að stjórnvöld og Alþingi standi sig með fjárveitingar í framkvæmdir og viðhald, við gerum ekkert nema hafa fjármagn og það er öllum ljóst. Það er bæði núverandi og fyrrverandi samgönguráðherrum sérstakt hugðarefni að passa upp á Vestfirðina svona talað almennt um Kjálkann að þeir hafi orðið útundan. Við vitum það, það er kannski vegna þess að umferðin er kannski minni en annars staðar en það þýðir ekki að ekki sé sama þörfin. Það vantar bara meira  mjög oft til leiðinda.eirra vega sem hefur fengið lesta."þessum vegriðum.nn ferðamaður hafði samband við mig og sagðist hafa orátak á þessu svæði og ég vona bara að menn standi við stóru orðin  í pólitíkinni, að það verði að sinna því.“

GJ:  Það er margt á þessu svæði sem kallar  mjög oft til leiðinda.eirra vega sem hefur fengið lesta."þessum vegriðum.nn ferðamaður hafði samband við mig og sagðist hafa orá, má þar t. d. nefna malarkaflana sem eru nánast ekkert nema grjót.

„ Já, já, það er alveg rétt og má þar t. d. nefna kaflann út á Látrabjarg sem ég fæ mikið af kvörtunum og fyrirspurnum um, því með auknum ferðamannaþunga  er sífellt meiri og meiri umferð og sá vegur er einnig einn af þessum vegum sem hefur fengið lítið viðhald og er því mjög oft til leiðinda.“

Arnfirðingur.is þakkar Vegamálastjóra kærlega fyrir vel upplýsandi viðtal og óskar honum velfarnaðar í starfi, öllum vegfarendum til heilla.

 

 

Áskorun til þingmanna

Áskorun til þingmanna

Raunhæfar aðgerðir strax við Vestfjarðaveg í Gufudalssveit.

    

Segja má að fyrirsögnin hér að ofan sé einn af aðalpunktum í eftirfarandi bréf til þingmanna sem formenn Patreksfirðingafélags, Ólafur Sæmundsson og Arnfirðingafélags, Guðmundur Bjarnason senda þingmönum.

1._þingmaður.jpg

Á myndinni er Einar K. Guðfinnsson, 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis og núverandi forseti Alþingis. Maðurinn sem nú getur sett hnefann í ræðupúltið og krafist aðgerða.

En bréf formannanna er eftirfarandi:

Vestfjörðum í byrjun ágúst 2014

Heiðraði þingmaður

Sjaldan vefst okkur Vestfirðingum tunga um tönn en þó er líklega óhætt að fullyrða að okkur sé mjög um tregt tungu að hræra þegar kemur að því sem skiptir okkur miklu máli; nefnilega samgöngumálum. Tími er þó kominn til að láta í okkur heyra enda langlundargeð okkar nær á þrotum.

Samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum hefur staðið veikt um árabil en með samheldni, vestfirskum krafti og áræðni hefur tekist að koma á viðsnúningi og nú ríkir að mörgu leiti bjartsýni og trú á framtíðarhorfur svæðisins.  Útgerð hefur eflst, fiskeldisfyrirtæki haslað sér völl og styrkst í sessi, aðstaða til móttöku ferðafólks hefur batnað, ferðamönnum fjölgað og svo mætti áfram telja. En á sama tíma varpar vegakerfið löngum skugga sínum yfir svæðið.

Lífsnauðsynlegar samgöngubætur sitja á hakanum og eru á byrjunarreit, rétt eins og fyrir mörgum árum. Ekkert þokast og stjórnvöld taka ekki af skarið eins og nauðsynlegt er og höggva á hnútinn.   Hér er horft til vegabóta í Gufudalssveit en þar kasta á milli sín stofnanir ríkisins hugmyndum sem allir, utan örfárra svo kallaðra umhverfissinna, eru sammála um að séu ekki aðeins skynsamlegar, heldur og bráðnauðsynlegar. Þessar vegabætur eru kjarninn í því að viðhalda og efla samfélagið en örfáir og háværir einstaklingar halda þeim í herkví. Dómstólar hafa komið að þessu en ekkert gerist.

Þarna er digurbarkalega talað um náttúruvernd og náttúruverndarsjónarmið og menn sem jafnvel kenna sig við umhverfisstefnur og vernd, tala fyrir því að miklu betra sé fyrir Vestfirðinga og innlenda og erlenda ferðamenn að fara áfram um tvo fjallvegi í stað þess að aka um einn á jafnsléttu á láglendi.  Slíkt myndi líklega aldrei verða liðið á suðvesturhorni landsins og orð eins og Krýsuvíkurleiðir, slysagildrur og þess háttar myndu heyrast.  Fjallvegir eru stórhættulegir á vetrum og margir hreinlega treysta sér ekki til að aka um þá í snjó og hálku. Þetta á ekki síður við um ferðamenn sem sleppa svæðinu og fara þess í stað eitthvert annað.

Fólk er hluti náttúrunnar og það er hæglega hægt að benda á að það sé líka náttúruvernd að bjóða upp á skynsamlega valkosti í vegagerð og það þarf ekki að liggja sérlega lengi yfir kortum til að sjá að núverandi fyrirkomulag gengur ekki upp, kyrrstaðan er óviðunandi og framtíðin liggur í nýjum vegi.

Sumir ræða um jarðgöng í þessu samhengi, en við spyrjum; vilja menn virkilega horfa á lausn sem kostar 3.000 milljónum króna meira og fer í einhverja óskilgreinda biðröð jarðganga í stað þess að ganga hreint til verks og framkvæma hagkvæmustu lausnina?  Sumarbústaðurinn í Teigskógi er örugglega verðmæt eign, en getur nokkur virkilega metið fermetrann þar á  60 milljónir króna?

Hvar er fólkið og vegfarendurnir í breytunni? Hvers virði er mannslífið og mannlífið á Vestfjörðum?  Erum við ekki hluti þeirrar náttúru, þeirrar flóru sem þarf að vernda?  Hvers eigum við að gjalda að þurfa að aka eftir vegum sem lagðir voru um miðja síðustu öld og eru niðurgrafnir með 180 gráðu beygjum þar sem bratti er meiri en framleiðendur ökutækja í dag gera ráð fyrir að bílum þeirra sé ekið? Áttið þið ykkur á að bílaframleiðendur mælast til að bílum sé sérstaklega breytt til að aka við slíkar aðstæður? Erum við virkilega komin á þann stað að það þurfi sérhannaðar bifreiðar til að aka á svæðinu?

Við einfaldlega neitum að trúa því að íslenskir þingmenn séu afskiptalausir um velferð íbúa Vestfjarða.

Við einfaldlega neitum að trúa því að þú, háttvirtur þingmaður, ætlir að sitja hjá og gera ekki neitt til að tryggja að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum og þeir sem þangað vilja leggja leið sína, fái að njóta nútíma samgangna með öryggi á vegum úti. 

Við trúum því hins vegar að þú, háttvirtur þingmaður, sért með okkur í liði og talir fyrir og greiðir atkvæði þitt með lagafrumvarpi um lög er varða þjóðveg nr. 60, Vestfjarðarveg, þar sem bundið er í lög að hann skuli leggjast samkvæmt B leið og kveðið á um að vegalagningin verði boðin út ekki seinna en 1. febrúar 2015. http://www.althingi.is/altext/139/s/0718.html

Með von og raunar vissu um skilning

 

 

Vélinni bjargað úr flaki Kára BA

Vélinni bjargað úr flaki Kára BA

Hópur áhugasamra félaga í Arnfirðingafélaginu hafa um nokkurn tíma átt sér þann draum að bjarga vélinni úr flaki Kára BA, þar sem flakið liggur í fjörunni við Krosseyri. Upphaflega setti ég inn ranga færslu um það hvernig Kárinn komst þangað sem hann er, en ævinlega verður það svo að ekki eru allar upplýsingar réttar sem maður fær.  Samkvæmt því sem fram kemur um útgerðarsögu Bíldudals, sem finna má á Arnifirðing.is mun hið rétta vera á Þessa leið:

1939 er smíðaður á Bíldudal 6 brl. bátur úr eik og furu sem fékk nafnið Kári BA-265. Eigandi hans var Jón Kr. Jóhannesson Bíldudal og átti hann bátinn fram undir 1990 en þá kaupir Kristján Pálsson bátinn og setur hann uppí fjöru á Krosseyri og þar varð báturinn ónýtur.“  Upplýsingar hér síðar í þessari umfjöllun um lengingu, þrjár vélar og dekkun munu hins vegar vera réttar.

Nú er þessi draumur um að bjarga vélinnni að nálgasat veruleika, því fengið er leyfi landeiganda fyrir að fjarlægja megi vélina.

Fyrir stuttu fóru nokkrir áhugamenn í leiðangur inn að flakinu til að kanna aðstæður og velta fyrir sér leiðum til að ná vélinni úr flakinu. Það verður líklega ekki auðvelt verk þar sem allir festiboltar og aðrar festingar sem þarf að losa, eru orðin ryðguð föst og takmarkaðri tækni hægt að koma við.

Eins og sjá má af þessari mynd mun þurfa óhefðbundin vinnubrögð við að losa vélina en jafnframt fara varlega svo ekkert stykki brotni.

Tækniatriðin við björgunina og stjórnun við endurbyggingu vélarinnar verða líklega í traustum höndum Jóhanns S. Gunnarssonar. Sagt er að hann sé þegar farið að klæja í fingurna að takast á við verkið og jafnvel farinn að velta fyrir sér litnum á lakkinu sem vélin verði máluð með að endurbyggingu lokinni.

Þetta er mjög gömul vél og talið líklegt að þetta sé eina eintakið sem til er hér á landi.  Mikilvægt er því að vel takist til, bæði við björgunina sem og við endurbygginguna sem vafalaust mun kosta nokkra fjármuni. Mun aðila áreiðanlega verða leitað til styrktar verkinu. Af því fréttist nánar síðar.

Vélin er sögð vera 25 hestöfl af gerðinni Unimunktel eins cylinders svokölluð „glóðarhausvél" vegna þess að við gangsetningu var toppstykki vélarinnar hitað með mótorlampa þar til það var orðið glóandi heitt. Þá var lyft undir ventlana svo léttara væri að snúa vélinni og stóru og þungu svinghjóli framan á vélinni snúið á eins mikla ferð og menn gátu. Þá var sem kallað var, slegið undan ventlunum þannig að vélin fór að þjappa og sprengdi þá olíuna sem kom inn á stimpilinn og vélin fór í gang. Þetta voru gangvissar vélar en hristu bátana nokkuð mikið.

Þetta var reyndar  þriðja vélin í Káranum. Báturinn var í fyrstu styttri og einungis hálfdekkaður, sem kallað var. Það var ódekkað rými milli lúkars á vélarhúskappa. Fyrsta vélin sem var í Kara var af gerðinni Bolinder og var einungis 8 hestöfl.  Þegar báturinn var lengdur og dekkaður var sú vél of lítil og fékk Gunnar Þórðarson hana til að setja hana í bát sinn Alla.  Í Kára var þá sett dísilvel en ekki alveg ljóst með tegundarheitið.  Jón Grói, var aldrei ánægður með hana, reif hana úr og setti í staðinn þá vél sem er í flakinu og á að fara að bjarga.

Til að ná vélinni þarf að rífa það sem eftir er af stýrishúsinu sem ekki var nú stórt. Það verða næg verkefni fyrir hópinn að ná vélinni úr flakinu og koma henni um borð í bát og til Bíldudals.

 

 Þetta dragnótarspil er nú barn síns tíma og ekki miklar líkur á að það verði gert upp, en samt aldrei að vita hvað Jóa dettur í hug ef verkefnastaðan minnkar.

Þarna eru leiðangursmenn sestir á dyrapallinn á Krosseyri að hvíla lúin bein og ef til vill að ræða verkefnið framundan. Það er alla vega búið að setja stefnu á að gera annan leiðangur um helgina 6.-7. september, ef veður leyfir og freista þess að ná að losa velina úr flakinu.

 

Saúelshús í Selárdal

UPPBYGGING VIÐ LISTASAFN SAMÚELS Í SELÁRDAL

Framkvæmdir eru hafnar við endurbyggingu húss Samúels, listmanns að Brautarholti.

Hús Samúels verður nú endurbyggt í því sem næst upprunalegri mynd. Í húsinu á að vera íbúð fyrir lista- og fræðimenn sem hafa hug á að vinna að listsköpun við ysta haf.

Gamla húsið var tekið niður árið 2009 og á liðnum árum hefur verið unnið að undirbúningi endurbyggingar hússins, unnar teikningar og aflað fjárstuðnings til verksins. Og eru nú framkvæmdir komnar á skrið eins og myndirnar bera merki um. Ætlunin er að gera húsið fokhelt í sumar.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Menningarráð Vestfjarða lögðu verkefninu nýverið lið og er ætlunin að gera húsið fokhelt í þessum áfanga.

Gerhard König sér um steypuviðgerðir og steinhleðslu. Heiðar Jóhannsson er byggingastjóri og Björgvin Sigurjónsson verktaki hjá TV  verki á Tálknafirði.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Hilmar Einarsson.

 

 

viðhorfum íbúa á Vestfjörðum, 2013.

Fréttin fengin af vef Litlahjalla fréttavef úr Árneshreppi á Ströndum

Fréttina ritar  Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. júlí 2014

Könnun á viðhorfum íbúa á Vestfjörðum, 2013.

Drangaskörð.
Drangaskörð.

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) hefur nú birt niðurstöður viðhorfskönnunar sem tekin var á meðal íbúa á Vestfjörðum síðla árs 2013. Könnunin var unnin fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga með tilstyrk Sóknaráætlunar landshluta. Almennt er niðurstaða könnunarinnar að íbúar á Vestfjörðum hafa jákvætt viðhorf til sinna samfélaga, náttúru og atvinnulífs, en eru ósáttir við hæga uppbyggingu innviða. Ætlun er að gera sambærilegar kannanir með reglubundnum hætti sem lið í eftirfylgni með byggðaþróun á Vestfjörðum. Send var netkönnun á netföng 486 manns á öllum Vestfjörðum, 18 ára og eldri, valdir úr gagnagrunni Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Markmið með íbúakönnuninni var að kanna hagi og afstöðu í búa til ýmissa þátta sem geta haft áhrif á Vestfirska hagkerfið. Samhliða íbúakönnuninni var unnið að greiningum á atvinnulífi og öðrum hagrænum þáttum. Í vinnunni hafa komið fram vísbendingar um að Vestfirskt atvinnulíf hafi átt undir högg að sækja á undanförnum árum en horfir nú til bjartari tíma. Með þessari greiningarvinnu er vonin sú að það til verði aukin þekking á aðstæðum í samfélagi og atvinnulífi á Vestfjörðum sem leiði til nákvæmari og upplýstari umræðu, jafnframt er niðurstöðurnar mikilvægt innlegg inn í umræður og vinnu við að skilgreina lausnir við þann byggðavanda sem hefur verið viðvarandi á svæðinu.

Úrtakið var 486 netföng í öllum sveitarfélögum og byggðarkjörnum innan Vestfjarða. Netföngum var safnað í gegnum vefleik sem haldin var vorið 2014, þar sem Vestfirðingum var gefin kostur á að skrá netfangið sitt í gagnagrunnin og voru dregin út verðlaun að leik loknum. Til viðbótar leiknum var hringt handahófskennt í einstaklinga í byggðarkjörnum sem ekki náðu tilskyldum fjölda netfanga.

Niðurstöður þátttöku voru eftirfarandi: • Fjöldi svarenda var 332 eða 68% sem telst afar gott hlutfall. • Heimildir Hagstofu Íslands um meðalmannfjölda á Vestfjörðum eftir kyni og aldri 1998-2013 - sveitarfélagaskipan 1. janúar 2014 eru eftirfarandi; 69% búsettir á N-Vestfjörðum, um tæplega 18% S-Vestfjörðum og 13,5% á Strandasýslu og Reykhólahreppi. Því er svörun N-Vestfjarða og Strandasýslu og Reykhólahrepps í hlutfalli við íbúafjölda svæðis. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru sem hér segir: • Flestir þátttakendur voru fæddir á árunum milli 1960-1979 og flestir þeirra búsettir á N-Vestfjörðum. • Langflestir þátttakendur töldu ólíklegt að flytjast búferlum á næstu tveimur árum. • Hærra hlutfall kvenna hefur lokið háskólamenntun. • Langflestir sem tóku þátt í könnunni eru launþegar eða um 65%. • Flestir á sunnanverðum Vestfjörðum eru frekar ánægðir með möguleika til eigin rekstrar. • Flestir á norðanverðum Vestfjörðum telja almennt öryggi vera mjög gott. • Mjög hátt hlutfall frá sunnanverðum Vestfjörðum eða um 80% eru ánægðir með nálægð við fjölbreytta náttúru. • Rúm 45% á norðanverðum Vestfjörðum eru mjög ánægðir með menningarlíf en rúm 51% frekar ánægðir á sunnanverðum Vestfjörðum. • Þátttakendur sunnanverðum Vestfjörðum eru mjög óánægðir með vegakerfið eða rúm 62%. • Ánægja er mest með greiða umferð á norðanverðum Vestfjörðum. • Meirihluti þátttakenda Strandasýslu og Reykhólahrepps eru ánægðir með gæði heilsugæslu/sjúkrastofnanna. • Þátttakendur á norðanverðum Vestfjörðum eru ánægðari með farsímaþjónustu en önnur svæði • Þátttakendur á sunnanverðum Vestfjörðum eru ánægðari með netsamband en önnur svæði. • Umtalsverður munur er milli kynja í heildartekjum eða allt að 60%.
 Könnunina má finna í heild sinni hér.

 

 

Tónlistarhátíðin Baunagrasið á Bíldudal

Tónlistarhátíðin Baunagrasið á Bíldudal

Hátíðin verður sett á Skrímslasetrinu Bíldudal

Föstudaginn 18 Júlí kl 21:00

 Frítt er inná hátíðina og hér má sjá FB síðu hátíðarinnar en dagskráin er birt þar.

Þetta er lítil og væn Folk tónlistarhátíð. Í fyrra mætti KK á svæðið og sló gersamlega í gegn í gamla frystihúsinu sem var búið að breyta í glæsilegan tónleikasal. Núna í ár eru margir listamenn sem troða upp. Góð blanda af hljómsveitum,trúbadorum og dúettum.Skúli Mennski ásamt hljómsveit. Hafdís Huld, Markús and The diversion Session,Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar. Adda og Gummi Hjalta ásamt fleirum.

Flott tjaldstæði og gistiheimili eru á svæðinu en allir viðburðir fara þó fram inni.

 Bestu Kveðjur

 Ljósmynd Jón Tryggvi