Fréttir

Gufupönk-hátíðin í Bíldalíu

Frétt af  bb.is | 26.06.2014 | 15:01Gufupönk-hátíðin í Bíldalíu hefst í dag

Ætli hátíðargestir sjái loftskip í Bíldalíu næstu daga? Mynd: Bildalia/Facebook.
Ætli hátíðargestir sjái loftskip í Bíldalíu næstu daga? Mynd: Bildalia/Facebook.

Fyrsta Gufupönkhátíð á Íslandi, Steampunk Iceland, verður haldin á Bíldudal um helgina. Þá breytist öll Vesturbyggð í ævintýralandið Bíldalíu, en á hátíðina verður stefnt saman fólki víðs vegar úr heiminum sem aðhyllist svokallaða Steampunk-stefnu eða gufupönk í listum, klæðnaði og háttum. Dreginn verður nýr fáni að húni og verður landamæravarsla við Brjánslæk, Flókalund og á flugvellinum á Bíldudal. Þar verður hægt að fá vegabréf inn í ævintýralandið, sem virkar líka á þann hátt að ferðalangar fá stimpil í passann þegar þeir heimsækja staði sem auglýstir eru í vegabréfinu. Fullstimpluðu vegabréfi er svo hægt að skila inn og fá verðlaun. 

Hátíðin hefst í dag með setningarathöfn, tónleikum og svokölluðu Goth-Skrímslaballi í Skrímslasetrinu í Strandgötu. Á morgun er á dagskránni meðal annars markaður, sirkus, leikhús og alls kyns uppákomur á markaðstorginu við Skrímslasetrið. Þá verður krýningarhátíð konungs og drottningar Bíldalíu kl. 17. Um kvöldið verður hlöðuball í félagsheimilinu Baldurshaga. 

Á sunnudag verður markaðnum haldið áfram með pompi og prakt en að auki verður íþróttamót á íþróttasvæðinu þar sem sýndar verða regnhlífa-burtreiðar og fleira skemmtilegt. Hátíðinni er síðan slúttað með tónleikum þar sem hátíðarlagið verður flutt ásamt öðrum klassískum Bíldudals-smellum.