Fréttir

Vélinni bjargað úr flaki Kára BA

Vélinni bjargað úr flaki Kára BA

Hópur áhugasamra félaga í Arnfirðingafélaginu hafa um nokkurn tíma átt sér þann draum að bjarga vélinni úr flaki Kára BA, þar sem flakið liggur í fjörunni við Krosseyri. Upphaflega setti ég inn ranga færslu um það hvernig Kárinn komst þangað sem hann er, en ævinlega verður það svo að ekki eru allar upplýsingar réttar sem maður fær.  Samkvæmt því sem fram kemur um útgerðarsögu Bíldudals, sem finna má á Arnifirðing.is mun hið rétta vera á Þessa leið:

1939 er smíðaður á Bíldudal 6 brl. bátur úr eik og furu sem fékk nafnið Kári BA-265. Eigandi hans var Jón Kr. Jóhannesson Bíldudal og átti hann bátinn fram undir 1990 en þá kaupir Kristján Pálsson bátinn og setur hann uppí fjöru á Krosseyri og þar varð báturinn ónýtur.“  Upplýsingar hér síðar í þessari umfjöllun um lengingu, þrjár vélar og dekkun munu hins vegar vera réttar.

Nú er þessi draumur um að bjarga vélinnni að nálgasat veruleika, því fengið er leyfi landeiganda fyrir að fjarlægja megi vélina.

Fyrir stuttu fóru nokkrir áhugamenn í leiðangur inn að flakinu til að kanna aðstæður og velta fyrir sér leiðum til að ná vélinni úr flakinu. Það verður líklega ekki auðvelt verk þar sem allir festiboltar og aðrar festingar sem þarf að losa, eru orðin ryðguð föst og takmarkaðri tækni hægt að koma við.

Eins og sjá má af þessari mynd mun þurfa óhefðbundin vinnubrögð við að losa vélina en jafnframt fara varlega svo ekkert stykki brotni.

Tækniatriðin við björgunina og stjórnun við endurbyggingu vélarinnar verða líklega í traustum höndum Jóhanns S. Gunnarssonar. Sagt er að hann sé þegar farið að klæja í fingurna að takast á við verkið og jafnvel farinn að velta fyrir sér litnum á lakkinu sem vélin verði máluð með að endurbyggingu lokinni.

Þetta er mjög gömul vél og talið líklegt að þetta sé eina eintakið sem til er hér á landi.  Mikilvægt er því að vel takist til, bæði við björgunina sem og við endurbygginguna sem vafalaust mun kosta nokkra fjármuni. Mun aðila áreiðanlega verða leitað til styrktar verkinu. Af því fréttist nánar síðar.

Vélin er sögð vera 25 hestöfl af gerðinni Unimunktel eins cylinders svokölluð „glóðarhausvél" vegna þess að við gangsetningu var toppstykki vélarinnar hitað með mótorlampa þar til það var orðið glóandi heitt. Þá var lyft undir ventlana svo léttara væri að snúa vélinni og stóru og þungu svinghjóli framan á vélinni snúið á eins mikla ferð og menn gátu. Þá var sem kallað var, slegið undan ventlunum þannig að vélin fór að þjappa og sprengdi þá olíuna sem kom inn á stimpilinn og vélin fór í gang. Þetta voru gangvissar vélar en hristu bátana nokkuð mikið.

Þetta var reyndar  þriðja vélin í Káranum. Báturinn var í fyrstu styttri og einungis hálfdekkaður, sem kallað var. Það var ódekkað rými milli lúkars á vélarhúskappa. Fyrsta vélin sem var í Kara var af gerðinni Bolinder og var einungis 8 hestöfl.  Þegar báturinn var lengdur og dekkaður var sú vél of lítil og fékk Gunnar Þórðarson hana til að setja hana í bát sinn Alla.  Í Kára var þá sett dísilvel en ekki alveg ljóst með tegundarheitið.  Jón Grói, var aldrei ánægður með hana, reif hana úr og setti í staðinn þá vél sem er í flakinu og á að fara að bjarga.

Til að ná vélinni þarf að rífa það sem eftir er af stýrishúsinu sem ekki var nú stórt. Það verða næg verkefni fyrir hópinn að ná vélinni úr flakinu og koma henni um borð í bát og til Bíldudals.

 

 Þetta dragnótarspil er nú barn síns tíma og ekki miklar líkur á að það verði gert upp, en samt aldrei að vita hvað Jóa dettur í hug ef verkefnastaðan minnkar.

Þarna eru leiðangursmenn sestir á dyrapallinn á Krosseyri að hvíla lúin bein og ef til vill að ræða verkefnið framundan. Það er alla vega búið að setja stefnu á að gera annan leiðangur um helgina 6.-7. september, ef veður leyfir og freista þess að ná að losa velina úr flakinu.