Fréttir

Vélin úr Kára BA 265

Vélin úr Kára BA 265

 

Þessi vél er úr Kára BA 265 og komið hér fyrir af félögum í Arnfirðingafélaginu og Bílddælingum til að minnast mikilvægs tímabils í útgerðarsögu Bíldudals.

 

Vélin er 25 hestöfl af gerðinni June Munktell árgerð 1953, eins cylinders glóðarhausvél.

 

Kári BA 265 var súðbyrðingur, smíðaður úr furu og eik árið 1939 af Gísla Jóhannssyni (1882 – 1960) sem stundaði bátasmíðar á Bíldudal um áratugaskeið. 

 

 

Jón Kr. Jóhannesson (1912 – 1986) jafnan kenndur við Gróhóla í Bakkadal í Ketildölum eignast bátinn 1952 en áður hafði hann verið gerður út frá Patreksfirði og hét þá Gunnbjörn BA 265. Upphaflega var í bátnum 8 ha Bolinder vél og síðan 20 ha Lister. Jóni líkaði ekki við þá vél og setti June Munktell vélina í bátinn. Jón gerði Kára út á rækju á veturna en á sumrin stundaði hann veiðar með handfærum.

 

Árið 1985 keypti Kristján Pálsson (1924 – 1999) frá Sperðlahlíð bátinn og notaði hann til einhverra flutninga inn að Sperðlahlíð og Krosseyri. Kári var tekinn af skipaskrá 1988 og þá ekki talinn haffær. Um 1990 var gengið frá bátnum í fjörunni á Krosseyri og þar varð hann endanlega ónýtur.

 

Árið 2014 gengust nokkrir áhugamenn frá Bíldudal fyrir því að bjarga vélinni úr Kára BA 265 og gera hana sýningarhæfa. Vélinni sem vegur um 1600 kg ásamt afturhluta bátsins var fleytt á flotholtum þvert yfir fjörðinn til Bíldudals, en leyfi hafði þá fengist frá eigendum Krosseyrar til að taka vélina.