Fréttir

Áskorun til þingmanna

Áskorun til þingmanna

Raunhæfar aðgerðir strax við Vestfjarðaveg í Gufudalssveit.

    

Segja má að fyrirsögnin hér að ofan sé einn af aðalpunktum í eftirfarandi bréf til þingmanna sem formenn Patreksfirðingafélags, Ólafur Sæmundsson og Arnfirðingafélags, Guðmundur Bjarnason senda þingmönum.

1._þingmaður.jpg

Á myndinni er Einar K. Guðfinnsson, 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis og núverandi forseti Alþingis. Maðurinn sem nú getur sett hnefann í ræðupúltið og krafist aðgerða.

En bréf formannanna er eftirfarandi:

Vestfjörðum í byrjun ágúst 2014

Heiðraði þingmaður

Sjaldan vefst okkur Vestfirðingum tunga um tönn en þó er líklega óhætt að fullyrða að okkur sé mjög um tregt tungu að hræra þegar kemur að því sem skiptir okkur miklu máli; nefnilega samgöngumálum. Tími er þó kominn til að láta í okkur heyra enda langlundargeð okkar nær á þrotum.

Samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum hefur staðið veikt um árabil en með samheldni, vestfirskum krafti og áræðni hefur tekist að koma á viðsnúningi og nú ríkir að mörgu leiti bjartsýni og trú á framtíðarhorfur svæðisins.  Útgerð hefur eflst, fiskeldisfyrirtæki haslað sér völl og styrkst í sessi, aðstaða til móttöku ferðafólks hefur batnað, ferðamönnum fjölgað og svo mætti áfram telja. En á sama tíma varpar vegakerfið löngum skugga sínum yfir svæðið.

Lífsnauðsynlegar samgöngubætur sitja á hakanum og eru á byrjunarreit, rétt eins og fyrir mörgum árum. Ekkert þokast og stjórnvöld taka ekki af skarið eins og nauðsynlegt er og höggva á hnútinn.   Hér er horft til vegabóta í Gufudalssveit en þar kasta á milli sín stofnanir ríkisins hugmyndum sem allir, utan örfárra svo kallaðra umhverfissinna, eru sammála um að séu ekki aðeins skynsamlegar, heldur og bráðnauðsynlegar. Þessar vegabætur eru kjarninn í því að viðhalda og efla samfélagið en örfáir og háværir einstaklingar halda þeim í herkví. Dómstólar hafa komið að þessu en ekkert gerist.

Þarna er digurbarkalega talað um náttúruvernd og náttúruverndarsjónarmið og menn sem jafnvel kenna sig við umhverfisstefnur og vernd, tala fyrir því að miklu betra sé fyrir Vestfirðinga og innlenda og erlenda ferðamenn að fara áfram um tvo fjallvegi í stað þess að aka um einn á jafnsléttu á láglendi.  Slíkt myndi líklega aldrei verða liðið á suðvesturhorni landsins og orð eins og Krýsuvíkurleiðir, slysagildrur og þess háttar myndu heyrast.  Fjallvegir eru stórhættulegir á vetrum og margir hreinlega treysta sér ekki til að aka um þá í snjó og hálku. Þetta á ekki síður við um ferðamenn sem sleppa svæðinu og fara þess í stað eitthvert annað.

Fólk er hluti náttúrunnar og það er hæglega hægt að benda á að það sé líka náttúruvernd að bjóða upp á skynsamlega valkosti í vegagerð og það þarf ekki að liggja sérlega lengi yfir kortum til að sjá að núverandi fyrirkomulag gengur ekki upp, kyrrstaðan er óviðunandi og framtíðin liggur í nýjum vegi.

Sumir ræða um jarðgöng í þessu samhengi, en við spyrjum; vilja menn virkilega horfa á lausn sem kostar 3.000 milljónum króna meira og fer í einhverja óskilgreinda biðröð jarðganga í stað þess að ganga hreint til verks og framkvæma hagkvæmustu lausnina?  Sumarbústaðurinn í Teigskógi er örugglega verðmæt eign, en getur nokkur virkilega metið fermetrann þar á  60 milljónir króna?

Hvar er fólkið og vegfarendurnir í breytunni? Hvers virði er mannslífið og mannlífið á Vestfjörðum?  Erum við ekki hluti þeirrar náttúru, þeirrar flóru sem þarf að vernda?  Hvers eigum við að gjalda að þurfa að aka eftir vegum sem lagðir voru um miðja síðustu öld og eru niðurgrafnir með 180 gráðu beygjum þar sem bratti er meiri en framleiðendur ökutækja í dag gera ráð fyrir að bílum þeirra sé ekið? Áttið þið ykkur á að bílaframleiðendur mælast til að bílum sé sérstaklega breytt til að aka við slíkar aðstæður? Erum við virkilega komin á þann stað að það þurfi sérhannaðar bifreiðar til að aka á svæðinu?

Við einfaldlega neitum að trúa því að íslenskir þingmenn séu afskiptalausir um velferð íbúa Vestfjarða.

Við einfaldlega neitum að trúa því að þú, háttvirtur þingmaður, ætlir að sitja hjá og gera ekki neitt til að tryggja að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum og þeir sem þangað vilja leggja leið sína, fái að njóta nútíma samgangna með öryggi á vegum úti. 

Við trúum því hins vegar að þú, háttvirtur þingmaður, sért með okkur í liði og talir fyrir og greiðir atkvæði þitt með lagafrumvarpi um lög er varða þjóðveg nr. 60, Vestfjarðarveg, þar sem bundið er í lög að hann skuli leggjast samkvæmt B leið og kveðið á um að vegalagningin verði boðin út ekki seinna en 1. febrúar 2015. http://www.althingi.is/altext/139/s/0718.html

Með von og raunar vissu um skilning