Fréttir

Frétir frá Aðalfundi ársins 2015

Aðalfundur Arnfirðingafélagsins 2015

Arnfirðingafélagið hélt Aðalfund sinn fyrir árið 2015, þann 26. mars s. l. kl. 17:00. Var fundurinn haldinn í Víkinni Grandagarði

Formaður setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna, og gerði tillögu um Jens Valdimarsson sem fundarstjóra og Kristínu Pétursdóttur sem fundarritara. Voru báðar þessar tillögur samþykktar samhljóða.

Formaður flutti skýrslu stjórnar og gat þar helstu verkefna ársins. Árið hófst með Sólarkaffi þann 9. febrúar 2014 í Haukahúsinu Hafnarfirði.  Góð mæting var á Sólarkaffið og fer þeim heldur fjölgandi sem mæta á þennan viðburð. Að þessu sinni voru 190 til 200 manns sem mættu með góða skapið og glaða lund.

Á árinu tók félagið einnig þátt í tilraun með Patreksfirðingum og Tálknfirðingum um að halda, hér á höfuðborgarsvæðinu, sameiginlegt þorrablót fólks frá þessum stöðum.  Þetta þorrablót var svo haldið í febrúarmánuði s. l. og þótti taka vel.

Stærsta verkefni ársins var þó björgunin á vélinni úr Kára BA, en flakið af bátnum hafði um árabil legið í fjöru á Krosseyri. Félagið aflaði sér leyfis eiganda Krosseyrar til að mega taka vélina úr bátnum. Að því fengnu var hafist handa við skipulag björgunar.

Það var svo helgina 5. - 8. sept. 2014 sem farið var i vinnuferð yfir á Krosseyri.  Í hópnum voru 15 karlar og 1 kona. Ýmsar myndir og frásagnir hafa flogið um Facebook og aðra vefi, þannig að það verður látið duga að sinni. 

 

Verkefnið sem beið hópsins var ekki árennilegt. Mikið var tekið af myndum við framkvæmdina en því miður hefur vefnum ekki borist neitt af þeim myndum.  Hins vegar má til vinstri sjá vélina á sínum stað í flakinu og svo til hægri þar sem vélin er komin á land á Bíldudal.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vélin var svo send til Reykjavíkur í andlitslyftingu og er nú komin í sýningsarfært ástand.  Sótt hefur verið um leyfi til bæjarstjórnar Vesturbyggðar, að mega koma vélinni fyrir við gömlu Smiðjuna og hefur það leyfi nú fengist. Stefnt er að því að vélin verði komin á sinn stað fyrir hátíðina „Bíldudals grænar“ sem haldin verður 25. til 28. júní 2015.

Þessi vél úr Káranum er dálítið sérstök, þvi þetta er eina vélin sem til er í landinu af þessari tegund, sem heitir June Munktell. Smíðaár vélarinnar er ekki enn á hreinu en það mun verða grafið upp.

Þá hafa borist fréttir af því að heimamenn á Bíldudal hafi kosið Nýja stjórn til að undirbúa hátíðina Bíldudals grænar,sem verður haldin 25. til 28. júní n.k.

Félagið hefur staðið fyrir mánaðarlegum spjallfundum, síðasta laugardag hvers mánaðar, frá október að hausti til lok maí að vori. Auglýst heiti þessara spjallfunda er - Bíldudalskallar -. Þrátt fyrir nafnið eru konur að sjálfsögðu velkomnar. Á síðasta ári kom fram uppástunga að breyta þessu nafni en það mætti nokkuð harðri andstöðu svo sú hugmynd var lögð til hliðar, að sinni.

Segja má að starfsári hverju sinni ljúki með hinni árlegu Skötuveislu, sem árið 2014 var haldin 20. desember í Haukahúsinu. Var það í 7. sinn sem svona Skötuveisla er haldin. Stöðugt fer fjölgandi þeim sem koma á Skötuveislu, sem er mjög gaman að segja frá.

Formaður lauk skýrslu sinni með því að minna á að Skötuveisla ársins í ár yrði í Haukahúsinu þann 19. desember n. k. og Sólarkaffi næsta árs yrði þann 22. febrúar 2016, einnig í Haukahúsinu.

Formaður þakkaði að lokum stjórn félagsins, félagsmönnum öllum og öðrum þeim sem komu að starfi félagsins, fyrir vel unnin störf og gott samstarf.

Þá voru reikningar félagsins lagðir fram, þeir kynntir og að lokum samþykktir.

Kjósa þurfti einn stjórnarmann og einn skoðunarmann reikninga. Guðrún Thoroddsen, sem verið hafði meðstjórnandi gekk úr stjórninni og í stað hennar var Gyða Guðmundsdóttir kosin sem meðstjórnarndi. Þá hætti Gylfi Magnússon sem skoðunarmaður reikninga. Í stað hans var Jens H. Valdimarsson kosinn skoðunarmaður reikninga.

Að lokum fór Jens fundarstjóri nokkrum orðum um endurbætur á gömlu Rafstöðinni og ennfremur um skógræktarverkefnið.  Ritstjóri tók af honum loforð um að senda Arnfirðing.is gott yfirlit yfir stöðu beggja þessara verkefna. Þegar það berst verður það þegar sett hér á síðuna.

Þar með var þessum aðalfundi ársins 2015 lokið. Formaður þakkaði góð fundarstörf og sleit fundi. Hér að neðan 2 myndir frá fundinum.