Fréttir

Bæjarráð staðfestir ekki eldi í Borgarfirði

Frétt af vef   bb.is | 04.05.2014 | 11:18

Mæla ekki með staðsetningu fiskeldis í Arnarfirði

 

Hvesta í Arnarfirði.
Hvesta í Arnarfirði.

Bæjarráð Vesturbyggðar getur ekki mælt með fyrirhugaðri staðsetningu fiskeldis í Arnarfirði, af því er fram kemur í fundargerð ráðsins í fyrradag, en þá var tekin fyrir umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar vegna umsóknar fiskeldisfyrirtækisins Dýrfisks hf. um eldi á regnbogasilungi. Eins og BB hefur áður greint frá stefnir fyrirtækið á stóraukið eldi. 

Í bókun bæjarráðs er bent á, að þrátt fyrir að tillaga að matsáætlun sé í samræmi við stefnuuppdrátt nýtingaráætlunar sveitarfélaganna fyrir strandsvæði Arnarfjarðar frá júní 2013, þá hafa rækjusjómenn í Arnarfirði ekki staðfest þá áætlun og gerðu þeir formlega athugasemd við staðsetningu eldis í Borgarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar, á þeim forsendum að þar séu uppeldisstöðvar og veiðisvæði rækju. 

„Bæjarráð Vesturbyggðar getur þess vegna ekki mælt með þessari staðsetningu þar sem staðsetningin skarast á við núverandi nýtingu rækjuleyfishafa í Borgarfirði. Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar um nýtinguna. Bæjarráð hvetur ennfremur til þess að burðarþolsrannsóknum vegna fiskeldis á Vestfjörðum verði hraðað,“ segir í bókun.