Fréttir

Sólfagnaður á Bíldudal

- og kjör íþróttamanns ársins 2000

Árlegur sólarfagnaður var haldin í Félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal, sunnudaginn 18 febrúar sl. en þá hélt Kvenfélagið Framsókn upp á 90 ára afmæli sitt með því að bjóða öllum íbúum staðarins í sólarkaffi.

Íþróttamenn ársins á Bíldudal
F.v. Arna Margrét, Andrés Garðar og Ívar Örn.

Ennfremur var í hófinu lýst kjöri íþróttamanns ársins á Bíldudal fyrir árið 2000 og hlaut þá tilnefningu Andrés Garðar Andrésson fyrir framúrskarandi ástundun og íþróttaafrek ársins. Andrés var ennfremur valin besti frjálsíþróttamaðurinn.

Þau önnur sem hyllt voru sem afreksfólk voru Arna Margrét Arnardóttir sem besti körfuboltamaðurinn og Ívar Örn Karlsson, sem besti fótlboltamaðurinn. Arnfirðingafélagið óskar þessum ungu afreksmönnum til hamingju með kjörið og hvetur þau, sem aðra unga Bílddælinga, til dáða á komandi árum.

Að sögn Jóns Þórðarsonar er von til að sá siður verði hafður á í framtíðinni að lýsa kjöri íþróttamanns ársins á sólarkaffi en það var nú gert í annað sinn. Jón sendi Arnfirðingi ennfremur myndir úr hófinu.

Í máli Gísla Ægis Ágústssonar, formanns íþróttafélagsins, sem hann flutti við kjör íþróttamanns ársins, þá var á síðasta ári líflegt starf í íþróttum á Bíldudal enda var landsmót UMFÍ haldið á svæðinu í ágúst sl.

Fram komu kórar leikskólabarna og kvenfélagskvenna sem skemmtu gestum með söng sínum.

Arnfirðingafélagið óskar kvenfélagskonum til hamingju með 90 ára afmæli Kvenfélagsins Framsóknar.