Fréttir

Minjasafnið að Hnjóti, forstöðumaður

Nýr forstöðumaður á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

 

Inga Hlín Valdimarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Inga lauk BA prófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands 2007, og  er í meistaranámi við Háskóla Íslands í safnafræði. Hún hefur góða reynslu á safnastarfi, en hún starfaði sem safnvörður hjá Byggðasafni Árnesinga á Eyrabakka og einnig á Þjóðminjasafni Íslands.

Inga Hlín mun hefja störf við safnið í byrjun maí.

 

Minjasafn Egils ÓIafssonar að Hnjóti

 

Upplýsingar af heimasíðu safnsins

Á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti við Örlygshöfn er einstætt safn merkilegra muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem segja sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þessir munir veita góða innsýn í lífsbaráttu fólks og þá útsjónarsemi og sjálfsbjargarviðleitni sem fólk varð að beita til að komast af við erfiðar aðstæður. Á safninu er að finna marga áhugaverða muni þar á meðal hattinn hans Gísla á Uppsölum og muni sem tengjast björgunarafrekinu við Látrabjarg 1947. 

Minjasafn Egils Ólafssonar var stofnað 22. júní 1983 þegar Egill Ólafsson og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir ábúendur á Hnjóti gáfu Vestur-Barðastrandarsýslu safnið. Egill byrjaði ungur að safna og hélt því áfram til dauðadags. Hann vann ötult starf við að safna munum sem tengjast sögu sunnanverða Vestfjarða. 

Safnið er staðsett á leiðinni út á Látrabjarg, 36 km frá Patreksfirði. Í safninu er björt og heimilisleg kaffitería þar sem tilvalið er að stoppa og fá sér kaffi og með því á leiðinni út á Látrabjarg. Í safninu er einnig vísir að upplýsingamiðstöð. 

Aðgangseyrir:                                                                                              

Eldri en 12 ára: 1000 kr.                                                                          

Hópar og lífeyrisþegar: 700 kr.