Fréttir

Útskipun hjá Kalkþörungaverksmiðju

bb.is | 04.06.2014 | 16:08

Fjárfestu fyrir hálfan milljarð

Flutningaskip útgerðarfyrirtækisins Navigia, Reggedijk frá Groningen í Hollandi, kom nýlega til Bíldudals til að sækja 4500 tonn af mjöli hjá Íslenska kalþörungafélaginu. Farminum var sípðan skipað á land í Castletown Bearhaven á suðurodda Írlands.
Flutningaskip útgerðarfyrirtækisins Navigia, Reggedijk frá Groningen í Hollandi, kom nýlega til Bíldudals til að sækja 4500 tonn af mjöli hjá Íslenska kalþörungafélaginu. Farminum var sípðan skipað á land í Castletown Bearhaven á suðurodda Írlands.
 

Íslenska kalþörungafélagið á Bíldudal fjárfesti fyrir um hálfan milljarð króna á síðasta ári, aðallega vegna stækkunar verksmiðjunnar um helming, en í nýrri byggingu hefur 3,6 megavatta þurrkari verið tekinn í notkun ásamt öðrum tilheyrandi búnaði vegna starfseminnar. Slökkt hefur verið tímabundið á þurrkaranum sem fyrir var í verksmiðjunni og verður svo þar til tekinn hefur verið í notkun nýr rafspennir sem þolir keyrslu á allri verksmiðjunni samtímis. Þrátt fyrir þetta hafa afköst verksmiðjunnar aukist verulega eftir að nýi þurrkarinn var tekinn í noktun. Unnið er á vöktum við framleiðslu allan sólarhringinn og á dögunum var stærsta einstaka farminum, 4500 tonnum af mjöli, skipað um borð í hollensk flutningaskip sem skipað var í land á Írlandi.

Íslenska kalkþörungafélagið er fjölmennasti vinnustaðurinn á Bíldudal og einn stærsti kaupandi raforku hjá Orkubúi Vestfjarða. Alls kaupir fyrirtækið árlega um 10% þeirrar raforku sem notuð er í landsfjórðungnum. Hjá fyrirtækinu eru ársverk um 20 auk þess sem allnokkur störf fylgja verktökum sem sinna reglulegri þjónustu við fyrirtækið.

Sem dæmi um áhrif af starfsemi fyrirtækisins og annarra fyrirtækja sem hafa komið sér fyrir á svæðinu á undanförnum árum má nefna að tekist hefur að stöðva fólksfækkun sem var viðvarandi um árabil á Bíldudal samfara stöðugri fækkun starfa í sjávarútvegi. Íbúar Bíldudals eru nú um 200 en voru rúmlega 100 fyrir fáeinum árum. Þá má nefna að vegna starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins réðst Vesturbyggð í umtalsverðar hafnarframkvæmdir árið 2007, ekki síst til að mæta þörfum Kalkþörungafélagsins og greiðir fyrirtækið nú árlega yfir 20 milljónir króna í leigu fyrir afnot af höfninni. Þær greiðslur gera sveitarfélaginu kleift að greiða upp kostnað við fjárfestinguna á fáum árum. Auk þessa tekur fyrirtækið þátt í ýmsum verkefnum með sveitarfélaginu og öðrum aðilum sem m.a. hafa að markmiði að styrkja enn frekar innviði sveitarfélagsins.

Íslenska kalkþörungafélagið á árlega viðskipti við fjölda innlendra aðila vegna kaupa fyrirtækisins á vöru og þjónustu. Fjöldi birgja er rúmlega 200 og námu viðskipti við þá um 430 milljónum króna á síðasta ári. Á sama tímabili greiddi fyrirtækið um 120 milljónir króna í laun og launatengd gjöld og um 40 milljónir í opinber gjöld til ríkisins og sveitarfélagsins Vesturbyggðar.

Um Íslenska kalkþörungafélagið

Fyrirtækið sækir og vinnur kalkþörungaset úr Arnarfirði sem er þurrkað í mjöl og aðrar afurðir í verksmiðju félagsins á Bíldudal. Rúmlega 99% framleiðslunnar eru seld á erlendum mörkuðum og notuð í framleiðslu á lífrænu dýrafóðri, fæðubótarefnum og gróðuráburði. Eigandi félagagsins er Celtic Sea Minerals Ltd. (CSM) í Cork á Írlandi. CSM hefur verið Kalkþörungafélaginu til ráðgjafar frá upphafi rannsókna á svæðinu árið 2001 og tók við rekstrinum 2007 þegar framleiðsla hófst. Áætlað magn kalkþörungasets á þeim svæðum í Arnarfirði sem könnuð hafa verið er um 21,5 milljónir rúmmetra. Með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar vinnur fyrirtækið að því að treysta sjálfbærni efnisvinnslunnar með tilraunum, þar sem lifandi kalþörungar eru fluttir á svæði þar sem efnisvinnsla hefur farið fram. Framleiðsla fyrirtækisins er lífrænt vottuð af vottunarstofunni Túni. Auk þess hefur fyrirtækið alþjóðlega fóðurvottun frá Femas.