Fréttir

Íslenska kalkflörungafélagið hleypir nýju blóði í bíldælskt atvinnulíf:

Fréttin fengin úr blaðinu VESTFIRÐIR  26.06. 2014

Íslenska kalkþörungafélagið hleypir nýju blóði í bíldælskt atvinnulíf:

Nýtir 10% allar raforku sem

notuð er í Vestfirðingafjórðungi

Íslenska kalþörungafélagið á Bíldudal fjárfesti fyrir um hálfan milljarð króna á síðasta ári, aðallega vegna stækkunar verksmiðjunnar um helming, en í nýrri byggingu hefur 3,6 megavatta þurrkari verið tekinn í notkun ásamt öðrum tilheyrandi búnaði vegna starfseminnar. Slökkt hefur verið tímabundið á þurrkaranum sem fyrir var í verksmiðjunni og verður svo þar til tekinn hefur verið í notkun nýr rafspennir sem þolir keyrslu á allri verksmiðjunni samtímis.

Þrátt fyrir þetta hafa afköst verksmiðjunnar aukist verulega eftir að nýi þurrkarinn var tekinn í notkun. Unnið er á vöktum við framleiðslu allan sólarhringinn og á dögunum var stærsta einstaka farminum, 4500 tonnum af mjöli, skipað um borð í hollensk flutningaskip sem skipað var í land á Írlandi. Íslenska kalkþörungafélagið er fjölmennasti vinnustaðurinn á Bíldudal og einn stærsti kaupandi raforku hjá Orkubúi Vestfjarða. Alls kaupir fyrirtækið árlega um 10% þeirrar raforku sem notuð er í landsfjórðungnum. Hjá fyrirtækinu eru ársverk um 20 auk þess sem allnokkur störf fylgja verktökum sem sinna reglulegri þjónustu við fyrirtækið. Sem dæmi um áhrif af starfsemi fyrirtækisins og annarra fyrirtækja sem hafa komið sér fyrir á svæðinu á undanförnum árum má nefna að tekist hefur að stöðva fólksfækkun sem var viðvarandi um árabil á Bíldudal samfara stöðugri fækkun starfa í sjávarútvegi.

Íbúar Bíldudals eru nú um 200 en voru rúmlega 100 fyrir fáeinum árum. Þá má nefna að vegna starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins réðst Vesturbyggð í umtalsverðar hafnarframkvæmdir árið 2007, ekki síst til að mæta þörfum Kalkþörungafélagsins og greiðir fyrirtækið nú árlega yfir 20 milljónir króna í leigu fyrir afnot af höfninni. Þær greiðslur gera sveitarfélaginu kleift að greiða upp kostnað við fjárfestinguna á fáum árum. Auk þessa tekur fyrirtækið þátt í ýmsum verkefnum með sveitarfélaginu og öðrum aðilum sem m. a. hafa að markmiði að styrkja enn frekar innviði sveitarfélagsins.

Íslenska kalkþörungafélagið á árlega viðskipti við fjölda innlendra aðila vegna kaupa fyrirtækisins á vöru og þjónustu. Fjöldi birgja er rúmlega 200 og námu viðskipti við þá um 430 milljónum króna á síðasta ári. Á sama tímabili greiddi fyrirtækið um 120 milljónir króna í laun og launatengd gjöld og um 40 milljónir í opinber gjöld til ríkisins og sveitarfélagsins Vesturbyggðar. Fyrirtækið sækir og vinnur kalkþörungaset úr Arnarfirði sem er þurrkað í mjöl og aðrar afurðir í verksmiðju félagsins á Bíldudal. Rúmlega 99% framleiðslunnar eru seld á erlendum mörkuðum og notuð í framleiðslu á lífrænu dýrafóðri, fæðubótarefnum og gróðuráburði. Framkvæmdastjóri frá árinu 2013 er Einar Sveinn Ólafsson.

Atvinnusaga Bíldudals á sér enga líka. Margir telja að nú sé að renna upp svipaður uppgangstími og Pétur Jens Thorsteinsson kom af stað á Bíldudal upp úr aldarmótunum 1900. Í byrjun aldarinnar mun Pétri hafa boðið í grun að tími seglskipanna væri senn á enda runninn og tímabil togara og mótorskipa að hefjast. Nú þurfti stórfé til að sigla hraðbyri inn í nýja öld. Árið 1907 er tilkynnt um stofnun félagsins „P. J. Thorsteinsson & Co.“ Í stjórn þess voru kjörnir fjórir Danir og Eggert Claessen málflutningsmaður. Framkvæmdastjórn skipuðu þrír Danir og Íslendingarnir Pétur Thorsteinsson og Thor Jensen. Félagið var þó jafnan nefnt Milljónafélagið, enda átti hlutafé þess að vera ein milljón króna, en 180.000 krónur mun hafa á vantað að það næðist nokkurn tíma inn. Uppnefnið mun hafa orðið félaginu lítt til framdráttar. þá voru tekjur landssjóðs rétt um ein milljón króna og allur útflutningur landsmanna upp á einar 10 milljónir króna. Margir Íslendingar báru þann ugg í brjósti að svo gífurlegt erlent auðmagn myndi kaffæra þá íslensku athafnamenn sem við þröngan fjárhag og eilífan rekstrarfjárskort voru að basla við að renna stoðum undir íslenska atvinnuvegi. Dönskum fjármálamönnum blöskraði hins vegar að veita slíku fjármagni til þessa fátæka lands sem ekkert hefði með slíkan fjáraustur að gera. Þar við bættist að alþjóðleg fjármálakreppa reið yfir á fyrstu starfsárum félagsins.

Sundurþykkja kom strax upp á milli hinna íslensku og dönsku stjórnenda. Eftir aðeins tæp tvö ár braust Pétur J. Thorsteinsson út úr viðjum þessa félags, sem áfram bar þó nafn hans, og tapaði þar mestöllum eignum sínum. Fékk hann þó nokkra fjárhæð lausa úr félaginu til þess að hefja atvinnurekstur að nýju. Útgerð hóf hann árið 1909 og flutninga ári síðar, rak fiskverkunarstöð á Kirkjusandi og lét m. a. smíða stærsta togara sem Íslendingar eignuðust fyrir heimsstyrjöldina fyrri, Ingólf Arnarson. Árið 1916 stofnar hann Lýsisvinnsluna hf. Bræðing á þormóðsstöðum við Skerjafjörð og er formaður og framkvæmdastjóri. Pétur endaði þó slyppur og snauður, sjötugur að aldri. En nú er vonandi að renna upp blómatíð í atvinnulífi Bílddælinga sem og annarra sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjör›um

Brjóstmynd var reist af Pétri Jens Thorsteinssyni og konu hans, Ásthildi Thorsteinsson á Bíldudal 11. ágúst árið 1951. Ásthildur var dóttir séra Guðmundar Einarssonar, prests að Breiðabólsstað á Skógarströnd, en Pétur var fæddur i Otradal í Arnarfirði 4. júní 1854. Pétur mun hafa alist upp hjá fósturforeldrum á Hallsteinsnesi í Austur Barðastrandasýslu. Til Bíldudals kom hann í fyrsta skipti sumarið 1879, er hann  með kaupsamningi þann 19. júlí 1879 festi kaup á Bíldudalsverslun af Jóhönnu Kr. Þorleifsdóttur, ekkju Hákons kaupmanns. Pétur tók við versluninni 6. maí 1880.  Bílddælingar kunnu að meta þennan athafnamann sem svo sannarlega kom Bíldudal á kortið í atvinnulífi landsmanna síðustu áratugi 19. aldar og fyrstu ár þeirrar 20. Síðar hafa reyndar komið blómaskeið atvinnuuppbyggingar á Bíldudal, en þau eiga það sammerkt að vera allt of stutt. Nú með Íslenska kalkþörungafélaginu, Arnarlaxi og fleirum fyrirtækjum er vonandi að renna upp blómaskeið í atvinnulífinu á Bíldudal. Pétur Thorsteinsson var aðeins 25 ára gamall þegar hann hófst handa á Bíldudal, fullur athafnaþrár, áræðinn og bjartsýnn.

Nánar má fljótlega lesa um lífshlaup Péturs hér á vefnum undir flokknum MENNING OG SAGA, undirflokkur SAGA BÍLDUDALS, en verið er að ganga frá efninu til birtingar.