Fréttir

Eimskip kaupir Sæferðir

 

bb.is | 04.05.2015 | 16:46

 

Eimskip kaupir Sæferðir ehf.

 

 

 

Eimskip hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé fyrirtækisins Sæferða ehf. í Stykkishólmi. Rekstur Sæferða er í sjótengdri ferðaþjónustu þar sem félagið rekur skipin Baldur og Særúnu á Breiðafirði. Með kaupum á Sæferðum er Eimskip að stíga ákveðin skref í að styrkja starfsemi sína í sjótengdri ferðaþjónustu, en félagið hefur á undanförnum árum rekið ferjuna Herjólf á tímabundnum samningi fyrir Vegagerðina sem þjónar samgöngum og ferðaþjónustu milli lands og Vestmannaeyja. 

Á árinu 2014 fjárfestu Sæferðir í nýrri og stærri ferju sem tekur fleiri farþega og bíla og eykur möguleika fyrirtækisins til frekari vaxtar. Heildarvelta fyrirtækisins á árinu 2014 nam 560 milljónum króna sem samsvarar 3,6 milljónum evra. Kaupin á fyrirtækinu eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og eru gerð með þeim fyrirvara að þau verði samþykkt. 

„Ég er mjög sáttur við að hafa náð samningum við eigendur Sæferða um kaup á fyrirtækinu, enda um mjög spennandi fyrirtæki að ræða með mikla framtíðarmöguleika er snúa að ferðaþjónustu og samgöngum á vestanverðu landinu. Eimskip mun leggja mikinn metnað í að halda áfram á þeirri braut að efla bæði þjónustu við íbúa svæðisins og ferðaþjónustu í góðu samráði við heimamenn og halda áfram að veita viðskiptavinum félagsins framúrskarandi þjónustu,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. 

„Við erum mjög sátt við sölu á fyrirtækinu til Eimskips. Sæferðir munu án nokkurs vafa halda áfram að vaxa og dafna í höndum nýrra eigenda, enda hafa fyrirtækin á að skipa öflugum hópi starfsmanna,“ segir Páll Kr. Pálsson, stjórnarformaður Sæferða ehf.

 

Minjasafnið að Hnjóti, forstöðumaður

Nýr forstöðumaður á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

 

Inga Hlín Valdimarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Inga lauk BA prófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands 2007, og  er í meistaranámi við Háskóla Íslands í safnafræði. Hún hefur góða reynslu á safnastarfi, en hún starfaði sem safnvörður hjá Byggðasafni Árnesinga á Eyrabakka og einnig á Þjóðminjasafni Íslands.

Inga Hlín mun hefja störf við safnið í byrjun maí.

 

Minjasafn Egils ÓIafssonar að Hnjóti

 

Upplýsingar af heimasíðu safnsins

Á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti við Örlygshöfn er einstætt safn merkilegra muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem segja sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þessir munir veita góða innsýn í lífsbaráttu fólks og þá útsjónarsemi og sjálfsbjargarviðleitni sem fólk varð að beita til að komast af við erfiðar aðstæður. Á safninu er að finna marga áhugaverða muni þar á meðal hattinn hans Gísla á Uppsölum og muni sem tengjast björgunarafrekinu við Látrabjarg 1947. 

Minjasafn Egils Ólafssonar var stofnað 22. júní 1983 þegar Egill Ólafsson og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir ábúendur á Hnjóti gáfu Vestur-Barðastrandarsýslu safnið. Egill byrjaði ungur að safna og hélt því áfram til dauðadags. Hann vann ötult starf við að safna munum sem tengjast sögu sunnanverða Vestfjarða. 

Safnið er staðsett á leiðinni út á Látrabjarg, 36 km frá Patreksfirði. Í safninu er björt og heimilisleg kaffitería þar sem tilvalið er að stoppa og fá sér kaffi og með því á leiðinni út á Látrabjarg. Í safninu er einnig vísir að upplýsingamiðstöð. 

Aðgangseyrir:                                                                                              

Eldri en 12 ára: 1000 kr.                                                                          

Hópar og lífeyrisþegar: 700 kr.

 

 

 

  

Fréttatilkynning frá MS

MS og starfsfólk félagsins styðja fjársöfnun félags Nepala á Íslandi
- Fjórðungur Nepala á Íslandi eru starfsmenn MS og fjölskyldur þeirra

 

Mjólkursamsalan hefur tekið höndum saman með starfsmannafélagi MS, félagi Nepala á Íslandi og Rauða krossinum um innanhússöfnun til styrktar hjálparstarfinu í Nepal eftir jarðskjálftana þar. Um fjórðungur þeirra Nepala sem býr á Íslandi eru starfsmenn MS og fjölskyldur þeirra. Mjólkursamsalan er í eigu íslenskra kúabænda og segir Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og stjórnarformaður MS, að íslenskir bændur þekki af aldalangri sambúð við náttúruöflin hve mikilvægt geti verið að eiga aðstoð vísa. „Það er hópur harðduglegs fólks frá Nepal í starfsmannaliði MS.  Við viljum leggja þessu fólki lið við að koma til hjálpar heima í Nepal.“

Auk fjársöfnunar innanhúss til stuðnings hjálparstarfinu eystra þar sem fyrirtækið lagði fram fyrstu milljónina, mun MS leggja lið annarri fjáröflun félags Nepala. Starfsmannafélög innan Mjólkursamsölunnar leggja söfnuninni að auki lið og einnig getur starfsfólk lagt sitt að mörkum með beinum eigin framlögum. Gert er ráð fyrir að Rauði krossinn tryggi að þeir fjármunir sem safnast skili sér beint til þeirra sem eiga um sárt að binda. 

Þeir sem vilja leggja beint inn á söfnunarreikning félags Nepala á Íslandi geta lagt inn á reikningsnúmerið 0133–15–380330. Kt. 511012–0820.

Með kveðju,

Gréta Björg Jakobsdóttir

Markaðssvið

 

 

Arnarfjörður á miðöldum

  Frétt af vef Bæjarins Besta            bb.is | 24.04.2015 | 15:49

Arnarfjörður á miðöldum

Fornleifauppgröftur á Hrafnseyri

Fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða hefur undanfarin ár stundað fornleifarannsóknir í Arnarfirði sem bera nafnið Arnarfjörður á miðöldum. Nýlega voru gerðir tveir þættir um fornleifarannsóknir í Arnarfirði, annar um rannsóknina á Hrafnseyri og Auðkúlu og hinn um rannsókn sem fór fram á Grélutóftum. Það voru hjónin Eyþór Eðvarðson og Ingrid Kuhlman sem gerðu heimildarmyndirnar en þau hafa nýlega lokið námi í kvikmyndagerð í London.

Eyþór er einn stofnadi fornminjafélags Súðfirðinga sem er öflugt félag sem vinnur í samvinnu við Fornleifadeild Náttúrstofu Vestfjarða og Minjastofnun að skráningu minja í Súgandafirði. Hægt er að horfa á þættina á slóðunum hér að neðan.

Þátturinn um fornleifarannsóknina á Hrafnseyri

Þátturinn um fornleifarannsóknina á Grélutóftum við Hrafnseyri

 

 

Kallakaffi 25. apríl 2015

FÁMENNT EN GÓÐMENNT

Á KALLAKAFFI 25. APRÍL 2015

Það var fámennt en góðmennt á kallakaffinu í gærmorgun. Kannski engin furða þar sem ég gleymdi að setja inn tilkynningu. Parkinsonveikin er farin að sverfa töluvert að og hægt en markvisst dregur hún úr færni hjá manni. Það er því orðin brýn þörf á að fá einhvern til að sinna Arnfirðing.is. Vinsamlegast bendið Gumma á einhver sem gæti tekið þetta að sér og haldið þessu svolitið lifandi.

Bæildudalskalla apríl 2015

Héraðsþing HHF 2015

a74b86ab-034d-11e2-985c-005056864800

Héraðssambandið Hrafna-Flóki

Héraðsþing HHF 2015

 

 

Héraðsþing HHF verður haldið á Hópinu á Tálknafirði miðvikudaginn 29.apríl 2015 og hefst kl. 18.  Öllum er frjálst að mæta á þingið og eru allir íbúar í V-Barðastrandarsýslu hvattir til að mæta og taka þátt í uppbyggingu á íþróttamenningu á svæðinu.  
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður nýr íþróttafulltrúi kynntur til starfa auk þess að mótaskrá sumarsins verður samþykkt. 
Boðið verður upp á léttar veitingar.

Kær kveðja
Lilja Sigurðardóttir,
Formaður HHF