Fréttir

Jóla- og áramótakveðja frá Listasafni Samúels

Jóla- og áramótakveðja frá Listasafni Samúels

Margt hefur áunnist í Listasafni Samúels á árinu sem er að líða. Haldnir voru fjáröflunartónleikar í Iðnó í maí fyrir hús Samúels, þar sem hugmyndin er að innrétta íbúð fyrir lista- og fræðimenn. Húsið var svo gert fokhelt í júlí og ágúst. Miðað verður við að hafa útlit hússins sem næst því sem það var. Enn á eftir að ljúka við að styrkja steinvegginn innanfrá sem lengi stóð einn eftir. Stefnt verður að því að klæða húsið næsta sumar, setja í glugga og gólf og jafnvel að útbúa eitt herbergi. Einnig eru áform um að fá sjálfboðaliða til að vinna að hluta í frágangi við innviði hússins. Á undanförnum 9 árum hafa verið unnar um 6000 vinnustundir í safninu af um 100 sjálfboðaliðum frá hátt í 20 þjóðlöndum, öll sumrin nema eitt frá Seeds. Gert er ráð fyrir að um 11 milljónir til viðbótar kosti að endurgera hús Samúels.

Stjórn Félags um listasafn Samúels var endurkjörin á aðalfundi í lok nóvember auk skoðunarmanna reikninga og endurskoðanda. Fjóla Eðvarsdóttir var kosin annar meðstjórnandi. Stjórnina skipa nú: Ólafur Hannibalsson formaður, Kári Schram ritari, Ólafur Engilbertsson gjaldkeri, Guðbjörn Jónsson og Fjóla Eðvarðsdóttir meðstjórnendur. Skoðunarmenn reikninga: Hilmar Einarsson og Pétur Bjarnason. Kristín og Sólveig Ólafsdætur buðu sig auk þess fram í fjáröflunarnefnd sem ætlar að hittast í byrjun árs. Ákveðið var að taka upp félagsgjald, kr. 2500 og eru áhugasamir beðnir um að setja sig í samband við félagið. Reikningur Listasafns Samúels er 512-26-4403. Kt. 440398-2949.

Félag um listasafn Samúels þakkar velunnurum sínum samskiptin og samstarfið á árinu sem er að líða og óskar þeim gæfu og velfarnaðar á komandi ári!