Fréttir

2015 Mokveiði í Arnarfirði

Frétt af vef Bæjarins Besta                     bb.is | 17.04.2015 | 14:51

Mokveiði í Arnarfirði

Mokveiði var á Andra BA.

Fádæma rækjuveiði hefur verið í Arnarfirði að undanförnu. Andri BA er eini báturinn sem eftir er á veiðum og gerði hann einn besta rækjuróður sem sögur fara af í Arnarfirði. „Við fengum tæp 10 tonn í gær og sprengdum pokann og misstum 3-4 tonn. Þetta er með stærri róðrum í Arnarfirði,“ segir Jón Páll Jakobsson, skipstjóri á Andra. Í haust úthlutaði Hafrannsóknastofnun 250 tonna kvóta í Arnarfirði sem kláraðist fyrir áramót. Í febrúar var gefinn út 100 tonna viðbótarkvóti. „Við áttum 19 tonn af viðbótinni og eftir tvo og hálfan dag á veiðum er hann að verða búinn. Það var eins hjá hinum bátunum sem kláruðu viðbótina í mars en þá var mjög góð veiði,“ segir Jón Páll.

Jón Páll segist hafa búist við að fá 2-3 tonn á dag og þessi veiði komi því á óvart. „Rækjan er yfirleitt þéttust á haustin og venjulega er minni kraftur í veiðinni þegar líður á vertíð. Við erum að fá mjög fína rækju og hún fæst víða. Þeir hafa eitthvað feilað sig í útreikningunum hjá Hafró þegar þeir gáfu út viðbótarkvótann,“ segir Jón Páll. Hann telur að óhætt hefði verið að gefa út 500 tonna kvóta. „Það var byrjunarkvótinn hér áður fyrr. Í haust var gefinn út 250 tonna kvóti eftir rannsóknaleiðangur Hafró. Í febrúar var farið í annan leiðangur og þá fékkst enn meiri rækja en í haust og þá er gefinn út 100 tonna kvóti. Ég skil ekki þessar reikningskúnstir hjá Hafró,“ segir Jón Páll.