Arnarfjörður

Ágrip af sögu

- Eftir Arndísi Bjarnardóttur ritara stjórnar 2000-2001

Arnfirðingafélagið var formlega stofnað sunnudaginn 2. febrúar árið 1964. Á stofnfundi félagsins voru 132 félagsmenn sem skráðu sig fyrir félagsaðild, allt brottfluttir Arnfirðingar.

Aðdragandi að stofnun þessa félags er allt frá árinu 1950. Frá þeim tíma hittust gjarnan brottfluttir Arnfirðingar búsettir í Reykjavík, um það leyti sem sólin fór að sjást á Bíldudal á ný eftir vetrarskugga mánuðum saman, vestra. Fólk drakk saman kaffi og gæddi sér á rjómapönnukökum. Með þessum sið, festist nafnið “Sólarkaffi” í hugum Arnfirðinga.

Á stofnfundi félagsins árið 1964, voru samþykkt lög félagsins upp á 9 lagagreinar, sem að meginstofni hafa haldist en í tímanna rás hafa þau fengið örlitla breytinu og frekari útfærslu.

Lengst af hefur félagið staðið fyrir kvöldskemmtan er nefnist “Sólarkaffi” og sem haldið hefur verið í febrúar-mánuði ár hvert. Hefðbundnar veitingar eru framreiddar af þessu tilefni, kaffi og rjómapönnukökur. Flutt eru ýmisskonar skemmtiatriði sem félagsmenn hafa oftast sjálfir staðið fyrir eða fengið heimamenn frá Bíldudal til flutnings. Þá er föst hefð fyrir fjöldasöng þar sem sungin eru sólarljóð Arnfirðinga.

Á milli eitt til tvö hundruð manns hafa sótt Sólarkaffið ár hvert. Samkomurnar hafa verið haldnar í Reykjavík, ýmist í Sigtúni, Hótel Sögu, Dómus Medica, Glæsibæ, Hótel Borg, Ártúni og á fleiri stöðum þar sem margir Arnfirðingar eiga góðar minningar við samfagnað og samfundi við brottflutta sveitunga sína. Félagið hefur m.a. staðið fyrir ferðalögum vestur í Arnarfjörð, myndakvöldum og fleiru.

Arnfirðingarfélagið hefur styrkt ýmis verkefni Vestra af tekjuafkomu félagsins ár hvert. Meðal verkefna sem félagið hefur veitt styrki til, er vegna Öldrunarþjónustu á Paterksfirði, styrk vegna snjóflóða er féllu á byggðina á Flateyri 1995, styrk til uppbyggingar á “Gamla Skóla” sem gerður var upp sem safnaðarheimili kirkjunnar á Bíldudal og styrk vegna endurnýjunar á stólum í Félagsheimilið Baldurhaga á Bíldudal. Það er eitt af megintilgangi félagsins að stuðla að eftirfarandi eins og segir í 2.gr. laga félagsins:

Að varðveita sögulegar menjar héraðsins og forða frá gleymsku, merkum atburðum og sögulegum viðburðum.
Að efla og viðhalda sambandi við heimahéraðið og tengsl Arnfirðinga sín á milli svo sem með sólarfagnaði ár hvert.
Að beita áhrifum sínum til velfarnaðar og menningar í héraðinu í samvinnu og samráði við heimamenn og félagasamtök þeirra.
Upp úr 1990 hafa samkomur félagsins oftast verið tvær á ári. Kirkjukaffi að hausti, ýmist í Dómkirkjunn eða Áskirkju í Reykjavík og hefðbundið Sólarkaffi í febrúar. Síðustu þrjú ár, 1997 – 2000, hefur félagið eingöngu staðið fyrir kirkjukaffi í febrúar. Með hressum fulltrúum bæði í stjórn og alm. félagslífi Arnfirðingafélagsins er verið að blása að nýju, lífi í starfsemi félagsins á nýrri öld, s.s. með útgáfu heimasíðu félagsins og að efnt verði til sameiginlegs þorrablóts, þar sem blótaður verður þorri og jafnframt sólarkomu fagnað, nú í febrúar mánuði. Þá var haldin kirkjusamkoma í Dómkirkjunni á aðvenntunni, sl. desember og súpumáltíð snædd að athöfn lokinni.

Það er von mín lesandi góður að við lestur þessa pistils fáir þú svipaða tilfinningu og ég, þakklæti og stolt, yfir öllu því frábæra fólki sem stóð að stofnun þessa félagsskapar og öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg í starfsemi félagsins gegnum tíðina. Þakklæti til þeirra eldri fyrir að gefa okkur sem yngri erum, kost á að hittast og minnast átthaganna í tímana rás. Fyrir unga fólkið sem þetta les, vil ég segja. Hafir þú enn ekki sem Arnfirðingur kynnst þessum félagsskap, ættir þú ekki að láta hjá líða að skrá þig strax í Arnfirðingafélagið sem fullgildur félagsmaður og taka þátt í skemmtilegu og lifandi samfélagi við sveitunga þína. Við hlökkum öll til að sjá þig.